Námskeiðið hefst 1. september 2016

Námskeiðið „Fullorðnir námsmenn og aðstæður þeirra“ hefst á netinu 1. september. 2016

Námskeiðið fer fram með „blönduðu formi“ þar sem skiptast á staðlotur, stuttir fundir og samvinna á vefnum. Námskeiðið hefst 1. september. Þá munu birtast á þessum vef  stutt verkefni sem þátttakendur eru beðnir um að byrja að vinna. Við munum svo ræða saman á veffundi kl. 15:00  þann 6. september. Þátttakendur taka þátt í gegnum tölvuna sína í beinni útsendingu yfir vefinn.

Við hittumst síðan í heilan dag á staðlotu mánudaginn 12.september, kl. 8:20-14:50. Síðan fylgja reglulegir fundir. Það verður samkomulag okkar hvernig skiptist á samvinna á staðnum og  í beinni útsendingu á vefnum.

Miklu máli skiptir að mæta í staðloturnar tvær. Þar verða teknar sameiginlegar ákvarðanir um námskeiðið og þátttakendur vinna saman með innihald námskeiðsins. Á milli funda og staðlota fer samvinnan fram á vef námskeiðsins.

Þessi vefur verður námskeiðsvefur námskeiðsins og eru nemendur beðnir um að skrá sig sem notendur á hann.

Á námskeiðinu notum við sama vefinn í nokkur skipti, það safnast saman efni frá nemendum og kennurum, sem kemur næsta hóp vonandi að góðum notum. Skoðaðu endilega vefinn og kynntu þér efnið. Við hittumst svo 1. september á stuttum fundi til að hefja námskeiðið og samvinnuna.

Sjá námskeiðslýsingu fyrir árið 2016

Yfirlit yfir skipulag námskeiðsins kemur á vefinn í kring um 18. ágúst. En endanlegt fyrirkomulag verður ákveðið á fyrstu staðlotu.

Lausnaleitarnám (e. Problem-Based Learning)

Lausnaleitarnám (e. Problem-Based Learning)

Aðferð: Lausnaleitarnám http://www.pbl.is/index.htm

Flokkur: Leitaraðferðir

Tilgangur við kennslu:

 • Skapa gagnrýnið námsumhverfi (upphaf)
 • Vekja áhuga á námsefni
 • Miðla upplýsingum – kenna nýja þekkingu eða færni
 • Úrvinnsla námsefnis
 • Minnisþjálfun – festa námsefnið í minni
 • Efla leikni nemanda
 • Breyta til og brjóta upp hefðbundar kennsluaðferðir
 • Finna lausn á vandamálum að svör við spurningum
 • Auka sjálfstæði í vinnubrögðum
 • hópvinna
Virkni nemenda

 

Nauðsynleg hjálpargögn og tæki

 

Námsefni sem kennt er hverju sinni. Leita svara við spurningu, vandamáli eða athugun – Ipad, tölvur, ýmiss konar uppflettirit, snjallsímar o.fl.
x Sjálfstæðir og virkir
x Virkir
x Gagnvirkni milli kennara og nemenda Tími

 

40 mín eða lengri – horfa þarf til þess hvers eðlis verkefnið er.
Nemendur taka við Fjöldi þátttakenda Lágmark Hámark
Nemendur Óvirkir Getur nýst við einstaklingsvinnu og hópvinnu.

5-8 í hóp

Fer eftir eðli verkefnis

Markmið aðferðarinnar
Markmið lausnaleitarnáms er að virkja nemendur, efla þá í fræðilegum vinnubrögðum, rökhugsun og vekja þá til umhugsunar um viðfangsefni. Aðferðin miðar að því að auka sjálfstæði í námi og vinnubrögðum og búa nemendur undir að takast á við og leysa flókin vandamál eða viðfangsefni.

Lýsing

Lausnaleitarnám (e. Problem-Based Learning) byggist á því að nemendur fá í hendur raunveruleg vandamál sem þeir eiga að leggja sig fram um að linna lausn á. Viðfangsefnin eru oft leyst í hópvinnu undir leiðsögn kennara. Segja má að með lausnaleitaraðferðum sé verið að líkja eftir vinnubrögðum vísindamanna. Byrjað er á því að skilgreina rannsóknarefnið sem oft er vandamál eða spurning. Að því loknu setja nemendur fram tilgátur um lausnir og í framhaldinu er farið í þekkingarleit og rýnt í heimildir, gerðar kannanir eða tilraunir svo eitthvað sé nefnt. Síðan er unnið úr gögnunum og ályktanir dregnar af niðurstöðum. Stundum vakna svo fleiri spurningar í kjölfarið. Hlutverk kennara í þessu ferli er mismunandi. Þannig er kennarinn ekki einungis leiðbeinandi heldur aðstoðar nemendur og hvetur áfram á náminu. Lausnaleitarnám þjálfar nemendur í gagnrýnni og agaðri hugsun og þeir öðlast æfingu í að afla sér og nýta viðeigandi námsleiðir og upplýsingar. Aðferðin eflir jafnframt frumkvæði og samstarfshæfni

Leitarnám ýtir undir forvitni nemenda og hvetur þá til gagnrýninnar hugsunar. Aðferðir þess eru fjölbreyttar en allar eiga þær það sameiginlegt að fylgja fimm grunnþáttum vísindalegrar aðferðar:

 • Rannsóknarefni og spurning
 • Tilgáta og hugmyndir
 • Könnun og gagnasöfnun
 • Greining og úrvinnsla gagna
 • Ályktanir og niðurstöður

Með því að nota leitaraðferðir fá nemendur tækifæri til að auka þekkingu sína á áhugasviði sínu og að vinna sjálfstætt. Eins má segja að með því að nýta þessa aðferð er verið að koma til móts við einstaklinginn svo og að þjálfa nemendur í að leita sér upplýsinga í sívaxandi, hnattrænu samfélagi.

Hvers vegna lausnaleitarnám fyrir fullorðna námsmenn?

Oft eru fullorðnir námsmenn að bæta við sig menntun í starfi með því að fara út í nám á fullorðinsárum en lausnaleitarnám stuðlar að sjálfstæði í námi og þjálfar þá í að takast á við vandamál og finna ásættanlegar lausnir. Reynsla af slíku vinnuferli hlýtur að nýtast nemendum vel þegar þeir þurfa að leysa sambærileg vandamál, til dæmis á vinnustað að námi loknu. Segja má að aðferðin henti jafnframt vel með fullorðnum nemendahópum þar sem hún tekur mið af fyrri reynslu og þekkingu nemenda. Þá gerir hún kennsluna líflegri og fjölbreyttari og jafnvel meira í líkingu við starfsvettvang þann sem nemendur munu starfa á eftir að námi lýkur.

Afbrigði

Efnis- og heimildakönnun er afbrigði af leitaraðferð. Hún byggir á því nemandinn fær eða velur sér ákveðið viðfangsefni sem hann síðan aflar sér upplýsinga um. Ef verkefnið er umfangsmikið er mikilvægt að nemandinn, í samráði við kennarann, afmarki efnið og búi sér til tímaramma eða verkáætlun. Að því loknu leggur hann af stað í heimildaöflun þar sem hann leitar til dæmis fanga í fræðiritum, á netinu, með vettvangsathugunum, tilraunum, könnunum, eða viðtölum verkefninu sínu til framdráttar. Þegar nemandinn hefur síðan lokið verkefninu skilar hann því til kennara og oft á því formi sem kennari og nemandi koma sé saman um

Athugasemdir

Viðfangsefni sem nemendur fást við með lausnaleitanámi þarf að vera ögrandi og spennandi til að nemandi finni löngun til að takast á við það. Eins er gott að hafa í huga að það tengist áhugasviði viðkomandi.

 

Heimildir

Ingvar Sigurgeirsson (1999). Að mörgu er að hyggja. Handbók um undirbúning kennslu. [3. útgáfa]. Reykjavík: Æskan.

Ingvar Sigurgeirsson. (1999). Litróf kennsluaðferðanna. Reykjavík: Æskan.

Kennsluaðferðavefurinn. (2011). Upplýsingabanki um kennslufræði, einkum kennsluaðferðir og námsmat. Sótt af https://notendur.hi.is/ingvars/kennsluadferdir/kennsluadferdirnar.htm

Sigrún Björk Cortes, Björgvin Ívar Guðbrandsson, Margrét Hugadóttir og Torfi Hjartarson.

(2016) Skapandi skóli. Handbók um fjölbreytta kennsluhætti og stafræna miðlun. Kópavogur: Menntamálastofnun.

Þórunn Óskarsdóttir. (2013). Lausnaleitarnám. Sótt af http://www.pbl.is/master/index.htm

 

Handbók kennarans – leiðarvísir í fjölmenningarlegu námssamfélagi

Við töldum að það vera gagnlegt að taka saman örlítið námsefni fyrir þá kennara og leiðbeinendur sem kenna innflytjendum íslensku. Þrjár kennsluaðferðir urðu fyrir valinu sem eiga það sameiginlegt að byggja á reynslu og grunnþekkingu nemenda.  Þær eiga það einnig  sameiginlegt að hvetja til lausnarleitar, ígrundunar, gagnrýni og frásagnar           I.FERDINANDS OFL HANDBÓK FYRIR KENNARA .

Ingibjörg Ferdinands, Helga Baldurs og Anna Sigríður.

Gildi menntunar

Ég ákvað að taka fyrir rannsóknargreinina Gildi menntunar í lífi fullorðins fólks eftir Jóhönnu Rósu Arnardóttur og Jón Torfa Jónasson sem birtist fyrst árið 2004 í fyrsta árgangi Tímarita um menntaransóknir á bls. 129-143.

Grein þessi hefur að mínu mati mjög sterka tengingu við efni áfangans.  Hvati til náms er skoðaður ítarlega, bæði út frá atvinnulífi og einkalífi og einnig hvaða ráðandi þættir það eru sem fullorðnir fá út úr námi, og vilja fá.  Framsetning niðurstaðna er að mínu mati mjög áhugaverð, en höfundar setja þar fram tvö mjög skýr módel sem sýnir fram á niðurstöður rannsókna þeirra.  Áhugahvatarnir eru margvíslegir, mun fleiri en ég gerði mér grein fyrir í upphafi námskeiðsins, og er þeim skipt niður á áhugaverðan hátt, einstaklingsbundnir þættir, þættir er tengjast fjölskyldu og svo þættir er tengjast skólakerfinu.  Það líkan er skýrir niðurstöður þegar spurt er um hvað fullorðnir námsmenn fá út úr náminu er einnig mjög skýrt.  Þeir félagslegu þættir sem settir eru fram í niðurstöðum eru vel útskýrðir og komu mér á óvart þ.e. hversu miklu máli þeir skiptu hjá viðkomandi námsmönnum utan vinnustaðar. Það eina sem ég hefði viljað sjá rannsakað nánar var að bera saman dagvinnulaun fyrir og eftir nám en ekki eingöngu gera samanburð á heildarlaunum. Sumir hópar lækkuðu jafnvel í heildarlaunum eftir háskólanám en telja verður ólíklegt að sú niðurstaða hefði verið sú sama hvað dagvinnulaun varðar, þar sem vinnuálag var nánast ávallt minna að námi loknu hjá þeim sem færðu sig á milli atvinnugreina.

Ritrýni mína má sjá hér

Skýrsla vegna kynningar um reynslu í síðustu staðlotu

Skýrsla vegna kynningar um reynslu fullorðinna námsmanna

Kynning haldin þann 28. október 2015

Ástæðan fyrir því að mig langaði að ræða reynsluna umfram önnur viðfangsefni er að hún virðist vera rauður þráður í öllum þeim kenningum sem námsefnið hefur upp á að bjóða.  Mér fannst þó reynslan oftar en ekki vera lögð upp sem jákvæð reynsla og það er að mínu mati alls ekki raunin.  Reynsla getur verið mjög fjölbreytt og málið því ekki svona einfalt.

Ég bað samnemendur mína um að nefna þá reynslu sem þeim datt í hug þegar þau hugsuðu um reynsluheim fullorðinna nemenda.  Mjög margar tillögur komu fram, flestar að mínu mati dæmi um jákvæða reynslu en þó ekki allar, t.d. skólaganga. (sem ég óvart taldi jákvæða af því ég upplifði hana þannig)  Þegar rætt var nánar um hugmyndir þeirra kom ýmislegt áhugavert fram, má segja að t.d. reynsla af ást getur jafnt verið jákvæð sem neikvæð, þar sem ást getur auðvitað bæði blómstrað og visnað.  Reynsla af heimilishaldi getur einnig verið beggja megin borðsins, því að eins yndislegt og það er að eiga eigið heimili þá er samt raunin líka sú að á síðustu árum misstu margir heimili sín og verður því ekki að telja það sem neikvæða reynslu af heimilishaldi? Einnig atvinna/atvinnuleysi.

Sum reynsla nemenda er okkur meira augljós en önnur.  Því fannst mér rétt að skipta reynslunni upp í eftirfarandi flokka:

 • Dulin jákvæð reynsla (T.d. að kunna hebresku)
 • Dulin neikvæð reynsla (T.d. þunglyndi)
 • Ljós jákvæð reynsla (T.d. heilbrigður líkami og sjálfstraust)
 • Ljós neikvæð reynsla (T.d. neikvæður almannarómur í litlum samfélögum)

Þegar á líður hjá fullorðnum námsmönnum kemur ljós jákvæð reynsla fram mjög fjótlega, dulin jákvæð reynsla kemur þar á eftir og umbreytist því í ljósa á skömmum tíma.

Neikvæða reynslan er öllu flóknara viðfangsefni og miðað við hvað nám á fullorðinsárum gerir fyrir sjálfsmynd slíkra nemenda er möguleiki á ákveðinni umbreytingu á hinni neikvæðu reynslu.  Eftir því sem sjálfsmynd nemenda styrkist þeim mun líklegra er að þeir geti umbreytt hinni neikvæðu reynslu í jákvæða, sama hvort um er að ræða dulda eða ljósa reynslu.

Mér fannst hæfilegt að kynna þetta að vissu marki og svo hvetja til umræðu hjá samnemendum mínum.  Að mínu mati gekk það mjög vel og svo endaði ég þessa kynningu á að spyrja samnemendur um hvaða reynslu Íslendingar sem buðust til þess að taka við sýrlenskum flóttamönnum á heimili sín þyrftu að búa yfir.  Út frá því fannst mér spinnast skemmtileg og fjölbreytt umræða sem erfitt er að meta hvernig endaði.

Nám fullorðinna og dreifbýlið… | namfullordinna.is

Frá og með iðnbyltingunni hefur straumur fólks Iegið frá dreifbýli til þéttbýlis, frá þorpum til borga. Byggðarlög sem áður héldu lifinu í hundruðum manna eru að verða auð og þorp sem iðuðu af mannlífi sem draugaþorp, þar sem enginn vill búa lengur! Margir hafa reynt að spyrna við fótum og samfélagið sem heild virðist almennt hafa verið sammála um að það sé full ástæða til að „styðja við” landsbyggðina með ýmsu móti.

Hvað afleiðingar ætli það hafi fyrir landið og dreifbýlið að það sé boðið upp á nám í heimabyggð og háskólar bjóða upp á fjarnám? Getum við gert betur?

Lestu meira: Nám fullorðinna og dreifbýlið… | namfullordinna.is

Segðu okkur hér í athugasemdunum hvaða hugmyndir kvikna hjá þér…

„Solar Mamas – Why Poverty?“


Hér er dæmi um fullorðinsfræðslu sem leið til valdeflingar og sem leið til að styrkja samfélagið. Horfið á þessa mynd (58 min) og notið það sem þið hafið lesið um hlutverk fullorðinsfræðslu í samfélaginu til að túlka það sem þið sjáið og profið að tenngja það við kenningar og íslenskar aðstæður.

ATH ég er að biðja um spjall ekkert alvarlegt 😉
það er ekki vitlaust að kíkja á Paolo Freire í atriðisorðaskrá bókanna eða á vefnum

Skrifið um þetta í athugasemdunum.

Wiki… um þemu námskeiðsins

Hér á námskeiðsvefnum eru nokkrar síður sem hafa samskonar virkni og Wiki, þ.e.a.s. allir notendur vefsins geta breytt innihaldi síðunnar. Þá er sérstök síða tileinkuð umræðu UM ritun síðunnar og önnur sem sýnir breytingasögu síðunnar (Reyndar er framsetningin þar ákaflega flókin og ruglingsleg… kerfið er bara ekki betra…)

Ég hef sett upp svona svæði vegna þess að ég álít Wiki vera ákaflega spennandi viðbót við ritunarkúltúr samtímans, vegna þess að mér sýnist wiki geta (og hafa) breytt viðhorfi okkar til þekkingu, eignarhalds og aðgengi að henni (ég er hér undir áhrifum af bókum eins og Wikinomics – sjá lika vef bókarinnar) og vegna þess að mér sýnist það vera gagnlegt fyrir okkur að læra að vinna saman á Wiki, því nú til dags eru flestir textar skrifaðir í samvinnu. Það er þá eitthvað sem við þurfum að kunna.

Eitt sem  við sem vinnum saman á þessu námskeiði höfum aldrei ákveðið er strúktúr þessa Wiki og form textans. Eru þetta formlausar glósur þar sem fólk skrifar það sem þeim hentar á þann hátt sem því hentar, eða viljum við aga okkur meira og t.d. skrifa n.k. alfræðitexta eins og gert er í Wikipedia.

Ég sé rök fyrir báðum leiðunum:

 • Það getur verið flott að hafa frekar formlaust svæði þar sem við getum æft okkur í að skrifa niður það sem okkur finnst við vera að læra við lesturinn og námið sjálft…
 • Aftur á móti gæti verið meiri þjálfun fólgin í því að aga skrifin meira og passa betur upp á form og æfa sig í hinu hlutlausa alfræðirita formi. (Sjá leiðbeiningar um skrif á Wikipedia)
 • EF okkur finnst alfræðiformið gagnlegt þá hefur það þann kost að einhverntíma gætum við svo flutt efnið eða hluta þess yfir á Wikipedia, en það má færa fyrir því gild rök að það nauðsynlegt og gagnlegt fyrir íslenskt samfélag að það sé til eins mikið efni á íslensku á opnum svæðum eins og Wikipedia.

Annað mál er að ef þið skoðið Wiki-inn núna sjáið þið að það eru til tvær síður með sama efni fyrir þemu 2 – kenningar og 4 – þroskasaga.  Ég er að velta fyrir mér hvort þið viljið ekki sameina þessar síður?

Gaman væri að heyra viðbrögð ykkar hér

Sem sagt tvær spurningar um Wiki:

 1. Formlaust eða formlegt
 2. Sameina tvær síður eða kasta einni… (Sameining kallar á skipulögð vinnubrögð… einfaldast er bara CUT og PASTE)

 

 

Samfélagið | namfullordinna.is

Ég veit ekki hvort þið hafið tekið eftir þessum pósti á aðal vef námsleiðarinnar. En þar eru vísanir í ýmislegt efni sem mér finnst vel þess virði að skoða einmitt í tengslum við lestur og pælingar í tengslum við þemað okkar Nám fullorðinna í samfélagslegu sjónarhorni:  Samfélagið | namfullordinna.is

Sömuleiðis vil ég benda ykkur á að lesa færslu um áhrif tækni á samfélagið og á nám