Malcolm Knowles

malcolm_knowles

Ævi og störf (1913-1997)

Malcolm Knowles var fæddur í Livingston, Montana árið 1913. Knowles ólst upp við gott atlæti og höfðu uppeldisaðstæðurnar mótandi áhrif á hann. Samband Knowles við foreldra sína einkenndist af gagnkvæmri virðingu, trausti og hlýju. Hann var virkur þátttakandi í skátahreyfingunni og með því efldi hann leiðtogahæfileika sína.

Knowles fékk skólastyrk til að stunda nám við Harvard háskóla þaðan sem hann lauk B.A. gráðu árið 1934. Hann var virkur þátttakandi í ýmsum félagasamtökum og lét til sín taka í klúbbum og samtökum sem tengdust skólanum. Eftir útskrift ætlaði Knowles að starfa í utanríkisþjónustu en það var ekki um auðugan garð að gresja á því sviði. Þess í stað hóf hann starf við náms- og starfsþjálfun ungmenna á aldrinu 18-25 ára sem voru í atvinnuleit og höfðu litla formlega menntun. Hlutverk Knowles var að finna hvaða hæfni vinnuveitendur á svæðinu voru að sækjast eftir hjá starfsmönnum sínum, skipuleggja námskeið í samræmi við þarfirnar og hvetja ungmennin til að sækja þau námskeið. Knowles vissi að nauðsynlegt var að mæta þörfum þessa hóps á annan hátt en hann var vanur sjálfur sem námsmaður. Hann hóf að þróa aðferðir sem hann taldi að hjálpuðu fólki til að læra. Knowles horfði til ýmissa fræðimanna s.s. Carl Rogers, Eduard C. Lindeman, Alexander Kapp, Kurt Lewin o.fl. Knowles leit á Lindeman sem mentor sinn og taldi nauðsynlegt að þróa aðferðir sem hjálpuðu fullorðnum að læra og taka tillit til þes hvernig fullorðnir námsmenn eru frábrugðnir öðrum námsmönnum. Hann lagði sig fram um að ná góðum tengslum við nemendur og taka mið af reynslu þeirra og bakgrunni. Hlutverk leiðbeinandans væri að veita gagnlegan og uppbyggjandi stuðning sem gæti nýst námsmanninum í sinni þekkingarleit.

Árið 1949 lauk Knowles M.A. gráðu frá Háskólanum í Chicago og samhliða vann hann áfram að fræðslumálum fullorðinna. Fyrsta bók hans hét Informal adult education og kom hún út árið 1950. Hann hóf störf árið 1959 við Boston Háskóla og tók þar þátt í uppbyggingu nýrrar námsleiðar við skólann ásamt því að stunda doktorsnám sem hann lauk árið 1960. Á árunum 1970-1973 gaf Knowles út bækurnar The Modern practice of adult education (1970) og The adult learner: A neglected species (1973). Á árunum 1974 til 1979 starfaði Knowles við Háskólann í North Carolina, samhliða því vann hann að andragogy módelinu, skipulagði námskeið og skrifaði bókina Self directed learning: A guide for learners and teachers (1975).

Þrátt fyrir að Knowles hafi lokið störfum sem prófessor við Háskólann í North-Carolina árið 1979 hélt hann áfram að veita ráðgjöf, stýra málstofum, skrifa bækur og halda erindi um fræðslu fullorðinna. Árið 1980 kom út bókin The modern practice of adult education: From pedagogy to andragogy og fjórum árum seinna skrifaði Knowles bókina Andragogy in action: Applying modern principles of adult education (1984). Í þeirri bók fjallar Knowles um það hvernig nálgast má fræðslu fullorðinna með hliðsjóna af andragogy módelinu.

Kynning á kafla úr bókinni (í vinnslu).

Árið 1989 gaf Knowles út bókina The making of an adult educator: An autobiographical journey sem var síðasta bókin sem hann var einn höfundur af.  Í þeirri bók lýsir Knowles sér sem fræðimanni og hvernig hugmyndir hans höfðu þróast og breyst frá upphafi starfsferilsins. Knowles lagði áherslu á að virkja þátttakendur í námi sínu og þá þætti sem hentuðu fullorðnum námsmönnum best til að læra. Í bókinni lítur hann yfir farinn veg og veltir fyrir sér hvernig fullorðinsfræðsla muni þróast í framtíðinni.

Malcolm Knowles lést úr hjartaáfalli í bænum Fayetteville í Arkansas árið 1997,  þá 84 ára. Hann lét eftir sig eiginkonu, tvö börn og barnabörn.

Andragogy módelið

Merriam, Caffarella og Baumgartner  fjalla um andragogy módelið í bók sinni Learning in adulthood (2007). Þar kemur fram að andragogy módelið leggi áherslu á fullorðna námsmanninn og aðstæður hans. Knowles hélt fjölmörg námskeið m.a. í háskólum þar sem hann starfaði. Eftir eitt slíkt námskeið benti þátttakandi honum á að hann væri að nota aðferðir „andragogy“ á námskeiðum sínum. Knowles hafði ekki notað orðið andragogy yfir starfsaðferðir sínar fram að þessu. Þýski kennarinn Alexander Kapp notaði það fyrst árið 1833 þegar hann lýsti ólíkri nálgun á nemendur sem voru táningar í dagskóla vs. fullorðna námsmenn í kvöldskóla. Eduard C. Lindeman notaði einnig orðið andragogy í tveimur greinum sem hann skrifaði í Evrópu á árunum 1926 og 1927 en ekki í Ameríku (Knowles, 1989). Segja má að Knowles hafi verið fyrstur til að nota hugtakið andragogy yfir nám og fræðslu fullorðinna. Fyrsta andragogy módelið sem Knowles setti fram var í bókinni Modern practice of adult education: Andragogy versus pedagogy árið 1980.

Knowles skipti andragogy módelinu í fjórar meginreglur og sex fullyrðingar eða forsendur þeirra.  Sjá mynd hér.

Fjórar meginreglur andragogy módelsins eru:

  1. Þátttaka í námi (involved adult learners).
  2. Reynsla fullorðinna námsmanna (adult learners experience).
  3. Mikilvægi og áhrif á líf fullorðinna námsmanna (relevance and impact to learners lives).
  4. Nám er lausnamiðað

Fullyrðingar þeirra eru:

  1. Hugmyndir námsmanna um sjálfa sig (self concept). Fullorðnir námsmenn eru sjálfstæðir. Þeir vilja taka ábyrgð á eigin námi og stýra því að einhverju leiti sjálfir eða hafa um það að segja.
  2. Reynsla fullorðinna námsmanna (adult learner experience). Reynsla hvers og eins er ólík og hefur áhrif á þá sem námsmenn. Hún er grundvöllur þeirra sjálfsmyndar sem námsmaðurinn hefur og þeim viðhorfum sem hann hefur til sín og getu sinnar sem námsmanns.
  3. Lærdómsvilji (readiness to learn). Fullorðnir námsmenn eru tilbúnir að læra. Þeir sækja sér menntun af því að þeir hafa áhuga á því . Fullorðnir hefja oft nám að nýju þegar þeir standa frammi fyrir breytingum t.d. atvinnumissi, skilnaði við maka eða fæðingu barns.
  4. Stefnumörkun (orientation to learning). Fullorðnir námsmenn setja sér markmið sem eru ólík milli einstaklinga en einnig eru leiðirnar sem henta hverjum og einum til að ná markmiðum sínum ólíkar.
  5. Hvatning til náms (motivation to learn). Vilji fullorðinna námsmanna til að fara í nám stjórnast af innri og ytri hvötum. Innri hvatir eru t.d. aukin ánægja í starfi, bætt sjálfsmynd og aukin lífsgæði. Ytri hvatirnar eru starf sem þeir sækjast eftir eða betri laun.
  6. Vilja vita. Fullorðnir námsmenn vilja vita hver tilgangurinn með tilteknum þáttum eru í námi þeirra og gagnsemi þess.

Það sem einkennir fullorðna námsmenn skv. Knowles er að þeir eru meðvitaðir um tilgang þess að vera í námi og hvaða áhrif námið hefur á líf þeirra. Þeir eru alla jafna sjálfstæðir í sínu námi og vilja hafa áhrif á skipulag þess og framvindu. Fullorðnir námsmenn búa yfir reynslu sem fylgir þeim í náminu, jákvæðri og/ eða neikvæðri. Þeir nota lausnamiðað nám og raunhæf verkefni í nálgun sinni á viðfangsefni. Fullorðnir námsmenn vilja sjá árangur námsins fljótt t.d. í daglegur starfi sínu. Það þarf að sýna þeim virðingu og þess vegna hentar þeim vel að skapa opið og vinalegt andrúmsloft og námshvetjandi umhverfi. Sá sem skipuleggur nám fyrir fullorðna þarf að taka mið af þessum fullyrðingum við undirbúning og hann þarf að skipuleggja námið með tilliti til þeirra.

 

Heimildir

Knowles, M. S. (1980). The modern practice of adult education: From pedagogy to andragogy. Englewood Cliffs: Prentice hall/ Cambridge.

Knowles, M. S. (1984). Andragogy in action: Applying modern principles of adult education. San Francisco: Jossey-Bass.

Knowles, M.S. (1989). The making of an adult educator: An autobiographical journey. San Francisco: Jossey-Bass.

Malcolm Knowles. (2006). Wikipedia. Sótt af: http://en.wikipedia.org/wiki/Malcolm_Knowles

Merriam, S.B., Cafarella, R. S. og Baumgartner, L.M. (2007). Learning in adulthoodA comprehensive guide (3. útgáfa). San Francisco: Jossey-Bass.

Sigrún Jóhannesdóttir. (2004). Finnst fullorðnum líka leikur að læra ? Gátt 2004Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Sótt af http://www.frae.is/files/%7B1d55cece-c6b6-4373-8295-bc578a9309f5%7D_finnst%20fullordnum-sj.pdf

Smith, M.K. (2002). Malcolm Knowles, informal adult education, self-direction and andragogy. Sótt af http://infed.org/mobi/malcolm-knowles-informal-adult-education-self-direction-and-andragogy/

Mynd sótt af vef http://web.utk.edu/~start6/knowles/malcolm_knowles.html

Máttur kvenna

Hér er greinargerðin.

Máttur kvenna – símenntun á Bifröst í Borgarfirði

Inngangur

Hér ætla ég að gera grein fyrir námslínu sem hefur verið starfrækt við Háskólann á Bifröst í 10 ár. Ég fjalla í byrjun stutt um sögu skólans og skilgreint hlutverk hans hvað varðar símenntun. Athyglin beinist hins vegar aðallega að einum þætti símenntunarinnar sem nefnist Máttur kvenna. Í vinnu minni við samantekt greinargerðarinnar hef ég hlustað á viðtöl við forsvarsmenn háskólans, námsmenn og verið í sambandi við forstöðumann símenntunardeildarinar. Ég hef fengið könnun sem gerð var  nú í haust um námslínuna en hún er óbirt og verður aðeins vinnuplagg fyrir starfsmenn við endurskipulagningu námslínunnar. Þá hef ég fengið heimildir af heimasíðu skólans, www.bifrost.is.

Um Háskólann á Bifröst

Háskólinn á Bifröst á rætur sínar að rekja til Samvinnuskólans sem stofnaður var í Reykjavík 1919. Árið 1955 fluttist starfsemin að Bifröst í Borgarfirði. Hann var í fyrstu, skóli fyrir ,,samvinnumenn“ og í hugum margra tengdist hann Framsóknarflokknum lengi enda var Jónas frá Hriflu fyrsti skólastjóri hans. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og nú er  Háskólinn á Bifröst háskóli, sem býður nemendum sínum upp á fræðslu, þekkingu og þjálfun í viðskiptafræði og viðskiptalögfræði, heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Hlutverk skólans er að búa nemendur undir ábyrgðar-, forystu- og stjórnunarstörf í innlendu og alþjóðlegu samkeppnisumhverfi (Bifröst, á.á).

Skólinn er skilgreindur sem viðskiptaskóli en ekki síður sem félagsmálaskóli. Á heimasíðu kemur fram að hlutverk hans hafi ávallt verið tvenns konar. Annars vegar að vera jafnan í fylkingarbrjósti þróunar og nýsköpunar í fræðslustarfi og í því felst símenntunin. Hins vegar að halda þétt í upphafleg markmið, sígildan kjarna sem vakti fyrir stofnendum og fyrstu forráðamönnum stofnunarinnar, þ.e. að búa nemendur undir forystu- og stjórnunarstörf (Bifröst, á.á).

Símenntun á Bifröst

Ein af deildum skólans er símenntunardeildin. Eitt af aðalmarkmiðum hennar er að efla og styrkja íslenskt atvinnulíf og samfélag með því að bjóða upp á hagnýta fræðslu og þjálfun. Boðið er upp á þrjár námslínur í fjarnámi. Það eru Diplomanám í verslunarstjórnun, stjórnun og samvinna í ferðaþjónustu sem er einnig diplomanám og námslínan Máttur kvenna. Ég ætla hér að fjalla sérstaklega um þennan þátt námsins við Háskólann á Bifröst (Bifröst, á.á).

Máttur kvenna – almennt

Það eru 10 ár síðan Háskólinn á Bifröst fór að bjóða upp á námslínuna Máttur kvenna. Lengst af hefur verið um tvær námslínur að ræða Máttur kvenna I og Máttur kvenna II. Nú hefur seinna námskeiðið ekki verið keyrt síðan 2012 vegna þess að það hefur reynst erfitt að fá nægjanlegan þátttakendafjölda. Sem stendur er námskeiðið í endurskipulagningu og verður nýja fyrirkomulagið tekið í gagnið eftir áramótin næstkomandi. Það er hins vegar ekki fullkomlega mótað og verða því gerð skil í lok greinargerðarinnar. Vegna endurskipulagningarinnar, var gerð könnun meðal þeirra sem sótt hafa námið. Hún var send út í september í haust og stóð opin í 6 daga. Svörun varð innan við 20% og gefur því ekki með öllu rétta mynd en vissulega er þar að finna vísbendingar um upplifun og væntingar kvennanna. Í greinargerðinni er oft vísað í þessa könnun.

Hér verður eingöngu verður fjallað um námslínuna, Mátt kvenna I, eins og hún hefur verið keyrð frá upphafi og til dagsins í dag. Það hafa ýmist verið eitt eða tvö námskeið á hverju skólaári og hafa 700 konur útskrifast úr því frá upphafi (Geirlaug Jóhannsdóttir, 2014). Þátttakendur eru á öllum aldri, 20 – 70 ára og víðsvegar að af landinu.

Máttur kvenna I, var upphaflega hugsað til að efla konur á landsbyggðinni í rekstrarfögum. Reyndin hefur hins vegar orðið sú að jafnvel fleiri konur af höfuðborgarsvæðinu sóttu námskeiðið (munnleg heimild, Magnús Snorrason). Þetta er 11 vikna rekstrarnám fyrir konur sem hafa áhuga á að bæta rekstrarþekkingu sína. Engar sérstakar forkröfur eru gerðar varðandi fornám fyrir námslínuna. Bakgrunnur og menntunarstig þátttakenda er misjafn, Samkvæmt könnun sem Háskólinn gerði haustið 2014, höfðu flestar eingöngu grunnskólapróf, þá komu konur með framhaldsskólamenntun en aðeins lítill hluti þeirra höfðu lokið háskólaprófi (Háskólinn á Bifröst, 2014). Langflestar voru launþegar þegar þær hófu námið (Háskólinn á Bifröst, 2014)Námið veitir ekki einingar. (Bifröst, á.á).

Hver er hvatinn?

Ekki eru gerðar kröfur um fornám inn á námsbrautina enda er hún einskonar fornám eða stökkpallur í frekara nám, auk þess að vera styrking fyrir konur sem nú þegar stunda rekstur af einhverju tagi. Það eru konur á öllum aldri sem sækja þessa námslínu og hvatinn til að stíga skrefið er margskonar Konurnar hafa ólíkan baggrunn, þarna eru m.a. konur sem ekki hafa farið í nám eftir grunnskóla og hafa litla trú á sjálfum sér  þegar kemur að námi og skóla. Það eru einnig konur sem hafa áratugareynslu af fyrirtækjarekstri, konur sem eru að byrja í rekstri og líka konur sem hyggjast ekki fara út í fyrirtækjarekstur en vilja bæta þekkingu og kunnáttu á þessum sviðum. (Geirlaug Jóhannsdóttir, 2014). Þegar konurnar eru spurðar hver sé hvatinn, segja þær að það sé að auka hæfni í atvinnurekstri, auka arðsemi fyrirtækja, bæta þekkingu á rekstri fyrirtækja, fleiri atvinnutækifæri, efla tengslanetið, að skapa störf eða efla sig sem þáttakanda í þjóðfélaginu (Anna Ólöf Kristjánsdóttir, 2014).

Fyrirkomulag kennslu

Nemendur mæta í upphafi tímabils og eru eina vinnuhelgi á staðnum. Þá hitta nemendur alla kennara námskeiðsins sem leggja línurnar í hverri grein fyrir sig. Námsgreinarnar eru bókhald I, upplýsingatækni, markaðs- og sölumál, fjármál, áætlanagerð og framsækni og tjáning. Í könnuninni var athugað hvaða þættir námsins konunum hefðu þótt gagnlegastir. Þar kemur fram að konurnar eru sáttar við það sem var kennt og þóttu allir þættirnir gagnlegir, þó skorar framsækni og tjáning minnst (Háskólinn á Bifröst, 2014).

Mikið er lagt upp úr að efla samkennd nemenda og í þeim tilgangi er m.a. hvatt til samvinnu, farið í gönguferðir og borðað saman (Geirlaug Jóhannsdóttir, 2014). Eitt af því fyrsta sem námsbrautin býður upp á er námskeið í upplýsingatækni – mjög einfalt að sögn Önnu Ólafar Kristjánsdóttur sem hefur setið námskeiðið. Þar er farið í grunnatriði í ritvinnslu og vinnu á Veraldarvefnum en það eitt getur verið fyrirstaða fyrir nemendurna (Anna Ólöf Kristjánsdóttir, 2014).

Milli staðlota er fjarnámskerfið Námsskjár notað og er kerfið notað bæði við fjar- og staðarnám. Kennarar miðla rafrænu námsefni, verkefnum og öðrum upplýsingum til nemenda auk þess sem nemendur skila sínum verkefnum rafrænt til baka. Þá eru allir fyrirlestrar teknir upp og aðgengilegir fyrir nemendur þegar þeim hentar. Kerfið nýtist einnig til skoðanaskipta innbyrðis milli nemenda og eins milli kennara og nemenda (Skessuhorn.is, 2005). Það er því ekki ósvipað Moodle sem notað er t.d. í Háskóla Íslands. Háskólarnir í Borgarfirði, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Háskólinn á Bifröst nota báðir Námsskjá, enda er hann hannaður í héraði (Skessuhorn.is, 2005).

Í lok tímabils er önnur vinnuhelgi. Þá fara kennarar yfir stöðuna og að lokum er formleg útskrift. Nemendur eru sáttir við fyrirkomulag námsins, líkar vel við staðlotur og fyrirlestrana á neti. Þá þótti þeim gott að námið væri eingöngu fyrir konur. Þær segjast þó í fæstum tilfellum hafa aukið tengslanet sitt (Háskólinn á Bifröst, 2014).

Kostnaður við námið

Þátttökugjald í dag er kr. 149.000. Innifalið í verðinu eru öll námsgögn og tvær vinnuhelgar með gistingu og fæði.  Nemendur fá gistingu á staðnum en öll aðstaða og er aðbúnaður nemenda góður ( (Bifröst, á.á). Konur geta fengið niðurgreiðslu hjá stéttarfélögum (Anna Ólöf Kristjánsdóttir, 2014). Langflestar kvennanna fengu styrk frá sveitarfélagi, stéttarfélagi eða vinnuveitanda til að stunda námið (Háskólinn á Bifröst, 2014)

Að loknu námi – framgangur

Samkvæmt könnuninni sem skólinn gerði haustið 2014, hafði námið ekki afgerandi áhrif á atvinnumöguleika kvennanna. Aðeins lítill hluti þeirra fékk hærri laun, aukna ábyrgð í starfi eða stöðuhækkun. Það er einnig lítill hluti kvennanna sem hóf atvinnurekstur í kjölfarið en taka má tillit til þess að margar þeirra ráku þegar eigið fyrirtæki. Svotil allar konurnar sögðu að námið hefði eflt þær persónulega og gefið þeim meira sjálfstraust. Það vekur nokkra athygli, vegna þess að framsækni og tjáning er sá þáttur sem konurnar segja hafa komið minnst að gagni og þegar konurnar meta námið og hvað megi bæta nefnir stór hluti þeirra að auka megi áherslu á persónulega færni, s.s. framkomu, samskipta, tjáningu, raddbeiting og ræðaumennsku (Háskólinn á Bifröst, 2014).

Hvað varðar frekara nám, svöruðu um helmingur kvennanna að þessi reynsla hefði orðið til þess að þær hófu frekara nám (Háskólinn á Bifröst, 2014). Það er því hægt að segja að þrátt fyrir að námið skili ekki einingum opnar það leiðir fyrir konur til að hefja frekara nám. Í viðtali við Önnu Ólöfu Kristjánsdóttur ( 2014) kemur fram að samheldni hafi verið mikil í hópnum og konurnar hafi hvatt hver aðra áfram. Það koma ýmiss sjónarmið fram í könnuninni, þegar konunum gefst kostur á að bæta við í eigin orðum. Þar kemur fram að of mikil ,,saumaklúbbsstemming“ hafi verið í hópnum og það ekki samboðið háskóla að taka þátt í þannig sprelli, svo vitnað sé beint í orð þessarar konu. Annarri konu finnst námið ekki auglýst rétt – það sé nám fyrir konur sem hafi ekki tilskylda undirbúningsmenntun fyrir háskóla en ekki þær sem lokið hafa háskólanámi. Flestar raddirnar voru þó mjög jákvæðar og sögðu að námið hefði gefið þeim mikið og sumar nefndu að það hefði orðið þeim hvatning til frekara náms (Háskólinn á Bifröst, 2014)

Lokaorð

Það þarf eitthvað til að brjóta ísinn. Máttur kvenna hefur reynst stökkpallur fyrir margar konur út á menntabrautina. Þær hafa e.t.v. ekki hugsað sér það í byrjun, fullar vantrausts á sjálfa sig en komast að því að þær deila þessum aðstæðum með mörgum öðrum. Anna Ólöf Kristjánsdóttir (2014) segir í viðtali í Síðdegisútvarpi Rásar 2, að Máttur kvenna sé leiðin fyrir margar konur til frekari afreka á menntaveginum. Þær byrja þarna og halda svo áfram í háskólanámi á Bifröst eða í annað nám sem hugurinn stendur til. Undir þetta tekur  Geirlaug Jóhannsdóttir (2014), starfsmaður við Háskólann á Bifröst í kynningu á námsleiðinni á ,,Youtube.com,“ og segir að nokkur hluti þeirra kvenna sem hefur nám á námslínunni Máttur kvenna I,  haldi áfram í námi.

Við endurskipulagningu námslínunnar eru gerðar ýmsar breytingar sem reynsla tíu ára hefur kennt forsvarsmönnum símenntunardeildarinnar. Aukin áhersla er lögð á frumkvöðlastarf, nýsköpun en ekki síst þætti sem viðkoma stjónun s.s. skapandi stjórnun, rekstrarform fyrirtækja og stofnun þeirra. Bætt hefur verið við staðlotu um miðbik tímabilsins og aukin áhersla á að efla persónulega hæfileika einstaklinga s.s. ræðumennsku, framkomu, tjáningu og framsækni.

Það hefur verið fróðlegt að kynna sér námslínuna Máttur kvenna á Bifröst. Mér finnst viðleitni skólans, að bjóða fullorðnu fólki sem ekki hefur tilskylda menntun til háskólanáms, tækifæri til að fóta sig í umhverfi háskólans.Ég held að það skipti máli að námið fer fram í háskólaumhverfi og set hér fram þá pælingu hér, að margir telji sig ekki í stakk búna til að stunda nám við háskóla og það hræðist að hefja nám vegna þessa.  Ég held því fram að það að bjóða nám án forkrafna við háskóla, geti stuðlað að því að fólk stígi skrefið og innriti sig á námslínur eins og Máttur kvenna I og öðlist með því kjark til að leggja í nám sem hugurinn stendur til.

 

 

 

Heimildir

 

Anna Ólöf Kristjánsdóttir, K. Þ. (2014, 08 06). Máttur kvenna. (S. Ruv., Interviewer)

Bifröst. (á.á). Háskólinn á Bifröst. Retrieved 10 29, 2014, from Saga: http://www.bifrost.is/um-haskolann/saga

Geirlaug Jóhannsdóttir, H. á. (Director). (2014). Máttur kvenna I og II [Motion Picture].

Háskólinn á Bifröst. (2014). MK könnun. Bifröst: óbirt.

Skessuhorn.is. (2005, 18.10). Skessuhorn. Retrieved 30 10, 2014, from Fyrirtækið Námsskjár ehf stofnað: http://www.skessuhorn.is/frettir/nr/25723/

Að leggja allt undir. Kynning á grein

Gambling for capital: Learning disability, inclusive research and collaborative life histories

Guðrún Benjamínsdóttir

Ég ætla að kynna grein um samvinnurannsóknir og lífssögur, en í fimmta, sjötta og áttunda kafla bókarinnar Learning in adulthood er aðeins komið inn á hvort tveggja, en hvort fyrir sig. Umfjöllunarefni greinarinnar sameinar þetta tvennt, en hún fjallar um samvinnu höfundanna, tveggja kvenna, háskólanámsmanns annars vegar og konu með þroskahömlun hins vegar. Þessar tvær konur eru íslenskar og heita Kristín Björnsdóttir og Aileen Soffía Svensdóttir, en greinin er skrifuð á ensku og var birt í British journal of learning disabilities.

Í greininni leggja höfundar áherslu á mikilvægi þess að fólk með þroskahömlun taki þátt í samvinnurannsóknum og fái þar með tækifæri til að segja lífssögu sína og að það geti hjálpað öðrum, hvort sem það er fólk með þroskahömlun, fagfólk eða rannsakendur. Þær segja frá sinni rannsókn og ýmsum hliðum á henni.

Samtök fatlaðs fólks hefur lagt áherslu á mikilvægi valdajafnvægis milli fatlaðra og ófatlaðra rannsakenda, þannig að samvinnan og eignarréttur yfir rannsókninni sé jafn. Það er þó ekki alltaf hægt að hafa þetta valdajafnvægi fullkomið, eins og í tilfelli Kristínar og Aileen, þá var rannsókn þeirra hluti af stærri rannsókn sem var undirstaðan í doktorsritgerð Kristínar. Þær þurftu því að hlíta þeim reglum sem gilda um doktorsrannsóknir, meðal annars að Kristín má ein vera höfundur að þeirri rannsókn og hefur því eignarréttinn yfir rannsókninni, en þær hafa gert sitt besta til að hafa umtalað valdajafnvægi sem mest, meðal annars með því að semja saman greinar um rannsóknina,  sem birtar eru í fagtímaritum, þær hafa farið saman á ráðstefnur og málþing hérlendis sem erlendis og þar eru þær ætíð meðhöfundar og hlutur hvorrar um sig ekki meiri en hinnar.

Þessi grein fjallar um samvinnurannsóknir og samvinnu Kristínar og Aileen en ekki um niðurstöður rannsóknarinnar sem slíkrar. Þar er meðal annars vitnað í ýmsa fræðimenn sem fjallað hafa um samvinnurannsóknir. Þar er gerður greinarmunur á mismunandi tegundum samvinnurannsókna, þar með taldar eru svokallaðar Emancipatory eða frelsandi rannsóknir þar sem fatlað fólk er í lykilhlutverki og stjórnar rannsóknum sem eiga að gagnast stórum hópi fatlaðs fólks og samtökum þess og oft framkvæmdar af samtökum. Participatory eða þátttökurannsóknir snúast um samvinnu einstaklinga fremur en samtaka. Svo eru svokallaðar inclusive rannsóknir sem hafa einfaldlega verið kallaðar samvinnurannsóknir, en þær snúast um að fólk með þroskahömlun er meðrannsakendur með fræðimönnum eða háskólastúdentum og öðlast þar með vel metið hlutverk sem meðrannsakaendur.

Í greininni er vitnað í Walmsley og Johnson sem hafa sett fram viðmiðanir um hvernig samvinnurannsóknir sem fólk með þroskahömlun tekur þátt í  skulu fara fram og skipta þeim í fimm meginreglur.

Í fyrsta lagi ætti fólk með þroskahömlun að eiga rannsóknina en hún má vera gerð að frumkvæði ófatlaðs rannsakanda.

Í öðru lagi ætti rannsóknin að efla og styrkja hagsmuni fólks með þroskahömlun og ófötluðu rannsakendurnir ættu að vera bandamenn þess.

Í þriðja lagi ætti fólk með þroskahömlun að vera þátttakendur í öllu rannsóknarferlinu.

Í fjórða lagi ætti fólk með þroskahömlun að hafa einhver áhrif á rannsóknarferlið og niðurstöður þess.

Í fimmta lagi ætti rannsóknarspurningin, rannsóknarferlið og rannsóknarskýrslur að vera aðgengilegar fólki með þroskahömlun.

Kristín og Aileen reyndu að uppfylla þessar meginreglur eins og hægt var en voru samt sem áður bundnar af þeim reglum og kröfum sem gerðar eru til doktorsrannsókna, því eins og áður sagði var rannsókn Kristínar og Aileen hluti af stærri doktorsrannsókn Kristínar, sem byggir á sex lífssögum fólks með þroskahömlun. Þátttakendur tóku mis mikinn þátt í rannsókninni, aðeins Aileen og einn annar þátttakandi voru virkir meðrannsakendur. Fólkið hafði val um hversu mikinn þátt það tók, sumir veittu aðeins viðtöl meðan aðrir, eins og Aileen tók virkan þátt í að vinna úr viðtölum Kristínar við sig, skipta þeim upp í þemu og hvernig saga hennar var framsett. Hlutverk Kristínar í því ferli umfram Aileen var að tengja lífssögu hennar við fræðilega umfjöllun, í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til doktorsrannsókna.

Lífssögurannsóknir eru tiltölulega nýjar af nálinni á Íslandi, en þó hafa nokkrar rannsóknir verið gerðar með fólki með þroskahömlun. Þær varpa ljósi á mismunandi reynslu fólks sem sumt hefur meðal annars verið vistað á stofnunum og búið við undirokun stóran part af lífi sínu. Talað hefur verið um að rannsóknir sem þessar geti verið valdeflandi fyrir hópa sem hafa þurft að þola kúgun og að það að fá að segja frá reynslu sinni breyti upplifun þess af fortíðinni og að það upplifi sig frekar sigurvegara eða eftirlifendur en fórnarlömb, þegar upp er staðið. Þó ber að varast að nota hugtakið valdeflingu í þeim skilningi að ófatlaði rannsakandinn valdefli hinn með því að leyfa honum að vera með í rannsókninni, þannig setur það hann í hlutverk passífs viðtakanda valdeflingarinnar og rannsóknarviðfangs. Frekar ber að líta svo á að valdeflingin eigi sér stað innra með þátttakandanum í rannsóknarferlinu og jafnvel áður en það hefst. Valdeflingin er heldur ekki einungis bundin við þátttakendur rannsókna, heldur geta samvinnurannsóknir ýtt undir valdeflandi rannsóknaraðferðir.

Aileen hefur aldrei verið vistuð á stofnun, en það þýðir ekki að líf hennar hafi ekki verið viðburðaríkt og fullt af hindrunum sem hún hefur þurft að komast yfir, svo sem félagsleg útskúfun og kúgun, en í dag er hún það sem er á ensku kallað „self-advocate“ sem merkir að vera sinn eigin talsmaður og taka sjálf ákvarðanir um líf sitt. Hún býr sjálfstætt og vinnur á almennum vinnumarkaði. Hún var, þegar rannsóknin var gerð, varaformaður í Átaki, félagi fólks með þroskahömlun, sem er svokallaður sjálfsákvörðunarhópur (e. self-advocacy group). Öll þessi vel metnu hlutverk öðlaðist hún áður en hún tók þátt í rannsókninni, þannig að það er ekki hægt að segja að það að taka þátt í rannsókninni hafi valdeflt hana heldur þessir jákvæðu þættir í lífi hennar.

Að lokum setja Kristín og Aileen rannsókn sína í samhengi við félagslegar kenningar Bourdieus um menningarauð (cultural capital). Það er mismunandi eftir þjóðfélagshópum hvað telst vera menningarauður, það er það sem haft er í hávegum í hverjum hóp fyrir sig og verða sumir hópar undir á hinum ýmsa vettvangi. Til dæmis verður fólk með þroskahömlun undir á mjög mörgum vettvöngum, meira að segja meðal annars fatlaðs fólks. Það kom svo berlega í ljós á einni ráðstefnu sem þær stöllur sóttu og tóku þátt í á breskri grundu. Þar hélt frummælandi því fram að fötlunarrannsóknir ættu aðeins að vera framkvæmdar af fötluðu fólki og var það ekki í fyrsta skipti sem þær höfðu heyrt þessa fullyrðingu. Í þessum aðstæðum þótti þeim báðum þær skorta menningarauð, Kristín sem ófötluð kona efaðist um rétt sinn til að taka þátt sem ófatlaður rannsakandi og Aileen fannst þetta viðhorf takmarka möguleika fólks með þroskahömlun til að taka þátt í fötlunarrannsóknum. Fötlunarrannsóknir í Bretlandi eru skilgreindar eftir breska félagslega sjónarhorni á fötlun, sem hefur verið gagnrýnt fyrir að gera ekki ráð fyrir fólki með þroskahömlun. Fólk með þroskahömlun býr því ekki yfir þeim menningarauð sem viðurkenndur er af fötlunarfræðielítunni, til að öðlast eitthvað vald á þeim vettvangi, vegna skorts á aðgengi.

Undir lok greinarinnar segja þær stöllur skemmtilega frá því hvernig umræður þeirra um aðgengileika kynningar þeirra á ráðstefnunni fóru fram. Kristín talaði um að nota myndir og margmiðlunartækni fremur en ritað og talað mál en Aileen var hrædd um að ef þær gerðu það, yrðu þær ekki teknar alvarlega sem rannsakendur og jafnvel álitnar barnalegar og hafnaði því þeirri hugmynd. Þær notuðu því fræðilega viðurkennt mál, enda voru þær að keppast við að fá viðurkenningu og vald á félagslegum vettvangi fötlunarrannsókna og hámarka ávinninginn af því með því að fylgja þeim reglum, settum af þeim ráðandi hópi fólks sem ekki hafði fengið þroskahömlunarstimpil. Þær lögðu því allt undir til að öðlast menningarauð og styrkja þannig stöðu sína á vettvangi fötlunarrannsókna, en það er einmitt það sem titill greinarinnar fjallar um (Kristín Björnsdóttir og  Aileen Soffía Svensdóttir, 2008)

Þessi grein er hluti af efni sem ég ætla að nota í lokaritgerð þessa námskeiðs, en ég tel að samvinnurannsóknir og lífssögur eigi erindi til fleiri minnihlutahópa en fólks með þroskahömlun. Ég tel að hægt sé að nota þessar aðferðir með, til dæmis, nýbúum og að hægt sé að nota þessar aðferðir til að aðstoða fólk við eigin valdeflingu og að bæta sjálfsmat sitt og breyta lífssýn sinni og tel það geta fallið undir kenningar um umbreytinganám. Ég mun koma betur inn á það í lokaritgerðinni.

 

Heimild:

Kristín Björnsdóttir og Aileen Soffía Svensdóttir. (2008). Gambling for capital: Learning disability, inclusive research and collaborative life histories. British Journal of Learning Disabilities, 36(4), 263-270.  af http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/j.1468-3156.2008.00499.x/pdf

Staðlota/dagskrá – einstaklingsverkefni?

Ég er með pælingar vegna lokaverkefnisins.

Mér þætti gott að fá eitthvað pratískt í næstu staðlotu. Er sjálf ekki komin af stað í vinnu við verkefnið og þess vegna væri gagnlegt að ræða um formið, mat – hvað vegur þyngst í matinu, umræður um verkefnin sem okkur standa til boða; Samfélagið og símenntun, Fullorðnir námsmenn, Þorskaferli fullorðinna, Nám fullorðina og kennsla fullorðinna.

Það væri gagnlegt fyrir mig að farið væri inn á heimildaskráningu og reyndar leiðbeiningar um formun rannsóknarspurningar en sennilega ættum við að vera komin lengra í ferlinu. Það er samt slæmt að vera með of víða eða ómögulega rannsóknarspurningu (ekki samþykkta af kennara), þegar langt er liðið á ferlið.

Það væri líka gagnlegt ef farið væri í kenningar, eins og áformað var í síðustu staðlotu – til að skerpa sýnina og draga saman.

 

Námskeiðsvefur