Fræðimaðurinn Knud Illeris

Knud-Illeris

Stiklað á stóru

Hinn danski Knud Illeris er fæddur árið 1939. Segja má að hann sé lifandi dæmi um menntun fullorðinna því 27 ára að aldri yfirgaf hann ferðaskrifstofustarf sem honum gekk vel í og hóf að mennta sig.

Illeris hóf fyrst nám á framhaldsskólastigi en þar varð hann fyrir miklum vonbrigðum með námið, upplifði leiðinlegar kennslustundir, einræðislega kennslu og gamaldags inntak. Má segja að þar hafi hann fengið hugmyndina að því að viðeigandi skilningur á lærdómsferli geti leitt til betri og áhrifaríkari leiða að kennslu og menntun.

Seinna fór Illeris að læra sálfræði við Kaupmannahafnarháskóla með áherslu á lærdómsferli. Þar varð hann aftur fyrir vonbrigðum því skilningur ríkjandi atferlissinna gáfu ekki svör sem skiptu máli. Eldri nemendur leiddu athygli hans að hugmyndum að markverðu námi og nemendamiðaðri kennslu.

Árið 1972 hóf Illeris störf við háskólann í Hróarskeldu sem þá var nýr og mjög tilraunamiðaður og þekktur fyrir verkefnamiðaða vinnu í námi (project work). Illeris helgaði mestan sinn tíma vinnu með kenningar og framkvæmd á verkefnamiðuðu námi (project education) og varð það vel þekkt á Norðurlöndunum á ýmsum námsstigum, sérstaklega í fullorðinsfræðslu. Kallar Illeris þetta sjálfur fyrra tímabilið á fræðimannsferli sínum.

Árið 1987 hófst seinna fræðimannstímabil Illeris en þá beindi hann athygli sinni að menntun fullorðinna, námi alla ævi og að almennri lærdómskenningu með því að blanda saman nýjum og gömlum hugmyndum og þannig varð heildræn kenningin um nám sem hæfniþróun til árið 1999. Með henni náði Illeris alþjóðlegri athygli. Hafa bækur hans nú verið þýddar á ýmis tungumál, hann hefur haldið fyrirlestra víða og hlotið ýmsar viðurkenningar. Frá árinu 2009 hefur hann ásamt samstarfsfélaga rekið eigin ráðgjafarþjónustu.

 Námsþríhyrningurinn

Einna þekktastur er Illeris fyrir þríhliða námskenningu sína eða námsþríhyrninginn sem hann kom fram með árið 1999. Námsþríhyrningurinn felur í sér heildræna nálgun á námi sem hæfniþróun. Illeris heldur því fram að nám taki mið af þremur víddum; vitsmunum (e. cognition), tilfinningum (e. emotion) og samfélagi (e. environment).

Illeris setur kenninguna um námsþríhyrninginn upp sem öfugan þríhyrning (sjá mynd) og í hverju horni þríhyrningsins er ein vídd en víddirnar hafa gagnkvæm áhrif hver á aðra. Samkvæmt Illeris á nám sér ávallt stað í menningarlegu samhengi og þess vegna hafi umhverfi einstaklingsins áhrif á nám hans. Rúmar kenningin þannig nám fullorðinna frá flestum hliðum.

Námsþríhyrningur Illeris

Samkvæmt Merriam, Caffarella og Baumgartner (2007) er styrkur námsþríhyrningsins sú almenna nálgun og einfaldleiki sem þar kemur fram. Illeris bæti þannig við flestar rannsóknir og kenningar í fullorðinsfræðslu sem hafi beint sjónum sínum að vitsmunum með því að taka inn í kenningu sína tilfinningar og samfélagsvídd. Einnig má með námsþríhyrningnum skilja betur mótspyrnu og afneitun gagnvart námi.

Illeris hefur staðsett alla helstu kennismiði í þessum sama námsþríhyrningi (sjá mynd) sem hjálpar til við að skýra og greina á hvaða hátt nám á sér stað.

Námsþríhyrningur Illeris - fr.menn

Rannsóknir og bækur

Illeris er ötull fræðimaður. Hann hefur, einn eða ásamt öðrum, skrifað um 70 bækur og 300 greinar um menntun s.s. um fullorðinsfræðslu, vinnustaðanám og fleira. Hér má sjá yfirlit yfir rannsóknir hans í gegnum tíðina og hér að neðan má skoða nokkrar af bókunum hans á Amazon:

Heimildir

Umfjöllun á íslensku um Illeris og kenningar hans í óbirtum meistararitgerðum:

Ásta Sölvadóttir. (2013). VAXA starfsþróunarlíkanið : heildræn nálgun í starfsþróun kennara (óbirt meistararitgerð). Sótt af

Selma Kristjánsdóttir. (2010). „Ég vil vera ég“ Upplifun fullorðinna innflytjenda í íslenskunámi sínu hérlendis (óútgefin meistararitgerð). Sótt af http://hdl.handle.net/1946/5764

4 thoughts on “Fræðimaðurinn Knud Illeris”

  1. Takk fyrir þessa samantekt Heiðrún á ævi Knud Illeris. Kenningar hans fá meira vægi þegar maður áttar sig á að þær eru að stórum hluta byggðar á hans eigin lífssögu þ.e. sem námsmanni sem á erfitt með að finna sína réttu hillu, framan af, í skólakerfinu.

Skildu eftir svar