Bókadómur

screen-shot-2016-10-26-at-14-40-10Höfundur: Raymond J. Wlodkowski

Útgáfuár: 2008 – Þriðja útgáfa.

Titill: Enhancing adult motivation to learn: A comprehensive guide for teaching all adults.

Útgáfa: Gefið út af John Wiley & sons, Inc. Jossey-Bass, San Francisco.

 

 

Höfundurinn

Reymond Wlodkowski hefur doktorsgráðu í menntasálfræði (e. educational psychology) og er þekktastur fyrir skrif sín um hvað hvetur fullorðna til náms og til þess að nema, um menningarlegan fjölbreytileika fullorðinna námsmanna og starfsþróun í gegnum nám. Hann hóf feril sinn sem grunnskólakennari í Bandaríkjunum en hefur síðustu þrjátíu ár starfað við háskóla víða um Bandaríkin og Kanada auk þess að hafa komið að þróun hraðnáms/árangursnáms (e. accelerated learning) sem framkvæmdarstjóri CAP (Council for Accelerated Programs) og fyrrum forstjóri miðstöðvar hraðnáms við Regis háskóla (Wlodkowski, á.á.).

Wlodkowski skrifar bókina frá sjónarhorni kennarans eða leiðbeinandans (e. instructor) og á það til að skrifa beint til kennarans eða fjalla um „okkur kennarana“ og þá eiginleika sem þeir búa yfir sem eru jákvæðir hvað varðar hvatningu fullorðinna nemenda en ekki síður um þá eiginleika sem gera kennurum erfitt fyrir að vekja upp hvata nemenda.

Bókin

Um er að ræða þriðju útgáfu bókarinnar og hafa þó nokkrar breytingar verið gerðar frá fyrri útgáfu frá árinu 1999. Wlodkowski tekur það fram að hann hafi fengið ábendingar frá lesendum og fræðimönnum um sjónarhorn sem myndi bæta umfjöllun hans og leiðbeiningar um hvata fullorðinna námsmanna. Það sem er því ólíkt í þessari þriðju útgáfu bókarinnar frá fyrri útgáfum er umfjöllun hans um taugafræðilegan (e. neuroscientific) skilning á hvata og að auki sérstaka leiðbeinandi umfjöllun um menningarlegan mun fullorðinna námsmanna og áhrif tungumálsins.

Bókin skiptist í níu kafla og hefur Wlodkowski bók sína á umfjöllun á almennum nótum um ólíka nálgun fræðanna á hvata (e. motivation) s.s. frá sjónarhorni félagsvísindanna og líffræðinnar. Til þess að geta gefið leiðbeinandi upplýsingar um leiðir til að hvetja fullorðna í námi er skiljanlegt og að mínu mati nauðsynlegt að lesandinn geri sér grein fyrir hugmyndum og kenningum um hvað „hvati“ og „hvatning“ í raun þýðir. Höfundinum tekst vel til að koma á framfæri hversu óskýrar og ólíkar hugmyndir eru um hvað hvati í rauninni er, þar sem um er að ræða eitthvað sem ekki er hægt að mæla, snerta eða sjá. Ástæða þess að Wlodkowski fjallar sérstaklega um hvata er að við þurfum að vita hvers vegna fólk hegðar sér eins og það gerir til að geta hjálpað því að læra auk þess sem hvati eða áhugi er sá þáttur sem ýtir undir námssókn.  Það ekki er hægt að skilja að umræðu um nám og hvata.

Fyrsti kafli bókarinnar fjallar um nám fullorðinna og hvata frá sjónarhorni líffræðinnar þ.e. hvernig starfsemi heilans hefur áhrif á áhuga fólks á námi. Wlodkowski fjallar um að það að læra eitthvað sé í raun langtíma breyting á taugafrumuneti (e. neuronal networks) í heila okkar. Þegar fullorðnir læra eitthvað nýtt byggja þeir ofan á eða gera breytingar á fyrirliggjandi neti sem þeir höfðu þróað í gegnum fyrri lærdóm (fyrri þekking þeirra). Höfundurinn tengir svo umfjöllun sína beint við kennarann, eða leiðbeinandann (e. instructor) og hlutverk hans, enda markmið hans að veita hagnýtar upplýsingar til þeirra sem starfa við fullorðinsfræðslu. Hvað varðar líffræðilegu hlið hvata bendir hann á að leiðbeinendur geti ekki fjarlægt fyrirliggjandi taugafrumunet, þ.e. það er ekki hægt að fjarlægja fyrri þekkingu nemenda;

An instructor cannot remove the neuronal networks that exist in an adult learner’s brain. They are a physical entity. That is why, as instructors, we cannot simply explain something away, especially if it is a deeply held attitude or belief. Literally, another neuronal network has to take the place of the current attitude or belief. That biological development takes repetition, practice, and time (Wlodkowski, 2008: 11-12).

Líkt og fram kemur í textabrotinu að ofan, er ekki hægt að útskýra og kenna í burtu viðhorf með djúpar rætur og trú fólks. Menningarlegur bakgrunnur nemenda skiptir miklu máli og hvað samfélagið hefur kennt þeim en í kafla 2 fjallar Wlodkowski um það hvernig tungumál, trú, gildi og lífsstíll okkar í daglegu lífi hefur mikil áhrif á hvata okkar og áhuga auk aldurs og þroska. Þetta eykur þörfina á kennara sem leggur sig fram við að skilja bakgrunn og umhverfi nemenda til þess að geta haft áhrif á áhugahvöt þeirra. Wlodkowski tengir svo nánar umfjöllun sína við starf leiðbeinandans í 3.-4. kafla og fjallar þar um mikilvæg einkenni hvetjandi leiðbeinanda s.s. sérfræðiþekkingu, samkennd, eldmóð, skýrleika svo eitthvað sé nefnt. Þá veitir hann leiðbeinendum tékklista til að meta sig og kennslu sína eftir þessum hvetjandi eiginleikum og fjallar um þær aðstæður sem æskilegar eru til að auka áhuga fullorðinna á því að læra. Þær aðstæður eru samkvæmt Wlodkowski (2008: 116-117);

  1. Að skapa andrúmsloft þátttöku ( establishing inclusion) þar sem nemendum finnst þeir virtir og að þeir tengist öðrum í hóp.
  2. Að skapa viðhorf (e. developing attitude) þ.e. jákvæð viðhorf gagnvart náminu með tengingu námsefnis við einstaklinginn og markmið hans
  3. Að auka merkingu námsefnis í hugum nemenda ( enhancing meaning) með því að skapa virkjandi og krefjandi reynslu sem tekur tillit til viðhorfa og gilda nemendanna.
  4. Að Virkja hæfni (e. engendering competence) nemenda á þann hátt að þeir upplifi að þeir hafi öðlast verðmæta hæfni sem gagnast þeim í raunveruleikanum.

Þá veitir Wlodkowski lesandanum áætlun til hvetjandi kennslu og kennsluumhverfis í köflum  5-8 þar sem hann veitir hagnýtar leiðbeiningar til leiðbeinenda. Í heildina veitir hann sextíu aðferðir við að auka áhuga og hvata fullorðinna nemenda s.s. hvernig má þróa jákvæð viðhorf, hvernig má virkja nemendur og viðhalda áhuga þeirra og hvernig er best að halda athygli nemenda í kennslustofunni. Wlodkowski endar bók sína á níunda kafla þar sem hann dregur saman allar sextíu aðferðir til hvatningar í töflu og fjallar um hvernig má innleiða þær beint inn í skipulag kennslu og í sjálfa kennsluna. Þess til stuðnings má hér sjá verkefni sem Wlodkowski kýs að leggja fyrir nemendur sína þar sem þeir eru látnir meta sjálfir hversu vel áfanginn (eða vinnustofan) er að uppfylla skilyrðin fyrir hvetjandi aðstæður í kennslunni og kennslustofunni sem fjallað er um hér að undan.

screen-shot-2016-11-09-at-22-17-53

Wlodkowski, 2008 :426

Bókadómur

Markmið bókarinnar er að veita leiðbeinendum hagnýtar upplýsingar og aðferðir til kennslu sem geta aukið áhuga og hvata fullorðinna til að læra. Eins og áður hefur komið fram er um að ræða þriðju útgáfu bókarinnar sem gerir það að verkum að hún hefur verið í sífelldri vinnslu og þróun. Upplýsingar Wlodkowski og leiðbeiningar til kennara ættu því síður að vera úreltar í síbreytilegum samfélögum og námsumhverfum. Að því sögðu vil ég benda á að margar þeirra aðferða sem Wlodkowski veitir henta ekki við fjárnámskennslu þar sem áherslan er á andrúmsloft kennslustofunnar og bein samskipti leiðbeinenda og nemenda, þó má færa rök fyrir því að hægt sé að yfirfæra eitthvað af aðferðunum yfir á kennsluumhverfi á vefnum t.d. verkefnið sem vísað er í hér á undan þar sem nemendur meta hversu hvetjandi aðstæður eru í áfanganum, en öll atriði listans má færa yfir á fjarnámskennslu.

Helsti kostur bókarinnar er að hún er ekki of fræðileg eða torlesin. Ekki er þörf að hafa sérfræðiþekkingu á flóknum hugtökum til þess að bókin nýtist leiðbeinendum í fullorðinsfræðslu, þó að undanskildum upphafskaflanum um starfsemi heilans. Þó svo að umfjöllun um starfsemi heilans og áhrif á hvata sé áhugaverð náði höfundur að tapa mér sem lesanda í of flókum útlistingum á ólíkum svæðum heilans og starfsemi þeirra. Wlodkowski gerir þó það sem hann ætlar sér með bókinni, hann veitir sannarlega hagnýtar upplýsingar sem flétta má beint inn í kennslu. Þá liggur helsti styrkleiki bókarinnar í skýrt uppsettum töflum, tékklistum og gátlistum sem ætlað er að  hjálpa leiðbeinendum við að fella aðferðir hans að sínum eigin kennslustundum. Með því að vísa í margar og fjölbreyttar greinar, bækur og rannsóknir tengdum fullorðnum námsmönnum, hlutverkum kennara, hvata og áhuga, og menningarlegum- og efnahagslegum áhrifum á kennslu fullorðinna svo eitthvað sé nefnt, tekst Wlodkowski að gefa skrifum sínum trúverðugleika að mínu mati.

Á heildina litið er um að ræða áhugaverða, aðgengilega og hagnýta bók sem getur nýst öllum þeim sem hafa áhuga á og starfa við fullorðinsfræðslu auk þess að hún getur einnig nýst sem gott tól fyrir stjórnendur sem vilja hafa áhrif á áhuga og hvata starfsfólks á vinnustað. 

Heimildir

Wlodkowski, R.J. (2008). Enhancing adult motivation to learn: A comprehensive guide for teaching all adults, 3rd ed.. San Francisco: Jossey Bass.

Wlodkowski, R.J. (á.á.). Dr. Raymond Wlodkowski, PhD. Skoðað 6. nóvember 2016 á: http://www.raymondwlodkowski.com/

Að auki var stuðst við eftirfarandi gömlu og góðu grein um skrif bókadóma:

Hammett, H.B. (1974). How to Write a Book Review: A Guide for Students. Social Studies 65(6), 263-265.

4 thoughts on “Bókadómur”

  1. Gott að vita af bók sem gefur svo mörg ráð, hagnýtar leiðbeiningar, sem gætu nýst til þess að vekja áhuga og hvata fullorðinna. Oft heyrir maður fólk segja að það hafi einfaldlega ekki lengur áhuga á því sem það er að læra, hefur misst áhugann eða eitthvað í þeim dúr, og veit ekki sjálft hvernig það getur hvatt sjálfan sig áfram. Þarna gætu leynst góð ráð, ég mun pottþétt glugga í þessa bók og lesa í henni þegar fram líða stundir.

  2. Takk fyrir þessa samantekt Harpa – mjög gagnlegt að sjá svona yfirlit og bókadóm um þessa bók, ég hef verið að glugga í hana með öðru og það er satt sem þú segir, hún er skemmtileg og fremur einföld aflestrar. Og aðgengileg kennurum til innblásturs án mikillar fyrirhafnar.

    1. Takk Harpa…flott að fá svona samantekt til að glöggva sig á megin innihaldi bókarinnar en ekki síður til að hafa dóminn til hliðsjónar núna þegar ég er að leggja lokahönd á mínn bókadóm.
      Lesturinn vakti áhuga minn á að ef til vill lesa hana ef tími gefst síðar. Allavega er gott að fá upplýsingar um sem flestar bækur á þessu sviði ef til þess kemur að maður þurfi að leita sér að ýtarefni síðar.

Skildu eftir svar