Allar færslur eftir Jóhanna Helgadóttir

Fullorðnir námsmenn og ADHD

Umfjöllun og fyrirlestur um ADHD fullorðinna námsmanna

Ég er þeirrar skoðunar að allir geti lært. Í mínum huga á nám að vera jákvæð upplifun. Það hefur oft verið sagt við mig í gegnum árin að sumir geti einfaldlega ekki lært og að ég verði að horfast í augu við það. Því neita ég alfarið og ég leita allra leiða til þess að finna námi farveg. Það er þannig að margir vilja læra, en hafa ekki forsendur til þess á ákveðnum tímapunktum í lífi sínu. Margar ástæður eru fyrir því og hafa til að mynda rannsóknir á brotthvarfi nemenda úr námi reynt að festa hendur á því. Námsörðugleikar eru taldir upp sem ein ástæða þess og þar með talið ADHD.

Mér þótti því einstaklega áhugavert að skoða ADHD nánar í tengslum við fullorðna námsmenn. Ef nemendur í framhaldsskóla hætta m.a. vegna ADHD, þá má búast við því að þeir sem snúa aftur til náms síðar meir eru á einhvern hátt litaðir af sínum einkennum ADHD.

Fyrirlestur um ADHD fullorðinna námsmanna

Í þessum fyrirlestri fjalla ég almennt um ADHD, ADHD fullorðinna og fullorðinna námsmanna, ásamt því að taka saman nokkur góð ráð sem gætu gagnast þeim sem kenna og/eða koma að fræðslu fullorðinna.

Umræður í kennslustund að loknum fyrirlestri

Efni fyrirlestursins var til umræðu í tímanum hjá okkur þann 2. nóvember og höfðu samnemendur mínir sögur að segja af fullorðnum einstaklingum með ADHD sem nýta sér lyfjameðferð og upplifa alveg nýtt líf. Nýlegar rannsóknir (Cherkasova o.fl., 2016; Solberg, Haavik, og Halmøy, 2015) sýna það að lyfjameðferð virkar vel, en sé hún notuð ásamt vitsmunalegum meðferðum sem efla minni, einbeitingu, sjálfstjórn, skapa rútínu og gera einstaklingi kleift að ná stjórn á fleiri af þeim einkennum sem einstaklingar með ADHD eiga við að stríða þegar kemur að námi og starfi reynist meðferðin enn árangursríkari

Eftirfarandi atriði komu fram í umræðum okkar í kjölfar fyrirlestursins:

 • Fullorðnir segja ekki endilega frá aðstæðum sínum. Þeim ber ekki skylda til þess, né að afhenda gögn um greiningar. Kennarar vita því oft lítið um námssögu fullorðinna nemenda sinna. Sumir líta jafnvel á greiningar sem þeir hafa fengið sem skömm, líta jafnvel neikvætt á lyfjagjöf. Við vorum sammála um það að það er mikilvægt fyrir kennara og fullorðna námsmenn að tala saman. Að kennarinn sýni skilning og dæmi ekki nemandann. Mikilvægt að kennarinn afli sér upplýsinga og fræðslu um málefni eins og ADHD. Mikilvægt að halda sér við og rifja upp efnið með ákveðnu millibili, það getur bæst eitthvað nýtt við.
 • Mikilvægt fyrir alla sem hafa fengið greiningu að nýta sér hana og þau úrræði sem standa til boða vegna greininga eins og t.d. lengri tími í prófi, próftaka í sér rými eða í rými með færri aðilum.
 • Nýta sér greiningu og lyf sem styrkleika, sem jákvæðan þátt í því að ná stjórn á einkennum sínum og geta stundað nám.
 • Þurfa fastan ramma og skipulag. Sem kennari verður maður að hafa ólíkar þarfir í huga.
 • Nemandinn verður líka að leggja sitt af mörkum, láta vita af sér og sínum þörfum.
 • Það vita ekki allir að þeir eru með ADHD. Mikilvægt að ræða um það sem veldur vanda í námi. Tala við kennara, tala við námsráðgjafa (allir eiga rétt á því að tala við námsráðgjafa). Leita lausna, ekki gefast upp.
 • Reynsla okkar á námskeiðinu sem þekkjum til barna, unglinga og fullorðinna með ADHD er að því fylgir mikil vanlíðan og erfiðleikar.
 • Viðurkenndar greiningar mikilvægar þegar til lengri tíma er litið er varðar skólagöngu, þannig að tekið sé mark á þeim. Við veltum fyrir okkur líftíma greininga.

Einn samnemandi okkar á námskeiðinu spurði: „Hvernig er svo unnið áfram með þetta? Hvað gerist nú?“

Þetta eru góðar spurningar fyrir mig er varða framhald mitt í mínu starfi. Það sem ég er að gera núna er að taka saman upplýsingar og góð ráð fyrir nemendur til þess að setja á heimasíðu skólans. Ég var þegar búin að taka slíkt saman fyrir kennara. Eins og staðan er núna þá finnst mér vanta ákveðinn farveg, við getum kallað það verkferla, til þess að beina nemendum í rétta átt að stuðningi og úrræðum er varða ADHD. Sama má segja um kennara. Það eru þeir sem uppgötva og finna fyrir vanda nemandans. Hvernig geta þeir brugðist við þegar þeirra úrræði nægja ekki? Þeir verða að geta leiðbeint nemendum sínum í átt að frekari stuðningi og úrræði. Er slíkt til staðar í skólunum sjálfum? Ef ekki, hvar þá? Þetta verða allir aðilar að vita. Mig langar að geta svarað þessum tveimur spurningum er fram líða stundir!

Styrkleikar fullorðinna námsmanna með ADHD

Einstaklingar með ADHD búa yfir mörgum styrkleikum og mikilvægt er að horfa til þeirra og byggja upp jákvæða sjálfsmynd fullorðins einstaklings með ADHD. Í námi er mikilvægt að finna þessum styrkleikum farveg sem leiðir til jákvæðrar upplifunar og bætts námslegs árangurs. Sem dæmi um styrkleika þeirra sem eru með ADHD má nefna:

 • Ríkt hugmyndaflug og/eða rík sköpunargáfa.
 • Ofureinbeiting á verkefnum sem vekja áhuga, eru skemmtileg og gengur vel með.
 • Eiginleiki að búa yfir innsæi, lesa vel í ákveðnar aðstæður og koma hugmyndum sínum í framkvæmd.
 • Hafa mikla orku sem getur komið sér vel í sumum námslegum aðstæðum.
 • Opnir einstaklingar sem geisla af lífi og í kringum þá er oft mikið fjör.
 • Tilbúnir að taka af skarið og leiða aðra áfram í skemmtileg og frumleg verkefni.
 • Tölvu- og tæknisinnaðir. (Kvennablaðið, 2015; Ragna Freyja Karlsdóttir, 2001).
 • Veikleikar þeirra geta líka verið styrkleikar þeirra.
 • Hugmyndaríkir.
 • Úrræðagóðir og geta þróað með sér mikla útsjónarsemi.
 • Hugsa út fyrir kassann, leita óhefðbundinna leiða og fara óhefðbundnar leiðir í lífinu.
 • Þróa með sér aukna yfirsýn vegna einmitt þess að þeir hugsa um svo margt í einu. (Sigríður Arnardóttir, 2015).

Að lokum

Skilningur er mjög mikilvægur. Talið opinskátt um ADHD og ræðið málin við nemendur ykkar. Mikilvægt er að virða fjölbreytileikann og finna leiðir til þess að koma á móts við þarfir flestra nemenda með því að nota fjölbreyttar aðferðir í kennslu. Óskið eftir upplýsingum frá nemendum ykkar um það hvernig þeir læra best og takið tillit til þess eins langt og ykkur er framast unnt, meðal annars með því að nota ólíkar kenningar og nálganir í fullorðinsfræðslu. Sýnum fullorðnum með ADHD virðingu og skilning!

Heimildir

ADHD samtökin. (e.d.). Hvað er ADHD? ADHD samtökin. Sótt 26.              október 2016 af http://www.adhd.is/is/um-adhd/hvad-er-adhd-

Cherkasova, M. V., French, L. R., Syer, C. A., Cousins, L., Galina, H.,              Ahmadi-Kashani, Y. og Hechtman, L. (2016). Efficacy of Cognitive        Behavioral Therapy With and Without Medication for Adults                  With ADHD A Randomized Clinical Trial. Journal of Attention                    Disorders. doi:10.1177/1087054716671197

Fullorðnir & ADHD. (e.d.). Issuu. Sótt 26. október 2016 af                                https://issuu.com/adhd-iceland/docs/adhd-fullordnir-a5-12-bls-          loka-lres

Grétar Sigurbergsson. (e.d.). ADHD hjá fullorðnum. ADHD samtökin.       Sótt 26. október 2016 af                                                                                                    http://www.adhd.is/is/moya/page/adhd_fullordnir

Harpin, V. A. (2005). The effect of ADHD on the life of an individual,       their family, and community from preschool to adult life. Archives         of Disease in Childhood, 90(1), 2–7. doi:10.1136/adc.2004.059006

Kvennablaðið. (9. október, 2015). Góð ráð sem nýtast þeim sem                  vinna með börnum með ADHD. Sótt 22. nóvember 2016                            af http://kvennabladid.is/2015/10/09/god-rad-sem-nytast-theim-      sem-vinna-med-bornum-med-adhd/

Ólafur Hilmarsson. (2016). Brotthvarf nemenda úr                                             framhaldsskólum: Stefna og úrræði. M.Ed.-ritgerð: Háskóli                       Íslands, Menntavísindasvið.

Ragna Freyja Karlsdóttir. (2001). Ofvirknibókin. Kópavogur: Ragna           Freyja Karlsdóttir.

Segal, J. og Smith, M. (2016, október). Teaching Students with                      ADHD: Tips for Teachers to Help Students with ADHD Succeed at      School. Sótt 26. október 2016 af                                                                                  http://www.helpguide.org/articles/add-adhd/teaching-students-          with-adhd-attention-deficit-disorder.htm

Sigríður Arnardóttir. (2015). Fólk með Sirrý – Hvernig er það að vera         með ADHD? Sjónvarpsþáttur sjónvarpsstöðvarinnar Hringbraut.         Sótt 1. desember 2016 af https://vimeo.com/139214990

Solanto, M. V., Marks, D. J., Mitchell, K. J., Wasserstein, J. og Kofman,      M. D. (2007). Development of a New Psychosocial Treatment for          Adult ADHD. Journal of Attention Disorders.                                                          doi:10.1177/1087054707305100

Solberg, B. S., Haavik, J. og Halmøy, A. (2015). Health Care Services          for Adults With ADHD Patient Satisfaction and the Role of                      Psycho-Education. Journal of Attention Disorders.                                              doi:10.1177/1087054715587941

Þjónustuverkefni

Stjórna útsendingu og upptöku á kennslustund

Ég tók að mér að stjórna útsendingu og upptöku á kennslustund í námskeiðinu miðvikudaginn 12. október þegar við fengum gestafyrirlesara, hann Jón Torfa Jónasson í heimsókn til okkar. Aldrei áður hafði ég tekið að mér verkefni í þessum stíl og þó svo ég telji mig tæknivædda á ákveðnum sviðum, þá er ég sömuleiðis ekki tæknivædd á öðrum sviðum. Hið síðarnefnda á einmitt við þegar kemur að upptökum og fjarfundabúnaði. Mér þótti því tilvalið að stíga út fyrir þægindaramma minn og taka að mér verkefni sem myndi reynast mér krefjandi. Sérstaklega í ljósi þess að mig langar að geta gert mínar eigin upptökur og notað þessa tegund af tækni í kennslu, námskeiðshaldi og í fræðslu, jafnvel óformlegri fræðslu.

Myndthjonustuverkefni2

Til undirbúnings fyrir þetta verkefni þarf að gera eftirfarandi:

 • Það fyrsta sem þarf að gera er að kynna sér þessar leiðbeiningar frá Menntasmiðju Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
 • Kennarinn, í mínu tilfelli Hróbjartur, þurfti að gera mig að fundarstjóra í fundarherberginu sem notað er til þess að halda veffundi og taka upp kennslustundir og staðlotur. Það var gert þannig að ég fékk ákveðnar upplýsingar frá Hróbjarti um skráningu inn í fundarherbergið sem ég fylgdi og hann bætti mér við sem fundarstjóra (host). Við það fær maður önnur réttindi inn í fundarherberginu eins og það að geta slökkt og kveikt á upptöku.
 • Eftir að Hróbjartur var búinn að staðfesta það að ég væri orðin fundarstjóri þá fór ég aftur inn í fundarherbergið til þess að athuga hvort ég gæti opnað það og allt gekk eftir í þeim efnum.
 • Vera með HÍ aðgangsorðið sitt alveg á hreinu til þess að geta skráð sig inn í tölvu í skólanum.

Mér fannst mjög mikilvægt að vera búin að öllu þessu fyrir kennslustundina sjálfa.

Kennslustundin hófst klukkan 14:30 hjá okkur og ég mætti hálftíma fyrr. Þar sem ég hafði ekki áður skráð mig inn í tölvu í kennslustofunni þá tók það smá tíma. Það sem gerðist eftir að ég var skráð inn í tölvuna er að forrit fyrir myndavélina og hljóðnemann ræsti sig sjálfkrafa. Ég velti því ekkert sérstaklega fyrir mér og opnaði vafrann „Crome“ til þess að fara inn í fundarherbergið. Allt gekk vel og ég gat opnað fundarherbergið okkar. Þegar ég ætlaði að prófa myndavélina og hljóðið þá gerðist ekkert annað en að mér birtist svartur skjár. Til þess að byrja með reyndi ég út frá þeim leiðbeiningum sem ég hafði undir höndunum að leysa þetta vandamál, en mér tókst það ekki. Samnemendur mínir komu mér til aðstoðar, en ekkert gekk. Við kölluðum því til tæknimanns sem kom fljótt. Vandamálið lá í því að þetta forrit sem hafði ræst sig í upphafi hafði áhrif á það að mynd og hljóð virkaði ekki í fundarherberginu. Um leið og ég slökkti á þessu forriti þá virkaði mynd og hljóð um leið.

Tíminn var hafinn og enginn kominn í fundarherbergið. Í fyrstu hélt ég að eitthvað hefði klikkað í ferlinu og að samnemendur mínir kæmust ekki inn í rétta fundarherherbergið. Til þess að athuga það þá skráði samnemandi minn sem var mættur í tímann sig inn í kerfið og birtist um leið. Það var því ekkert til fyrirstöðu annað en að hefja tímann með því að kveikja á upptöku.

myndthjonustuverkefni

Ef ég ætti að gefa góð ráð til þeirra sem taka sambærilegt verkefni að sér, þá mæli ég með því að hafa nokkurs konar kynningu í upphafi um leið og búið er að kveikja á upptökunni. Bjóða hlustendur velkomna og segja þeim um hvað tíminn snýst og hver muni stjórna tímanum. Í lokin þakka fyrir tímann og kveðja!

Það var ætlun mín að setja aðra myndavél upp, í fartölvunni minni, en mér tókst það ekki á þessum tíma sem ég hafði. Til þess að byrja með þá sat ég með samnemendum mínum í stofunni. En færði mig svo yfir að skrifborðinu þegar fyrsti samnemandi okkar kom í fundarherbergið. Það auðveldaði mér að fylgjast með fundarherberginu og svara á umræðuvefnum. Ég tók tillit til óska þeirra sem voru í fundarherberginu upp á það hvernig þátttakendur sátu í stofunni, hvaða sjónarhorn var á myndavélinni og passaði vel myndthjonustuverkefni3upp á hljóðið. Það skiptir svo miklu máli að hafa gott hljóð. Allt þetta hefði ég getað gert úr sæti mínu ef ég hefði náð að setja upp fartölvuna mína, þannig að ég mæli með því!

Reynsla og upplifun mín af þessu verkefni var jákvæð og góð. Ég hvet nemendur á námskeiðinu til þess að taka verkefni af þessu tagi að sér!