Allar færslur eftir Sigrún Svafa Ólafsdóttir

Vendinám – lotur 6 og 7

Unit 6 – Subjects and levels (Lota 6 – Fög og námsstig)

Í lotu sex í netnámskeiði Jon Bergmann er aðaláherslan lögð á hvernig hægt er að spegla kennslunni, á mismunandi hátt eftir fögum og námsstigum.

Aðalatriðið er alltaf það sem við gerum í kennslustofunni. Í hóparýminu er mikilvægt að hafa gott jafnvægi af verklegum og bóklegum æfingum. Það er ekkert rangt við það að láta nemendur leysa verkefni á pappír, getur skilað betri skilningi og virkari þátttöku hjá nemendum – sérstaklega þegar slík verkefni eru notuð í bland við aðrar tegundir verkefna.

Raungreinar:

Í raungreinum breytir það miklu að hafa meiri tíma fyrir tilraunir og reynsla Jons var sú að eftir að hann byrjaði með vendinám hafði hann 50% meiri tíma fyrir tilraunir. Í byrjun notaði Jon mikið af tilraunum þar sem nemendur fóru nákvæmlega eftir leiðbeiningum (e.cookbook labs) en fór svo smám saman að færa sig yfir í tilraunir sem ýttu undir dýpri skilning. Hann stingur upp á því að spegla tilraunastofunni (e.flip the lab) og hafa upptökur af leiðbeiningum fyrir hverja tilraunastöð, þ.e. hvernig tilraunin á að fara fram, hvernig hún virkar og hvernig nemendur eiga að bera sig að. Nemendur eiga að horfa á þetta heima og þá er mjög mikilvægt að kennari tékki hvort þau séu búin að horfa. Sumt þarf samt að útskýra í stofu, öryggisins vegna. Sumar tilraunir er hægt að senda heim og biðja nemendur um að útskýra þær fyrir foreldrum sínum. Einnig er til fullt af stafrænum hermum (e.digital simulations) sem sérstaklega raungreinakennarar ættu að vera vakandi fyrir t.d. sem forrit, smáforrit eða heimasíður. Það getur dýpkað skilning nemenda mikið.

Mikilvægt að leggja áherslu á að kenna hvernig á að hugsa!

Í hefðbundnum raungreinatíma er mikið um fyrirspurnir og það er gott. Í vendinámi er erfiðara að koma með fyrirspurnir beint úr fyrirlestrum þegar horft er á þá heima, en það eru til ýmsar leiðir til að tryggja að fyrirspurnir fái sinn tíma samt, t.d. með fyrirframskilgreindum fyrirspurnartímum þar sem ákveðin viðfangsefni eru tekin fyrir.

Önnur leið til að hugsa uppsetningu raungreina kennslu er hugmynd Ramseys Musallams: „Explore – Flip – Apply“ þar sem nemendur eru fyrst kynntir fyrir einhverju vandamáli, svo fá þau kennslumyndband og eiga svo að nota þær upplýsingar sem þeir fengu til að leysa upphaflega vandamálið.  Sjá nánar hér. Eins má finna hugmyndir að verkefnum og æfingum á pogil.org

Til að setja öll verkefni annarinnar í samhengi, setur Jon yfirleitt upp eitt stórt lokaverkefni sem er í gangi alla önnina. Hann reynir svo að tengja alla kaflana inn í það á einn eða annan hátt, til að gefa viðfangsefnunum dýpri merkingu.

Stærðfræði:

Að mati Jon er algjörlega borðleggjandi að spegla stærðfræðinni, það getur hjálpað nemendum mjög mikið að geta sótt í kennslumyndbönd eftir þörfumm, útskýringar á öllum aðferðum og reglum sem notaðar eru. Jon telur alveg ásættanlegt að í stærðfræði sé verkefnavinna ca 75% af tímanum, þar sem nemendur æfa sig í að beita því sem þeir hafa lært. Gott að leyfa nemendum að vinna einum eða í litlum hópum eftir því hvað þeir vilja. Kennarinn hefur tíma til að ganga á milli og aðstoða alla, mikilvægt að hann tryggi að hann hjálpi öllum. Og svo þarf kennarinn að muna að núna er auðveldara að setja fyrir spennandi, erfið verkefni en áður, því bæði eru nemendur að vinna þau í kennslustofunni með kennara til aðstoðar og einnig hafa þeir möguleikann á því að vinna saman í hópum og hjálpast að. Því eru meiri líkur á því að allir, ekki bara þeir sterkustu, geti leyst krefjandi verkefni.

Í stærðfræði er líka hægt að nýta sér ýmsa stafræna herma eða forrit til að auka skilning nemenda. Dæmi um það sem hægt er að nýta er PHET, Desmos eða Geogebra ásamt fjöldanum öllum af öðrum sniðugum síðum sem bjóða upp á ýmsa möguleika.

Svo er um að gera að nýta þá möguleika sem liggja í forritum eins og Excel þar sem t.d. er hægt að vinna með algebru á annan hátt en venjulega og gæti nýst mörgum að fá nýtt sjónarhorn á viðfangsefnin.

Enska og bókmenntir:

Bókmenntir eru dæmi um fag sem Jon leggur til að sé kannski bara speglað að hluta, því hér er mikilvægt að nemendur lesi mikið. Því mætti senda kennslumyndbönd heim stundum, en þess á milli fælist heimanámið í lestri. Hann leggur áherslu á að myndbönd séu ekki svarið við öllu og stundum þurfi ekta innblásna fyrirlestra í kennslustund til að útskýra bókmenntahugtök, tilfinningar og upplifanir sem tengjast textunum, en þá sé mikilvægt að huga að lengd slíkra fyrirlestra. Sumt má samt auðveldlega senda heim sem kennslumyndbönd, t.d. beinar upplýsingar og innlagnir. Vinnu í tímum mætti þá nota til að æfa ritfærni undir handleiðslu kennara. Erfiða texta mætti líka lesa í tímum, stundum upphátt. Jon hefur séð dæmi um að kennari lesi bókina upp í upptöku og þá getur nemandinn fylgst með á skjánum hvert hann er kominn í textanum, þannig hann hefur bæði textann fyrir framan sig og upplesturinn í eyrunum. Það gæti verið ágætis leið fyrir nemendur að komast í gegnum erfiða texta.

Alla málfræði er upplagt að setja inn sem kennslumyndbönd, þá geta nemendur nálgast allar reglur þegar þeir þurfa.

Félagsvísindi:

Í félagsvísindum má setja inn kennslumyndbönd með leiðbeiningum um hvernig eigi að framkvæma ákveðna hluti, t.d. lesa af korti. Í kennslustundum er hægt að vinna allskonar fjölbreytt verkefni, fara í leiki og leyfa sköpunargleðinni að njóta sín. Í hefðbundinni kennslu var oft ekki tími fyrir verkefni því þau taka tíma. Gott dæmi um verkefni sem skilar dýpri skilningi á námsefninu eru rökræður, þar sem nemendur þurfa að setja sig inn í málin og vera með og á móti. Einnig er lærdómsríkt að biðja nemendur um að setja sig í spor sögufrægra persóna og skrifa t.d. bréf frá viðkomandi persónu.

TIl að kenna nemendum um fjármál, getur verið sniðugt að fara í peningaleik, gefa nemendum pening sem þau svo glata í lokin, þannig þau upplifi á eigin skinni t.d. kreppuna miklu.

Erlend tungumál:

Upplagt að kenna alla málfræði og orðaforða í vendinámi, og nota þá tímann í hópasvæðinu frekar í æfingar, t.d. tjáningu og æfa sig í að tala. Mjög fjölbreyttir möguleikar, t.d. setja upp aðstæður eftir þemum, hægt að setja upp þannig þema að allir séu að fara á veitingastað og þurfa að bjarga sér.

Í grunnskóla:

Kosturinn við kennslu í grunnskóla er að kennarar hafa yfirleitt nemendur hjá sér í lengri tíma yfir daginn og oft eru aðstæður þannig að ekki allir nemendurnir eru í stofunni samtímis. Því er hægt að leyfa nemendum að nota smá tíma yfir daginn til að horfa á kennslumyndbönd, ef þau ekki horfðu heima.

Það liggur beinast við að spegla stærðfræðinni, þar er auðvelt að hafa innlögnina í kennslumyndbandi og nota tímann í hóparýminu sem mest í æfingu á stærðfræðinni.

Ýmis önnur fög geta líka notið sín í spegluðu umhverfi, t.d. getur kennari tekið upp myndband þegar hann skoðar texta og greinir hann, skilgreinir persónur, tíðir eða bara það sem á við hverju sinni.

Í raun getur kennarinn fjölfaldað sig með þessari aðferð.

Gaman að nýta þessa tækni líka fyrir foreldra, útskýra í kennslumyndbandi eitt og annað í skólastarfinu. Líka hægt að gera í leikskólum.

Önnur fög:

Vendinám er hægt að nýta í flestum fögum, meira að segja tekur Jon dæmi um hvernig er hægt að nýta kennslumyndbönd í íþróttum, þar sem sýndar eru réttu hreyfingarnar eða reglur í leikjum, eða bara það sem mönnum dettur í hug. Nota hugmyndaflugið.

Sérkennsla:

Einnig talar hann um ómælda möguleika á notkun kennslumyndbanda í sérkennslu, þar sem nemendur koma úr ýmsum fögum og stigum til kennara sem hefur ekki haft tækifæri til að setja sig sérstaklega inn í efni allra faga. Þá getur kennarinn horft með nemandanum á myndband frá hans faggreinakennara og aðstoðað nemandann svo með verkefnin sem fylgja.

Með því að færa innlagnir inn í einstaklingssvæðið verður meiri tími fyrir æfingar og því ætti að sjást meiri árangur.

Unit 7 – Assessments and Flipped Learning (Lota 7 – Námsmat og vendinám)

Í byrjun þarf ekki endilega að breyta námsmati í vendinámi og það getur meira að segja verið kostur að hafa samanburð á milli ára fyrir og eftir að kennslunni hefur verið breytt. Því er í lagi að breyta öðrum þáttum kennslunnar á undan námsmatinu.

Það er mikilvægt að halda nemendunum á tánum og hafa virkni þeirra í að horfa á kennslumyndbönd og taka glósur sem hluta af einkunn. Gott ef kennari hefur hjá sér yfirlitsblað eða töflu þar sem hann getur merkt við nöfn nemenda og að þau séu með glósur úr fyrirlestrunum.

Jon leggur mikið uppúr því að nemendur taki glósur úr fyrirlestrum ásamt því að vera með innbyggðar spurningar í sumum myndböndunum. Hann mælir eindregið með því að kenna nemendum glósutækni – t.d. Conrell notes. Kennslumyndband í því má sjá hér:

Jon segir okkur líka frá því hvernig hann hætti að taka með verkefni heim til að fara yfir á kvöldin. Hann notar svokallað hlítarnám (e. mastery learning) þar sem hann kannar kunnáttu nemenda jafnóðum í kennslustofunni. Hann byggir matið á því að sjá glósur, verkefnablað þar sem nemandinn vinnur bara helming af spurningunum og svo einhverjar verklegar æfingar sem tengjast efninu. Ef nemandinn getur útskýrt svarið fyrir kennara þá heldur hann áfram í námsefninu, ef nemandi er í vanda og skilur ekki, getur hann unnið hinn helming spurninganna og ef nemandinn hefur svindlað, uppgötvar kennari það strax og lætur þá nemandann vinna allar spurningarnar.

Áður gátu nemendur verið að fá 3 á prófum og samt var haldið áfram í efninu – núna fer enginn áfram fyrr en hann hefur fengið viðunandi skilning og þar af leiðandi viðunandi einkunn.

Jon mælir með því að nota upplýsingarnar sem safnast um nemendur til að bæta kennsluna og gera hana einstaklingsmiðaðri. Vendinám er leið til aukinnar einstaklingsmiðunar.

Eins hvetur hann til þess að kennarar nýti sér prófabanka þegar það er hægt, til að fá betri yfirsýn yfir þær villur sem nemendur eru að gera og þannig er hægt að vinna strax með það sem nemendur ekki skilja.

Vendinám gefur kennara meiri tíma í kennslustundum og því er hægt að nota allar þessar leiðir sem áður var ekki tími til að framkvæma.

Vendinám – Lotur 4 og 5

Unit 4 – Tech Tools of the Flipped Classroom (Lota 4 – Tækni og tól í vendinámi)

Í lotu fjögur í netnámskeiði Jon Bergmann er aðaláherslan lögð á þá tækni sem gagnast kennurum til að búa til kennslumyndbönd.

Í kynningunni segir Jon þetta skiptast upp í tvö svið, annarsvegar nokkur grundvallaratriði sem þarf að hafa í huga og hins vegar tækni og tól sem henni tengjast.

Hann byrjar á því að nefna 13 atriði sem kennarar ættu að hafa í huga við gerð markvissra kennslumyndbanda:

 1. Hafðu þau stutt og bara eitt viðfangsefni í hverju myndbandi.
 2. Notaðu orku í röddina – ekki tala á einhæfan hátt. (Og reyndu að komast yfir það að finnast erfitt að hlusta á þína eigin rödd!)
 3. Reyndu að vinna með einhverjum og jafnvel setja í gang samtal um efnið. Í lagi að vera skrítinn eða fyndinn.
 4. Hljóðið skiptir miklu máli, léleg hljóðgæði eru mjög þreytandi. Góður hljóðnemi og þögn í kring skipta miklu máli.
 5. Bættu við húmor þar sem hægt er. Talaðu með hreim! Segðu brandara! En bara ef þú heldur að þannig komist námsefnið betur til skila.
 6. Ekki eyða tíma nemenda með því að tala um eitthvað sem ekki skiptir máli.
 7. Minni texti – meiri myndir. Látið nemendur frekar lesa textann og fjallið svo um hann í myndbandinu – ekki mikinn texta á glærur.
 8. Setjið endilega önnur vídeó inn í ykkar kennslumyndbönd.
 9. Notið textaskýringar, teiknið á skjáinn. Það er mjög mikilvægt t.d. í raungreinum og stærðfræði.
 10. Mynd á mynd. Gott að hafa upptöku af kennara í einu horninu, gefur betri tengingu milli nemenda og kennara.
 11. Gagnvirkni í myndböndum – viðbrögð frá nemendum
 12. Mikilvægt að hafa handrit eða „storyboard“ svo upptakan verði markviss.
 13. Muna að virða höfundarrétt t.d. á myndefni eða öðru sem tekið er af netinu – verum góð fyrirmynd nemenda okkar.

Svo vitnarJon í Richard Mayer sem skrifaði bókina Multi Media Design árið 2001. Mayer talar m.a. um:

 • hreinan bakgrunn á glærum, ekki áreiti frá óþarfa hlutum
 • gefa út dagskrá fyrirfram svo nemendur geti staðsett sig í efninu
 • nota mest myndir og röddina – minna af texta á glærurnar
 • skrifa textaskýringar á myndir þar sem þær eiga að  vera, ekki til hliðar
 • best er að myndir og orð  birtist samtímis
 • gefa nemendum svigrúm til að stjórna hraðanum (upptökur  því heppilegar)
 • vera í samræðugírnum við nemendur – ekki halda formlega ræðu

Jon fer nákvæmlega yfir hvaða tækni fólk hefur til að búa til kennslumyndbönd. Hann kynnir:

 • snjallsíma á þrífæti sem tekur upp kennarann fyrir framan venjulega tússtöflu – tækni sem flestir hafa aðgang að, flóknara þarf það ekki að vera.
 • skjalamyndavél (Hoover cam) sem tekur upp pappír á borði – þá getur kennari skrifað á pappírinn og talað samtímis.
 • upptökur á skjá – hægt að nota bæði tölvu með eða án snertiskjá
 • upptökur á iPad – kynnir t.d. smáforritið Doceri sem er hægt að nota bæði sjálfstætt og einnig tengt við tölvu. Myndbandinu er svo auðveldlega hægt að deila sem QR kóða.
 • upptökurými með „light board“ sem er glerveggur milli myndavélarinnar og fyrirlesarans. Á glerið er hægt að skrifa með neontússum og ljós lýsa það upp á ákveðinn hátt svo það sjáist vel. Í klippiforritinu Final Cut ProX er svo myndinni speglað svo textinn sjáist réttur. Þessa tækni notar Jon sjálfur á þessu námskeiði – þetta kemur mjög vel út.

Til að safna gögnum úr kennslumyndböndum sýnir Jon okkur eina mjög einfalda aðferð til að láta spurningar fylgja með kennslumyndbandi. Hann notar GoogleForm, opnar þar nýtt og smellir fyrst af öllu á „bæta við myndbandi“ velur þar Youtube myndband sem hann átti til (GoogleForm virkar bara með Youtube myndböndum). Setur myndbandið inn efst og bætir svo við spurningum að vild fyrir neðan. Svo er auðvelt að deila þessu með öðrum, hægt að sækja hlekk, deila beint á samfélagsmiðla eða senda í tölvupósti.

Ég fylgdi leiðbeiningum hans og á örfáum mínútum hafði ég bætt spurningum við kennslumyndband frá mér sem ég átti á Youtube. Afraksturinn má sjá hér, þið megið endilega horfa á myndbandið (1 mín) og svara spurningunum.

Jon leggur áherslu á að kennarar nýti sér kennslukerfi (e. Learning Management Systems) til að halda utan um öll skjöl, glærur, myndbönd, kannanir, próf og umræður. Hann segir ekki skipta neinu máli hvaða kerfi fólk velur, stærsti vandinn er í raun að kennarar eru oft ekki að nýta sér þau kerfi sem eru yfirleitt í boði í skólunum. Hann mælir með því að nemendur séu ekki ruglaðir með því að vera með of mörg kennslukerfi, heldur að hver skóli reyni að halda sig við eitt gott kerfi. Jafnframt hvetur Jon kennara til að reyna að læra vel á það kerfi sem er í boði.

Listi Jons yfir tæki og vélbúnað sem kennarar geta haft gagn af við upptökur og kennslu er góður að hafa til hliðsjónar. Fyrst nefnir hann góðan hljóðnema, hann mælir með því að kaupa vandaðan hljóðnema, mikilvægt að hljóðgæði séu góð í upptökum. Reyndar segir hann hljóðneminn í mörgum tölvum geti verið ásættanlegur ef þess er gætt að vera í hljóðlátu rými. Eins sýnir hann kosti teiknibrettis, sem tengist tölvu með USB tengi. Á það er auðvelt að teikna upp myndir eða reikningsdæmi, sem skila sér beint á skjáinn. Góð heyrnartól er eitthvað sem honum finnst skipta máli, sérstaklega ef nemendur eru að hlusta á fyrirlestra í skólastofunni þar sem oft er líf og fjör. Tölva er nauðsynleg en hvaða tegund skiptir ekki máli – bara það sem virkar fyrir þig. Og það sama með spjaldtölvur, fínt að hafa aðgang að slíku en tegundin skiptir ekki máli.

Í dag eru margskonar verkfæri fáanleg til að halda utan um  námsmat (e. Assessment Tools) til að gefa kennurum betri yfirsýn yfir hvern og einn nemenda. Þetta kemur sér vel t.d. ef vendinámið er tekið alla leið yfir í hlitarnám (e. Mastery Learning). Þá er mikilvægt að hafa góða yfirsýn yfir stöðu hvers nemanda, því þeim er ekki hleypt áfram með efnið nema hafa tileinkað sér það sem á undan er gengið. Stundum eru þessi námsmatsverkfæri innbyggði í kennslukerfi, en stundum þarf að kaupa þau sér. Yfirleitt er samt alltaf um að ræða einhvern hugbúnað, forrit eða heimasíður. Til að finna út hvað hentar best, þarf að skoða aðstæður – taka tillit til námskrár, námsefnis, nemendahóps ofl.

Að lokum fer Jon stuttlega yfir möguleikana að setja upp vendinám í umhverfi sem er ekkert sérlega tæknivætt (e. Low Tech Flipping). Ef skólinn sem þú ert að vinna í hefur ekki ráð á þeim græjum sem þarf til að framkvæma upptökur og halda utan um vendinám, eða ef engin nettenging er í boði, þarf að hugsa í lausnum. Kennari þarf að lágmarki að hafa aðgang að tölvu, en með einni slíkri getur hann samt gert ansi margt. Hann lýsir því hvernig hann hefur í gegnum tíðina aðstoðað nemendur sem ekki voru með tölvur eða internet heima. Hann sendi suma heim með Flash drive, hlóð myndböndunum upp á iPod, snjallsíma og spjallsíma, stundum brenndi hann kennslumyndbönd á DVD diska eða sendi nemendur heim með MP4 spilara með myndböndum á. Eins má skoða hvaða möguleika er að finna í skólanum, ef þar eru tölvur og net er hægt að reyna að opna fyrr og hleypa nemendum inn til að undirbúa sig, eða hafa skólann opinn lengur á daginn. Jon bendir á það að með þessum aðferðum sé ekki hægt að ætlast til rafrænnar gagnvirkni, en þá þarf að biðja nemendur um að skrifa hjá sér spurningar og taka glósur sem kennarinn skoðar í kennslustundum.

Aðalatriðið er að hugsa í lausnum og muna að flest allt er hægt að leysa ef viljinn er fyrir hendi.

Unit 5 – What to do in class? (Lota 5 – Hvað á að gera í kennslustundum?)

Í lotu fimm í netnámskeiði Jon Bergmann er aðaláherslan lögð á kennslustundirnar – hvað á núna að tímann í sem kennari og nemendur eiga saman?

Það fyrsta sem Jon nefnir hér er að hvetja kennara til að finna milliveg milli verklegra æfinga (e. activity) og skriflegra æfinga (e. process). Flestum fögum hentar best að vera blanda af báðu eða í raun bara tryggja að það sé gott jafnvægi milli virkni og verkefna, fjölbreytni í verkefnavinnu í tímum, ekki alltaf það sama.

Það sem mikilvægt er að gera í kennslustundum er að fylgjast vel með öllum nemendum og ganga á milli þeirra alla, spjalla við þá og aðstoða eftir þörfum. Stundum notar hann svokallað bollamódel, þá ardent-teacherer hann með plastbolla í mismunandi litum, grænir, gulir og rauðir – hver nemandi fær 3 bolla – einn í hverjum lit og þá geta þeir gefið til kynna hvernig staðan hjá þeim er. Ef grænn bolli er sýnilegur gengur vel hjá nemandanum, ef gulur bolli er sýnilegur þarf nemandi smá aðstoð en ef rauður bolli er sýnilegur er nemandi í virkilegum vanda. Mikilvægt er samt að kennari fari líka og tali við nemendur sem eru með grænan bolla, þeim má ekki gleyma.

Einnig talar hann um jafningjafræðslu, um að gera að leyfa nemendum að kenna hverjum öðrum og oft skilur það mjög mikið eftir sig hjá nemendum að þurfa að setja sig þannig inn í efnið að þeir geti kennt öðrum um það. En hann varar við því að nemendur séu þvingaðir til að kenna öðrum, bara leyfa þeim ef þau vilja.

Svo leggur hann til að kennslustundirnar séu notaðar fyrir verkefni í litlum hópum, þá getur kennarinn líka verið á hliðarlínunni og aðstoðað þau eins og þarf.

Með þessu móti mun kennarinn þjálfast í að spyrja spurninga þegar hann er í stanslausum samskiptum við nemendur. Mikilvægt að spyrja opinna spurninga og vekja forvitni nemenda þannig að námsefnið sitji eftir. Samskipti milli kennara og nemenda leiða til dýpri hugsunar um efnið, sem skilar sér betur til framtíðar en vélrænn utanbókarlærdómur.

Jon kynnir fyrir okkur undirmódel sem kallast „The In Flip“ sem mætti þýða lauslega sem „inninám“. Þá er skipulagið þannig að helmingur bekkjarins horfa á kennslumyndbönd í skólastofunni á meðan kennarinn sinnir hinum nemendunum og svo skipta hóparnir um stað. Þannig myndast meiri tími kennara með nemendum. Þessi aðferð hentar t.d. ungum nemendum eða nemendum sem eiga í námserfiðleikum og skortir allan drifkraft. Einnig getur þetta leyst málin þar sem kennari vill nota vendinám en nemendur hafa ekki aðgang að tölvum eða interneti heima.

Að lokum kynnir Jon fyrir okkur „speglaða endurgjöf“ (e. Flipped Feedback) sem fer þannig fram að kennari fer yfir verkefni nemenda í upptöku sem svo er send beint á viðkomandi nemenda í tölvupósti. Hægt er að nota hvaða forrit eða smáforrit í spjaldtölvu sem er, aðal atriðið er að kennarinn er að tala beint við nemandann, getur skrifað inná leiðréttingar og athugasemdir, hann getur hrósað og leiðbeint á jákvæðan hátt. Fyrir nemandann skilur þetta meira eftir heldur en ef hann hefði fengið verkefnið til baka á blaði með rauðum strikum sem hann kannski áttar sig ekki á.

Þessa aðferð hef ég verið að nota í minni kennslu síðan ég heyrði Jon fyrst tala um þetta vorið 2012 og ég hef fengið mjög góða viðbrögð frá mínum nemendum. Stóra breytingin er sú að það er auðvelt að hrósa, tala um framfarir frá því síðast, leiðbeina og útskýra hvað er vitlaust og hvað þarf að gera til að þetta verði rétt. Einnig hægt að tala um að sumar villur séu algengar, að þetta orð sé ekki vitlaust, en væri betra að nota annað orð o.s.frv. Nemendur nenna frekar að hlusta að svona endurgjöf heldur en að reyna að klóra sig í gegnum rauðstrikuð blöð eða „track changes“ í word. Hér er dæmi um hvernig ég nota þessa aðferð.

Jon hvetur kennara til að láta nemendur laga verkefnin sem þau fá til baka með speglaðri endurgjöf, þannig skilar endurgjöfin sér best.

 

Rannsóknargrein – Peer Teaching in a Flipped Teacher Education Classroom

Peer Teaching in a Flipped Teacher Education Classroom

Graziano, K. J. (e.d.). Peer Teaching in a Flipped Teacher Education Classroom. TechTrends. Sótt af http://link.springer.com/article/10.1007/s11528-016-0077-9

Inngangur

Greinin sem ég valdi að skrifa um heitir Peer Teaching in a Flipped Teacher Education Classroom eftir Kevin J. Graziano. Hún var birt í tímaritinu Tech Trends: Linking Recearch and Practice to Improve Learning – A publication of the Association for Educational Communications & Technology. Greinin birtist í netútgáfu tímaritsins þann 11. Maí 2016. Tímaritið hefur verið gefið út uþb 6 sinnum á ári síðan árið 1985 og er leiðandi tímarit í faglegri umræðu um samskipti og tækni á sviði menntamála. Áður hét tímaritið Tech trends for leaders in education and training. Greinina fann ég í gegnum Google Scholar og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég finn hefur ennþá enginn vitnað formlega í hana, en hún er líka fremur nýleg.

Ég mun segja frá ástæðunni fyrir því að ég valdi að fjalla um þessa rannsóknargrein í þessu verkefni. Einnig mun ég fjalla örstutt um höfund greinarinnar og segja frá því helsta sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Svo fjalla ég um innihald greinarinnar og skoða rannsóknarspurningarnar. Þá segi ég frá helstu niðurstöðum, tengi hana fræðunum. Að lokum set ég fram mitt álit á greininni og framlagi hennar til fræðanna.

Hvers vegna þessi rannsóknargrein?

Þessi grein vakti strax áhuga minn því ég hef verið að vinna með kennsluaðferðina vendinám (e.  flipped classroom) undanfarin ár og það er sú aðferð sem minn vinnustaður hvetur kennara til að nota. Ég hef samt ekki lesið margar greinar um vendinám. Greinin fjallar um að kynna vendinám fyrir kennaranemum með það fyrir augum að  þeir geti nýtt þá kennsluaðferð þegar þeir byrja að kenna. Ég er sjálf kennaranemi og hefði viljað sjá meiri kynningu á þessari hugmyndafræði í mínu háskólanámi. Þar að auki hef ég sjálf séð marga kosti þessarar aðferðar fyrir fullorðna nemendur og var því áhugasöm um það, að hvaða niðurstöðu höfundur greinarinnar kemst.

Um höfundinn

Kevin Graziano er Doktor í menntunarfræðum í Háskólanum í San Francisco, með aðáherslu á alþjólega- og fjölþjóðlega menntun. Einnig hefur hann rannsakað tækni sem nýtist í menntun. Hann er með mastersgráðu í Vísindum frá Central Connecticut State Háskólanum í New Britain. Þar var aðaláhersla hans á ráðgjöf, þroska nemenda ásamt því að sérhæfa sig í framhaldsmenntun. Hann hefur sinnt kennslu og rannsóknum á menntun kennara, tækni í skólastarfi og ensku sem erlent mál. Greinar eftir hann hafa birst víða og hann kom einnig að útgáfu bókarinnar Online Teaching in K-12: Models, Methods, and Best Practices for Teachers and Administrators. (Nevada State College, e.d.).

Innihald greinarinnar

Í úrdrætti greinarinnar kemur fram að fleiri og fleiri skólastjórar og yfirmenn ætlast til þess að nýir kennarar hafi fengið kynningu á vendinámi í sínu kennaranámi og geti nýtt sér það um leið og þeir byrja að kenna. Markmiðið með þessari rannsókn var að greina kosti vendináms í kennaranámi og þær áskoranir sem aðferðin ber með sér fyrir kennaranema, ásamt því að skoða hvaða áhrif „flippuð“ uppsetning áfangans hefur á skilning nemenda á innihaldinu.

Kostir vendináms eru rökræddir víða um þessar mundir og því hefur verið haldið fram að þessi aðferð ýti undir virkni nemenda og nútímalegra skipulag á námskeiðum. Í ljósi þessara umræðna í samfélaginu, veltir höfundur upp þremur rannsóknarspurningum:

 • Hverjir eru kostirnir við að nota vendinám fyrir kennaranema til að kenna þeim að nota aðferðina?
 • Hverjar eru áskoranirnar fyrir nýja kennara sem vilja nýta sér aðferðafræði vendináms?
 • Hversu mikið vita kennaranemar um námsefnið sem þeir eiga að kenna samnemendum eftir hugmyndafræði vendináms?
 • Hversu mikið vita kennaranemar um námsefnið sem samnemendur þeirra hafa kennt þeim eftir hugmyndafræði vendináms?
 • Eftir að hafa upplifað kennslu á þennan hátt, hversu líklegt er að kennaranemar nýti sér vendinám þegar þeir verða kennarar?

Tilgangur verkefnisins var að rannsaka upplifun kennaranema sem upplifðu nám í vendinámsumhverfi, að finna kosti og galla vendináms og að varpa ljósi á það hversu mikið skipulag námskeiðsins hefur áhrif á skilning nemenda á innihaldinu.

Niðurstaðan gefur til kynna að þær kennslustundir sem nemendur kenndu með vendináms aðferðafræðinni hafi verið bæði gagnvirkar og skemmtilegar, og nemendur töluðu sjálfir um það að þeir hafi verið virkari og áhugasamir um fagið en þeir voru vanir. Hinsvegar kemur það fram að það var dálítið erfitt fyrir nemendur að undirbúa og framkvæma innihaldsríkar kennslustundir þar sem innihaldið skilaði sér almennilega til samnemenda þeirra. Í lokin er svo farið yfir nokkrar hagkvæmar lausnir og tillögur að því hvernig má innleiða vendinám á árangursríkan hátt.

Rannsóknaraðferð

Þessi rannsókn var framkvæmd í kennaraskóla þar sem Graziano kennir á hverju hausti námskeið sem heitir„a second language acquisition course“. Yfirleitt notaði hann kennslumódelið kennsla, æfing, ígrundun (e. Teach, apply, reflect) en haustið 2013 gerði hann tilraun á því hvað myndi gerast ef hann setti námskeiðið upp sem vendinám.

Þátttakendur í þessari rannsókn voru 24 kennaranemar á bakkalár stigi í háskóla. 21 kona og 3 karlmenn. Allir þátttakendur höfðu lokið vettvangsnámi, voru skráðir í eða höfðu lokið námskeiði í aðferðafræði og höfðu takmarkaða kennslureynslu. Enginn af þátttakendunum höfðu reynslu af því að nota vendinám í kennslu eða námi. Þátttakendur voru nemendur í námskeiðinu hjá Graziano og fengu í fyrstu kennslustund að vita að námskeiðið yrði svona sett upp. Allir höfðu því nægjanlegt svigrúm til að segja sig úr því eða velja að taka það með hefðbundinni uppsetningu, en enginn hætti við.

Í byrjun fengu nemendur kennslu í fyrirbærinu vendinám, fyrstu tvær vikurnar fóru í það og þau fengu að kynnast aðferðunum á lifandi og virkan hátt. Þau lásu rannsóknir og ræddu innihaldið, horfðu á upptökur af öðrum kennurum að venda sínum kennsluaðferðum. Nemendur voru hvattir til þess að tileinka sér gagnrýna hugsun og nota ekki hefðbundnar aðferðir við kennsluna. Svo var nemendum raðað í pör og þau fengu að velja sér hvaða hluta af námsefninu þeir vildu kenna. Þeir völdu þá kafla úr námsbókinni og tilsvarandi myndbönd eða upptökur sem kennarinn hafði útbúið fyrirfram og allir nemendur höfðu aðgang að. Í 12 vikur skiptust nemendur á að kenna efnið eftir forskrift vendináms, þ.e. allir horfðu á innlögn heima og svo var unnið með efnið í ca 30 – 40 mínútur. Í lok tímans fékk kennarinn athygli nemendanna og hann fór yfir frammistöðu þeirra í tímanum, til að styrkja þekkingu þeirra á þessari kennsluaðferð. Nemendur fengu svo endurgjöf á kennsluáætlun sína sem þeir skiluðu til kennarans eftir tímann.

Nemendur þurftu að gæta þess að kennslustundin þeirra myndi innihalda öll átta atriðin af lista sem kallast SIOP módelið (e. Sheltered Instruction Observation Protocol). Samkvæmt heimasíðu CAL (e. Center for Applied Lingustics) er SIOP kennslufræðilegt módel sem hefur verið notað með góðum árangri í enskukennslu í Bandaríkjunum. Módelið samanstendur af átta ótengdum atriðum:

 • Undirbúningur fyrir kennslustund
 • Byggja upp bakgrunn
 • Yfirgripsmikil innlögn
 • Reglur
 • Umræður
 • Æfingar / beiting efnisins
 • Verkefnaskil
 • Upprifjun og mat

Miða við þær upplýsingar sem eru á heimasíðu CAL gagnast SIOP módelið kennurum til að skipuleggja og framkvæma kennslustundir sem hentar sérstaklega vel þeim sem eru að læra ensku. (Center for Applied Linguistics, e.d.).

Í þessari rannsókn safnaði Graziano gögnum með ýmsum leiðum; hann fylgdist með nemendum í kennslustofunni í 4 mánuði, átti óformleg samtöl við nemendur, skoðaði SIOP kennsluáætlanir nemenda og lagði könnun fyrir nemendur á síðasta degi annarinnar. Það sem Graziano lagði áherslu á í úrvinnslu gagnanna var að skilja hvernig þessi rannsókn legði eitthvað af mörkum inn í umræðuna um kosti og galla vendináms í kennaranámi, ásamt því að skilja hversu mikil áhrif skipulag námskeiðsins hefði á nám nemenda. Vandi Grazianos var sá að hlutleysi hans sem fræðimanns var ekki til staðar, þar sem hann var bæði kennarinn á námskeiðinu og rannsakandinn.

Niðurstöður og fyrirvarar

Graziano setur niðurstöður sínar fram á mjög skipulegan hátt, svarar öllum rannsóknarspurningunum eftir bestu getu.

Svörin við fyrstu rannsóknarspurningunni „Hverjir eru kostirnir við að nota vendinám fyrir kennaranema til að kenna þeim að nota aðferðina?“ geta fallið undir tvö megin þemu. Annað þemað gæti kallast „gagnvirk kennsla“. Nemendur minntust á það að þeir kjósa að vera virkir í kennslustund og taka það framyfir að sitja óvirkir og hlusta. Þeir tala um að í vendinámi séu meiri samskipti milli nemenda og kennara, að skipulagið gefi svigrúm til að vinna erfiðustu hlutina í skólastofunni með aðstoð kennarans og að kennarinn hafi meiri tíma til að útskýra námsefnið og vinna með nemendunum. Einnig kom fram að nemendur hefðu ekki haft neitt val, þeir yrðu að koma undirbúnir í tíma því ekki færi fram neinn fyrirlestur um efni dagsins. Nemendur virðast hafa kunnað að meta það svigrúm sem þessi aðferð veitti þeim til að kenna efnið, þeir máttu sjálfir velja hvernig þeir komu því til skila til samnemenda sinna. Vendinámið þvingaði þau til að taka ábyrgð á bæði sínu eigin námi en einnig námi samnemenda sinna.

Hitt þemað mætti kalla „framleiðni og undirbúningur fyrir kennslu framtíðarinnar“. Nemendur töluðu um að vera bæði áhugasamari og virkari inni í kennslustofunni, og upplifðu sjaldan að tíma þeirra væri sóað. Þeir voru spenntir að sjá hvernig samnemendur þeirra myndu leysa kennsluna og voru sáttir við jafnvægið á milli jafningjafræðslu, upplýsingum frá kennaranum og þeirra eigin vinnu. Kosturinn við að læra af samnemendum var að þá fór kennslan oft fram með þeirra eigin orðaforða og á þeirra getustigi. Nemendur töluðu líka um að þeim líkaði vel tilfinningin að vera „sérfræðingur“ í því sem þeir kenndu, fá tækifæri til að æfa kennsluhæfileikana og öðlast dýpri skilning á SIOP módelinu. Nemendur virðast hafa farið út úr hverjum tíma fullir af innblæstri og hugmyndum um hvernig þeir vildu haga sinni kennslu í framtíðinni.

Rannsóknarspurning tvö var á þessa leið: „Hverjar eru áskoranirnar fyrir nýja kennara sem vilja nýta sér aðferðafræði vendináms?“ Svörin við henni má einnig flokka í tvö þemu. Annað þemað fjallar um það að ná athygli fullorðinna nemenda og hvernig má skipuleggja kennslustundir sem vekja áhuga og ýta undir virkni, án þess að detta niður á kennsluaðferðir sem henta fremur í grunnskóla. Sumum fannst erfitt að átta sig á því hvort kennslan hefði skilað sér til samnemenda, fundu jafnvel fyrir stressi sem hindraði þá í að sýna sínar bestu hliðar í kennslunni. Einnig kom fram að það hefði verið erfitt að kenna efni sem allir höfðu þegar lært af kennslumyndböndum.

Hitt þemað fjallar um tímastjórnun. Tími er mjög dýrmætur fyrir unga kennara sem eru að hugsa um að útbúa sínar eigin upptökur þegar þeir byrja að kenna. Nemendur sáu alveg kosti við það að nota upptökur í stað innlagnar í tímum og hvernig það væri tímasparnaður til lengri tíma litið. En þeirra hugmyndir um forgangsröðun verkefna fyrstu árin í kennslu voru aðallega að setja sig inn í námsefnið, ná tökum á agastjórnun í kennslustofunni, kynnast foreldrum og skipuleggja kennsluna frekar en að nota tímann í að búa til upptökur fyrir vendinám. Einnig kom fram sú skoðun að best væri að innlögnin færi fram í skólastofunni svo nemendur gætu spurt spurninga jafn óðum. Vanmáttur gagnvart tækninni var líka nefndur sem ástæða fyrir því að upptökur yrðu líklega ekki það fyrsta sem þau tækju sér fyrir hendur í nýju starfi sem kennarar.

Þriðja rannsóknarspurningin var: „Hversu mikið vita kennaranemar um námsefnið sem þeir eiga að kenna samnemendum eftir hugmyndafræði vendináms?“ 20 af 24 svöruðu þessu sem svo að nemarnir væru mjög eða frekar fróðir um efnið sem þeir voru að kenna. Algengast var að nemendur hefðu sýnt ábyrgð í kennslunni og sinnt þessu verkefni vel. En þegar niðurstöður kennarans voru skoðaðar, kom í ljós að nemendur hefðu einungis sýnt grunna þekkingu á bæði námsefninu og gerð alhliða kennsluáætlunar. Færni nemenda var ekki nógu góð í átta þáttum SIOP módelsins heldur hafði hvert nemendapar framkvæmt skemmtilegar og gagnvirkar kennslustundir en einangraðar frá öðrum þáttum námskeiðsins. Niðurstaða kennarans var því að nemendur hefðu ekki sýnt fram á þá hæfni sem leitað var að t.d. að virkja nemendur fyrir alvöru, hvetja til gagnrýninnar hugsunar og uppskera að fullu þá kosti sem gætu fylgt vendinámi og því samstarfi sem lagt var upp með hér.

Rannsóknarspurningu númer 4; „Hversu mikið vita kennaranemar um námsefnið sem samnemendur þeirra hafa kennt þeim eftir hugmyndafræði vendináms?“  var svarað af 23 á þá leið að nemendur væru fróðir eða nokkuð fróðir um það námsefni sem samnemendur þeirra kenndu þeim með vendinámi.

Fimmta og síðasta rannsóknarspurningin var „Eftir að hafa upplifað kennslu á þennan hátt, hversu líklegt er að kennaranemar nýti sér vendinám þegar þeir verða kennarar?“ Flestir nemendurnir töldu það mjög líklegt eða líklegt að þeir myndu nýta sér vendinám þegar þeir verða kennarar. Þeir sem voru með efasemdir, rökstuddu það með því að þessi aðferð hentaði betur fyrir efri skólastig og þeir stefndu á að vinna með ung börn í grunnskóla. Einnig komu fram þau rök að þessi aðferð hentaði betur fyrir stærðfræði og raungreinar, en eins vel í ensku.

Graziano dregur saman niðurstöðurnar og fer yfir kosti og galla. Hann heldur því fram að sérstaklega í kennaranámi sé mikilvægt að nemendur fái að kynnast fjölbreyttum kennsluaðferðum sem virki nemendur, því rannsóknir sýni að kennarar eigi það til að haga kennslu sinni eftir því hvernig þeim sjálfum var kennt. Einnig segir hann frá því að rannsóknir sýni fram á það að gagnvirkni í tímum hafi jákvæð áhrif á upplifun nemenda og að það sitji meira eftir af námsefninu ef nemendur eru virkir í stað þess að sitja óvirkir undir fyrirlestrum. Þessi tilraun leyfði nemendum ekki bara að vera í stöðugum samskiptum við kennara námskeiðsins, heldur voru þau í stanslausum samskiptum við hvert annað, sem gaf þeim tækifæri til að tengja enn frekar fræðin við raunveruleikann.

Það sem Graziano sér sem helstu áskoranirnar að vinna úr eftir þetta verkefni, er tæknihræðsla kennaranemanna og að þeir treysti sér ekki í upptökur á kennslumyndböndum. Hann spyr hvort skólinn sé þá kannski ekki að senda frá sér nægjanlega tæknilegt fólk og hvort þar þurfi úrbætur. Tímaskortur er einnig áskorun sem þarf að vinna úr, þar stingur hann uppá því að kenna nemendum betur að sækja sér upplýsingar um þá þætti sem þeim skortir, þannig að bætt tölvukunnátta og lausnamiðuð hugsun saman gæti leyst bæði tæknihræðsluna og tímaskortinn.

Einnig nefnir hann að skólar gætu gert meira fyrir kennara sem langar að útbúa kennslumyndbönd, sett reglulega upp námskeið í þeim þáttum sem kennurum skortir þekkingu og sjálfstraust, jafnvel gætu þetta verið sumarnámskeið. Hin leiðin er svo líka að nýta sér efni á netinu sem er öllum opið. Hann minnist samt á það að það er mælt með því að kennarar taki upp sitt eigið efni, til að mynda sterkari tengingu milli nemenda og kennara. Það er líka ástæðan fyrir því að mælt er með að hafa mynd af kennaranum í einu horninu í myndbandinu. Einnig nefnir hann sem lausn að vinna bara hluta af efninu í upptökur, annað er hægt að leggja inn í kennslustund.

Hvað varðar nemendur sem kennara í þessari tilraun, kom það í ljós að nemendum fannst það hafa gengið nokkuð vel og að þeir hefðu bæði upplifað að þeir hefðu haft þekkingu til að kenna og að samnemendur þeirra hefðu haft þekkingu til að kenna þeim námsefnið þannig að þeir fengju eitthvað út úr því. Samkvæmt Graziano benda rannsóknir til þess að jafningjakennsla þvingi nemendur til að tala saman um efnið og vera virkir í kennslustundum, sem getur haft jákvæð áhrif á áhugann til að læra. Því má segja að kenningum samkvæmt hefðu nemendur átt að geta leyst þetta vel, en miðað við upplifun kennarans af frammistöðu þeirra bæði í kennslustofunni og út frá kennsluáætlunum þeirra, hefðu þeir geta gert betur. Það sem þeim tókst vel var að skapa skemmtilegar kennslustundir með mikilli virkni nemenda, en þeim tókst ekki nægjanlega vel að komast á dýptina með námsefnið og útskýra það fyrir öðrum. Graziano segir að þessar misvísandi niðurstöður þurfi að rannsaka nánar í framtíðinni.

Hann segist ekki hafa áttað sig á því þegar hann var að skipuleggja þetta námskeið, að nemendur hefðu takmarkaða reynslu í því að skrifa kennsluáætlanir og að kenna. Þessi reynsluskortur hefur líklega gert það að verkum að nemendur settu mestu orkuna í að setja sig inn í hugmyndafræði vendináms og að skemmta samnemendum sínum í kennslustundum, frekar en að leggja áherslu á sjálft námsefnið. Einnig gæti þetta verið skýring á því af hverju nemendum fannst kennslan kannski fremur henta á grunnskólastigi.

Graziano segist ekki hafa rannsakað af hverju meirihluti nemenda segist ætla að nota vendinám í framtíðinni, en hann giskar á að þeir hafi haft jákvæða upplifun af samskiptum sín á milli og við kennarann í námskeiðinu. Einnig telur hann það hafa heillað nemendur að hafa möguleika á að læra hvar sem er og hvenær sem er, nemendamiðuð kennsla, möguleika á að nota tæknina í kennslu eða einfaldlega höfði það til þeirra að prufa nýjar kennsluaðferðir. Hann bendir á það að ef þessi rannsókn yrði endurtekin væri betra að tryggja að nemendur hefðu góðan bakgrunn í kennslu og aðferðafræði, til að þeir komist betur inn í kennsluna og geti skilað námsefninu frá sér á dýpri hátt.

Lokaniðurstaða Grazinos er sú að það vantar sárlega fleiri rannsóknir á vendinámi á öllum skólastigum, svo hægt sé að læra um þessa hugmyndafræði á vísindalegan hátt. Hins vegar segir hann líka að kennarar eiga líka endilega að prufa sig áfram með þessa kennsluaðferð, því auðvitað sé ekki hægt að bíða með að taka í notkun aðferðir þar til það sé vísindalega sannað að þær séu til góðs. Lokasetning Grazinos í þessari grein er tilvitnun í grein Goodvin, B. og Miller, K. þar sem er biðlað til kennara að íhuga vandlega eftirfarandi: „Endurspeglar ætlaður ávinningur af vendinámi þau grunngildi í árangursríkri kennslu og námi sem rannsóknir hafa sýnt fram á?“

Tengsl við fræðin

Í gegnum tíðina hefur vendinám verið lítið rannsakað enda ekki nema uþb 10 ár síðan Jonathan Bergman og Aaron Sams duttu niður á þessa hugmyndafræði og í framhaldinu þetta hugtak „Flipped Classroom“. (Bergmann og Sams, 2012). Robert Talbert skrifaði í júní 2016 á bloggsíðu sinni að greinum og rannsóknum um vendinám fjölgi mjög hratt um þessar mundir og að það sé orðin gömul tugga að engar rannsóknir séu til. Það skiptir líka töluverðu máli að muna að í raun fer hugtakið „flipped classroom“ ekki á flug fyrr en árið 2010 og því er lítið að gerast í skrifum og rannsóknum um vendinám fyrr en eftir það. Tímaramminn er því mjög stuttur og því eðlilegt að ekki sé hægt að finna mjög gamlar rannsóknir um þessa kennsluaðferð.

En þessi grein sem liggur til grundvallar hér, tengist fræðunum á ýmsa vegu. Vendinám passar vel við margt í kenningum Malcolm Knowles um nám fullorðinna. T.d. mikilvægi þess að kennslan sé verkefnamiðuð fremur en utanbókalærdómur (Smith, M. K. 2002). Það er einmitt það sem Grazino gerir í sinni rannsókn, hann kennir nemendum að nota vendinám með því að leyfa þeim að nota vendinám og reka sig á kosti þess og galla á eigin skinni.

Einnig gefur Grazino nemendum sínum möguleika á að velja sér af kennsluáætlun áfangans, hvaða efni þeir vilja kenna og eins hafa þeir svigrúm til að velja sjálfir hvaða aðferðir þeir nota í kennslustundinni. Það er í takt við það sem flestir kennismiðir fullorðinsfræðslu segja, að mikilvægt sé að leyfa nemendum að hafa áhrif á sitt eigið nám og setja skipulagið þannig upp að þeim finnist þeir hafa eitthvað val. Raymond J. Wlodkowski (2008) kemur inn á þetta í bók sinni Enchancing Adult Motivation to Learn. Þar fjallar hann m.a. um viðhorf til náms og að til að það megi verða jákvætt sé mikilvægt að fullorðnir nemendur upplifi námið gagnist þeim, að þeir hafi eitthvað val og geti notað sinn frjálsa vilja.

Hverju bætir greinin við umræðu um viðfangsefnið

Þessi grein kemur inn með afmarkað sjónarhorn á vendinám fyrir kennaranema sem eru á leið út í skólana í kennslu þar sem í auknu mæli er ætlast til að þeir þekki og geti nýtt sér vendinám að einhverju marki. Það er athyglisvert að lesa hvernig allir nemendur voru fengnir til að kenna samnemendum sínum eina kennslustund í sínum eigin áfanga og hversu stórt bil var á milli upplifun nemenda sem flestum fannst þetta ganga nokkuð vel og upplifun kennarans sem var ekki alveg nógu sáttur við fagmennsku nemenda, fannst þau ekki komast nógu djúpt ofan í námsefnið. Það litla sem ég hef séð af greinum um vendinám hefur engin þeirra fjallað um mikilvægi þess að tryggja það að kennaranemar kynnist þessari aðferð í skólanum, áður en þeir byrja að kenna. Enda er þetta svo ný kennsluaðferð að það er ekkert skrítið. Í því ljósi er þessi grein mikilvæg og á fullt erindi inn á borð t.d. þeirra sem skipuleggja kennaranám á Íslandi.

Mitt álit á greininni og framlagi hennar til fræðanna

Eftir lestur þessarar greinar er ég hugsi yfir ýmsu. Ég er mjög hlynnt því að kennaranemar fái að kynnast því að kenna með vendinámi í sínu kennaranámi. En mér finnst gagnrýni Grazinos á sína nemendur dálítið hörð, einmitt í ljósi þess að þeir eru ennþá nemendur. Ég velti samt fyrir mér hvort ekki væri reynandi að gera þessa rannsókn aftur með aðeins öðrum áherslum. Ef marka má orð hans sjálfs í upphafi greinarinnar, að kennarar eigi það til að haga kennslu sinni eftir því hvernig þeim sjálfum var kennt, mætti þá ekki halda því fram að það væri nóg að kenna kennaranemum með vendinámi og þannig veita þeim innblástur til framtíðar? Ekki misskilja mig, ég er mjög hlynnt því að kennaranemar fái að kenna með þessari kennsluaðferð, en ég gæti trúað því að það yrði markvissara og að þeir kæmust dýpra í námsefnið ef þeir væru sjálfir að kenna t.d. í æfingarkennslu eða sjálfstæð námskeið. Ég er ekkert hissa á því að nemendapörum sem er úthlutað einni kennslustund yfir önnina til að kenna efni sem þeirra kennari hefur þegar útbúið kennslumyndband um, takist ekki að framkvæma innihaldsríka kennslu á efninu á þeim rúma hálftíma sem þeim virtist vera úthlutað. Mín reynsla er sú að til að geta framkvæmt vendinám almennilega þarf kennari að hugsa það frá upphafi námskeiðs til enda, þekkja allt námsefnið vel, búa til sjálfur eða amk þekkja öll kennslumyndböndin vel og vita nákvæmlega hvert markmiðið með námskeiðinu er.

Ég held að þessi rannsókn sé mjög jákvætt innlegg inn í umræðuna um vendinám, en ég held að það mætti líta öðrum augum á niðurstöðuna og muna að þarna eru kennaranemar að reyna að fóta sig í nýrri kennsluaðferð undir vökulum augum kennarans síns sem greinilega gerir mjög miklar og faglega flóknar væntingar til sinna nemenda.

Þessi grein á fullt erindi inn í okkar námskeið „Fullorðnir námsmenn og aðstæður þeirra“ að því leyti að þarna er verið að fjalla um kennaranema sem eru fullorðnir námsmenn og nálgast því námið sitt sem slíkir. Einnig er kennsluaðferðin vendinám hugsuð þannig að hana má auðveldlega útfæra svo hún henti vel fyrir fullorðna námsmenn sem vilja setja mark sitt á námið sitt og hafa eitthvað um það að segja, t.d. á hvaða hraða þeir fara í gegnum efnið, á hvað þeir leggja áherslur. Einnig skapast gjarnan meiri tími í kennslustundum fyrir nemendur að vinna saman og það gefur kennurum möguleika á að leggja fyrir fjölbreyttari verkefni og æfingar; hvorutveggja er eitthvað sem gjarnan hentar fullorðnum námsmönnum vel.

Heimildir:

Bergmann, J. og Sams, A. (2012). Flip your classroom. Reach Every Student in Every Class Every Day. United States of America: International Society for Technoloy in Education.

Center for Applied Linguistics. (e.d.). Learn about SIOP. Sótt 18. nóvember 2016 af http://www.cal.org/siop/about/

Goodwin, B., og Miller, K. (2013). Evidence on flipped classrooms is still coming in. Educational Leadership, 70(6), 78-80.

Graziano, K. J. (2016). Peer Teaching in a Flipped Teacher Education Classroom. TechTrends, 1-9.

Nevada State College. (e.d.). Our faculty & staff. Sótt 19. nóvember 2016 af  http://nsc.edu/education/our-faculty-and-staff/kevin-graziano-edd.aspx

Smith, M. K. (2002) Malcolm Knowles, informal adult education, self-direction and andragogy. The encylopedia of informal education. Sótt 25. Nóvember 2016 af www.infed.org/thinkers/et-knowl.htm.

Talbert, R. (2016). How much reacherch has been done on flipped learning? Casting Out Nines – Blog Sótt 22. nóvember 2016 http://rtalbert.org/blog/2016/how-much-research

Wlodkowski, R.J. (2008). Enchancing Adult Motivation to Learn. A comprehensive Guide for Teaching All Adults. San Francisco: Jossey-Bass, A Wiley Imprint.

 

Vendinám – Lotur 2 og 3

Unit 2 – Planning for Flipped Learning (Lota 2 – Skipulag vendináms)

Í lotu tvö í netnámskeiði Jon Bergmann er aðaláherslan lögð á skipulag vendináms og hvernig það er öðruvísi en hefðbundin kennsla.

Til að byrja með kynnir Jon fyrir okkur þá skilgreiningu á vendinámi sem Vendinámssamtökin (e. The flipped learning network) skilgreindu í sameiningu fyrir nokkrum árum. Margir hafa reynt að skilgreina vendinám og útskýra út á hvað það gengur, en með misjöfnum árangri.

Skilgreining Jon er svona:

„Flipped learning is a pedagogical approach in which direct instructions moves from the group space to the individual space, and the resulting group space is transformed into a dynamic interactive learning  environment where the educator guides students as they apply concepts and creatively engage creatively in the subject matter“. 

Algengt er að útskýra vendinám svona: „Fyrirlestur heima og heimanámið unnið í tíma“. Það sem er öðruvísi hér en í flestum öðrum skilgreiningum á vendinámi, er að orðið group space (hóparými) kemur í stað „tíma/kennslustund“ og individual space (einstaklings rými) kemur í stað „heima“.  Þetta eru sambærilegar útskýringar en skilgreiningin hér að ofan er mun nákvæmari og lýsir hugmyndafræðinni á dýpri hátt.

Jon teiknar þetta upp í töflu:

24-11-2016-15-25-05
Munurinn á hefðbundinni kennslu og vendinámi.

Nákvæm kennsluáætlun verður ennþá mikilvægari í vendinámi, því kennarinn þarf að átta sig á því hver kjarninn er í námsefninu og leggja áhersluna þar. Mikilvægt að nemendur hafi aðgang að nákvæmari kennsluáætlun, það gefur þeim betri yfirsýn.

Þegar kennslustundir eru skipulagðar í vendinámi er sniðugt að hugsa ferlið í þremur hlutum:

Áður (e. before) er innlögn, upptaka eða texti sem framkvæmt er einstaklingslega (e. individual space).

Á meðan (e. during) eru æfingar, beiting og ígrundun á efninu oftast framkvæmt í hóparýminu (e. group space).

Eftir (e. after) er efnið tengt við langtíma markmiðin og sett í samhengi. Þetta getur líka átt sér stað í hóparýminu (e. group space).

Jon setur þetta líka upp í töflu, undir heitunum „I do – we do – you do“

mynd-2-5
Munurinn á því hvernig „I do – we do – you dou“ taflan breytist þegar hefðbundinni kennslu er „flippað“.

Unit 3 – Best practice in Flipped Learning (Lota 2 – Bestu aðferðirnar í vendinámi)

Í lotu þrjú í netnámskeiði Jon Bergmann ræðir hann um þær aðferðir sem hann hefur séð í gegnum tíðina að virka best.

Í því sem hann kallar einstaklingsrými hlusta nemendur á upptökur kennara í stað fyrirlestra í kennslustund. Jon leggur áherslu á að myndböndin séu stutt og að einungis sé fjallað um eitt atriði í hverju myndbandi. Hvað lengdina varðar, eru tvær þumalputtareglur sem gott er að fara eftir:

a) Að aldur nemenda gefi til kynna hámarkslengd myndbandsins (6 ára – max 6 mín)

b) Að margfalda bekkjarnúmer með 1,5 (4 bekkur x 1,5 = 6 mín)

Einnig leggur Jon áherslu á að þegar myndbönd eru send heim sem heimavinna, eigi þau helst að vera eina heimavinnan – eins og hann orðar það: „Don’t add – replace“. Þá á hann við að það eigi ekki að bæta kennslumyndböndum ofan á annað hefðbundið heimanám. Þetta er partur af því að kennarar þurfa að hugsa allt kennsluferlið sitt upp á nýtt.

Að lokum talar hann um að það sé mjög afgerandi að auðvelt sé fyrir nemendur að nálgast kennslumyndböndin, ekki hafa uppsetninguna þannig að þau þurfi að opna margar mismunandi síður og smella á marga staði til að finna rétta myndbandið. Hann nefnir QR kóða sem gott dæmi um auðvelt aðgengi.

Jon leggur mikla áherslu á að kennarar búi til sitt eigið kennsluefni og taki upp sín eigin myndbönd. Vissulega sé hægt að blanda þessu aðeins og nýta sér góð myndbönd sem fyrir eru á opnum síðum á netinu, en það þurfi helst að vera í bland með efni frá kennaranum. Það byggir upp betra samband milli nemenda og kennara, ýtir undir traust og er persónulegra að öllu leyti. Hann leggur líka til að kennarar virki nemendur í myndbandagerð. Kennarar og nemendur gætu búið til myndbönd saman, átt í samræðum um námsefnið og hugsað þetta dálítið sem útvarpsþátt. Þannig gætu skapast einna bestu kennsluskilyrðin að hans mati.

Jon útskýrir mikilvægi þess að nemendur eigi í gagnvirkum samskiptum við kennarann í einstaklingsrýminu á meðan þau horfa á kennslumyndböndin. Því er ekki nóg að bara horfa, heldur þarf virk hlustun að eiga sér stað. Kennari getur beðið nemendur um að skrifa hjá sér spurningu eina eða fleiri, úr námsefninu. Jon bendir á að þarna strax séum við að koma til móts við fleiri en almennt í skólastofum í dag, því alls ekki allir þori að bera fram spurningar í tímum. Kennari gengur svo á milli nemenda og skoðar spurningarnar úr fyrirlestrinum. Einnig er hægt að nýta tæknina til að biðja nemendur um spurningar í miðju myndbandi og biðja jafnvel um opna spurningu í lok myndbandsins. Þannig fær kennari fullt af góðum upplýsingum sem hægt er að vinna með í tímanum daginn eftir.

Einnig er til tækni sem kennari getur nýtt til að fylgjast með lestri nemenda og ýta undir hann. Þá er texti settur á netið og hægt er að mæla hversu lengi nemandi er lengi að lesa hann. Svo eru settar spurningar inn á milli og líka hægt að setja myndband inn í textann. Allt þetta getur gefið kennaranum betri yfirsýn og betri tilfinningu fyrir stöðu nemenda í efninu.

Í framhaldi af þessu talar Jon um ábyrgð nemenda og spurninguna sígildu sem kennarar spyrja gjarnan „hvað ef nemendur horfa ekki á innlagnirnar?“ Jon segir frá því að einn af möguleikunum sé að skoða glósur nemenda úr fyrirlestrinum og tengja jafnvel á einhvern hátt við einkunn. Ef einhver horfði ekki heima var hann settur aftast og látinn hlusta í tíma, en missti þá jafnframt af æfingunum sem fóru fram með kennaranum í tímanum. Mikilvægt í þessu samhengi að muna „Aldrei að halda fyrirlestur í tíma ef nemendur hafa ekki hlustað heima„. Þá refsarðu þeim sem voru duglegir að hlusta og verðlaunar þau sem voru löt og unnu ekki heimavinnuna. Það eina sem kennarar fá út úr því er að tryggja að næst mun enginn hlusta.

Í vendinámi er líklegra að nemendur læri heima, kannski af því að þau geta það auðveldlega, öðruvísi en kannski heimanámið sem gjarnan var áður erfitt eða óyfirstíganlegt.

Jon bendir á mikilvægi þess að kenna nemendum að horfa á virkan hátt. Hann leggur til að kennarar horfi á eitt myndband með nemendum sínum í kennslustund og sýni þeim jafnvel dæmi um það hvernig hann myndi sjálfur glósa á meðan hann væri að hlusta. Svo lætur hann þau sjálf hlusta á annað myndband og fylgist með hvernig þau glósa. Þegar hann er tryggur við að þau kunni tæknina, sendir hann þau heim með kennslumyndbönd. Einnig væri hægt að vera með eyðublöð fyrir glósurnar, þeim til leiðbeiningar.

Samtímis leggur hann áherslu á að kennarar verða líka að gera ráð fyrir því að nemendur skilji ekki allt úr fyrirlestrunum. Eins og í kennslustofu ná sumir innihaldinu en aðrir ekki. Til að bregðast við þessu er sniðugt að láta nemendur svara t.d. 5 spurningum úr efni myndbandsins um leið og það klárast. Niðurstöðurnar fara í gagnabanka hjá kennaranum og þar sér hann strax, hverjir horfðu, hverjum gekk vel að skilja og hverjum ekki. Þá getur hann brugðist strax við í tímanum, tekið þá sem ekki skildu í stuttan umræðutíma um innihaldið og útskýrt nánar eða á annan hátt.

Hann minnir á að kennarar meiga ekki setja svo mikla áherslu á kennslumyndböndin að hóparýmið gleymist og verði ekki nógu markvisst. Aðalmálið í hóparýminu er að það sér meiriháttar, þýðingarmikið og gagnlegt.  Það er ágætt að vinna með æfingar, en gæta þess að bjóða upp á fjölbreytni.

Til að vendinám gangi vel þurfa nemendur að trúa á aðferðina og taka þátt. Oft eru það bestu nemendurnir sem sýna þessari aðferð mótstöðu og það er af því að þeir eru fyrir mjög góðir í því sem við köllum skólaleik, þ.e. þeir kunna reglurnar og vita hvað þeir þurfa að gera til að ganga vel. Því getur það reynst þeim erfitt þegar umgjörðin breytist skyndilega og leikurinn virkar allt öðruvísi en áður. Það sem ætti hins vegar að selja flestum nemendum þessa aðferð er að þeir hafa meiri tíma með kennaranum, það myndast sterkari tengsl við kennarann, minni tími í heimanám og nemendur hafa meira með hraðann að segja. Jon segir hér frá nemanda sem sagði honum að það besta við vendinám væri að nú þyrfti hún ekki lengur að halda aftur af vinum sínum í náminu. Hún var ein af þeim sem þurfti lengri tíma til að meðtaka hlutina og var gjarnan sú sem spurði eða að hennar mati tafði fyrir því að kennarinn gæti haldið áfram með fyrirlesturinn í tímanum. Því var henni mjög létt þegar hún þurfti ekki lengur að vera dragbítur á bekkjarfélögum sínum, allir gátu farið í gegnum námsefnið á sínum hraða. Gott ráð til að fá nemendur í lið með sér, er ef kennarinn tekur viðtöl við þá nemendur sem eru að ljúka námskeiði sem sett var upp sem vendinám og spyrja þá hvað þeim finnist best við þessa kennsluaðferð. Jafnvel útbúa myndband sem hægt er þá að sýna næstu nemendum sem koma í námskeiðið. Nýju nemendurnir munu líklega frekar taka mark á því sem jafningjar þeirra sega heldur en þó kennarinn reyni að útskýra þetta fyrir þeim.

Jon lætur fylgja með link á þessa samantekt sem hann gerði yfir það hvernig nemendur geta undirbúið sig fyrir vendinám.

Nineteen Ways for Students to Prepare for Flipped Classrooms

Fyrir yngri nemendur er líka mjög mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um kosti vendináms og viti út á hvað það gengur. Þar eru góð samskipti lykilatriðið og t.d. gæti verið gott ráð að bjóða foreldrum inn í skólann og sýna þeim hvernig þetta virkar. Hér er myndband sem gæti gagnast kennurum í vinnu þeirra með foreldrum:

Það sem skiptir máli að foreldrar átti sig á er að með þessari kennsluaðferð er meir gagnvirkni og meiri samskipti milli nemenda og kennara. Hægt er að setja kennarann á pásu og hlusta aftur og aftur á innlögnina. Einnig þarf að útskýra að áfanginn getur áfram verið erfiður, námsefnið verður áfram þungt og því ekki hægt að skella skuldinni eingöngu á aðferðina sem notðuð er, þó flestar rannsóknir sýni fram á það að flestum gengur betur að tileinka sér námsefnið í vendinámi. Hér er samantekt á nokkrum atriðum sem skipta máli:

Five Reasons Parents Should Be Thrilled Their Child is in a Flipped Class

Að lokum minnir Jon okkur á að gefast ekki upp! Þetta getur verið erfitt, kennarar lenda oft í mótþróa frá nemendum, foreldrum og samstarfsfólki en EKKI GEFAST UPP!

Heimsókn í VUC – Haderslev DK

Í lok október fóru 16 starfsmenn frá Keili  til Danmerkur til að heimsækja VUC syd í Haderslev –  sem er skóli sem sinnir fullorðinsfræðslu á suður Jótlandi. Eitt helsta markmiðið með ferðinni var að fá innblástur til fjölbreyttara námsrýmis og kennsluhátta í takt við það. 

img_4284
VUC stendur fyrir Voksen uddannelses center

Mjög fjölbreyttur hópur nemenda er í þessum skóla.
Í raun sameinar skólinn þá möguleika sem grunnmenntaskólinn, menntastoðir og frumgreinadeildir á Íslandi bjóða uppá. Einmitt þess vegna er í þessum skóla töluvert há prósenta af fullorðnum nemendum sem eiga við námsörðugleika að stríða, eru með einhverjar greiningar, athyglisbrest, ofvirkni eða hafa bara fengið vonda upplifun af skólakerfinu t.d. vegna eineltis eða annarra félagslegra vandamála. Því er stefna skólans að bjóða upp á mikið val, mikið svigrúm fyrir ólíka nemendur og halda vel utan um þá nemendur sem þurfa stuðning.

Húsnæðið

Aðkoman að skólanum er hin glæsilegasta þar sem það rís upp af bökkum Haderslev fjarðar, lífæð borgarinnar. Það fyrsta sem mætti okkur var yfirbyggt útikennslusvæði við hliðina á húsinu, með setpöllum og grindverki í kring. Þar eru bæði hátalarar og skjár sem kennarar geta nýtt sér ef þeir óska þess.

Einstaklega veglegt útikennslusvæði
Einstaklega veglegt útikennslusvæði

Í anddyri skólans eru hlið þar sem hver og einn þarf að „tékka sig inn“, bæði nemendur, kennarar og gestir, og greinilegt að enginn óviðkomandi kemst þarna inn með góðu móti.

 

 

Móttökufulltrúi skólans Michael Nielsen tók á móti okkur, enda felst hans starf í því að taka á móti hópum ásamt því að skipuleggja útleigu á húsinu og viðburði sem þar eru haldnir.

Michael byrjaði á því að bjóða okkur inn í litla stofu með tveim langborðum og ca 24 sætum. Þar inni voru tveir sjónvarpsskjáir sem hvor um sig tengdist Apple TV og þangað varpaði hann upplýsingum úr iPadinum með aðstoð Airplay.

Þessi stofa heitir "Det røde rum"
Þessi stofa heitir „Det røde rum“

Hann fór yfir dagskrá dagsins og sagði stuttlega frá því hvernig skólinn var uppbyggður og hvaða kennslufræðilega nálgun væri stunduð. Eftir ca 10 mín langa kynningu bauð hann okkur í skoðunarferð um húsnæðið. Aðalrýmið var mjög opið og bjart, 4 hæðir í húsinu tengdust allar með opnum stigagangi í miðjunni, þar sem birtan fékk að flæða óhindrað í gegnum húsið og flest rými voru einungis stúkuð af með glerveggjum.

Mismunandi litaðir aukahlutir á hæðunum
Mismunandi litaðir aukahlutir á hæðunum

Hver hæð hafði sitt þema bæði í litum og viðfangsefnum. Þannig var raungreinahæðin græn, appelsínugula hæðin hýsti félagsvísindi og gula hæðin tilheyrði tungumálunum.

Þetta hreiður er glaðlegt á litinn
Þetta hreiður er glaðlegt á litinn

 

Á hverri hæð voru mismunandi aðgengileg rými, tvö „hreiður“ sem rúma uþb 20 manns í einu með 4 skjái í miðjunni. Þar er upplagt að setjast inn með hóp og ræða saman – ýtir undir þá upplifun að allir séu jafningjar og kennarinn getur auðveldlega setið sem einn af hópnum.

Hreiðrið séð að innan
Hreiðrið séð að innan

Þessi tvö hreiður á hverri hæð eru einu rýmin sem nemendur eru í felum fyrir umhverfinu, önnur rými í skólanum eru nánast öll annars með glerveggjum.

 

Stofa með bekkjum og 6 skjám
Stofa með bekkjum og 6 skjám

Einnig var stofa með kringlóttum sófum og 6 sjónvarpsskjám ásamt miklu gólfplássi – þar gátu t.d. nemendur sett sín verkefni upp á skjái, eitt verkefni á hverjum skjá og borið saman niðurstöður sínar. Kennarinn getur því auðveldlega haft yfirsýn yfir hvað allir eru að gera. Á hverri hæð voru tvær „hefðbundnar“ skólastofur en þær eru víst einna minnst notaðar.

 

Snertiskjár í borði
Snertiskjár í borði

Einnig voru opin rými með fjölbreyttum möguleikum á vinnuaðstöðu, t.d. hátt borð með snertiskjá í borðinu, þar gátu menn staðið í kring um skjáinn og unnið.

Hleðslustöð fyrir iPad í fundarherberginu
Hleðslustöð fyrir iPad

 

Á hverri hæð voru nokkur fundarherbergi, þar sem hópar gátu setið á háum stólum í kringum hátt borð, hentugt til hópavinnu og þar var jafnframt hleðslustöð fyrir iPadana. Það var á fáum stöðum hægt að hlaða tækin, lítið af innstungum í skólanum, nema á þessum sérstöku hleðslustöðvum. Það ýtti undir notkun á þessum hópherbergjum.

Fallegur matsalur
Fallegur matsalur

Á neðstu hæðinni er gott mötuneyti þar sem ætlast er til að öll neysla matar fari fram – bannað að fara með mat eða drykk upp á hæðirnar. Þessi regla gerir skólann snyrtilegri og fyrir vikið þarf færri ruslafötur.

Sætum pakkað saman og send í kjallarann
Sætum pakkað saman og send í kjallarann

Við hliðina á matsalnum er stór fyrirlestrasalur, með sætum sem halla. Auðvelt er að pakka sætunum saman á vagn og fella þau niður í gólfið, þá er salurinn stór og sléttur með góðu rými og frábæru útsýni yfir ána. Mjög margnota rými.

Í kjallaranum er stór íþróttasalur með góðri aðstöðu. Einnig er í skólanum rannsóknastofur fyrir raungreinar, tónlistarstofa full af hljóðfærum og fullkomið upptökuver með grænum bakgrunni og réttri lýsingu fyrir upptökur.

Fullbúið upptökuver
Fullbúið upptökuver

Upptökuherbergið er mikið nýtt af kennurum sem eru að taka upp námsefni, en einnig af nemendum sem vinna fjölbreytt verkefni.

 

Á 4. Hæðinni (efst) var svo kennarastofan, þar höfðu allir starfsmenn aðgang að tölvum og vinnusvæði, en almennir kennarar höfðu ekki föst skrifborð.

Upplagt húsgagn fyrir örfundi
Upplagt húsgagn fyrir örfundi

Þar voru nokkrar háar hirslueiningar sem virkuðu líka vel sem hátt borð til að standa í kringum fyrir örfundi. Á fjórðu hæðinni hafði rafbókadeildin líka fast aðsetur, það eru uþb 10 manns í fullri vinnu við að útbúa rafbækur fyrir skólann, sem er svo notað sem kennsluefni í stað venjulegra bóka. Skólinn er því sem næst pappírslaus, það er mikið vesen að prenta út blað og einungis tveir prentarar í öllum skólanum.

Hugmyndafræðin

Hugmyndafræðin í þessum skóla gengur út á það að allir nemendur og starfsfólk eru með iPad og allir með eins tæki. Engar skólabækur eða ljósrit – allt námsefnið er í tækjunum. Kennararnir skrifa sjálfir mest af þeim rafbókum sem eru notaðar og stundum eru nemendur hafðir með i þeirri vinnu. Ef eitthvað þarf að hanna eða vinna meira, sér rafbókadeildin um það – þar eru hönnuðir og margmiðlunarfólk sem kunna grafíska hönnun ofl sem þarf til að framleiða gott efni. Rafbækurnar eru svo seldar til annarra skóla, sem geta þá notið góðs af þeirri vinnu sem þarna hefur átt sér stað.

Stutt myndband um rafbækur skólans:

Mikið er lagt upp úr því að nemendur séu ekki lengi á sama stað í kennslustundum. Hver kennslustund er 2,5 tími og viðmiðið er að kennari sjái til þess að sjaldan sé staldrað við lengur en í 30 mín á hverjum stað. Sem dæmi um skipulag á kennslustund getur kennari byrjaði með hópinn í graskerinu, þar sem hann útskýrir væntingar sínar til kennslustundarinnar, kannski sendir hann nemendur hingað og þangað til að lesa einhvern ákveðinn texta til að undirbúa sig fyrir vinnuna, svo safnast allir saman í einni stofu, þar sem textinn er kannski ræddur, nemendur svo settir í hópa til að vinna eitthvað ákveðið verkefni – þá geta þeir nýtt sér hópavinnuherbergin og að verkefnavinnu lokinni hittast allir í herberginu með 6 skjáina þar sem niðurstöður verkefnavinnunnar eru ræddar. Kennarinn tekur púlsinn á nemendum og athugar hvort þau hafi náð markmiðinu með tímanum. Ef eitthvað vantar ennþá upp á með skilninginn á viðfangsefninu, fer kennarinn kannski með hópinn í hefðbundna kennslustofu í lokinn og tekur hefðbundna töflukennslu sem ígrundun og samantekt. Þetta skipulag undirbýr kennarinn vel fyrirfram og birtir dagskrá fyrir nemendur á aðgengilegum stað ásamt því að bóka þau rými sem hann ætlar að nota.

Stutt kynning á hvernig rýmið er notað af kennurum:

Samantekt

Þessi heimsókn var mjög fróðleg og fyllti okkur hjá Keili innblæstri til að hugsa okkar gang, bæði hvað varðar hugmyndafræðina okkar og eins húsnæðið. Okkar vinnuumhverfi er í dag innan þeirra ramma sem bandaríski herinn byggði á Ásbrú uppúr 1960 og skildi eftir handa okkur 2006. Haustið 2010 flutti Keilir í húsið sem auðvitað var tekið í notkun með eins litlum tilkostnaði og hægt var. En vissulega ber skólinn þess merki að vera hannaður út frá þeirri kennslufræði sem var ráðandi laust eftir miðja tuttugustu öldina. Og þar sem okkar nemendur eru lang flestir fullorðnir námsmenn og að miklu leyti samskonar samsetning á nemendahópnum og í Haderslev, teljum við að það væri til bóta að hugsa skipulag náms þeirra á fjölbreyttari hátt en það er í dag, til að auðveldara sé að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda og tryggja virkni annarra en kennarans í vinnutímum.

 

 

 

Vendinám – Flipped learning Certification

Í þessari bloggfærslu ætla ég að segja ykkur frá kennsluaðferð sem kallast vendinám (e. Flipped Learning) og hefur verið notuð í Keili í bráðum 5 ár. Það sem hvatti mig af stað í þessi skrif er netnámskeið sem ég er nýbúin að skrá mig á og langar að deila þeirri upplifun með ykkur.

Í raun heitir námskeiðið Flipped learning certification og gefur mér að því loknu staðfestingu á því að ég sé vendinámskennari. Fremstur í flokki sem höfundur og kennari á námskeiðinu er Jon Bergmann (Í raun heitir hann Jonathan Bergmann en hefur greinilega stytt nafnið sitt til að auðvelda samskipti við fólk víðsvegar um heiminn).

Aaron Sams og Jonathan Bergmann
Aaron Sams og Jonathan Bergmann

Jonathan Bergmann er annar af upphafsmönnum „Flippsins“ svokallaða en ævintýrið hófst vorið 2006 í Colorado í Bandaríkjunum, þegar hann og samstarfsmaður hans Aaron Sams byrjuðu að gera tilraunir með að taka upp innlagnir fyrir veikt barn sem komst ekki í skólann. Brátt sáu þeir ávinninginn af þessu fyrirkomulagi og hafa þróað þessa hugmyndafræði æ síðan.

Nú er svo komið að kynning á og vinna með Flipped classroom hugmyndafræðina er stærstur hluti af starfi Jon. Hann ferðast um allan heiminn til að tala á ráðstefnum, hitta skólafólk og breiðir út boðskapinn. Í sumar fór hann í það verkefni að mynda alþjóðlega Flipp hreyfingu – Flipped Learning Global Initiative þar sem hann ásamt samstarfsfólki sínu safnaði saman á eina heimasíðu m.a. ýmsum upplýsingum um „flippið“ og rannsóknir sem gerðar hafa verið á því. Á þessari heimasíðu má  finna útvarpsrás sem Jon og félagar eru með um Flipped learning, blog og fréttaveitu. Einnig má þar finna „Master Teachers“ hóp af kennurum frá öllum heiminum sem hafa verið að nýta þessa aðferð og eru tilbúnir að miðla þeim til annara.

Einn liður í kynningu á aðferðinni er þetta umrædda netnámskeið sem ég er núna þátttakandi í. Í raun eru þrjú námskeið í boði, eitt fyrir byrjendur, eitt fyrir lengra komna og eitt fyrir stjórnendur sem vilja breyta kennsluháttunum í sínum skóla. Þar sem ég er svo heppin að vinna á vinnustað sem bæði hvetur kennara til að nota þessa aðferð og er tilbúinn að borga fyrir svona námskeið, henti ég mér umhugsunarlítið af stað í þetta verkefni. Þrátt fyrir töluverða reynslu af vendinámi, valdi ég að  taka byrjendanámskeiðið, en miðað við það sem ég hef nú þegar séð af námskeiðinu, sé ég ekki eftir því.

Byrjendanámskeiðið er í 9 lotum og ég ætla að segja ykkur frá innihaldi hverrar lotu í stuttu máli hér, jafnóðum og ég hlusta á efnið sjálf.

Unit 1 – Why Flip? (Lota 1 – Hví vendinám?)

Í þessari lotu fer Jon yfir það af hverju vendinám virkar. Með vendinámi skapast meiri tími fyrir kennarann að vera innan um nemendurnar í skólastofunni og á auðveldara með að mynda tengsl við einstaklingana. Hér leggur Jon áherslu á það að einn af mikilvægustu þáttunum í því að nám eigi sér stað, séu tengsl (e. relationship) milli kennara og nemenda. Hann minnir á orðatiltækið „Kids don’t care what you know until they know that you care“ sem á vel við í þessu samhengi. Kennarinn hefur tækifæri til að kynnast nemendum betur og veit því betur hvað þau geta.

Hér í byrjun dregur Jon fram stóru spurninguna sem ætti að vera öllum kennurum leiðarljós í áttina að vendinámi, nefnilega

„what is the best use of your face to face class time?

Þessa spurningu ættu allir kennarar að geta ígrundað, sama hvaða fag þeir kenna, hvaða námsefni þeir nota eða hvaða nemendahóp þeir eru að vinna með. Hinsvegar eru til mörg rétt svör við þessari spurningu, engin ein leið er endilega rétt eða réttust – en það eru ansi mörg „röng“ svör við henni.

Sem rökstuðning við það hversu margir svara þessari spurningu rangt, vitnar hann í eina af rannsóknum Dr. Marzano sem hefur kynnt sér fyrirkomulag í 2 milljónum kennslustofa víðsvegar um heiminn (það eru svakalega margar kennslustofur) og komist að eftirfarandi niðurstöðu:

58% af kennslustundinni fara í það að eiga samskipti um nýtt efni
36% af kennslustundinni fara í það að æfa og dýpka sig í nýju efni
6%  af kennslustundinni fara í það að vinna flókin verkefni sem fela það í sér að búa til og kanna tilgátur uppúr námsefninu

Jon bendir á að um allan heim er vilji til að virkja nemendur í kennslustundum en staðreyndin virðist vera önnur þegar þessar tölur eru skoðaðar.

Í framhaldi af þessu nefnir Jon þríhyrning Blooms og hvernig hann hafði í fyrstu snúið honum á hvolf í sínum kennslustundum – en er núna kominn að þeirri niðurstöðu að líklega sé tígulformið best.

revised_bloom_pyramidsscreen-shot-2015-07-13-at-19-59-06

Með tígul útgáfunni fer mestur tími kennarans í að vinna með nemendum á virkan hátt, fremur en að nota stærsta hluta tímans í að láta nemendur leggja á minnið og skilja (upprunalega útgáfan) eða vera of upptekinn af sköpun og mati (öfuga útgáfan).

Og þar sem virkni nemenda er það mikilvægasta í skólastofunni ítrekar Jon að: „the flipped class is NOT about the videos! Active learning is the key.“ Það er að segja vendinám snýst ekki um upptökur heldur er virkni nemandans lykillinn.

Í ljósi þess að nemendur eru viðskiptavinirnir, ákvað Jon að spyrja þau um þeirra upplifun. Hann spurði þau hvort upptökurnar sem fylgdu vendináminu hefðu áhrif á heildar „skjá“ tíma þeirra. Svörin voru á þessa leið:

 • 55% sögðu að myndböndin lengdu örlítið skjátímann
 • 30% sögðu að myndböndin lengdu ekki skjátímann – heldur kæmu þau í stað annars sem þau væru annars að gera
 • 15% sögðu að myndböndin lengdu töluvert skjátíma sinn

Hann spurði einnig hvort upptökurnar hjálpuðu þeim að skilja efnið betur og á skalanum 1-5 voru rúmlega 90% nemenda sem staðsettu sig á 3,4 og 5 – þar sem 5 stóð fyrir „upptökurnar hjálpuðu mikið“. Flestir völdu töluna 4 eða 39,2%.

Um 85% nemenda töluðu um að í vendinámi tæki heimanámið jafnlangan tíma eða minni en áður. Einungis 15% töldu sig nota meiri tíma í heimanám en í hefðbundinni kennslu.

Sú niðurstaða sem Jón dregur út úr þessum spurningum til nemenda er að þau fái meiri gæði út úr kennslunni á sambærilegum eða styttri tíma en áður.

Í lok þessarar fyrstu lotu kemur Jon inn á þau fjögur atriði sem þarf að huga að þegar stefnan er sett á að venda sinni kennslu í kross og byrja að flippa. Hann dregur þetta saman í fjögur T:

 • Thinking
 • Training
 • Time
 • Technologi

Lotu 1 lauk með möguleika á umræðum og krossaprófi úr öllu efninu sem hann fór yfir – eins gott að vera duglegur að glósa í þessum skemmtilegu fyrirlestrum hans.