Kenningar um nám fullorðinna

Wiki > Þemu námskeiðsins > Kenningar um nám fullorðinna

Þetta eru glósur nemenda á námskeiðinu, ekki efni til að vitna í.

Annað þema námskeiðsins eru kenningar um nám fullorðinna

Kenningar hjálpa okkur að skilja fyrirbæri tilverunnar, þær hjálpa okkur að segja fyrir um hvað gerist næst og gefa leiðbeiningar um hvernig megi skipuleggja starf sem tengist viðfangsefni kenningarinnar. (sjá líka þessa bloggfærslu)

Þessa wikisíðu – og jafnvel undirsíður – má nota til að skapa mynd af þeim kenningum sem við kynnumst á námskeiðinu…

 

ATH: Þessi síða eru glósur nemenda á námskeiðinu og birt fræðileg umfjöllun og úrvinnsla sem er hægt að vitna í.

Best er að sjá þetta sem stuðning við lestur, enda nota höfundar þessa síðu til að æfa sig í því að endursegja, vega og meta skrif annarra um fræðin.

Sem sagt: Ekki vitna í þennan wiki í fræðilegum skrifum.


 

Kenningar fyrr og nú um fullorðinsfræðslu (andragogy)

Í bókinni Adult learning er talað um að ekki sé til nein ein kenning er varpar ljósi á nám fullorðinna (Merriam, Caffarella, Baumgartner, 2007, bls. 83-88). Upphaf þeirra má þó rekja einna helst til Malcolm Knowles og bókar hans The Adult Learner: A Neglected Species sem kom út árið 1973. Áður, eða árið 1968, hafði Knowles kynnt til sögunnar sitt helsta hugtak og módel um fullorðinsfræðslu – andragogy. Orðræða Knowles um hinn fullorðna námsmann hefur verið ráðandi sl. 40 ár, með húmanískt sjónarhorn á eðli mannsins að leiðarljósi.

Andragogy , líkt og mörg önnur módel/líkön um nám fullorðinna, leggur áherslu á hinn fullorðna námsmann og aðstæður í lífi hans (Merriam, Caffarella og Baumgartner, 2007, bls. 83).  Líkanið byggir á sex tilgátum um hinn fullorðna námsmann (Knowles, Holton og Swanson, 1998, bls. 64-68):

  1. Hann hefur þörf fyrir að vita tilganginn með náminu fyrirfram.

2. Hann sér sig bera ábyrgð á eigin ákvörðunum og  eigin lífi.

3. Hann býr yfir lífsreynslu, sem hefur áhrif nám hans.

4. Hann hefur viljann til að læra það sem hann hefur þörf fyrir.

5. Hann er fús til að læra það sem honum nýtist í raunverulegum verkefnum og aðstæðum.

6. Hann stjórnast af innri áhugahvötum (t. d. vill þroskast og dafna) meira en ytri áhugahvötum (t.d.  hærri laun, betri staða).

Aðstæður náms og lífssvigrúmið – McClusky
McClusky kom fram árið 1963 með athyglisverða kenningu um nám fullorðinna. Kenning McClusky er ætlað að varpa ljósi á aðstæður nemenda og svigrúm þeirra til að stunda nám við þær aðstæður sem hann býr við hverju sinni. Kenningin byggir á þremur meginhugtökum (Merriam, Caffarella, Baumgartner, 2007, bls. 93): Lífsbyrðar (load of life), lífskraftur (power of life) og lífssvigrúmið (margin in life).

Lífsbyrðarnar taka sinn toll af tíma einstaklingsins en lífskraftur stendur fyrir það hve vel einstaklingurinn tekst á við byrðarnar. Lífssvigrúmið táknar umfang byrða í hlutfalli við lífskraft. Meiri kraftur þýðir meira svigrúm til þátttöku í námi. Lífsbyrðar eru tvískiptar, annars vegar ytri byrðar sem snúa að samfélagslegum þáttum (fjölskyldu, atvinnu ofl.) og hins vegar innri byrðar sálarlífsins (óskir, væntingar til framtíðar ofl.). Þannig getur nemandi aukið svigrúm sitt með auknum krafti vegna stuðnings frá fjölskyldu eða sterkri stöðu fjárhagslega o.s.frv., kraftur sem dregur úr ,,þunga“ lífsbyrðanna.

Þannig getum við, með kenningu McCluskys að vopni, á einfaldan hátt metið stöðu nemanda og mögulega ástæður fyrir þátttöku hans eða þátttökuleysi í námi. Kenningin er auðvitað ekki fullkomin og svarar ekki t.d. hvort aukið stress í lífi nemenda gefi af sér aukinn kraft til að stunda nám eða hvort námið sjálft hreinlega skili þeim meira svigrúmi.

Kolb
Kolb vann út frá grunn hugmynd Johan Deway um að allt raunverulegt nám kæmi út frá reynslu. Kolb tók einnig mið af kenningum Piaget og Lewin og setti fram þá kenningu að nám í gegnum reynlu krefst fjögurra mismunandi tegunda af getu/hæfni: 1) concrete experience 2) reflective observation 3) abstract conceptualization og 4) achive experimentation. Kolb sá þessa mismunandi áfanga hæfnis tengast innbirðis og mynda hringiðju: Hringráð reynslunáms (experiential learning cycle).

Knud Illeris

Illeris er danskur fræðimaður sem hefur látið til sín taka á sviði fullorðinsfræðslu. Hann er einna þekktastur fyrir kenningu sína námsþríhyrninginn sem hann setti fram árið 1999. Kenning Illeris er sett upp sem öfugur þríhyrning þar sem í hverju horni þríhyrningsins er ein vídd, víddirnar þrjár hafa svo gagnkvæm áhrif hver á aðra. Illeris segir að allt nám á sér stað í menningarlegu samhengi og því hefur umhverfið í kringum námsmanninn bein áhrif á námið.

Reynslan og Jarvis

Kenning breska fræðimannsins og háskólakennarans Peter Jarvis um nám fullorðinna fjallar um námsferlið, þá ekki síst að skilja á milli hvenær nám á sér stað og hvenær ekki (non-learning).

Upphafspunktur alls náms náms er reynslan (experience), ekki síst reynsla sem rýfur vanabundinn skilning á aðstæðum, kemur að óvörum og krefst viðbragða af hálfu einstaklingsins (Merriam, Caffarella, Baumgartner, 2007, bls. 100-102). Áhrif tilfinninga ber ekki að vanmeta í ferlinu því þær geta ýtt undir nám eða hreinlega hindrað að það. Áföll, reiði, kvíði, gagnrýni, gleði, hvatning, hrós – allt þetta getur skorið úr um hvort nám mun eiga sér stað eða ekki, frestar eða ýtir því úr vör. Nemandinn er ,,heill“ í námsferlinu því með skynfærum sínum (heyrn, sjón, lykt, bragð og snertingu), blandað ævisögulegum bakgrunni, upplifir hann reynslu sem verður efniviður í frekari þekkingu, færni, viðhorf, tilfinningar og fleira. Eins og kemur fram í módeli Jarvis getur nemandinn brugðist við reynslu eða aðstæðum á þann hátt að reynslan er hunsuð eða numin. Og til þess að hún sé numin þarf að vinna með hana, ígrunda eða gera hana meðvitaða á einhvern hátt.

Reynslan, breytinganám Mezirows
Bandaríski félagsfræðingurinn og háskólakennarinn Jack Mezirow er einnig upptekinn af reynslunni eins og Jarvis en í fræðilegri umfjöllun sinni um breytinganám (transformative learning) beitir hann sálfræðilegu sjónarhorni á námsferli fullorðinna nemenda. Mezirow dýpkar því að mörgu leyti kenningu Jarvis með áherslunni á að reynslan sé sem mest ígrunduð.

Kenningu hans um breytingarnám er skipt í tíu þrep sem aftur greinast í fjóra liði, en þeir eru: reynsla (experience), gagnrýnin hugsun (critical reflection), ígrunduð samræða (reflective discourse) (sem er í skilningi Mezirows óþvinguð og lausnamiðuð samræða við annað fólk) og aðgerð (action) (einstaklingsmiðuð aðgerð eða samfélagsleg aðgerð) (Merriam, Caffarella, Baumgartner, 2007, bls. 134).

Kenning Mezirows (Mezirow, 1990, bls. 1-2) tekur mið af því hvernig hinir fullorðnu vinna úr lífsreynslu sinni og gera hana merkingarbæra, nokkuð sem gerist fyrir tilstuðlan túlkunar. Til að skýra hvernig merkingin byggist upp teflir Mezirow fram nokkrum sálfræðilegum hugtökum þar sem hugtakið viðtökurammi (frame of reference) kemur fyrst fyrir. Viðtökuramminn síar reynsluna sem við tökum inn eftir ákveðnu merkingarkerfi sem þegar er lagt í vitundina. Þetta eru annars vegar skemur (meaning schemes) og hins vegar skoðanir (meaning perspectives). Skemur eru eins konar vanaspor hugsana á borð við það að við vitum að með því að hlaupa þá komumst við hraðar yfir en að ganga, og sólin rís í austri en sest í vestri. Skoðun er hins vegar flóknari gerð skemu, eins konar vefur rökfærslna (networks of arguments) á borð við kenningar, viðhorf, staðalmyndir, trú, markmið svo eitthvað sé nefnt. Þegar reynsla er túlkuð og gerð merkingarbær þá spilar skoðun mikilvægt hlutverk í ferlinu. Hún er kerfi ályktana um fyrri reynslu, eins konar verkfæri sem getur meðhöndlað nýja reynslu og mögulega breytt eða búið til skoðun.

Skemur og skoðanir gera það að verkum að við getum hagað lífi okkar með nokkrum skiljanlegum og eðlilegum hætti. Við gerum það af vissri nauðsyn enda yrði erfitt fyrir okkur að yfirvega alla hluti sí og æ. Stór partur af reynslunni verður að innihalda sjálfsagða merkingu – þangað til að annað kemur í ljós.

Við myndun merkingakerfisins eru skemur og skoðanir teknar inn í krafti uppeldis og menningar, og sumar eru rótgrónari en aðrar. Við vitum að við eigum að stöðva bifreið þegar rautt ljós logar á umferðarljósi. Við vitum að við eigum að bera virðingu fyrir öldruðum, við eigum ekki að leggja í einelti o.s.frv. Þetta eru ótvíræð dæmi um djúpstæð vanaspor eða skemu. En hvað ef reynsla allt í einu passar ekki við merkingarkerfi okkar? Hér kemur inn hlutverk breytinganáms, að breyta skoðun eða búa til nýjar. ,,Sem dæmi, tveir af vinum Andy hafa upplýst að síðustu ár hafi þeir verið samkynhneigðir. Það verður til þess að Andy endurmetur fælni sína gagnvart hommum og lesbíum. Að nokkrum tíma liðnum breytir Andy vanaspori hugsunar sinnar (skemu) um homma og lesbíur og er ekki lengur haldinn fælni gagnvart samkynhneigð (breyting á skoðun).“ (Merriam, Caffarella og Baumgartner, 2007, bls. 133)

Sú reynsla sem leiðir til breytinganáms er ekki af léttvægari taginu í umræðu Mezirows því hann virðist helst vilja ræða reynslu sem leiðir að öllu jöfnu til stærri breytinga í lífi fólks en dæmigerð hversdagsreynsla. Sú reynsla getur riðið yfir með skjótum og dramatískum hætti (sem áfall til dæmis) en hún getur líka verið hægfara breyting skoðana sem leiða til breytinga á vanaspori hugsana (eins og í dæminu um Andy). Spurningin er hins vegar sú hvort reynsla sé svo djúpstæð að hún réttlæti breytinganám? Er það skynsemi hins fullorðna sem getur skorið úr um það ein og óháð í ígrundun sinni?

Að endingu er rétt að gera grein fyrir stig- eða þrepaskiptingu breytinganámskenningu Mezirows. Hér að neðan mun verða gerð grein fyrir hverju þrepi kenningarinnar fyrir sig, sem heildarferli:

Reynsla:
1. Einstaklingurinn stendur frammi fyrir óþægilegri reynslu (disorienting dilemma).

Gagnrýnin hugsun:
2. Sjálfsrýni fer af stað og með fylgja tilfinningar á borð við hræðslu, reiði, sektarkennd eða skömm.
3. Einstaklingurinn gagnrýnir og metur viðhorf sín, spyr sjálfan sig hvað hægt sé að gera í stöðunni.

Ígrunduð samræða:

4. Sér að aðrir hafa farið í gegnum svipað ferli og komist að svipaðri niðurstöðu.
5. Einstaklingurinn skoðar ný hlutverk, sambönd eða aðgerðir.

Aðgerðir:
6. Einstaklingurinn gerir áætlun um aðgerðir.
7. Verður sér úti um þekkingu og færni til að framkvæma áætlunina.
8. Prófar tímabundið ný hlutverk.
9. Byggir upp færni og sjálfstraust í nýjum hlutverkum og samböndum
10. Endurskipulagning í lífi einstaklingsins, byggt á hinni nýju, breyttu sýn.
(Merriam, Caffarella og Baumgartner, bls. 134-135)

Heimildir

Knowles, M. S., Holton III, E. F. og Swanson, R. A. (1998). The adult learner: The definitive classic í adult education and human resource development (5. útgáfa). Houston: Butterworth Heinemann.

Merriam, S.B., Caffarella, R. og Baumgartner, L. (200l). Learning in Adulthood: A Comprehensive Guide (3. útgáfa). San Francisco, Ca: Wiley.

Mezirow, J. (1990). How critical reflection triggers transformative learning. Í Mezirow og félagar (ritstjórar), Fostering Critical Reflection in Adulthood (bls. 1–20). San Francisco: Jossey-Bass.

 


 Efnisyfirlit yfir Wikiinn um Þemu

Category: Tags: