Máttur kvenna

Hér er greinargerðin.

Máttur kvenna – símenntun á Bifröst í Borgarfirði

Inngangur

Hér ætla ég að gera grein fyrir námslínu sem hefur verið starfrækt við Háskólann á Bifröst í 10 ár. Ég fjalla í byrjun stutt um sögu skólans og skilgreint hlutverk hans hvað varðar símenntun. Athyglin beinist hins vegar aðallega að einum þætti símenntunarinnar sem nefnist Máttur kvenna. Í vinnu minni við samantekt greinargerðarinnar hef ég hlustað á viðtöl við forsvarsmenn háskólans, námsmenn og verið í sambandi við forstöðumann símenntunardeildarinar. Ég hef fengið könnun sem gerð var  nú í haust um námslínuna en hún er óbirt og verður aðeins vinnuplagg fyrir starfsmenn við endurskipulagningu námslínunnar. Þá hef ég fengið heimildir af heimasíðu skólans, www.bifrost.is.

Um Háskólann á Bifröst

Háskólinn á Bifröst á rætur sínar að rekja til Samvinnuskólans sem stofnaður var í Reykjavík 1919. Árið 1955 fluttist starfsemin að Bifröst í Borgarfirði. Hann var í fyrstu, skóli fyrir ,,samvinnumenn“ og í hugum margra tengdist hann Framsóknarflokknum lengi enda var Jónas frá Hriflu fyrsti skólastjóri hans. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og nú er  Háskólinn á Bifröst háskóli, sem býður nemendum sínum upp á fræðslu, þekkingu og þjálfun í viðskiptafræði og viðskiptalögfræði, heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Hlutverk skólans er að búa nemendur undir ábyrgðar-, forystu- og stjórnunarstörf í innlendu og alþjóðlegu samkeppnisumhverfi (Bifröst, á.á).

Skólinn er skilgreindur sem viðskiptaskóli en ekki síður sem félagsmálaskóli. Á heimasíðu kemur fram að hlutverk hans hafi ávallt verið tvenns konar. Annars vegar að vera jafnan í fylkingarbrjósti þróunar og nýsköpunar í fræðslustarfi og í því felst símenntunin. Hins vegar að halda þétt í upphafleg markmið, sígildan kjarna sem vakti fyrir stofnendum og fyrstu forráðamönnum stofnunarinnar, þ.e. að búa nemendur undir forystu- og stjórnunarstörf (Bifröst, á.á).

Símenntun á Bifröst

Ein af deildum skólans er símenntunardeildin. Eitt af aðalmarkmiðum hennar er að efla og styrkja íslenskt atvinnulíf og samfélag með því að bjóða upp á hagnýta fræðslu og þjálfun. Boðið er upp á þrjár námslínur í fjarnámi. Það eru Diplomanám í verslunarstjórnun, stjórnun og samvinna í ferðaþjónustu sem er einnig diplomanám og námslínan Máttur kvenna. Ég ætla hér að fjalla sérstaklega um þennan þátt námsins við Háskólann á Bifröst (Bifröst, á.á).

Máttur kvenna – almennt

Það eru 10 ár síðan Háskólinn á Bifröst fór að bjóða upp á námslínuna Máttur kvenna. Lengst af hefur verið um tvær námslínur að ræða Máttur kvenna I og Máttur kvenna II. Nú hefur seinna námskeiðið ekki verið keyrt síðan 2012 vegna þess að það hefur reynst erfitt að fá nægjanlegan þátttakendafjölda. Sem stendur er námskeiðið í endurskipulagningu og verður nýja fyrirkomulagið tekið í gagnið eftir áramótin næstkomandi. Það er hins vegar ekki fullkomlega mótað og verða því gerð skil í lok greinargerðarinnar. Vegna endurskipulagningarinnar, var gerð könnun meðal þeirra sem sótt hafa námið. Hún var send út í september í haust og stóð opin í 6 daga. Svörun varð innan við 20% og gefur því ekki með öllu rétta mynd en vissulega er þar að finna vísbendingar um upplifun og væntingar kvennanna. Í greinargerðinni er oft vísað í þessa könnun.

Hér verður eingöngu verður fjallað um námslínuna, Mátt kvenna I, eins og hún hefur verið keyrð frá upphafi og til dagsins í dag. Það hafa ýmist verið eitt eða tvö námskeið á hverju skólaári og hafa 700 konur útskrifast úr því frá upphafi (Geirlaug Jóhannsdóttir, 2014). Þátttakendur eru á öllum aldri, 20 – 70 ára og víðsvegar að af landinu.

Máttur kvenna I, var upphaflega hugsað til að efla konur á landsbyggðinni í rekstrarfögum. Reyndin hefur hins vegar orðið sú að jafnvel fleiri konur af höfuðborgarsvæðinu sóttu námskeiðið (munnleg heimild, Magnús Snorrason). Þetta er 11 vikna rekstrarnám fyrir konur sem hafa áhuga á að bæta rekstrarþekkingu sína. Engar sérstakar forkröfur eru gerðar varðandi fornám fyrir námslínuna. Bakgrunnur og menntunarstig þátttakenda er misjafn, Samkvæmt könnun sem Háskólinn gerði haustið 2014, höfðu flestar eingöngu grunnskólapróf, þá komu konur með framhaldsskólamenntun en aðeins lítill hluti þeirra höfðu lokið háskólaprófi (Háskólinn á Bifröst, 2014). Langflestar voru launþegar þegar þær hófu námið (Háskólinn á Bifröst, 2014)Námið veitir ekki einingar. (Bifröst, á.á).

Hver er hvatinn?

Ekki eru gerðar kröfur um fornám inn á námsbrautina enda er hún einskonar fornám eða stökkpallur í frekara nám, auk þess að vera styrking fyrir konur sem nú þegar stunda rekstur af einhverju tagi. Það eru konur á öllum aldri sem sækja þessa námslínu og hvatinn til að stíga skrefið er margskonar Konurnar hafa ólíkan baggrunn, þarna eru m.a. konur sem ekki hafa farið í nám eftir grunnskóla og hafa litla trú á sjálfum sér  þegar kemur að námi og skóla. Það eru einnig konur sem hafa áratugareynslu af fyrirtækjarekstri, konur sem eru að byrja í rekstri og líka konur sem hyggjast ekki fara út í fyrirtækjarekstur en vilja bæta þekkingu og kunnáttu á þessum sviðum. (Geirlaug Jóhannsdóttir, 2014). Þegar konurnar eru spurðar hver sé hvatinn, segja þær að það sé að auka hæfni í atvinnurekstri, auka arðsemi fyrirtækja, bæta þekkingu á rekstri fyrirtækja, fleiri atvinnutækifæri, efla tengslanetið, að skapa störf eða efla sig sem þáttakanda í þjóðfélaginu (Anna Ólöf Kristjánsdóttir, 2014).

Fyrirkomulag kennslu

Nemendur mæta í upphafi tímabils og eru eina vinnuhelgi á staðnum. Þá hitta nemendur alla kennara námskeiðsins sem leggja línurnar í hverri grein fyrir sig. Námsgreinarnar eru bókhald I, upplýsingatækni, markaðs- og sölumál, fjármál, áætlanagerð og framsækni og tjáning. Í könnuninni var athugað hvaða þættir námsins konunum hefðu þótt gagnlegastir. Þar kemur fram að konurnar eru sáttar við það sem var kennt og þóttu allir þættirnir gagnlegir, þó skorar framsækni og tjáning minnst (Háskólinn á Bifröst, 2014).

Mikið er lagt upp úr að efla samkennd nemenda og í þeim tilgangi er m.a. hvatt til samvinnu, farið í gönguferðir og borðað saman (Geirlaug Jóhannsdóttir, 2014). Eitt af því fyrsta sem námsbrautin býður upp á er námskeið í upplýsingatækni – mjög einfalt að sögn Önnu Ólafar Kristjánsdóttur sem hefur setið námskeiðið. Þar er farið í grunnatriði í ritvinnslu og vinnu á Veraldarvefnum en það eitt getur verið fyrirstaða fyrir nemendurna (Anna Ólöf Kristjánsdóttir, 2014).

Milli staðlota er fjarnámskerfið Námsskjár notað og er kerfið notað bæði við fjar- og staðarnám. Kennarar miðla rafrænu námsefni, verkefnum og öðrum upplýsingum til nemenda auk þess sem nemendur skila sínum verkefnum rafrænt til baka. Þá eru allir fyrirlestrar teknir upp og aðgengilegir fyrir nemendur þegar þeim hentar. Kerfið nýtist einnig til skoðanaskipta innbyrðis milli nemenda og eins milli kennara og nemenda (Skessuhorn.is, 2005). Það er því ekki ósvipað Moodle sem notað er t.d. í Háskóla Íslands. Háskólarnir í Borgarfirði, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Háskólinn á Bifröst nota báðir Námsskjá, enda er hann hannaður í héraði (Skessuhorn.is, 2005).

Í lok tímabils er önnur vinnuhelgi. Þá fara kennarar yfir stöðuna og að lokum er formleg útskrift. Nemendur eru sáttir við fyrirkomulag námsins, líkar vel við staðlotur og fyrirlestrana á neti. Þá þótti þeim gott að námið væri eingöngu fyrir konur. Þær segjast þó í fæstum tilfellum hafa aukið tengslanet sitt (Háskólinn á Bifröst, 2014).

Kostnaður við námið

Þátttökugjald í dag er kr. 149.000. Innifalið í verðinu eru öll námsgögn og tvær vinnuhelgar með gistingu og fæði.  Nemendur fá gistingu á staðnum en öll aðstaða og er aðbúnaður nemenda góður ( (Bifröst, á.á). Konur geta fengið niðurgreiðslu hjá stéttarfélögum (Anna Ólöf Kristjánsdóttir, 2014). Langflestar kvennanna fengu styrk frá sveitarfélagi, stéttarfélagi eða vinnuveitanda til að stunda námið (Háskólinn á Bifröst, 2014)

Að loknu námi – framgangur

Samkvæmt könnuninni sem skólinn gerði haustið 2014, hafði námið ekki afgerandi áhrif á atvinnumöguleika kvennanna. Aðeins lítill hluti þeirra fékk hærri laun, aukna ábyrgð í starfi eða stöðuhækkun. Það er einnig lítill hluti kvennanna sem hóf atvinnurekstur í kjölfarið en taka má tillit til þess að margar þeirra ráku þegar eigið fyrirtæki. Svotil allar konurnar sögðu að námið hefði eflt þær persónulega og gefið þeim meira sjálfstraust. Það vekur nokkra athygli, vegna þess að framsækni og tjáning er sá þáttur sem konurnar segja hafa komið minnst að gagni og þegar konurnar meta námið og hvað megi bæta nefnir stór hluti þeirra að auka megi áherslu á persónulega færni, s.s. framkomu, samskipta, tjáningu, raddbeiting og ræðaumennsku (Háskólinn á Bifröst, 2014).

Hvað varðar frekara nám, svöruðu um helmingur kvennanna að þessi reynsla hefði orðið til þess að þær hófu frekara nám (Háskólinn á Bifröst, 2014). Það er því hægt að segja að þrátt fyrir að námið skili ekki einingum opnar það leiðir fyrir konur til að hefja frekara nám. Í viðtali við Önnu Ólöfu Kristjánsdóttur ( 2014) kemur fram að samheldni hafi verið mikil í hópnum og konurnar hafi hvatt hver aðra áfram. Það koma ýmiss sjónarmið fram í könnuninni, þegar konunum gefst kostur á að bæta við í eigin orðum. Þar kemur fram að of mikil ,,saumaklúbbsstemming“ hafi verið í hópnum og það ekki samboðið háskóla að taka þátt í þannig sprelli, svo vitnað sé beint í orð þessarar konu. Annarri konu finnst námið ekki auglýst rétt – það sé nám fyrir konur sem hafi ekki tilskylda undirbúningsmenntun fyrir háskóla en ekki þær sem lokið hafa háskólanámi. Flestar raddirnar voru þó mjög jákvæðar og sögðu að námið hefði gefið þeim mikið og sumar nefndu að það hefði orðið þeim hvatning til frekara náms (Háskólinn á Bifröst, 2014)

Lokaorð

Það þarf eitthvað til að brjóta ísinn. Máttur kvenna hefur reynst stökkpallur fyrir margar konur út á menntabrautina. Þær hafa e.t.v. ekki hugsað sér það í byrjun, fullar vantrausts á sjálfa sig en komast að því að þær deila þessum aðstæðum með mörgum öðrum. Anna Ólöf Kristjánsdóttir (2014) segir í viðtali í Síðdegisútvarpi Rásar 2, að Máttur kvenna sé leiðin fyrir margar konur til frekari afreka á menntaveginum. Þær byrja þarna og halda svo áfram í háskólanámi á Bifröst eða í annað nám sem hugurinn stendur til. Undir þetta tekur  Geirlaug Jóhannsdóttir (2014), starfsmaður við Háskólann á Bifröst í kynningu á námsleiðinni á ,,Youtube.com,“ og segir að nokkur hluti þeirra kvenna sem hefur nám á námslínunni Máttur kvenna I,  haldi áfram í námi.

Við endurskipulagningu námslínunnar eru gerðar ýmsar breytingar sem reynsla tíu ára hefur kennt forsvarsmönnum símenntunardeildarinnar. Aukin áhersla er lögð á frumkvöðlastarf, nýsköpun en ekki síst þætti sem viðkoma stjónun s.s. skapandi stjórnun, rekstrarform fyrirtækja og stofnun þeirra. Bætt hefur verið við staðlotu um miðbik tímabilsins og aukin áhersla á að efla persónulega hæfileika einstaklinga s.s. ræðumennsku, framkomu, tjáningu og framsækni.

Það hefur verið fróðlegt að kynna sér námslínuna Máttur kvenna á Bifröst. Mér finnst viðleitni skólans, að bjóða fullorðnu fólki sem ekki hefur tilskylda menntun til háskólanáms, tækifæri til að fóta sig í umhverfi háskólans.Ég held að það skipti máli að námið fer fram í háskólaumhverfi og set hér fram þá pælingu hér, að margir telji sig ekki í stakk búna til að stunda nám við háskóla og það hræðist að hefja nám vegna þessa.  Ég held því fram að það að bjóða nám án forkrafna við háskóla, geti stuðlað að því að fólk stígi skrefið og innriti sig á námslínur eins og Máttur kvenna I og öðlist með því kjark til að leggja í nám sem hugurinn stendur til.

 

 

 

Heimildir

 

Anna Ólöf Kristjánsdóttir, K. Þ. (2014, 08 06). Máttur kvenna. (S. Ruv., Interviewer)

Bifröst. (á.á). Háskólinn á Bifröst. Retrieved 10 29, 2014, from Saga: http://www.bifrost.is/um-haskolann/saga

Geirlaug Jóhannsdóttir, H. á. (Director). (2014). Máttur kvenna I og II [Motion Picture].

Háskólinn á Bifröst. (2014). MK könnun. Bifröst: óbirt.

Skessuhorn.is. (2005, 18.10). Skessuhorn. Retrieved 30 10, 2014, from Fyrirtækið Námsskjár ehf stofnað: http://www.skessuhorn.is/frettir/nr/25723/

2 thoughts on “Máttur kvenna”

  1. Flott kynning hjá þér Kristín og áhugaverð. Ég hafði ekki hugmynd um þessa námslínu. Það er alveg frábært að það skuli vera til svona úrræði fyrir konur í atvinnulífinu. Ekki síst finnst mér það áhugavert að námsleiðin er þarna að aðlaga sig að þörfum þessarra kvenna sem er algjörlega í anda Andragogy stefnunnar.

Skildu eftir svar