Fræðsluaðilar

Wiki > Símenntunargeirinn > Fræðsluaðilar
ATH þessi texti er samvinnuverkefni nemenda sem hafa sótt þetta námskeið undanfarin ár. Hann er lagaður og uppfærður af nemendum á hverju ári.

Fullorðið fólk lærir á mörgum stöðum og á margan hátt.

Söfnum hér saman lista yfir þá fræðsluaðila sem við vitum um, með stuttri lýsingu og slóð i vef stofnunar

=============================

Formlegar menntastofnanir

Háskólar á Íslandi


Framhaldsskólar á Íslandi

A-F

G-L

M

O-Ö

 

Aðrar stofnanir (t.d. ríkisstofnanir)

Sjálfstæðar fræðslustöðvar

Klifið er skapandi fræðslusetur. Það er hugsjónafélag sem er ekki rekið í hagnaðarskyni (non-profit association). Hugmyndafræði Klifsins byggir á eflandi kennslufræði nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar og kenningum um hæfniþróun. Við leggjum okkur fram við að virkja sköpunarkraft og ímyndunarafl hvers og eins til að efla trú einstaklingsins á eigin getu. Klifið leggur sig fram við að bjóða upp á fræðslu við hæfi ólíkra hópa, fræðslu sem vekur áhuga, og auðgar líf fólks á öllum aldri. Í Klifinu er áhersla lögð á samvinnu og samstarf við nærsamfélagið við að þróa eigin leiðir í takt við umhverfi og samfélag.

PROMENNT býður upp á mjög fjölbreytt úrval námskeiða í viðskiptagreinum, tölvu- og upplýsingatækni fyrir byrjendur jafnt sem sérfræðinga. Helstu námsbrautir eru skrifstofunám, almenn tölvunámskeið, grafík, myndvinnsla og vefur  og sérfræðinám (kerfisfræði, netstjórnun ofl.). Ýmsum námskeiðum skólans, þar sem sérstakrar vottunar er þörf, lýkur með prófum og er þá í flestum tilfellum stuðst við stöðluð alþjóðleg próf.

Promennt hefur hlotið EQM gæðavottun (European Quality Mark) en með því hefur verið staðfest að Promennt standist evrópskar kröfur um gæði fræðsluaðila.

Retor Fræðsla hefur frá stofnun árið 2008 sérhæft sig í að veita innflytjendum íslenskukennslu á stigum 1-6 en auk þess býður Retor upp á ýmisskonar fræðslu á móðurmáli. Haustið 2009 tók Retor Fræðsla að sér þróun sérhæfðs námsefnis fyrir Vinnumálastofnun. Helstu úrræði sem Retor hefur tekið að sér að þróa fyrir innflytjendur í atvinnuleit eru: Samfélagsfræðsla, Atvinnuleit, Námstækni, Sjálfstyrking, Þjónustulund og Fyrirtækjarekstur ásamt íslenskukennslu á stigum 1-5. Þessi námskeið gagnast jafnframt fólki í vinnu en mikið magn hagnýtra upplýsinga um íslenskt samfélag er að finna í námsefninu. Markmið námskeiðanna er jafnframt að styrkja fólk og auðvelda því aðlögun að íslensku samfélagi.

Símenntunarmiðstöðvar

Mímir-símenntun er fræðslufyrirtæki sem starfar á sviði fullorðinsfræðslu og starfsmenntunar. Fyrirtækið hóf starfsemi sína í janúar 2003 og er í eigu Alþýðusambands Íslands. Fastráðnir starfsmenn eru rúmlega 20 en auk þess eru yfir 100 kennarar og leiðbeinendur hjá Mími og vinna að fjölþættum verkefnum á vegum fyrirtækisins.

Starfsemin byggir á grunni Námsflokka Hafnarfjarðar sem stofnaðir voru árið 1971. Meginhlutverk Námsflokkanna hefur verið að bjóða almenningi upp á fjölbreytt nám og þar með tækifæri til að efla grunnmenntun sína og stuðla þannig að aukinni þátttöku fólks í námi og hagnýtri fræðslu, efla tengsl við aðra skóla og fræðlsuaðila og styðja við það nám sem þar fer fram og æskilegt hefur þótt á hverjum tíma og verða við óskum einstaklinga og hópa um áhugaverð fræðslu- og kynningarnámskeið. Einnig að veita almenningi ráðgjöf um námsval og námsleiðir að ákveðnum markmiðum, sé eftir því leitað.  Þannig hefur starfsemin verið sveigjanleg og tekið mið af þörfum og aðstæðum á hverjum tíma.

Markmið Námsflokkanna eru að veita fólki tækifæri til að bæta menntun sína, að fylla upp í þau skörð í fræðsluframboði sem eru í hinu almenna fræðslukerfi og styðja þá sem borið hafa skarðan hlut frá borði í skólanámi, auk þess að auka grunnmenntun og bæta félagslega stöðu almennings sem er eigandi Námsflokkanna.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. var stofnuð af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í desember 2002. Árið 2010 var starfsemi FA víkkuð út með samþykkt aðildar BSRB, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytis.

Hlutverk FA er að vera samstarfsvettvangur ASÍ, SA, BSRB, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytis um fullorðins- og starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði í samstarfi við aðrar fræðslustofnanir á vegum aðildarsamtakanna.

Markmiðið er að veita starfsmönnum, sem ekki hafa lokið prófi frá framhaldsskóla, tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði.

IÐAN fræðslusetur ehf. varð til við samruna fjögurra fræðslumiðstöðva í iðnaði og ferðaþjónustu vorið 2006. Um áramótin 2006/2007 bættist síðan Fræðslumiðstöð bílgreina í hópinn. Eigendur IÐUNNAR eru: Samtök iðnaðarins, Samiðn, MATVÍS, Félag bókagerðarmanna, FIT, VM, Bílgreinasambandið, Samtök ferðaþjónustunnar og Meistarafélag húsasmiða.

Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra er sjálfseignarstofnun og var stofnaður árið 1992 (sjálfseignarstofnun frá 1998)..

Markmið hans er meðal annars að efla endur- og símenntun á Norðurlandi vestra, greina þarfir fyrir fræðslu og standa fyrir hvers konar námi. Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra hefur umsjón með fjarnámi á háskólastigi á svæðinu.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða er sjálfseignarstofnun og var stofnuð árið 1999.

Markmið hennar er að auðvelda íbúum á Vestfjörðum símenntun og þátttöku í námi af ýmsu tagi í formi styttri almennra námskeiða, endurmenntunarnámskeiða og starfstengdra námskeiða. Fræðslumiðstöð Vestfjarða þjónustar einstaklinga, hópa, fyrirtæki og stofnanir hvar sem er á Vestfjörðum. Í námstilboðum miðstöðvarinnar er markvisst unnið að því að efla færni fólks og bæta þannig stöðu þess á vinnumarkaði. Skipulag námsins tekur bæði mið af þörfum vinnandi fólks og atvinnulífsins hverju sinni og er lögð áhersla á kennsluaðferðir sem henta fullorðnu fólki.

Þekkingarnet Þingeyinga var stofnað árið 2006 og er símenntunar-, háskólanáms- og rannsóknasetur sem starfar á grunni tveggja stofnana, annars vegar Fræðslumiðstöð Þingeyinga (stofnuð 1999) og hins vegar Þekkingarseturs Þingeyinga (stofnað 2003).

Hlutverk og markmið Þekkingarnets Þingeyinga er þríþætt. Í fyrsta lagið að vera miðstöð símenntunar og fullorðinsfræðslu í héraðinu, í öðru lagi að reka öflugt háskólanámssetur og þjónusta þannig sívaxandi hóp háskólanema í héraðinu og í þriðja lagi er rannsóknarstarf og þjónusta. Þekkingarnetið leggur mikla áherslu á að byggja upp öflugan þverfaglegan vettvang fyrir rannsóknir innan héraðs, þ.e. í Þingeyjarsýslum, með áherslu á þau svið sem skapa héraðinu sérstöðu og gefa efnivið til rannsóknarstarfs.

Austurbrú er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var 8. maí 2012 á grunni Þekkingarnets Austurlands, Þróunarfélags Austurlands, Markaðsstofu Austurlands og Menningarráðs Austurlands og annast auk þess daglegan rekstur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Markmið hennar er að vera vettvangur fyrir samstarf og samþættingu á þjónustu, nýta sameinað afl til að sækja fram, kalla eftir nýjum verkefnum, bæði innlendum og erlendum, og vinna metnaðarfullt starf, íbúum Austurlands til hagsbóta. Hún er í forsvari fyrir þróun atvinnulífs, samfélags, stjórnsýslu, háskólanáms, símenntunar, rannsókna, þekkingar- og menningarstarfs á Austurlandi og er fyrsta stofnun sinnar tegundar á Íslandi.

Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi var stofnað 1998 og er miðstöð símenntunar og framhaldsfræðslu á Suðurlandi.

Markmið þess er að sjá um og skipuleggja námskeið fyrir fullorðið fólk, m.a.til að auðvelda aðgengi íbúa fjórðungsins að margs konar námi og símenntun og auka með því búsetugæði á svæðinu, sinna fræðsluþörfum fullorðinna sem ekki sækja nám í formlega skólakerfinu og sinna sí- og endurmenntun háskólamenntaðs fólks í samvinnu við Háskólafélag Suðurlands.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) er sjálfseignarstofnun sem var stofnuð árið 1997. Starfsemin hefur orðið umfangsmeiri og vaxið mjög síðan MSS var stofnað. Og samhliða því hefur námsframboð aukist til að bregðast við þörfum viðskiptavina sinna.

Markmið hennar er að efla sí- og endurmenntun Suðurnesjamanna, auka menntun og lífsgæði íbúa svæðisins og efla þannig einstaklinga og atvinnulíf. Innan MSS á sér stað mjög metnaðarfullt starf og býður stofnunin upp á fjölbreytt námsúrval sem þjónar fyrirtækjum, stofnunum, menntastofnunum og almenningi með því að samræma framboð sí- og endurmenntunar með auknum tengslum atvinnulífs og skóla.

MSS heldur úti fésbókarsíðu þar sem námsframboðið er auglýst. Hér er linkur inn á síðuna hjá þeim:  https://www.facebook.com/MSS.Midstod.Simenntunar?fref=ts

SÍMEY var stofnuð árið 1999.

Markmið hennar er að efla símenntun og auka samstarf milli atvinnulífs og skóla, og styrkja þannig samkeppnishæfni fyrirtækja og stofnana á svæðinu. SÍMEY stuðlar að því að einstaklingar á Eyjafjarðarsvæðinu hafi aðgang að hagnýtri þekkingu á öllum skólastigum. Samstarfsaðilar eru allir þeir sem vinna að eða bjóða upp á fræðslu, innan eða utan hefðbundinna menntastofnana, hvort sem um er að ræða starfsmenntun, tómstundanám, bóklega eða verklega fræðslu. SÍMEY leggur áherslu á að miðla, safna og vinna úr upplýsingum og skapa þannig möguleika á markvissari og árangursríkari uppbyggingu á fræðslu.

Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi er sjálfseignarstofnun og var stofnuð 1999.

Markmið hennar er að auka þekkingu og stuðla að bættum búsetuskilyrðum á Vesturlandi með því að greina og svara menntunarþörf og hvetja til símenntunar í samvinnu við atvinnulíf og íbúa svæðisins. Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi er miðja þróunar og miðlunar þekkingar fullorðinna á svæðinu og fyrsti kostur íbúa og atvinnulífs í öflun hennar. Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi tengir saman þá sem vinna að miðlun og öflun þekkingar fullorðinna á svæðinu og stendur fyrir ýmsu námsframboði  í fullorðinsfræðslu, auk náms- og starfsráðgjafar og ráðgjafar og greiningar á fræðsluþörf innan fyrirtækja.

VISKA er fræðslu- og símenntunarmiðstöð og var stofnuð árið 2003.

Markmið hennar er m.a. að efla menntun í Vestmannaeyjum með því a standa fyrir fræðslustarfsemi sem ekki heyrir undir námsskrárbundið nám á grunn- og framhaldsskólastigi, nema sérstaklega verði um það samið. Einnig að hafa forgöngu um fræðslu og fjarkennslu á sem flestum sviðum, að miðla framboði á fræðslu og fjarkennslu til almennings og atvinnulífs í Vestmannaeyjum, vinna í samstarfi við aðra aðila í landinu sem sinna símenntun, endurmenntun og menntun á háskólastigi og vera í fararbroddi að nýtingu á bestu fáanlegri fjarkennslutækni hverju sinni.

Endurmenntun Háskóla Íslands hefur verið starfrækt síðan 1983 og er skilvirkur farvegur fyrir miðlun þekkingar Háskóla Íslands til samfélagsins.

Markmið hennar, með öflugri nýsköpun í námsframboði og þjónustu, er að efla hæfni og þekkingu fólks í starfi og einkalífi. Stefna Endurmenntunar er að vera ávallt eftirsóknarverðasti valkostur fyrirtækja, stofnana og einstaklinga til símenntunar á Íslandi. Háskólaráð Háskóla Íslands setur reglur um starfsemi Endurmenntunar Háskóla Íslands.

Opni háskólinn í HR er símenntun og endurmenntun fyrir sérfræðinga og stjórnendur í atvinnulífinu.

Markmið hans er að bjóða upp á fræðslu og menntun á lykilsviðum HR sem eru tækni, viðskipti og lög. Til opna háskólans geta sótt annars vegar sérfræðingar og stjórnendur sem vilja bæta árangur í starfi og efla persónulega færni og hins vegar fyrirtæki og stofnanir sem leita eftir heildarlausnum á sviði fræðslumála með fjárfestingu í mannauði og verðmætasköpun að leiðarljósi.

Símenntun Háskólans á Akureyri er sjálfseignarstofnun.

Markmið hennar er að leitast við að bjóða upp á alhliða sí- og endurmenntun á háskólastigi. Símenntunar Háskólans á Akureyri er einkum margþætt. Í fyrsta lagi endurmenntun faghópa á fræðasviðum háskólans, í öðru lagi endurmenntun á ýmsum sviðum einkum ætluð háskólakennurum og öðru starfsliði háskólans og í þriðja lagi námskeið ætluð almenningi. Nú starfrækir Háskólinn á Akureyri í gegnum Símenntun umfangsmikið fjarnám sem metið er til háskólaprófs. Þetta á sér stað í samstarfi við fjölmargar símenntunarmiðstöðvar um allt land.

Framvegis – miðstöð símenntunar

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur veitt Framvegis miðstöð símenntunar viðurkenningu til þess að annast framhaldsfræðslu á grundvelli laga um framhaldsfræðslu frá 2010. Í slíkri viðurkenningu felst staðfesting á því að starfsemi fræðsluaðilans uppfylli almenn skilyrði laga og reglna um framkvæmd framhaldsfræðslu. Viðurkenningin byggir á mati á aðstöðu, skipulags náms og umsjón með því, námskrá og námslýsingar, fjárhagsmálefni og tilvist gæðakerfis með áherslu á nám fullorðinna.

Framvegis er aðili að Kvasir samtökum fræðslu- og símenntunarstöðvar og Leikn samtökum fullorðinsfræðslu. BSRB ásamt aðildarfélögum sínum SLFÍ, SFR og St.Rv eiga 51% hlut í miðstöðinni, en Promennt á 49%

Framvegis hefur hlotið EQM gæðavottun (European Quality Mark) en með því hefur verið staðfest að Framvegis standist evrópskar kröfur um gæði fræðsluaðila.

Fjölmennt er sjálfseignarstofnun stofnuð árið 2002 og rekin af Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands skv. þjónustusamningi við Menntamálaráðuneyti. Hlutverk Fjölmenntar er að sinna námskeiðahaldi fyrir fatlað fólk og að veita ráðgjöf til náms við aðrar menntastofnanir. Síðan 2002 hefur aukist áherslan á ráðgjafarþáttinn með þeirri stefnu að fatlað fólk eigi að geta stundað símenntun til jafns við aðra þegna samfélagins og hjá sömu aðilum og veita fullorðnu fólki símenntun almennt. Fjölmennt er í dag í nánu samstarfi við aðrar símenntunarmiðstöðvar bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Öflugt þróunarstarf á sér stað hjá Fjölmennt og má þar nefna að hannaðar hafa verið nokkrar námsbrautir fyrir styrki frá Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins sem nýst geta öðrum menntastofnunum við að bjóða fram nám fyrir fatlað fólk.

Fyrir utan heimasíðu með góðu aðgengi heldur Fjölmennt einnig úti Facebook-síðu með áhugaverðum fréttum, myndum og vídeó-upptökum frá starfseminni: https://www.facebook.com/Fjolmennt/?fref=ts

Menntaklasi

Keilir var stofnaður vorið 2007 og hefur aðsetur á Ásbrú í Reykjanesbæ á fyrrum varnarsvæði bandaríska hersins.
Keilir er alhliða menntafyrirtæki í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka. Námið í Keili skiptist í fjögur sérhæfð meiginsvið, en innan hvers sviðs er fjölbreytt námsframboð. Sviðin fjögur eru
Háskólabrú, sem miðar að því að undirbúa nemendur fyrir háskólanám
Flugakademía, sem býður upp á ýmiskonar flugtengt nám
Íþróttaakademía, sem veitir ÍAK þjálfararéttindi og leiðsögunám í ævintýraferðamennsku
Tæknifræði, sem skiptist í orku- og umhverfistæknifræði og mekatróník hátæknifræði

Markmið: Keilir er lítill og sérhæfður skóli, með áherslu á nánd við nemendur og persónulega þjónustu. Mikið er lagt upp úr nútímalegum og fjölbreyttum kennsluháttum, bæði í fjarnámi og staðnámi. Einnig að nemendum sé skapað traust og gott námsumhverfi. Kennarar og aðrir starfsmenn eru áhugasamir um að nýta upplýsingatækni og tækninýjungar við kennslu sem miðar að því að gera nemendur að virkum þátttakendum í náminu sjálfu. Skólanum er ætlað að fylla í eyður í skólakerfinu og vera í nánum tengslum við atvinnulífið.

Námstengd -starfsendurhæfing

Markmið Hringsjár er að veita náms- og starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga, 18 ára og eldri sem vegna sjúkdóma, slysa, fötlunar eða annarra áfalla þurfa á endurhæfingu að halda til að takast á við nám og/eða að stunda atvinnu á almennum vinnumarkaði. Námið hentar einnig þeim sem hafa litla grunnmenntun eða sértæka námserfiðleika. Stefnt er að því að þeir sem útskrifast frá Hringsjá séu færir um að takast á við nám í almennum framhaldsskólum og finna störf við hæfi á almennum vinnumarkaði.

Endurhæfingin felst í einstaklingsmiðuðu námi í formi styttri námskeiða eða fullu einingarbæru námi með sérhæfðri ráðgjöf og stuðningi. Námið myndar þá umgjörð sem endurhæfingin fer fram í. Nám gerir sömu kröfur til einstaklings og vinna. Einstaklingurinn þarf að hafa markmið, skipuleggja tíma sinn, mæta og skila dagsverki.

Hjá Janusi endurhæfingu fer fram fjölbreytt starfs- og atvinnuendurhæfing. Boðið er upp á endurhæfingu á fimm mismunandi brautum.

Brautirnar sem í boði eru; Skólabraut, Heilsubraut, Iðjubraut, Vinnubraut og Einstaklingsbraut.

Faglegu starfi Janusar endurhæfingar er stjórnað af heilbrigðisstarfsfólki. Kennarar Tækniskólans koma einnig að starfinu sem og aðrir sérfræðingar innan og utan Janusar endurhæfingar, allt eftir þörfum  hvers þátttakanda.

Starfsemin er fjármögnuð með gerð þjónustusamninga við Virk starfsendurhæfingarsjóð.

 

Félagasamtök

Atvinnulífið (fyrirtæki)

  • Fræðsludeild Landsbankans
  • Hótelklassinn – Icelandair
  • Stóriðjuskólinn (Alcan)
  • Þjálfunardeild Icelandair
  • Þjálfunardeild Flugfélag Íslands
  • Þjálfunardeild WOW air