Vendinám – Lotur 4 og 5

Unit 4 – Tech Tools of the Flipped Classroom (Lota 4 – Tækni og tól í vendinámi)

Í lotu fjögur í netnámskeiði Jon Bergmann er aðaláherslan lögð á þá tækni sem gagnast kennurum til að búa til kennslumyndbönd.

Í kynningunni segir Jon þetta skiptast upp í tvö svið, annarsvegar nokkur grundvallaratriði sem þarf að hafa í huga og hins vegar tækni og tól sem henni tengjast.

Hann byrjar á því að nefna 13 atriði sem kennarar ættu að hafa í huga við gerð markvissra kennslumyndbanda:

 1. Hafðu þau stutt og bara eitt viðfangsefni í hverju myndbandi.
 2. Notaðu orku í röddina – ekki tala á einhæfan hátt. (Og reyndu að komast yfir það að finnast erfitt að hlusta á þína eigin rödd!)
 3. Reyndu að vinna með einhverjum og jafnvel setja í gang samtal um efnið. Í lagi að vera skrítinn eða fyndinn.
 4. Hljóðið skiptir miklu máli, léleg hljóðgæði eru mjög þreytandi. Góður hljóðnemi og þögn í kring skipta miklu máli.
 5. Bættu við húmor þar sem hægt er. Talaðu með hreim! Segðu brandara! En bara ef þú heldur að þannig komist námsefnið betur til skila.
 6. Ekki eyða tíma nemenda með því að tala um eitthvað sem ekki skiptir máli.
 7. Minni texti – meiri myndir. Látið nemendur frekar lesa textann og fjallið svo um hann í myndbandinu – ekki mikinn texta á glærur.
 8. Setjið endilega önnur vídeó inn í ykkar kennslumyndbönd.
 9. Notið textaskýringar, teiknið á skjáinn. Það er mjög mikilvægt t.d. í raungreinum og stærðfræði.
 10. Mynd á mynd. Gott að hafa upptöku af kennara í einu horninu, gefur betri tengingu milli nemenda og kennara.
 11. Gagnvirkni í myndböndum – viðbrögð frá nemendum
 12. Mikilvægt að hafa handrit eða „storyboard“ svo upptakan verði markviss.
 13. Muna að virða höfundarrétt t.d. á myndefni eða öðru sem tekið er af netinu – verum góð fyrirmynd nemenda okkar.

Svo vitnarJon í Richard Mayer sem skrifaði bókina Multi Media Design árið 2001. Mayer talar m.a. um:

 • hreinan bakgrunn á glærum, ekki áreiti frá óþarfa hlutum
 • gefa út dagskrá fyrirfram svo nemendur geti staðsett sig í efninu
 • nota mest myndir og röddina – minna af texta á glærurnar
 • skrifa textaskýringar á myndir þar sem þær eiga að  vera, ekki til hliðar
 • best er að myndir og orð  birtist samtímis
 • gefa nemendum svigrúm til að stjórna hraðanum (upptökur  því heppilegar)
 • vera í samræðugírnum við nemendur – ekki halda formlega ræðu

Jon fer nákvæmlega yfir hvaða tækni fólk hefur til að búa til kennslumyndbönd. Hann kynnir:

 • snjallsíma á þrífæti sem tekur upp kennarann fyrir framan venjulega tússtöflu – tækni sem flestir hafa aðgang að, flóknara þarf það ekki að vera.
 • skjalamyndavél (Hoover cam) sem tekur upp pappír á borði – þá getur kennari skrifað á pappírinn og talað samtímis.
 • upptökur á skjá – hægt að nota bæði tölvu með eða án snertiskjá
 • upptökur á iPad – kynnir t.d. smáforritið Doceri sem er hægt að nota bæði sjálfstætt og einnig tengt við tölvu. Myndbandinu er svo auðveldlega hægt að deila sem QR kóða.
 • upptökurými með „light board“ sem er glerveggur milli myndavélarinnar og fyrirlesarans. Á glerið er hægt að skrifa með neontússum og ljós lýsa það upp á ákveðinn hátt svo það sjáist vel. Í klippiforritinu Final Cut ProX er svo myndinni speglað svo textinn sjáist réttur. Þessa tækni notar Jon sjálfur á þessu námskeiði – þetta kemur mjög vel út.

Til að safna gögnum úr kennslumyndböndum sýnir Jon okkur eina mjög einfalda aðferð til að láta spurningar fylgja með kennslumyndbandi. Hann notar GoogleForm, opnar þar nýtt og smellir fyrst af öllu á „bæta við myndbandi“ velur þar Youtube myndband sem hann átti til (GoogleForm virkar bara með Youtube myndböndum). Setur myndbandið inn efst og bætir svo við spurningum að vild fyrir neðan. Svo er auðvelt að deila þessu með öðrum, hægt að sækja hlekk, deila beint á samfélagsmiðla eða senda í tölvupósti.

Ég fylgdi leiðbeiningum hans og á örfáum mínútum hafði ég bætt spurningum við kennslumyndband frá mér sem ég átti á Youtube. Afraksturinn má sjá hér, þið megið endilega horfa á myndbandið (1 mín) og svara spurningunum.

Jon leggur áherslu á að kennarar nýti sér kennslukerfi (e. Learning Management Systems) til að halda utan um öll skjöl, glærur, myndbönd, kannanir, próf og umræður. Hann segir ekki skipta neinu máli hvaða kerfi fólk velur, stærsti vandinn er í raun að kennarar eru oft ekki að nýta sér þau kerfi sem eru yfirleitt í boði í skólunum. Hann mælir með því að nemendur séu ekki ruglaðir með því að vera með of mörg kennslukerfi, heldur að hver skóli reyni að halda sig við eitt gott kerfi. Jafnframt hvetur Jon kennara til að reyna að læra vel á það kerfi sem er í boði.

Listi Jons yfir tæki og vélbúnað sem kennarar geta haft gagn af við upptökur og kennslu er góður að hafa til hliðsjónar. Fyrst nefnir hann góðan hljóðnema, hann mælir með því að kaupa vandaðan hljóðnema, mikilvægt að hljóðgæði séu góð í upptökum. Reyndar segir hann hljóðneminn í mörgum tölvum geti verið ásættanlegur ef þess er gætt að vera í hljóðlátu rými. Eins sýnir hann kosti teiknibrettis, sem tengist tölvu með USB tengi. Á það er auðvelt að teikna upp myndir eða reikningsdæmi, sem skila sér beint á skjáinn. Góð heyrnartól er eitthvað sem honum finnst skipta máli, sérstaklega ef nemendur eru að hlusta á fyrirlestra í skólastofunni þar sem oft er líf og fjör. Tölva er nauðsynleg en hvaða tegund skiptir ekki máli – bara það sem virkar fyrir þig. Og það sama með spjaldtölvur, fínt að hafa aðgang að slíku en tegundin skiptir ekki máli.

Í dag eru margskonar verkfæri fáanleg til að halda utan um  námsmat (e. Assessment Tools) til að gefa kennurum betri yfirsýn yfir hvern og einn nemenda. Þetta kemur sér vel t.d. ef vendinámið er tekið alla leið yfir í hlitarnám (e. Mastery Learning). Þá er mikilvægt að hafa góða yfirsýn yfir stöðu hvers nemanda, því þeim er ekki hleypt áfram með efnið nema hafa tileinkað sér það sem á undan er gengið. Stundum eru þessi námsmatsverkfæri innbyggði í kennslukerfi, en stundum þarf að kaupa þau sér. Yfirleitt er samt alltaf um að ræða einhvern hugbúnað, forrit eða heimasíður. Til að finna út hvað hentar best, þarf að skoða aðstæður – taka tillit til námskrár, námsefnis, nemendahóps ofl.

Að lokum fer Jon stuttlega yfir möguleikana að setja upp vendinám í umhverfi sem er ekkert sérlega tæknivætt (e. Low Tech Flipping). Ef skólinn sem þú ert að vinna í hefur ekki ráð á þeim græjum sem þarf til að framkvæma upptökur og halda utan um vendinám, eða ef engin nettenging er í boði, þarf að hugsa í lausnum. Kennari þarf að lágmarki að hafa aðgang að tölvu, en með einni slíkri getur hann samt gert ansi margt. Hann lýsir því hvernig hann hefur í gegnum tíðina aðstoðað nemendur sem ekki voru með tölvur eða internet heima. Hann sendi suma heim með Flash drive, hlóð myndböndunum upp á iPod, snjallsíma og spjallsíma, stundum brenndi hann kennslumyndbönd á DVD diska eða sendi nemendur heim með MP4 spilara með myndböndum á. Eins má skoða hvaða möguleika er að finna í skólanum, ef þar eru tölvur og net er hægt að reyna að opna fyrr og hleypa nemendum inn til að undirbúa sig, eða hafa skólann opinn lengur á daginn. Jon bendir á það að með þessum aðferðum sé ekki hægt að ætlast til rafrænnar gagnvirkni, en þá þarf að biðja nemendur um að skrifa hjá sér spurningar og taka glósur sem kennarinn skoðar í kennslustundum.

Aðalatriðið er að hugsa í lausnum og muna að flest allt er hægt að leysa ef viljinn er fyrir hendi.

Unit 5 – What to do in class? (Lota 5 – Hvað á að gera í kennslustundum?)

Í lotu fimm í netnámskeiði Jon Bergmann er aðaláherslan lögð á kennslustundirnar – hvað á núna að tímann í sem kennari og nemendur eiga saman?

Það fyrsta sem Jon nefnir hér er að hvetja kennara til að finna milliveg milli verklegra æfinga (e. activity) og skriflegra æfinga (e. process). Flestum fögum hentar best að vera blanda af báðu eða í raun bara tryggja að það sé gott jafnvægi milli virkni og verkefna, fjölbreytni í verkefnavinnu í tímum, ekki alltaf það sama.

Það sem mikilvægt er að gera í kennslustundum er að fylgjast vel með öllum nemendum og ganga á milli þeirra alla, spjalla við þá og aðstoða eftir þörfum. Stundum notar hann svokallað bollamódel, þá ardent-teacherer hann með plastbolla í mismunandi litum, grænir, gulir og rauðir – hver nemandi fær 3 bolla – einn í hverjum lit og þá geta þeir gefið til kynna hvernig staðan hjá þeim er. Ef grænn bolli er sýnilegur gengur vel hjá nemandanum, ef gulur bolli er sýnilegur þarf nemandi smá aðstoð en ef rauður bolli er sýnilegur er nemandi í virkilegum vanda. Mikilvægt er samt að kennari fari líka og tali við nemendur sem eru með grænan bolla, þeim má ekki gleyma.

Einnig talar hann um jafningjafræðslu, um að gera að leyfa nemendum að kenna hverjum öðrum og oft skilur það mjög mikið eftir sig hjá nemendum að þurfa að setja sig þannig inn í efnið að þeir geti kennt öðrum um það. En hann varar við því að nemendur séu þvingaðir til að kenna öðrum, bara leyfa þeim ef þau vilja.

Svo leggur hann til að kennslustundirnar séu notaðar fyrir verkefni í litlum hópum, þá getur kennarinn líka verið á hliðarlínunni og aðstoðað þau eins og þarf.

Með þessu móti mun kennarinn þjálfast í að spyrja spurninga þegar hann er í stanslausum samskiptum við nemendur. Mikilvægt að spyrja opinna spurninga og vekja forvitni nemenda þannig að námsefnið sitji eftir. Samskipti milli kennara og nemenda leiða til dýpri hugsunar um efnið, sem skilar sér betur til framtíðar en vélrænn utanbókarlærdómur.

Jon kynnir fyrir okkur undirmódel sem kallast „The In Flip“ sem mætti þýða lauslega sem „inninám“. Þá er skipulagið þannig að helmingur bekkjarins horfa á kennslumyndbönd í skólastofunni á meðan kennarinn sinnir hinum nemendunum og svo skipta hóparnir um stað. Þannig myndast meiri tími kennara með nemendum. Þessi aðferð hentar t.d. ungum nemendum eða nemendum sem eiga í námserfiðleikum og skortir allan drifkraft. Einnig getur þetta leyst málin þar sem kennari vill nota vendinám en nemendur hafa ekki aðgang að tölvum eða interneti heima.

Að lokum kynnir Jon fyrir okkur „speglaða endurgjöf“ (e. Flipped Feedback) sem fer þannig fram að kennari fer yfir verkefni nemenda í upptöku sem svo er send beint á viðkomandi nemenda í tölvupósti. Hægt er að nota hvaða forrit eða smáforrit í spjaldtölvu sem er, aðal atriðið er að kennarinn er að tala beint við nemandann, getur skrifað inná leiðréttingar og athugasemdir, hann getur hrósað og leiðbeint á jákvæðan hátt. Fyrir nemandann skilur þetta meira eftir heldur en ef hann hefði fengið verkefnið til baka á blaði með rauðum strikum sem hann kannski áttar sig ekki á.

Þessa aðferð hef ég verið að nota í minni kennslu síðan ég heyrði Jon fyrst tala um þetta vorið 2012 og ég hef fengið mjög góða viðbrögð frá mínum nemendum. Stóra breytingin er sú að það er auðvelt að hrósa, tala um framfarir frá því síðast, leiðbeina og útskýra hvað er vitlaust og hvað þarf að gera til að þetta verði rétt. Einnig hægt að tala um að sumar villur séu algengar, að þetta orð sé ekki vitlaust, en væri betra að nota annað orð o.s.frv. Nemendur nenna frekar að hlusta að svona endurgjöf heldur en að reyna að klóra sig í gegnum rauðstrikuð blöð eða „track changes“ í word. Hér er dæmi um hvernig ég nota þessa aðferð.

Jon hvetur kennara til að láta nemendur laga verkefnin sem þau fá til baka með speglaðri endurgjöf, þannig skilar endurgjöfin sér best.

 

One thought on “Vendinám – Lotur 4 og 5”

Skildu eftir svar