Rannsóknargrein – Peer Teaching in a Flipped Teacher Education Classroom

Peer Teaching in a Flipped Teacher Education Classroom

Graziano, K. J. (e.d.). Peer Teaching in a Flipped Teacher Education Classroom. TechTrends. Sótt af http://link.springer.com/article/10.1007/s11528-016-0077-9

Inngangur

Greinin sem ég valdi að skrifa um heitir Peer Teaching in a Flipped Teacher Education Classroom eftir Kevin J. Graziano. Hún var birt í tímaritinu Tech Trends: Linking Recearch and Practice to Improve Learning – A publication of the Association for Educational Communications & Technology. Greinin birtist í netútgáfu tímaritsins þann 11. Maí 2016. Tímaritið hefur verið gefið út uþb 6 sinnum á ári síðan árið 1985 og er leiðandi tímarit í faglegri umræðu um samskipti og tækni á sviði menntamála. Áður hét tímaritið Tech trends for leaders in education and training. Greinina fann ég í gegnum Google Scholar og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég finn hefur ennþá enginn vitnað formlega í hana, en hún er líka fremur nýleg.

Ég mun segja frá ástæðunni fyrir því að ég valdi að fjalla um þessa rannsóknargrein í þessu verkefni. Einnig mun ég fjalla örstutt um höfund greinarinnar og segja frá því helsta sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Svo fjalla ég um innihald greinarinnar og skoða rannsóknarspurningarnar. Þá segi ég frá helstu niðurstöðum, tengi hana fræðunum. Að lokum set ég fram mitt álit á greininni og framlagi hennar til fræðanna.

Hvers vegna þessi rannsóknargrein?

Þessi grein vakti strax áhuga minn því ég hef verið að vinna með kennsluaðferðina vendinám (e.  flipped classroom) undanfarin ár og það er sú aðferð sem minn vinnustaður hvetur kennara til að nota. Ég hef samt ekki lesið margar greinar um vendinám. Greinin fjallar um að kynna vendinám fyrir kennaranemum með það fyrir augum að  þeir geti nýtt þá kennsluaðferð þegar þeir byrja að kenna. Ég er sjálf kennaranemi og hefði viljað sjá meiri kynningu á þessari hugmyndafræði í mínu háskólanámi. Þar að auki hef ég sjálf séð marga kosti þessarar aðferðar fyrir fullorðna nemendur og var því áhugasöm um það, að hvaða niðurstöðu höfundur greinarinnar kemst.

Um höfundinn

Kevin Graziano er Doktor í menntunarfræðum í Háskólanum í San Francisco, með aðáherslu á alþjólega- og fjölþjóðlega menntun. Einnig hefur hann rannsakað tækni sem nýtist í menntun. Hann er með mastersgráðu í Vísindum frá Central Connecticut State Háskólanum í New Britain. Þar var aðaláhersla hans á ráðgjöf, þroska nemenda ásamt því að sérhæfa sig í framhaldsmenntun. Hann hefur sinnt kennslu og rannsóknum á menntun kennara, tækni í skólastarfi og ensku sem erlent mál. Greinar eftir hann hafa birst víða og hann kom einnig að útgáfu bókarinnar Online Teaching in K-12: Models, Methods, and Best Practices for Teachers and Administrators. (Nevada State College, e.d.).

Innihald greinarinnar

Í úrdrætti greinarinnar kemur fram að fleiri og fleiri skólastjórar og yfirmenn ætlast til þess að nýir kennarar hafi fengið kynningu á vendinámi í sínu kennaranámi og geti nýtt sér það um leið og þeir byrja að kenna. Markmiðið með þessari rannsókn var að greina kosti vendináms í kennaranámi og þær áskoranir sem aðferðin ber með sér fyrir kennaranema, ásamt því að skoða hvaða áhrif „flippuð“ uppsetning áfangans hefur á skilning nemenda á innihaldinu.

Kostir vendináms eru rökræddir víða um þessar mundir og því hefur verið haldið fram að þessi aðferð ýti undir virkni nemenda og nútímalegra skipulag á námskeiðum. Í ljósi þessara umræðna í samfélaginu, veltir höfundur upp þremur rannsóknarspurningum:

 • Hverjir eru kostirnir við að nota vendinám fyrir kennaranema til að kenna þeim að nota aðferðina?
 • Hverjar eru áskoranirnar fyrir nýja kennara sem vilja nýta sér aðferðafræði vendináms?
 • Hversu mikið vita kennaranemar um námsefnið sem þeir eiga að kenna samnemendum eftir hugmyndafræði vendináms?
 • Hversu mikið vita kennaranemar um námsefnið sem samnemendur þeirra hafa kennt þeim eftir hugmyndafræði vendináms?
 • Eftir að hafa upplifað kennslu á þennan hátt, hversu líklegt er að kennaranemar nýti sér vendinám þegar þeir verða kennarar?

Tilgangur verkefnisins var að rannsaka upplifun kennaranema sem upplifðu nám í vendinámsumhverfi, að finna kosti og galla vendináms og að varpa ljósi á það hversu mikið skipulag námskeiðsins hefur áhrif á skilning nemenda á innihaldinu.

Niðurstaðan gefur til kynna að þær kennslustundir sem nemendur kenndu með vendináms aðferðafræðinni hafi verið bæði gagnvirkar og skemmtilegar, og nemendur töluðu sjálfir um það að þeir hafi verið virkari og áhugasamir um fagið en þeir voru vanir. Hinsvegar kemur það fram að það var dálítið erfitt fyrir nemendur að undirbúa og framkvæma innihaldsríkar kennslustundir þar sem innihaldið skilaði sér almennilega til samnemenda þeirra. Í lokin er svo farið yfir nokkrar hagkvæmar lausnir og tillögur að því hvernig má innleiða vendinám á árangursríkan hátt.

Rannsóknaraðferð

Þessi rannsókn var framkvæmd í kennaraskóla þar sem Graziano kennir á hverju hausti námskeið sem heitir„a second language acquisition course“. Yfirleitt notaði hann kennslumódelið kennsla, æfing, ígrundun (e. Teach, apply, reflect) en haustið 2013 gerði hann tilraun á því hvað myndi gerast ef hann setti námskeiðið upp sem vendinám.

Þátttakendur í þessari rannsókn voru 24 kennaranemar á bakkalár stigi í háskóla. 21 kona og 3 karlmenn. Allir þátttakendur höfðu lokið vettvangsnámi, voru skráðir í eða höfðu lokið námskeiði í aðferðafræði og höfðu takmarkaða kennslureynslu. Enginn af þátttakendunum höfðu reynslu af því að nota vendinám í kennslu eða námi. Þátttakendur voru nemendur í námskeiðinu hjá Graziano og fengu í fyrstu kennslustund að vita að námskeiðið yrði svona sett upp. Allir höfðu því nægjanlegt svigrúm til að segja sig úr því eða velja að taka það með hefðbundinni uppsetningu, en enginn hætti við.

Í byrjun fengu nemendur kennslu í fyrirbærinu vendinám, fyrstu tvær vikurnar fóru í það og þau fengu að kynnast aðferðunum á lifandi og virkan hátt. Þau lásu rannsóknir og ræddu innihaldið, horfðu á upptökur af öðrum kennurum að venda sínum kennsluaðferðum. Nemendur voru hvattir til þess að tileinka sér gagnrýna hugsun og nota ekki hefðbundnar aðferðir við kennsluna. Svo var nemendum raðað í pör og þau fengu að velja sér hvaða hluta af námsefninu þeir vildu kenna. Þeir völdu þá kafla úr námsbókinni og tilsvarandi myndbönd eða upptökur sem kennarinn hafði útbúið fyrirfram og allir nemendur höfðu aðgang að. Í 12 vikur skiptust nemendur á að kenna efnið eftir forskrift vendináms, þ.e. allir horfðu á innlögn heima og svo var unnið með efnið í ca 30 – 40 mínútur. Í lok tímans fékk kennarinn athygli nemendanna og hann fór yfir frammistöðu þeirra í tímanum, til að styrkja þekkingu þeirra á þessari kennsluaðferð. Nemendur fengu svo endurgjöf á kennsluáætlun sína sem þeir skiluðu til kennarans eftir tímann.

Nemendur þurftu að gæta þess að kennslustundin þeirra myndi innihalda öll átta atriðin af lista sem kallast SIOP módelið (e. Sheltered Instruction Observation Protocol). Samkvæmt heimasíðu CAL (e. Center for Applied Lingustics) er SIOP kennslufræðilegt módel sem hefur verið notað með góðum árangri í enskukennslu í Bandaríkjunum. Módelið samanstendur af átta ótengdum atriðum:

 • Undirbúningur fyrir kennslustund
 • Byggja upp bakgrunn
 • Yfirgripsmikil innlögn
 • Reglur
 • Umræður
 • Æfingar / beiting efnisins
 • Verkefnaskil
 • Upprifjun og mat

Miða við þær upplýsingar sem eru á heimasíðu CAL gagnast SIOP módelið kennurum til að skipuleggja og framkvæma kennslustundir sem hentar sérstaklega vel þeim sem eru að læra ensku. (Center for Applied Linguistics, e.d.).

Í þessari rannsókn safnaði Graziano gögnum með ýmsum leiðum; hann fylgdist með nemendum í kennslustofunni í 4 mánuði, átti óformleg samtöl við nemendur, skoðaði SIOP kennsluáætlanir nemenda og lagði könnun fyrir nemendur á síðasta degi annarinnar. Það sem Graziano lagði áherslu á í úrvinnslu gagnanna var að skilja hvernig þessi rannsókn legði eitthvað af mörkum inn í umræðuna um kosti og galla vendináms í kennaranámi, ásamt því að skilja hversu mikil áhrif skipulag námskeiðsins hefði á nám nemenda. Vandi Grazianos var sá að hlutleysi hans sem fræðimanns var ekki til staðar, þar sem hann var bæði kennarinn á námskeiðinu og rannsakandinn.

Niðurstöður og fyrirvarar

Graziano setur niðurstöður sínar fram á mjög skipulegan hátt, svarar öllum rannsóknarspurningunum eftir bestu getu.

Svörin við fyrstu rannsóknarspurningunni „Hverjir eru kostirnir við að nota vendinám fyrir kennaranema til að kenna þeim að nota aðferðina?“ geta fallið undir tvö megin þemu. Annað þemað gæti kallast „gagnvirk kennsla“. Nemendur minntust á það að þeir kjósa að vera virkir í kennslustund og taka það framyfir að sitja óvirkir og hlusta. Þeir tala um að í vendinámi séu meiri samskipti milli nemenda og kennara, að skipulagið gefi svigrúm til að vinna erfiðustu hlutina í skólastofunni með aðstoð kennarans og að kennarinn hafi meiri tíma til að útskýra námsefnið og vinna með nemendunum. Einnig kom fram að nemendur hefðu ekki haft neitt val, þeir yrðu að koma undirbúnir í tíma því ekki færi fram neinn fyrirlestur um efni dagsins. Nemendur virðast hafa kunnað að meta það svigrúm sem þessi aðferð veitti þeim til að kenna efnið, þeir máttu sjálfir velja hvernig þeir komu því til skila til samnemenda sinna. Vendinámið þvingaði þau til að taka ábyrgð á bæði sínu eigin námi en einnig námi samnemenda sinna.

Hitt þemað mætti kalla „framleiðni og undirbúningur fyrir kennslu framtíðarinnar“. Nemendur töluðu um að vera bæði áhugasamari og virkari inni í kennslustofunni, og upplifðu sjaldan að tíma þeirra væri sóað. Þeir voru spenntir að sjá hvernig samnemendur þeirra myndu leysa kennsluna og voru sáttir við jafnvægið á milli jafningjafræðslu, upplýsingum frá kennaranum og þeirra eigin vinnu. Kosturinn við að læra af samnemendum var að þá fór kennslan oft fram með þeirra eigin orðaforða og á þeirra getustigi. Nemendur töluðu líka um að þeim líkaði vel tilfinningin að vera „sérfræðingur“ í því sem þeir kenndu, fá tækifæri til að æfa kennsluhæfileikana og öðlast dýpri skilning á SIOP módelinu. Nemendur virðast hafa farið út úr hverjum tíma fullir af innblæstri og hugmyndum um hvernig þeir vildu haga sinni kennslu í framtíðinni.

Rannsóknarspurning tvö var á þessa leið: „Hverjar eru áskoranirnar fyrir nýja kennara sem vilja nýta sér aðferðafræði vendináms?“ Svörin við henni má einnig flokka í tvö þemu. Annað þemað fjallar um það að ná athygli fullorðinna nemenda og hvernig má skipuleggja kennslustundir sem vekja áhuga og ýta undir virkni, án þess að detta niður á kennsluaðferðir sem henta fremur í grunnskóla. Sumum fannst erfitt að átta sig á því hvort kennslan hefði skilað sér til samnemenda, fundu jafnvel fyrir stressi sem hindraði þá í að sýna sínar bestu hliðar í kennslunni. Einnig kom fram að það hefði verið erfitt að kenna efni sem allir höfðu þegar lært af kennslumyndböndum.

Hitt þemað fjallar um tímastjórnun. Tími er mjög dýrmætur fyrir unga kennara sem eru að hugsa um að útbúa sínar eigin upptökur þegar þeir byrja að kenna. Nemendur sáu alveg kosti við það að nota upptökur í stað innlagnar í tímum og hvernig það væri tímasparnaður til lengri tíma litið. En þeirra hugmyndir um forgangsröðun verkefna fyrstu árin í kennslu voru aðallega að setja sig inn í námsefnið, ná tökum á agastjórnun í kennslustofunni, kynnast foreldrum og skipuleggja kennsluna frekar en að nota tímann í að búa til upptökur fyrir vendinám. Einnig kom fram sú skoðun að best væri að innlögnin færi fram í skólastofunni svo nemendur gætu spurt spurninga jafn óðum. Vanmáttur gagnvart tækninni var líka nefndur sem ástæða fyrir því að upptökur yrðu líklega ekki það fyrsta sem þau tækju sér fyrir hendur í nýju starfi sem kennarar.

Þriðja rannsóknarspurningin var: „Hversu mikið vita kennaranemar um námsefnið sem þeir eiga að kenna samnemendum eftir hugmyndafræði vendináms?“ 20 af 24 svöruðu þessu sem svo að nemarnir væru mjög eða frekar fróðir um efnið sem þeir voru að kenna. Algengast var að nemendur hefðu sýnt ábyrgð í kennslunni og sinnt þessu verkefni vel. En þegar niðurstöður kennarans voru skoðaðar, kom í ljós að nemendur hefðu einungis sýnt grunna þekkingu á bæði námsefninu og gerð alhliða kennsluáætlunar. Færni nemenda var ekki nógu góð í átta þáttum SIOP módelsins heldur hafði hvert nemendapar framkvæmt skemmtilegar og gagnvirkar kennslustundir en einangraðar frá öðrum þáttum námskeiðsins. Niðurstaða kennarans var því að nemendur hefðu ekki sýnt fram á þá hæfni sem leitað var að t.d. að virkja nemendur fyrir alvöru, hvetja til gagnrýninnar hugsunar og uppskera að fullu þá kosti sem gætu fylgt vendinámi og því samstarfi sem lagt var upp með hér.

Rannsóknarspurningu númer 4; „Hversu mikið vita kennaranemar um námsefnið sem samnemendur þeirra hafa kennt þeim eftir hugmyndafræði vendináms?“  var svarað af 23 á þá leið að nemendur væru fróðir eða nokkuð fróðir um það námsefni sem samnemendur þeirra kenndu þeim með vendinámi.

Fimmta og síðasta rannsóknarspurningin var „Eftir að hafa upplifað kennslu á þennan hátt, hversu líklegt er að kennaranemar nýti sér vendinám þegar þeir verða kennarar?“ Flestir nemendurnir töldu það mjög líklegt eða líklegt að þeir myndu nýta sér vendinám þegar þeir verða kennarar. Þeir sem voru með efasemdir, rökstuddu það með því að þessi aðferð hentaði betur fyrir efri skólastig og þeir stefndu á að vinna með ung börn í grunnskóla. Einnig komu fram þau rök að þessi aðferð hentaði betur fyrir stærðfræði og raungreinar, en eins vel í ensku.

Graziano dregur saman niðurstöðurnar og fer yfir kosti og galla. Hann heldur því fram að sérstaklega í kennaranámi sé mikilvægt að nemendur fái að kynnast fjölbreyttum kennsluaðferðum sem virki nemendur, því rannsóknir sýni að kennarar eigi það til að haga kennslu sinni eftir því hvernig þeim sjálfum var kennt. Einnig segir hann frá því að rannsóknir sýni fram á það að gagnvirkni í tímum hafi jákvæð áhrif á upplifun nemenda og að það sitji meira eftir af námsefninu ef nemendur eru virkir í stað þess að sitja óvirkir undir fyrirlestrum. Þessi tilraun leyfði nemendum ekki bara að vera í stöðugum samskiptum við kennara námskeiðsins, heldur voru þau í stanslausum samskiptum við hvert annað, sem gaf þeim tækifæri til að tengja enn frekar fræðin við raunveruleikann.

Það sem Graziano sér sem helstu áskoranirnar að vinna úr eftir þetta verkefni, er tæknihræðsla kennaranemanna og að þeir treysti sér ekki í upptökur á kennslumyndböndum. Hann spyr hvort skólinn sé þá kannski ekki að senda frá sér nægjanlega tæknilegt fólk og hvort þar þurfi úrbætur. Tímaskortur er einnig áskorun sem þarf að vinna úr, þar stingur hann uppá því að kenna nemendum betur að sækja sér upplýsingar um þá þætti sem þeim skortir, þannig að bætt tölvukunnátta og lausnamiðuð hugsun saman gæti leyst bæði tæknihræðsluna og tímaskortinn.

Einnig nefnir hann að skólar gætu gert meira fyrir kennara sem langar að útbúa kennslumyndbönd, sett reglulega upp námskeið í þeim þáttum sem kennurum skortir þekkingu og sjálfstraust, jafnvel gætu þetta verið sumarnámskeið. Hin leiðin er svo líka að nýta sér efni á netinu sem er öllum opið. Hann minnist samt á það að það er mælt með því að kennarar taki upp sitt eigið efni, til að mynda sterkari tengingu milli nemenda og kennara. Það er líka ástæðan fyrir því að mælt er með að hafa mynd af kennaranum í einu horninu í myndbandinu. Einnig nefnir hann sem lausn að vinna bara hluta af efninu í upptökur, annað er hægt að leggja inn í kennslustund.

Hvað varðar nemendur sem kennara í þessari tilraun, kom það í ljós að nemendum fannst það hafa gengið nokkuð vel og að þeir hefðu bæði upplifað að þeir hefðu haft þekkingu til að kenna og að samnemendur þeirra hefðu haft þekkingu til að kenna þeim námsefnið þannig að þeir fengju eitthvað út úr því. Samkvæmt Graziano benda rannsóknir til þess að jafningjakennsla þvingi nemendur til að tala saman um efnið og vera virkir í kennslustundum, sem getur haft jákvæð áhrif á áhugann til að læra. Því má segja að kenningum samkvæmt hefðu nemendur átt að geta leyst þetta vel, en miðað við upplifun kennarans af frammistöðu þeirra bæði í kennslustofunni og út frá kennsluáætlunum þeirra, hefðu þeir geta gert betur. Það sem þeim tókst vel var að skapa skemmtilegar kennslustundir með mikilli virkni nemenda, en þeim tókst ekki nægjanlega vel að komast á dýptina með námsefnið og útskýra það fyrir öðrum. Graziano segir að þessar misvísandi niðurstöður þurfi að rannsaka nánar í framtíðinni.

Hann segist ekki hafa áttað sig á því þegar hann var að skipuleggja þetta námskeið, að nemendur hefðu takmarkaða reynslu í því að skrifa kennsluáætlanir og að kenna. Þessi reynsluskortur hefur líklega gert það að verkum að nemendur settu mestu orkuna í að setja sig inn í hugmyndafræði vendináms og að skemmta samnemendum sínum í kennslustundum, frekar en að leggja áherslu á sjálft námsefnið. Einnig gæti þetta verið skýring á því af hverju nemendum fannst kennslan kannski fremur henta á grunnskólastigi.

Graziano segist ekki hafa rannsakað af hverju meirihluti nemenda segist ætla að nota vendinám í framtíðinni, en hann giskar á að þeir hafi haft jákvæða upplifun af samskiptum sín á milli og við kennarann í námskeiðinu. Einnig telur hann það hafa heillað nemendur að hafa möguleika á að læra hvar sem er og hvenær sem er, nemendamiðuð kennsla, möguleika á að nota tæknina í kennslu eða einfaldlega höfði það til þeirra að prufa nýjar kennsluaðferðir. Hann bendir á það að ef þessi rannsókn yrði endurtekin væri betra að tryggja að nemendur hefðu góðan bakgrunn í kennslu og aðferðafræði, til að þeir komist betur inn í kennsluna og geti skilað námsefninu frá sér á dýpri hátt.

Lokaniðurstaða Grazinos er sú að það vantar sárlega fleiri rannsóknir á vendinámi á öllum skólastigum, svo hægt sé að læra um þessa hugmyndafræði á vísindalegan hátt. Hins vegar segir hann líka að kennarar eiga líka endilega að prufa sig áfram með þessa kennsluaðferð, því auðvitað sé ekki hægt að bíða með að taka í notkun aðferðir þar til það sé vísindalega sannað að þær séu til góðs. Lokasetning Grazinos í þessari grein er tilvitnun í grein Goodvin, B. og Miller, K. þar sem er biðlað til kennara að íhuga vandlega eftirfarandi: „Endurspeglar ætlaður ávinningur af vendinámi þau grunngildi í árangursríkri kennslu og námi sem rannsóknir hafa sýnt fram á?“

Tengsl við fræðin

Í gegnum tíðina hefur vendinám verið lítið rannsakað enda ekki nema uþb 10 ár síðan Jonathan Bergman og Aaron Sams duttu niður á þessa hugmyndafræði og í framhaldinu þetta hugtak „Flipped Classroom“. (Bergmann og Sams, 2012). Robert Talbert skrifaði í júní 2016 á bloggsíðu sinni að greinum og rannsóknum um vendinám fjölgi mjög hratt um þessar mundir og að það sé orðin gömul tugga að engar rannsóknir séu til. Það skiptir líka töluverðu máli að muna að í raun fer hugtakið „flipped classroom“ ekki á flug fyrr en árið 2010 og því er lítið að gerast í skrifum og rannsóknum um vendinám fyrr en eftir það. Tímaramminn er því mjög stuttur og því eðlilegt að ekki sé hægt að finna mjög gamlar rannsóknir um þessa kennsluaðferð.

En þessi grein sem liggur til grundvallar hér, tengist fræðunum á ýmsa vegu. Vendinám passar vel við margt í kenningum Malcolm Knowles um nám fullorðinna. T.d. mikilvægi þess að kennslan sé verkefnamiðuð fremur en utanbókalærdómur (Smith, M. K. 2002). Það er einmitt það sem Grazino gerir í sinni rannsókn, hann kennir nemendum að nota vendinám með því að leyfa þeim að nota vendinám og reka sig á kosti þess og galla á eigin skinni.

Einnig gefur Grazino nemendum sínum möguleika á að velja sér af kennsluáætlun áfangans, hvaða efni þeir vilja kenna og eins hafa þeir svigrúm til að velja sjálfir hvaða aðferðir þeir nota í kennslustundinni. Það er í takt við það sem flestir kennismiðir fullorðinsfræðslu segja, að mikilvægt sé að leyfa nemendum að hafa áhrif á sitt eigið nám og setja skipulagið þannig upp að þeim finnist þeir hafa eitthvað val. Raymond J. Wlodkowski (2008) kemur inn á þetta í bók sinni Enchancing Adult Motivation to Learn. Þar fjallar hann m.a. um viðhorf til náms og að til að það megi verða jákvætt sé mikilvægt að fullorðnir nemendur upplifi námið gagnist þeim, að þeir hafi eitthvað val og geti notað sinn frjálsa vilja.

Hverju bætir greinin við umræðu um viðfangsefnið

Þessi grein kemur inn með afmarkað sjónarhorn á vendinám fyrir kennaranema sem eru á leið út í skólana í kennslu þar sem í auknu mæli er ætlast til að þeir þekki og geti nýtt sér vendinám að einhverju marki. Það er athyglisvert að lesa hvernig allir nemendur voru fengnir til að kenna samnemendum sínum eina kennslustund í sínum eigin áfanga og hversu stórt bil var á milli upplifun nemenda sem flestum fannst þetta ganga nokkuð vel og upplifun kennarans sem var ekki alveg nógu sáttur við fagmennsku nemenda, fannst þau ekki komast nógu djúpt ofan í námsefnið. Það litla sem ég hef séð af greinum um vendinám hefur engin þeirra fjallað um mikilvægi þess að tryggja það að kennaranemar kynnist þessari aðferð í skólanum, áður en þeir byrja að kenna. Enda er þetta svo ný kennsluaðferð að það er ekkert skrítið. Í því ljósi er þessi grein mikilvæg og á fullt erindi inn á borð t.d. þeirra sem skipuleggja kennaranám á Íslandi.

Mitt álit á greininni og framlagi hennar til fræðanna

Eftir lestur þessarar greinar er ég hugsi yfir ýmsu. Ég er mjög hlynnt því að kennaranemar fái að kynnast því að kenna með vendinámi í sínu kennaranámi. En mér finnst gagnrýni Grazinos á sína nemendur dálítið hörð, einmitt í ljósi þess að þeir eru ennþá nemendur. Ég velti samt fyrir mér hvort ekki væri reynandi að gera þessa rannsókn aftur með aðeins öðrum áherslum. Ef marka má orð hans sjálfs í upphafi greinarinnar, að kennarar eigi það til að haga kennslu sinni eftir því hvernig þeim sjálfum var kennt, mætti þá ekki halda því fram að það væri nóg að kenna kennaranemum með vendinámi og þannig veita þeim innblástur til framtíðar? Ekki misskilja mig, ég er mjög hlynnt því að kennaranemar fái að kenna með þessari kennsluaðferð, en ég gæti trúað því að það yrði markvissara og að þeir kæmust dýpra í námsefnið ef þeir væru sjálfir að kenna t.d. í æfingarkennslu eða sjálfstæð námskeið. Ég er ekkert hissa á því að nemendapörum sem er úthlutað einni kennslustund yfir önnina til að kenna efni sem þeirra kennari hefur þegar útbúið kennslumyndband um, takist ekki að framkvæma innihaldsríka kennslu á efninu á þeim rúma hálftíma sem þeim virtist vera úthlutað. Mín reynsla er sú að til að geta framkvæmt vendinám almennilega þarf kennari að hugsa það frá upphafi námskeiðs til enda, þekkja allt námsefnið vel, búa til sjálfur eða amk þekkja öll kennslumyndböndin vel og vita nákvæmlega hvert markmiðið með námskeiðinu er.

Ég held að þessi rannsókn sé mjög jákvætt innlegg inn í umræðuna um vendinám, en ég held að það mætti líta öðrum augum á niðurstöðuna og muna að þarna eru kennaranemar að reyna að fóta sig í nýrri kennsluaðferð undir vökulum augum kennarans síns sem greinilega gerir mjög miklar og faglega flóknar væntingar til sinna nemenda.

Þessi grein á fullt erindi inn í okkar námskeið „Fullorðnir námsmenn og aðstæður þeirra“ að því leyti að þarna er verið að fjalla um kennaranema sem eru fullorðnir námsmenn og nálgast því námið sitt sem slíkir. Einnig er kennsluaðferðin vendinám hugsuð þannig að hana má auðveldlega útfæra svo hún henti vel fyrir fullorðna námsmenn sem vilja setja mark sitt á námið sitt og hafa eitthvað um það að segja, t.d. á hvaða hraða þeir fara í gegnum efnið, á hvað þeir leggja áherslur. Einnig skapast gjarnan meiri tími í kennslustundum fyrir nemendur að vinna saman og það gefur kennurum möguleika á að leggja fyrir fjölbreyttari verkefni og æfingar; hvorutveggja er eitthvað sem gjarnan hentar fullorðnum námsmönnum vel.

Heimildir:

Bergmann, J. og Sams, A. (2012). Flip your classroom. Reach Every Student in Every Class Every Day. United States of America: International Society for Technoloy in Education.

Center for Applied Linguistics. (e.d.). Learn about SIOP. Sótt 18. nóvember 2016 af http://www.cal.org/siop/about/

Goodwin, B., og Miller, K. (2013). Evidence on flipped classrooms is still coming in. Educational Leadership, 70(6), 78-80.

Graziano, K. J. (2016). Peer Teaching in a Flipped Teacher Education Classroom. TechTrends, 1-9.

Nevada State College. (e.d.). Our faculty & staff. Sótt 19. nóvember 2016 af  http://nsc.edu/education/our-faculty-and-staff/kevin-graziano-edd.aspx

Smith, M. K. (2002) Malcolm Knowles, informal adult education, self-direction and andragogy. The encylopedia of informal education. Sótt 25. Nóvember 2016 af www.infed.org/thinkers/et-knowl.htm.

Talbert, R. (2016). How much reacherch has been done on flipped learning? Casting Out Nines – Blog Sótt 22. nóvember 2016 http://rtalbert.org/blog/2016/how-much-research

Wlodkowski, R.J. (2008). Enchancing Adult Motivation to Learn. A comprehensive Guide for Teaching All Adults. San Francisco: Jossey-Bass, A Wiley Imprint.

 

One thought on “Rannsóknargrein – Peer Teaching in a Flipped Teacher Education Classroom”

 1. Greinin gefur aðra sýn á vendinám, þ.e. vendinám og kennaranemar. Já það er mjög oft vísað í það að kennarar kenna eins og þeim var kennt. Þannig að ég er sammála þér einmitt með þennan punkt: Að kenna kennaranemum með aðferðum vendináms. Samhliða því tel ég að ígrundun um upplifun sína af kennslunni væri líka mjög sterkur leikur samhliða. Þannig gætu kennaranemar metið líðan sína gagnvart því að læra á þennan hátt, hvað virkar vel og ekki vel og skoða það út frá lærdómsaðferðum. Á hvaða hátt finnst viðkomandi gott að læra ? Byrja á því í upphafi. Sumum finnst gott að lesa og skrifa niður, aðrir eiga auðvelt með að hlusta og muna þannig og fleira í þeim dúr. Tengja það svo við upplifunina og í lok námskeiðsins myndu nemendur deila sinni reynslu með samnemendum og þá tengja við hvað reyndist mér vel og hvað reyndist mér verr, einmitt eins og í þessu námskeiði sem við erum í núna. Við höfum rætt um það sem er erfitt að takast á við einmitt út frá fyrri þekkingu og hversu opin við erum fyrir því að takast á við nýja hluti og tileinka okkur þá. Vel unnið hjá þér, greininni gerð mjög góð skil og vekur áhuga minn á því að lesa greinina líka, einmitt vegna þess að þú setur ákveðið spurningamerki við aðferðina hans í greininni út frá þinni eigin reynslu og þekkingu. Það vekur forvitni mína að vita meira um þessa rannsókn.

Skildu eftir svar