3. Nokkrar nýlegar nálganir til náms og kennslu fullorðinna

Wiki > Þemu námskeiðsins > 3. Nokkrar nýlegar nálganir til náms og kennslu fullorðinna

Þetta er samvinnusvæði um þemu námskeiðsins. 

Hér glósa nemendur í kring um lestur sinn á námsbókum.

Allt fram á tuttugustu öldina voru kenningar um að nám væri eingöngu vitsmunalegt, óháð tilfinningu, hefðum, þekkingu, hreyfingu og samræðu. Nám einkenndist af fræðara sem sá um að miðla og nemanda sem meðtók það sem fræðarinn sagði óháð þeirri þekkingu sem nemandinn hafði fyrir.

Á seinnihluta 19. aldarinnar voru fræðarar farnir að skoða betur hvernig fullorðnir læra og hvað það er sem „dregur“  þá í nám. Sett var fram kenning um að fólk lærði á ólíkan hátt með öllum skynfærum, með tilliti til reynslu og fyrri þekkingar og að auki vildi fólk læra það sem það þurfti að læra. Þrátt fyrir þessar tilgátur eru þær enn jaðarnámsaðferð á vesturlöndum, þ.e. ekki eins viðurkenndar líkt og miðlari / nemandi aðferðin.

Menning, trú, viðhorf, pólitík og samfélög hafa áhrif á viðhorf til náms, þ.e. hefur áhrif á það hvernig fólk lítur á nám (menntun), allt frá því að nám sé skilgreint sem að sitja ákveðinn tíma á skólabekk allt til þess að nám sé lífstíðarferli „lifelong“. Allskyns tæki og tól eru notuð við kennslu í dag, vinnstofur, hópverkefni, fyrirlestrar, nám í tölvum, gagnvirkir kennsluvefir og blandaðar námsaðferðir. Leiklist, tónlist og dans eru dæmi þar sem hreyfing er túlkuð með tilfinningu og tjáningu.

“Líkamnað” nám (Embodied/somatic learning)

Að meðtaka og læra það sem líkaminn upplifir er óhjákvæmilegt og þannig verða tengingar sem hafa áhrif á nám. Sú upplifun sem fólk verður fyrir í góðri eða slæmri reynslu festist í tilfinninga”banka” manneskjunnar og hefur áhrif á komandi líf jafnt og nám.

Leiðir til samkenndar þegar einstaklingar læra í gegnum það að hlusta á líkama sinn og þær tilfinningar sem hann upplifir í tengslum við “líkamnað nám” (tilraunaþýðing á hugtakinu Embodied Learning). Þekkir sínar eigin tilfinningar og getur betur sett sig í spor annarra. Orðatiltækið að læra af reynslunni á vel við hér! Býrð til merkingu úr því sem er lært og upplifað.

Sagt er frá því þegar japanskur ritari fann sömu tilfinningu við að strjúka penslinum við blaðið og hann fann fyrir þegar hann réri kano á árum áður.

Á sama hátt getur einstaklingur brugðist við athugasemd, t.d. frá kennara sínum, út frá fyrri reynslu sem hann tengir við athugasemdina. Eitthvað sem viðkomandi hefur upplifað, endurupplifir hann við þessa ákveðnu athugasemd.

Líkamnað nám tengist fullorðinsfræðslu á þann hátt að vera kraftur sem leggur til skilning og merkingu í lífinu.

Andlegt nám (Spiritual learning)

Skilgreining á andlegu námi er sú að andlegt nám er ekki trúarbrögð, andlegt nám er til að vera meðvitaður og að virða heildarmyndina og tengsl allra hluta. Andlegt nám er í grundvallaratriðum merkingarbært og innihaldsríkt og alltaf í nútíðinni í námsumhverfinu (þó ekki endilega viðurkennt sem nám). Það er þroskandi og færir aukna þekkingu á sjálfinu og er um hvernig fólk eykur þekkingu ómeðvitað með táknrænni aðferð sem verður heilsteypt í listformi s.s. dansi, tónlist og listum og menningartengdum viðburðum. Andlegt nám veldur oftar en ekki óvæntri upplifun. Það er erfiðara að setja orð á slíkan lærdóm því það er andlegt ferli.

Fullorðnir í andlegu námi leita gjarnan eftir tilgangi, jafnvægi, ró og þekkingu á sjálfum sér.

Sýndarveruleiki, ímyndun og hinn andlegi þáttur, upplifunin, verður það hluti af námi í framtíðinni má spyrja sig með aukinni tæknivæðingu og áherslu á sýndarveruleika?

Daniel Goleman gerði hugmyndir sínar um tilfinningagreind (Emotional Intelligence, EQ) vinsælar árið 1995.

Frásagnarnám (samtalsnám) (Narrative learning)

Frásagnir fólks og samtöl upplýsa reynslu af lífinu og upplifun af atburðum. Frásagnarnámið er elsta formið til að upplýsa og gera lífið merkingarbært. Frásagnir og dæmisögur hafa alla tíð verið sú leið sem samfélög hafa nýtt sér til að halda uppi aga, lögum og stefnu. Þrátt fyrir þetta eru vestrænir fræðimenn ekki að skoða þessa námsleið fyrr en um 1990 og er athyglinni beint að því hve mikilvæg samræða og samtöl eru. Kennari sem notar frásögn sem kennsluaðferð verður að gefa af sjálfum sér um leið og hann þarf að tryggja að nemendur nái persónulegum tengslum við frásögnina, geti samsamað eigin reynslu við málefnið.

Án frásagna væri ekki til vitneskja um ákveðna atburði.

Vestræn kunnátta/ þekking á móti þeirri óvestrænu

Í þriðja hluta bókarinnar (kafla 9) er einnig fjallað um nálganir á upplýsingum /þekkingu út frá mismunandi sjónarhorni, þ.e. það vestræna á móti því óvestræna.

Vestrænn hugsunarháttur/þekking á rætur sínar að rekja til Grikklands hið forna. Formið einkenndist oft með frelsishugsun, einstaklingshyggju, rökfærslu og viðurkenningu á viðurkenndri þekkingu. Þessi hugsunarháttur barst svo síðar meir til annarra hluta af Evrópu.

Í okkar heimi er einstaklingshyggjan og / eða einstaklingslærdómur ríkjandi og samhliða því eru skriflegar upplýsingar meira metnar en munnlegar. Formlegt nám er talið mikilvægt í hinum vestræna heimi. Það sem telst til formlegs náms er nám í viðurkenndum menntastofnunum eins og grunnskóla, gagnfræðaskóla, framhaldsskóla, fjölbrautaskóla, háskóla o.s.frv.

Í þessum svokallaða óvestræna heimi er samheldnin mjög ríkjandi; fjölskyldan er mikilvæg, það að tilheyra hópi er mikilvægt, að finna samhljóminn, finna til öryggis og njóta leiðsagnar. Hér eru munnlegar upplýsingar viðurkenndar enda mikilvægar til yfirfærslu á þekkingu frá einum ættlið til annars (samfélagið). Hér er einnig viðurkennt að nota önnur skilningsvit til að túlka upplýsingar/þekkingu. Hérna getur óformlegt nám verið form af fræðslu sem fer fram í gegnum óformlega samfélagshópa, leshringi o.s.frv. Þegar hér er komið sögu er hægt að segja að við séum komin yfir í fjölhyggju, einskonar „samlærdóm“.

Í þriðja hluta bókarinnar er komið inn á það hversu mikilvægt það er að geta sett sig í fótspor annarra menningaheima og geta skilið þá, sérstaklega í fullorðinsfræðslu. Það að geta greint lærdóm útfrá fleiri sjónarhornum er mjög góð forsenda til að skilja hið óþekkta.

Gagnrýni, tíðarandi og sjónarhorn femínisma

Kafli 10 fjallar um samhengið þar sem lærdómur fer fram. Hugleitt er hið stærra samhengi í þjóðfélagi, menningin og stofnanirnar sem móta lærdóm ásamt hinu sögulega samhengi sem hefur rammað inn og skilgreint atburði lærdóms í áranna rás.

Einnig er hugtakið þekking (knowledge) skoðað út frá ólíkum sjónarhornum.

Kynþáttur, þjóðfélagssleg stétt og kyn

Fullorðinsfræðsla er ekki jafn aðgengileg öllum. Í bókinni og á námskeiðinu hefur verið fjallað um þá hópa fólks sem taka ekki þátt í fullorðinsfræðslu. Ákveðnir hópar fólks af lituðum kynþáttum hafa einfaldlega ekki jafn mikinn aðgang að fullorðinsfræðslu. Fjallað er um fordóma og kynþáttahatur sem á sér langa sögu og eimir ennþá af í þjóðfélagi okkar. Minnihlutahópar og fólk af lægri stéttum þjóðfélagsins sem jafnvel býr við fátækt hefur ekki aðgang að námi, hvað þá fullorðinsfræðslu, þó svo einmitt fullorðinsfræðsla sé mikilvæg í þeim skilningi að ná til þessa hóps sem hefur ekki lokið námi áður. Konur höfðu hlutverki húsmóður að gegna og staða þeirra í þjóðfélaginu hefur verið háð ýmsum baráttum í því að fá jöfn tækifæri og réttindi á við karlmenn. Líka til náms.

Vald og kúgun

Gagnrýni í þessu samhengi felst í því að fletta ofan af og  ljóstra uppi um valdasambönd þar sem einn hópur kúgar annan hóp. Í kaflanum er kynnt til sögunnar gagnrýnin kenning (Critical theory), þar sem beitt er gagnrýninni hugsun. Hugtakið valdefling (Empowerment) einnig kynnt til sögunnar í þessu samhengi sem leið einstaklings til þess að búa til aðferð sem virkar árangursrík í því að nota vald á þann hátt að það leiði til gagnrýninnar greiningar, mótstöðu og ögri uppbyggingu valds. Við þurfum að hugsa leiðir til þess að beita valdi á uppbyggilegan hátt, ekki til þess að kúga eða gera lítið úr öðrum. Í kaflanum er fjallað um vald stofnana, eins og til dæmis ríkis sem hefur vald yfir þegnum sínum. Stofnanir ramma fólk inn í ákveðið kerfi sem allir þurfa að fara eftir. Af því leiðir valdabarátta fólksins sem stendur upp á móti kerfinu, mótmælir kerfinu. Gæti þurft byltingarkennda kennslufræði til þess að vinna bug á valdi sem kúgar aðra? Er þekking og sannleikur lausnin?

Þekking og sannleikur

Hver er það sem ákveður hvaða þekking skiptir máli? Í tengslum við nám, hver ákveður hvað á að kenna? Hver ákveður hvaða nám er æðra öðru? Af hverju fá sumir greidd lægri laun fyrir störf sín þó svo þeir hafi sótt jafnlangt nám og önnur stétt sem fær hærri laun? Þessar pælingar eru meðal annars dregnar upp í þessum hluta 10. kafla.

Dregnar eru upp myndir í framhaldinu af þeim kenningum sem hafa haft áhrif og lagt sitt af mörkunum á/til fullorðinsfræðslu.

 

 

Category: Tags: