Í lok október fóru 16 starfsmenn frá Keili til Danmerkur til að heimsækja VUC syd í Haderslev – sem er skóli sem sinnir fullorðinsfræðslu á suður Jótlandi. Eitt helsta markmiðið með ferðinni var að fá innblástur til fjölbreyttara námsrýmis og kennsluhátta í takt við það.
Mjög fjölbreyttur hópur nemenda er í þessum skóla.
Í raun sameinar skólinn þá möguleika sem grunnmenntaskólinn, menntastoðir og frumgreinadeildir á Íslandi bjóða uppá. Einmitt þess vegna er í þessum skóla töluvert há prósenta af fullorðnum nemendum sem eiga við námsörðugleika að stríða, eru með einhverjar greiningar, athyglisbrest, ofvirkni eða hafa bara fengið vonda upplifun af skólakerfinu t.d. vegna eineltis eða annarra félagslegra vandamála. Því er stefna skólans að bjóða upp á mikið val, mikið svigrúm fyrir ólíka nemendur og halda vel utan um þá nemendur sem þurfa stuðning.
Húsnæðið
Aðkoman að skólanum er hin glæsilegasta þar sem það rís upp af bökkum Haderslev fjarðar, lífæð borgarinnar. Það fyrsta sem mætti okkur var yfirbyggt útikennslusvæði við hliðina á húsinu, með setpöllum og grindverki í kring. Þar eru bæði hátalarar og skjár sem kennarar geta nýtt sér ef þeir óska þess.
Í anddyri skólans eru hlið þar sem hver og einn þarf að „tékka sig inn“, bæði nemendur, kennarar og gestir, og greinilegt að enginn óviðkomandi kemst þarna inn með góðu móti.
Móttökufulltrúi skólans Michael Nielsen tók á móti okkur, enda felst hans starf í því að taka á móti hópum ásamt því að skipuleggja útleigu á húsinu og viðburði sem þar eru haldnir.
Michael byrjaði á því að bjóða okkur inn í litla stofu með tveim langborðum og ca 24 sætum. Þar inni voru tveir sjónvarpsskjáir sem hvor um sig tengdist Apple TV og þangað varpaði hann upplýsingum úr iPadinum með aðstoð Airplay.
Hann fór yfir dagskrá dagsins og sagði stuttlega frá því hvernig skólinn var uppbyggður og hvaða kennslufræðilega nálgun væri stunduð. Eftir ca 10 mín langa kynningu bauð hann okkur í skoðunarferð um húsnæðið. Aðalrýmið var mjög opið og bjart, 4 hæðir í húsinu tengdust allar með opnum stigagangi í miðjunni, þar sem birtan fékk að flæða óhindrað í gegnum húsið og flest rými voru einungis stúkuð af með glerveggjum.
Hver hæð hafði sitt þema bæði í litum og viðfangsefnum. Þannig var raungreinahæðin græn, appelsínugula hæðin hýsti félagsvísindi og gula hæðin tilheyrði tungumálunum.
Á hverri hæð voru mismunandi aðgengileg rými, tvö „hreiður“ sem rúma uþb 20 manns í einu með 4 skjái í miðjunni. Þar er upplagt að setjast inn með hóp og ræða saman – ýtir undir þá upplifun að allir séu jafningjar og kennarinn getur auðveldlega setið sem einn af hópnum.
Þessi tvö hreiður á hverri hæð eru einu rýmin sem nemendur eru í felum fyrir umhverfinu, önnur rými í skólanum eru nánast öll annars með glerveggjum.
Einnig var stofa með kringlóttum sófum og 6 sjónvarpsskjám ásamt miklu gólfplássi – þar gátu t.d. nemendur sett sín verkefni upp á skjái, eitt verkefni á hverjum skjá og borið saman niðurstöður sínar. Kennarinn getur því auðveldlega haft yfirsýn yfir hvað allir eru að gera. Á hverri hæð voru tvær „hefðbundnar“ skólastofur en þær eru víst einna minnst notaðar.
Einnig voru opin rými með fjölbreyttum möguleikum á vinnuaðstöðu, t.d. hátt borð með snertiskjá í borðinu, þar gátu menn staðið í kring um skjáinn og unnið.
Á hverri hæð voru nokkur fundarherbergi, þar sem hópar gátu setið á háum stólum í kringum hátt borð, hentugt til hópavinnu og þar var jafnframt hleðslustöð fyrir iPadana. Það var á fáum stöðum hægt að hlaða tækin, lítið af innstungum í skólanum, nema á þessum sérstöku hleðslustöðvum. Það ýtti undir notkun á þessum hópherbergjum.
Á neðstu hæðinni er gott mötuneyti þar sem ætlast er til að öll neysla matar fari fram – bannað að fara með mat eða drykk upp á hæðirnar. Þessi regla gerir skólann snyrtilegri og fyrir vikið þarf færri ruslafötur.
Við hliðina á matsalnum er stór fyrirlestrasalur, með sætum sem halla. Auðvelt er að pakka sætunum saman á vagn og fella þau niður í gólfið, þá er salurinn stór og sléttur með góðu rými og frábæru útsýni yfir ána. Mjög margnota rými.
Í kjallaranum er stór íþróttasalur með góðri aðstöðu. Einnig er í skólanum rannsóknastofur fyrir raungreinar, tónlistarstofa full af hljóðfærum og fullkomið upptökuver með grænum bakgrunni og réttri lýsingu fyrir upptökur.
Upptökuherbergið er mikið nýtt af kennurum sem eru að taka upp námsefni, en einnig af nemendum sem vinna fjölbreytt verkefni.
Á 4. Hæðinni (efst) var svo kennarastofan, þar höfðu allir starfsmenn aðgang að tölvum og vinnusvæði, en almennir kennarar höfðu ekki föst skrifborð.
Þar voru nokkrar háar hirslueiningar sem virkuðu líka vel sem hátt borð til að standa í kringum fyrir örfundi. Á fjórðu hæðinni hafði rafbókadeildin líka fast aðsetur, það eru uþb 10 manns í fullri vinnu við að útbúa rafbækur fyrir skólann, sem er svo notað sem kennsluefni í stað venjulegra bóka. Skólinn er því sem næst pappírslaus, það er mikið vesen að prenta út blað og einungis tveir prentarar í öllum skólanum.
Hugmyndafræðin
Hugmyndafræðin í þessum skóla gengur út á það að allir nemendur og starfsfólk eru með iPad og allir með eins tæki. Engar skólabækur eða ljósrit – allt námsefnið er í tækjunum. Kennararnir skrifa sjálfir mest af þeim rafbókum sem eru notaðar og stundum eru nemendur hafðir með i þeirri vinnu. Ef eitthvað þarf að hanna eða vinna meira, sér rafbókadeildin um það – þar eru hönnuðir og margmiðlunarfólk sem kunna grafíska hönnun ofl sem þarf til að framleiða gott efni. Rafbækurnar eru svo seldar til annarra skóla, sem geta þá notið góðs af þeirri vinnu sem þarna hefur átt sér stað.
Stutt myndband um rafbækur skólans:
https://www.youtube.com/watch?v=R4tPMAzgqq4
Mikið er lagt upp úr því að nemendur séu ekki lengi á sama stað í kennslustundum. Hver kennslustund er 2,5 tími og viðmiðið er að kennari sjái til þess að sjaldan sé staldrað við lengur en í 30 mín á hverjum stað. Sem dæmi um skipulag á kennslustund getur kennari byrjaði með hópinn í graskerinu, þar sem hann útskýrir væntingar sínar til kennslustundarinnar, kannski sendir hann nemendur hingað og þangað til að lesa einhvern ákveðinn texta til að undirbúa sig fyrir vinnuna, svo safnast allir saman í einni stofu, þar sem textinn er kannski ræddur, nemendur svo settir í hópa til að vinna eitthvað ákveðið verkefni – þá geta þeir nýtt sér hópavinnuherbergin og að verkefnavinnu lokinni hittast allir í herberginu með 6 skjáina þar sem niðurstöður verkefnavinnunnar eru ræddar. Kennarinn tekur púlsinn á nemendum og athugar hvort þau hafi náð markmiðinu með tímanum. Ef eitthvað vantar ennþá upp á með skilninginn á viðfangsefninu, fer kennarinn kannski með hópinn í hefðbundna kennslustofu í lokinn og tekur hefðbundna töflukennslu sem ígrundun og samantekt. Þetta skipulag undirbýr kennarinn vel fyrirfram og birtir dagskrá fyrir nemendur á aðgengilegum stað ásamt því að bóka þau rými sem hann ætlar að nota.
Stutt kynning á hvernig rýmið er notað af kennurum:
https://www.youtube.com/watch?v=W5TUHCnWNI8
Samantekt
Þessi heimsókn var mjög fróðleg og fyllti okkur hjá Keili innblæstri til að hugsa okkar gang, bæði hvað varðar hugmyndafræðina okkar og eins húsnæðið. Okkar vinnuumhverfi er í dag innan þeirra ramma sem bandaríski herinn byggði á Ásbrú uppúr 1960 og skildi eftir handa okkur 2006. Haustið 2010 flutti Keilir í húsið sem auðvitað var tekið í notkun með eins litlum tilkostnaði og hægt var. En vissulega ber skólinn þess merki að vera hannaður út frá þeirri kennslufræði sem var ráðandi laust eftir miðja tuttugustu öldina. Og þar sem okkar nemendur eru lang flestir fullorðnir námsmenn og að miklu leyti samskonar samsetning á nemendahópnum og í Haderslev, teljum við að það væri til bóta að hugsa skipulag náms þeirra á fjölbreyttari hátt en það er í dag, til að auðveldara sé að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda og tryggja virkni annarra en kennarans í vinnutímum.