Fullorðnir…???

EldriNemendur

Einhverntíma spurði ég … „Hvað er svona merkilegt við það að vera fullorðinn…? og það er spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur á þessu námskeiði. Er einhver munur á námi fullorðinna og barna???  Og ef svo er hvað þýðir það fyrir skipulagningu náms fyrir fullorðna?

Ágætis staður til að byrja á er e.t.v. í eigin ranni: Tekur þú eftir muni á því hvernig þú lærir núna og þegar þú varst yngri?

Hér er stutt verkefni til að koma okkur í gang fyrir staðlotuna: Svaraðu stuttlega með því að skilja eftir athugasemd við þessum pósti (comment) – ATH þú þarft að vera skráð/ur á vefinn til þess.

4 thoughts on “Fullorðnir…???”

  1. Ég get tekið undir með þeim sem hafa skrifað á undan mér, það er margt öðruvísi við það að vera námsmaður í dag en þegar ég var yngri. Þar kemur auðvitað æði margt til. Það var eiginlega ekki fyrr en í áfanga hjá Hróbjarti í fyrra sem ég fór að líta á mig sem fullorðinn námsmann. Fram að því hafði mér frekar fundist það eiga við um fullorðna nemendur mína en þá sá ég að auðvitað er ég sjálf fullorðin námsmaður og gat samsamað mig við ansi margt í fullorðinsfræðunum. Ég fór í háskólanám strax eftir menntaskóla og byrjaði svo aftur í fyrra eftir langt hlé. Það er ekki líku saman að jafna að vera tvítugur námsmaður eða fertugur. Ábyrgðin á eigin námi er mikið meiri og þar kemur margt til skipulag, samviskusemi, metnaður o.fl.

  2. Mín reynsla er sú að á fullorðinsárum er meiri áhugi og agi til staðar hjá mér í námi. Kannski er það vegna þess að ég læri því að ég hef áhuga en ekki bara af því ég þarf þess. Einnig áttar maður sig betur á mikilvægi menntunar, bæði fyrir starfsferilinn en einnig fyrir persónulegan þroska. Ég tók líka eftir því bæði í framhaldsskóla og háskóla að eldri nemendur virðast taka náminu með meiri alvöru.

  3. Las grein Hróbjarts, ,,Hvað er svona merkilegt við það að vera fullorðinn“, og hún skýrir vel aðalatriðin í því að vera fullorðinn námsmaður, eða kannski aðstöðuna. Sérstaklega fannst mér kaflinn um óöryggi fullorðinna námsmanna athygliverður, og fann hvað þetta passaði vel við mig. En það er klárt að ég finn mun á því hvernig ég læri núna og þegar ég var yngri, meira að segja frá þeim tíma þegar ég fór fyrst í háskólanám (strax eftir menntaskóla). Lífsreynslan mótar og maður gerir í kjölfarið miklar kröfur til sjálfs sín og þess náms sem stundað er. Maður flokkar, dýpkar (forðast almennt), greinir og spyr endalaust passar hvort þetta eða hitt eigi við sjálfan sig. Orðið nýting er kannski í fókus hér, enda lít ég svo á að þeim tíma sem varið er í námið, sem fullorðinn námsmaður, sé vel varið í forgangsröðun allra þeirra verka sem sinna þarf. Orðið ,,afplánun“ er algjörlega fjarri mér þegar kemur að námi sem maður hefur valið sjálfur (og hefur eitthvað eignarhald yfir) en gagnslaus námstengdur fundur er tímasóun (líklega vegna þess að maður hefur ekkert um tilefnið að segja).
    kv.
    Þorvaldur.

  4. Ég finn fyrir því að ég er mikið námsfúsari núna en þegar ég var yngri. Ég á auðveldara með rökhugsun heldur en þá og skil betur samhengi hlutanna. Mér hefur alltaf gengið vel að læra og fengið góðar einkunnir, svo framarlega sem ég hef haft áhuga á efninu sem ég er að læra. Páfagaukalærdómur hefur þó aldrei átt við mig, hvorki þá né nú. Mér finnst það gefa mér miklu meira að vinna verkefni en að læra fyrir próf, því venjulega liggur eitthvað tiltekið efni fyrir próf, en ég þarf sjálf að leita mér að efni (til viðbótar við fyrirliggjandi efni) til að vinna verkefni og mér finnst það gefa mér miklu meiri þekkingu og æfingu í að afla mér upplýsinga. Mér gengur mikið betur að gera þetta í dag, enda er tæknin öll önnur í dag en þegar ég var barn og unglingur, upplýsingarnar eru að mestu leyti aðgengilegar heima í stofu í gegnum netið á örskotsstundu en áður þurfti maður að eyða löngum stundum á bókasöfnum að leita sér upplýsinga. Ég held að það sé svona helsti munurinn, fyrir utan að sem fullorðin manneskja ber ég miklu meiri ábyrgð á eigin námi en ég gerði sem barn, þá var alltaf mamma til að „láta“ mann læra heima.

Skildu eftir svar