Malcolm Knowles

malcolm_knowles

Ævi og störf (1913-1997)

Malcolm Knowles var fæddur í Livingston, Montana árið 1913. Knowles ólst upp við gott atlæti og höfðu uppeldisaðstæðurnar mótandi áhrif á hann. Samband Knowles við foreldra sína einkenndist af gagnkvæmri virðingu, trausti og hlýju. Hann var virkur þátttakandi í skátahreyfingunni og með því efldi hann leiðtogahæfileika sína.

Knowles fékk skólastyrk til að stunda nám við Harvard háskóla þaðan sem hann lauk B.A. gráðu árið 1934. Hann var virkur þátttakandi í ýmsum félagasamtökum og lét til sín taka í klúbbum og samtökum sem tengdust skólanum. Eftir útskrift ætlaði Knowles að starfa í utanríkisþjónustu en það var ekki um auðugan garð að gresja á því sviði. Þess í stað hóf hann starf við náms- og starfsþjálfun ungmenna á aldrinu 18-25 ára sem voru í atvinnuleit og höfðu litla formlega menntun. Hlutverk Knowles var að finna hvaða hæfni vinnuveitendur á svæðinu voru að sækjast eftir hjá starfsmönnum sínum, skipuleggja námskeið í samræmi við þarfirnar og hvetja ungmennin til að sækja þau námskeið. Knowles vissi að nauðsynlegt var að mæta þörfum þessa hóps á annan hátt en hann var vanur sjálfur sem námsmaður. Hann hóf að þróa aðferðir sem hann taldi að hjálpuðu fólki til að læra. Knowles horfði til ýmissa fræðimanna s.s. Carl Rogers, Eduard C. Lindeman, Alexander Kapp, Kurt Lewin o.fl. Knowles leit á Lindeman sem mentor sinn og taldi nauðsynlegt að þróa aðferðir sem hjálpuðu fullorðnum að læra og taka tillit til þes hvernig fullorðnir námsmenn eru frábrugðnir öðrum námsmönnum. Hann lagði sig fram um að ná góðum tengslum við nemendur og taka mið af reynslu þeirra og bakgrunni. Hlutverk leiðbeinandans væri að veita gagnlegan og uppbyggjandi stuðning sem gæti nýst námsmanninum í sinni þekkingarleit.

Árið 1949 lauk Knowles M.A. gráðu frá Háskólanum í Chicago og samhliða vann hann áfram að fræðslumálum fullorðinna. Fyrsta bók hans hét Informal adult education og kom hún út árið 1950. Hann hóf störf árið 1959 við Boston Háskóla og tók þar þátt í uppbyggingu nýrrar námsleiðar við skólann ásamt því að stunda doktorsnám sem hann lauk árið 1960. Á árunum 1970-1973 gaf Knowles út bækurnar The Modern practice of adult education (1970) og The adult learner: A neglected species (1973). Á árunum 1974 til 1979 starfaði Knowles við Háskólann í North Carolina, samhliða því vann hann að andragogy módelinu, skipulagði námskeið og skrifaði bókina Self directed learning: A guide for learners and teachers (1975).

Þrátt fyrir að Knowles hafi lokið störfum sem prófessor við Háskólann í North-Carolina árið 1979 hélt hann áfram að veita ráðgjöf, stýra málstofum, skrifa bækur og halda erindi um fræðslu fullorðinna. Árið 1980 kom út bókin The modern practice of adult education: From pedagogy to andragogy og fjórum árum seinna skrifaði Knowles bókina Andragogy in action: Applying modern principles of adult education (1984). Í þeirri bók fjallar Knowles um það hvernig nálgast má fræðslu fullorðinna með hliðsjóna af andragogy módelinu.

Árið 1989 gaf Knowles út bókina The making of an adult educator: An autobiographical journey sem var síðasta bókin sem hann var einn höfundur af.  Í þeirri bók lýsir Knowles sér sem fræðimanni og hvernig hugmyndir hans höfðu þróast og breyst frá upphafi starfsferilsins. Knowles lagði áherslu á að virkja þátttakendur í námi sínu og þá þætti sem hentuðu fullorðnum námsmönnum best til að læra. Í bókinni lítur hann yfir farinn veg og veltir fyrir sér hvernig fullorðinsfræðsla muni þróast í framtíðinni.

Malcolm Knowles lést úr hjartaáfalli í bænum Fayetteville í Arkansas árið 1997,  þá 84 ára. Hann lét eftir sig eiginkonu, tvö börn og barnabörn.

Andragogy módelið

Merriam, Caffarella og Baumgartner  fjalla um andragogy módelið í bók sinni Learning in adulthood (2007). Þar kemur fram að andragogy módelið leggi áherslu á fullorðna námsmanninn og aðstæður hans. Knowles hélt fjölmörg námskeið m.a. í háskólum þar sem hann starfaði. Eftir eitt slíkt námskeið benti þátttakandi honum á að hann væri að nota aðferðir „andragogy“ á námskeiðum sínum. Knowles hafði ekki notað orðið andragogy yfir starfsaðferðir sínar fram að þessu. Þýski kennarinn Alexander Kapp notaði það fyrst árið 1833 þegar hann lýsti ólíkri nálgun á nemendur sem voru táningar í dagskóla vs. fullorðna námsmenn í kvöldskóla. Eduard C. Lindeman notaði einnig orðið andragogy í tveimur greinum sem hann skrifaði í Evrópu á árunum 1926 og 1927 en ekki í Ameríku (Knowles, 1989). Segja má að Knowles hafi verið fyrstur til að nota hugtakið andragogy yfir nám og fræðslu fullorðinna. Fyrsta andragogy módelið sem Knowles setti fram var í bókinni Modern practice of adult education: Andragogy versus pedagogy árið 1980.

Knowles skipti andragogy módelinu í fjórar meginreglur og sex fullyrðingar eða forsendur þeirra.  Sjá mynd hér.

Fjórar meginreglur andragogy módelsins eru:

  1. Þátttaka í námi (involved adult learners).
  2. Reynsla fullorðinna námsmanna (adult learners experience).
  3. Mikilvægi og áhrif á líf fullorðinna námsmanna (relevance and impact to learners lives).
  4. Nám er lausnamiðað

Fullyrðingar þeirra eru:

  1. Hugmyndir námsmanna um sjálfa sig (self concept). Fullorðnir námsmenn eru sjálfstæðir. Þeir vilja taka ábyrgð á eigin námi og stýra því að einhverju leiti sjálfir eða hafa um það að segja.
  2. Reynsla fullorðinna námsmanna (adult learner experience). Reynsla hvers og eins er ólík og hefur áhrif á þá sem námsmenn. Hún er grundvöllur þeirra sjálfsmyndar sem námsmaðurinn hefur og þeim viðhorfum sem hann hefur til sín og getu sinnar sem námsmanns.
  3. Lærdómsvilji (readiness to learn). Fullorðnir námsmenn eru tilbúnir að læra. Þeir sækja sér menntun af því að þeir hafa áhuga á því . Fullorðnir hefja oft nám að nýju þegar þeir standa frammi fyrir breytingum t.d. atvinnumissi, skilnaði við maka eða fæðingu barns.
  4. Stefnumörkun (orientation to learning). Fullorðnir námsmenn setja sér markmið sem eru ólík milli einstaklinga en einnig eru leiðirnar sem henta hverjum og einum til að ná markmiðum sínum ólíkar.
  5. Hvatning til náms (motivation to learn). Vilji fullorðinna námsmanna til að fara í nám stjórnast af innri og ytri hvötum. Innri hvatir eru t.d. aukin ánægja í starfi, bætt sjálfsmynd og aukin lífsgæði. Ytri hvatirnar eru starf sem þeir sækjast eftir eða betri laun.
  6. Vilja vita. Fullorðnir námsmenn vilja vita hver tilgangurinn með tilteknum þáttum eru í námi þeirra og gagnsemi þess.

Það sem einkennir fullorðna námsmenn skv. Knowles er að þeir eru meðvitaðir um tilgang þess að vera í námi og hvaða áhrif námið hefur á líf þeirra. Þeir eru alla jafna sjálfstæðir í sínu námi og vilja hafa áhrif á skipulag þess og framvindu. Fullorðnir námsmenn búa yfir reynslu sem fylgir þeim í náminu, jákvæðri og/ eða neikvæðri. Þeir nota lausnamiðað nám og raunhæf verkefni í nálgun sinni á viðfangsefni. Fullorðnir námsmenn vilja sjá árangur námsins fljótt t.d. í daglegur starfi sínu. Það þarf að sýna þeim virðingu og þess vegna hentar þeim vel að skapa opið og vinalegt andrúmsloft og námshvetjandi umhverfi. Sá sem skipuleggur nám fyrir fullorðna þarf að taka mið af þessum fullyrðingum við undirbúning og hann þarf að skipuleggja námið með tilliti til þeirra.

 

Heimildir

Knowles, M. S. (1980). The modern practice of adult education: From pedagogy to andragogy. Englewood Cliffs: Prentice hall/ Cambridge.

Knowles, M. S. (1984). Andragogy in action: Applying modern principles of adult education. San Francisco: Jossey-Bass.

Knowles, M.S. (1989). The making of an adult educator: An autobiographical journey. San Francisco: Jossey-Bass.

Malcolm Knowles. (2006). Wikipedia. Sótt af: http://en.wikipedia.org/wiki/Malcolm_Knowles

Merriam, S.B., Cafarella, R. S. og Baumgartner, L.M. (2007). Learning in adulthoodA comprehensive guide (3. útgáfa). San Francisco: Jossey-Bass.

Sigrún Jóhannesdóttir. (2004). Finnst fullorðnum líka leikur að læra ? Gátt 2004Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Sótt af http://www.frae.is/files/%7B1d55cece-c6b6-4373-8295-bc578a9309f5%7D_finnst%20fullordnum-sj.pdf

Smith, M.K. (2002). Malcolm Knowles, informal adult education, self-direction and andragogy. Sótt af http://infed.org/mobi/malcolm-knowles-informal-adult-education-self-direction-and-andragogy/

Mynd sótt af vef http://web.utk.edu/~start6/knowles/malcolm_knowles.html

One thought on “Malcolm Knowles”

Skildu eftir svar