Bókadómur; Voksnes læreprocesser eftir Bjarne Wahlgren.

Bókadómur

Auður Leifsdóttir

Wahlgren, Bjarne: Voksnes læreprocesser. 2010 Akademisk Forlag, København. 221 síður, kilja.

 

Bjarne Wahlgren er prófessor í fullorðinsfræðslu og yfirmaður á Nationalt Center for Kompetenceudvikling við Háskólann í Árósum.  Strax í upphafi lestursins, er ljóst hversu umfangsmikla þekkingu og góða yfirsýn höfundur hefur um efni bókarinnar, fullorðinsfræðslu. Wahlgren hefur komið að kennslu fullorðinna frá mörgum hliðum; sem kennari, skólastjóri kvöldskóla, stjórnandi dagskóla fyrir fullorðna (daghøjskole) og nú sem fræðimaður og prófessor við háskóla.

Sá hópur sem höfundur ætlar að bókin höfði til eru þeir sem kenna fullorðnum. Orðaforði og málfar er fræðilegt, en stíllinn léttur og óhátíðlegur, og þ.a.l. er bókin aðgengileg til aflestrar. ”Voksnes læreprocesser” samanstendur af 8 köflum þar sem með skipulögðum hætti er farið yfir alla helstu þætti sem varða nám fullorðinna. Í fyrsta kaflanum er gerð grein fyrir samsetningu bókarinnar og leitað svara við spurningunni  hvað það sé, sem er svona merkilegt við fullorðinsfræðslu. Wahlgren vísar í Knowles sem þekktasta kennimanninn í fræðunum og tíundar 4 atriði sem Knowles taldi einkennandi fyrir fullorðna námsmenn: 1) sjálfráðir, sem hluti af því að vera fullorðinn, 2) reynslan sem er skilvirk aðferð til náms, 3) þörf fullorðinna til að læra á sér rætur í kringumstæður lífsins og 4) fullorðnir læra til þess að auka hæfni sína og vilja nýta hana sem fyrst.

Uppbygging bókarinnar er að mínu mati afar rökrétt. Byrjað er á þróun fullorðinsfræðslu í ljósi sögunnar í Danmörku s.l. 40 ár og í framhaldi af því, hvaða samfélagshópar kjósa að taka þátt og hverjir síður, ásamt umfjöllun um hvernig að auka megi hlutfall þátttöku. Í þriðja kafla eru kynntar rannsóknir er varða ástæður fyrir annars vegar þátttöku fullorðinna í símenntun, og hinsvegar hverjar helstu hindranirnar eru. Í fjórða kafla er byrjað að fjalla um hina ýmsu ferla sem lúta að námi fullorðinna . Það er jú mismunandi hvernig fullorðið fólk lærir, og hér eru hinar ýmsu aðferðir kynntar. Alla jafna er nám fullorðinna samspil hvata (motivation) og lærdóms; í fyrsta lagi er það hvatinn sem veldur því að fullorðin manneskja sest á skólabekk og við bætist svo hvatinn sem felst í því að nám hvetur til enn frekara náms. Í fimmta kafla skrifar Wahlgren ýtarlegar um hvata til náms en sömuleiðis þá andstöðu sem fullorðnir geta þróað með sér gagnvart námi. Hvernig bregst hinn fullorðni námsmaður við þegar að námið krefst þess að hann ”fari upp úr hjólförunum” og breyti vanabundinni hegðun sinni? Í sjötta kafla skrifar Wahlgren um hugtakið ”transfer”, sem er klassískt þema úr kennslufræðum, en í tengslum við fullorðinsfræðslu  hefur það fengið nýtt og aukið vægi. Aukin áhersla á hæfni til að geta hagnýtt þá færni og þekkingu sem einstaklingurinn hefur aflað sér, hefur beint sjónum manna enn frekar að tengingunni milli reynslu og náms, en transfer er lykilhugtak í því samhengi.  Í sjöunda kafla er mikilvægi jákvæðs námsumhverfis umfjöllunarefnið, en það er samkvæmt Wahlgren sérlega mikilvægt, þegar að um fullorðna námsmenn ræðir. Sem dæmi má nefna, að fyrir hinn fullorðna námsmann getur það verið afar erfitt, ef hann tapar virðingu. Í áttunda kafla er höfundurinn að skoða mikilvægi sérstakrar kennslufræði fyrir fullorðna námsmenn og varpar í upphafi  fram spurningunni hvort að kennarar sem starfi við fullorðinsfræðslu þurfi að búa yfir sérþekkingu er lýtur að sérstökum aðstæðum fullorðinna námsmanna og þá hvaða.

Bókinni ”Voksnes læreprocesser” lýkur á yfirliti yfir mikilvægustu fræðiritin um nám og kennslu fullorðinna, þar sem Wahlgren dregur fram helstu áhersluatriði viðkomandi rits, sem  ég tel að geti komið sér vel fyrir þann sem ætlar að afla sér frekari innsýn í hin ýmsu sérsvið fullorðinsfræðslunnar. Á eftir yfirlitinu er hefðbundin skrá yfir tilvísanir og nöfn.

Það verður að segjast eins og er, að hið sögulega yfirlit yfir fullorðinsfræðslu síðustu 40 árin, þótti mér í senn áhugavert og fróðlegt. Árið 1975 hvatti þáverandi Menntamálaráðherra Dana, Ritt Bjerregaard, starfandi menntamálanefnd til að koma með tillögur að því, hvernig að takast mætti að ná til þeirra samfélagsþegna sem minnsta menntun hefðu hlotið, og virkja þá til endurmenntunar. Strax þá var lagt af stað af miklum metnaði og með hugsjónir um að hækka staðal menntunar hjá þjóðinni, samfélaginu til heilla og hagsbóta. Segja má að þessari stefnu hafi verið fylgt í megin atriðum síðan þá, og grunnhugmyndin þróuð og mótuð í takt við samfélagslegar breytingar og aukna almenna menntun.

Í framhaldi af hinu sögulega yfirliti er haldið áfram, eins og leið liggur, að nánari skoðun á ferlinu frá þörf til þátttöku, en markmiðið er að allir taki þátt í að auka við menntun sína, alla ævi. Tölfræðin sýnir að mikill árangur hefur náðst; árið 1978 var hlutfall þeirra sem höfðu lokið 7 ára skólagöngu eða minna undir 18% en nýjustu tölur sýna að frá 2004 hefur hlutfall þeirra sem hafa minnstu formlegu menntunina verið hæst. Það var á áttunda áratugnum sem að sérstök  ”kennslufræði fullorðinna” fór að mótast, eða öllu heldur þróast frá hinu almenna hugtaki ”að bæta getu og hæfni” (kompetenceløft) yfir í að móta markvissa kennslufræði fyrir fullorðna einstaklinga (voksenpædagogik). Eðlilega er í þessu samhengi vitnað í marga kennimenn. Knowles og þar á meðal sem og hina þrískiptu kenningu Cyril O. Houles um  markmið, virkni og þekkingu, en þær byggja á eigindlegum rannsóknum (Houle, 1988).  Í framsetningu B. Wahlgren hefur þarfapíramýdi Maslows (Maslow, 1970) leitt í ljós hversu samofið nám á fullorðinsárum er persónulegum þroska einstaklingsins; að fylla upp þörfina fyrir að hámarka vitund og virðingu einstaklingsins gagnvart eigin getu og hæfni (selvrealisation). Kenningar McGregors (McGregor, 1960) gera ráð fyrir að í sérhverjum einstaklingi búi ósk um að þroskast og læra meira. Það sé því hlutverk menntakerfisins og allra þeirra aðila sem að kennslu og námi (fullorðinna) koma, að auðvelda og styrkja námsferlið, sem og að fjarlægja þær hindranir sem kunna standa í vegi fyrir að þetta raungerist hjá sem flestum einstaklingum. Wahlgren nefnir Bo Jacobsen sem heldur því fram að þegar að fullorðið fólk falli frá námi, er það vegna misræmis í þörfum þáttakendanna og þess sem fullorðinsfræðslan hefur fram að bjóða (Jacobsen, 1991). Þessum sjónarmiðum tengjast kenningar um lífsbyrðar fullorðinna, lífssögumiðað nám og kenningar Ericsons um ferli/tímabil í lífi fullorðinna.  Mezirow og kenningar hans um ”transformation” eða umbreytinganám í kjölfar mikilla breytinga í lífi fullorðinna (Mezirow, 1990, 1991). Þessar kenningar styður hinn danski Johan Fjord Jensen, sem segir það hlutverk fullorðinsfræðslunnar að auka líkurnar á að slíkar umbreytingar takist vel og stuðli að auknum þroska og vellíðan einstaklingsins sem þannig geti stigið eitt þrep í viðbót í átt að meiri lífsgæðum (livstrappen). Með þá innsýn sem ég hef í danskt menntakerfi þess tíma er hér um ræðir, veit ég að þessar kenningar endurspeglast í því framboði sem þar er á sviði fullorðinsfræðslu.  Daghøjskoler eru einskonar lýðháskólar sem fullorðnir sækja á daginn án þess að búa á staðnum eins og yfirleitt er um nemendur lýðháskóla og hefur reynst afar vel.

Námsferlar fullorðinna, þ.e. hvernig fullorðnir læra, má segja að sé þungamiðjan í bókinni. Til að auðvelda yfirsýn vitnar Wahlgren í skilgreinigu Jarvis (Jarvis, 2005) á námi sem  tvenns konar; ”ikke reflekteret læring” og ”reflekteret læring” sem mætti þýða sem nám með og án afturbliks. Wahlgren útskýrir hið fyrrnefnda með eftirfarandi hætti:  A) Ómeðvitað nám (pre-concious learning) þar sem einstaklingurinn nemur, án þess að um meðvitað nám sé að ræða. Í þessu samhengi vegur reynslan mjög mikið. B) Færninám (skills learning), sem  (tungu)mál og félagsfærni eru dæmi um og C) minnistengt nám, þar sem lögð er áhersla á læra utanað og reynslan leikur ekki stórt hlutverk.

Nám með afturbliki er samkvæmt Wahlgren: A) Vitsmunaleg nálgun við námsefnið (contemplative learning) þar sem unnið er með námsefnið huglægt út frá eigin reynslu og í tengslum við kenningar. B) Þekkingarmiðað nám með afturbliki (reflective cognitive learning), þar sem afturblik og þekking er tengt við raunveruleg ferli og ný hugtök eru mynduð. C) Nám tengt raunverulegum aðstæðum (action learning), þar sem hið huglæga er þjálfað og framkvæmt við raunverulegar aðstæður.

Kosti og galla hinna ýmsu aðferða sem fullorðnir beita við að læra fer Wahlgren mjög ýtarlega yfir í umfjöllun sinni um námsferla í kennslufræðum fullorðinna. Hann vitnar í módel sem Spephen Brookfield (Brookfield, 1995, 1996) um lærdómsferla og hugtakið valdajafnvægi (magtrelation) er notað í tengslum við t.d. hópavinnu og hringborðsumræður, sem og langtíma og skammtíma áhrif kennslu og náms. Kenningar Dreyfus & Dreyfus um sérfræðinga á sérsviðum eru sömuleiðis afar áhugaverðar (Dreyfus og Dreyfus, 1986, 1999) Wahlgren segir í þessu samhengi að hugmyndin um gagnrýnið afturblik (kritisk reflektion) sé orðin að kennslufræðilegri möntru. Í þessari umfjöllun sýnir Bjarne Wahlgren mörg módel, sem ég geri ráð fyrir að eigi að þjóna þeim tilgangi að auðvelda skilning á ferlum og hugtökum. Þar verður hver að dæma fyrir sig; en mér fannst það ekki vera svo. Hins vegar veitir þessi yfirgripsmikla umfjöllun um kennslufræði fullorðinna mjög góða innsýn í helstu kenningar fræðanna.

Um leið og Wahlgren fjallar um hvata til að hefja nám á fullorðinsárum, fjallar hann líka um andstöðu fullorðinna við að hefja nám og ljúka því. Hann gefur dæmi um slíkt, sem óneitanlega fær bjöllur til að klingja í eyrum þess sem hefur kennt fullorðnum um árabil. Þögn, lokuð líkamstjáning eins og krosslagðar hendur, tilfinningalegt uppnám og grátur, neikvæð afstaða gagnvart námsefninu og aðferðum kennarans, sem og reiði. Kenningar Roberts Wodlowsky um mikilvægi þess að skapa jákvætt námsumhverfi og að skilningur kennarans á aðstæðum hinna fullorðinna námsmanna endurspeglist í nálgun á námsefni og verkefnum eru lögð til grundvallar umfjölluninni um hvata og andstöðu. Verkefni í fullorðinsfræðslu þurfa að vera nemendunum áskorun; áskorun sem þó er þeim ekki um megn. Skemmtilegt graf (Wahlgren, bls. 94) sýnir hvernig áskorunin kveikir í nemandanum til að byrja með en svo dettur áhuginn niður. Æskilegast er að áskorunin kveikni, dali síðan örlítið, en fari svo enn hærra en áður og falli svo í takt við að verkefninu lýkur.  Sérlega áhugaverð er greining Wahlgrens á hinum ýmsu kenningum um andstöðu, sem á rætur að rekja í innbyggðan ambivalens einstaklingsins gagnvart námi, því svo gæti farið að námið myndi breyta hvunndeginum og hinu daglega lífi of mikið. Svarið við þessari andstöðu er nám og kennsla sem á erindi við nemendur, eða svarar og mætir þörfum þeirra. Virðing fyrir hinu persónulega rými einstaklingsins (urørlighedszone) hefur mikið vægi í því sambandi og að kennarinn mæti andstöðunni með opnu og jákvæðu hugarfari, því það sem nemandinn er að andæfa, gæti hugsanlega verið eitthvað sem hægt er að bæta.

Í ”Voksnes læreprocesser” gefur Bjarne Wahlgren transfer (í.yfirfærsla) hugtakinu heilan kafla. Hann fjallar ýtarlega um í hverju transfer ferlið felst, gerir grein fyrir hinum ýmsu kenningum um transfer, hvað það sé sem ákveður í hve miklum mæli transfer á sér stað og hvers vegna transfer eigi sér ekki sjálfkrafa stað hjá öllum. Hann gefur dæmi sem lýsa ferlinu sérlega vel, og varpar um leið ljósi á hvers vegna ”sumir” og ”stundum” geti fært reynslu og þekkingu sem fyrir er, yfir á það sem er nýr lærdómur.  Hins vegar bendir Wahlgren á, að einhver yfirfærsla eigi sér þó alltaf stað, og á einhvern hátt, þó það komi seinna og við aðrar kringumstæður hjá einhverjum. Fyrir því geta verið margvíslegar ástæður sem eru einstaklingsbundnar og tengjast m.a. hæfileikanum til að tengja á milli aðstæðna í lífinu á óhlutbundinn hátt. Fyrir kennara í fullorðinsfræðslu bendir Wahlgren á mikilvægi þess að skapa aðstæður og andrúmsloft sem auka möguleikann á yfirfærslu og í því samhengi verður nemandinn að hafa öðlast fullan skilning á námsefninu, og kennarinn að auka samspilið á milli ólíkra aðstæðna sem varða námsefnið. Í niðurlagi kaflans um yfirfærslu ítrekar Wahlgren, að allar rannsóknir bendi til þess að transfer sé mikilvæg viðbót í námi fullorðinna. Viðbót sem eykur gæði og hagnýtt innihald námsins fyrir þann einstakling sem í hlut á.

Síðasti kaflinn í bókinni  lýtur að kennslufræði fullorðinna. Þær spurningar sem höfundur leitar svara við er hvaða hæfniþáttum (kompetencer) sá sem kennir fullorðnum þurfi að ráða yfir og hvernig hann öðlist þá hæfni. Alls staðar, bæði þarlendis og erlendis er nú lögð mikil áhersla á faglega breidd og umfram allt þarf kennari fullorðinna að vera góður fagmaður.  Þeir þættir sem Wahlgren telur þó vera lang mikilvægasta  er afturblik (refleksion), reynsla, fagmennska, hæfni til að miðla og hugsanlega vera í tengingu við vinnumarkaðinn. Vitnað er í rannsókn (Larson, 1995) þar sem nemendur á námsskeiðum eru spurðir hvaða eiginleika þeir meti mest í fari kennara. Þar kemur fram, að það að geta miðlað, þannig að fólk skilji og að kennarinn gefi sig allan í kennsluna, vegur þyngst hjá flestum. Í þessum kafla  fjallar Wahlgren einnig um námsumhverfi og það samhengi sem nám fer fram í.  Þar beinir höfundur sjónum sínum að mikilvægi þess að skapa jákvætt og þægilegt andrúmsloft  þar sem að námið fer fram; að þar ríki það sem hann kallar jákvæð ”menntamenning”. Í þeirri umfjöllun lýsir höfundur mismunandi menntamenningu í skólum sem annars vegar eru fyrir atvinnulífið (AMU; Arbejdsmarkedets uddannelsescenter) og hins vegar almenna fullorðinsfræðslu (VUC; Voksenundervisnings center). Sá sem kemur til að kenna í skóla atvinnulífsins leggur áherslu á að kenna hvernig hlutirnir eru framkvæmdir úti í hinu raunverulega lífi, en í almenna skólanum er lögð  áhersla á þekkingu og rökstuðning.

Sem heild er bókin afar gagnleg fyrir þann sem vill fá yfirsýn yfir sem flest er tengist kennslu og kennslufræði fullorðinna, stefnur og strauma og fræðimenn á því sviði. Það er og mikill kostur að höfundur fjallar um og hin ýmsu efnisatriði á fræðilegan og gagnrýninn hátt. Wahlgren teflir gjarnan saman kenningum sem og ýmsum sjónarmiðum þar að lútandi og dregur fram  bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar á umfjöllunarefninu. Einnig tekur hann mörg dæmi úr raunveruleikanum og sýnir hvernig hlutirnir hafa virkað eða ekki virkað hjá honum. Þetta auðveldar skilning hjá lesandanum og ljóst er að Bjarne Wahlgren er pædagog ”per excellence”. Við það má svo bæta að þekking hans á málefninu nám og kennslufræði  fullorðinna er mjög mikil. Í upphafi nefndi ég að málfarið í bókinni væri lipurt; að vísu eru mörg erfið orð og bókin telst ekki sem ”léttlestrarbók”. En eigi að síður er hún aðgengileg og í því samhengi gegna dæmin mikilvægu hlutverki.

Heimild: Wahlgren B. (2010).

 

 

Skildu eftir svar