Ævin býður upp á alls konar tækifæri til að læra. Hver manneskja fer í gegnum ævina á sinn hátt, en lífinu má skipta niður í skeið sem eru að einhverju leiti lík hjá öllum. Við fæðumst öll og þurfum að læra að vera manneskjur. Fyrstu verkefnin eru eins hjá flestum: Að læra að borða, hreyfa sig, þekkja fólkið sitt, gera sig skiljanlegan… Þetta eru námsverkefni sem við komumst ekki framhjá. Svo reka sig æviskeiðin og hvert þeirra ber í sér tækifæri til að læra eitthvað nýtt um lifið, sjálfan sig og umheiminn. Hvaða merkingu ætli það hafi fyrir fullorðinsfræðara að hvert æviskeið gæti haft falin í sér sérstök tækifæri til náms, og jafnvel námsefni, eða námsverkefni sem allir þurfa að glíma við og eru innbyggð í æviskeiðið. Jóhann Amos Comenius hélt þessu fram, einkum og sér í lagi í bók sinni Pampedia.
JOHANN AMOS COMENIUS, (1592 – 1670) var Biskup í Prag og sjálfmenntaður uppeldisfræðingur. Skrif hans hafa haft mikil áhrif á kennslufræðina. Hann er t.d. oft nefndur faðir skólaskyldunnar. Lestrarkennslubók hans var notuð sem kennslubók víða um Evrópu í meira en 200 ár, “Stóra kennslufræðin” hans (“Magna Didactica”) hefur einnig haft afgerandi áhrif á kennsluaðferðir margra kennarakynslóða. Comenius sá hlutverk kennarans á svipaðan hátt og Plato. Hlutverk kennarans er að hans áliti að frelsa manneskjurnar frá því myrkri sem þær búa flestar í, til ljóssins. Hann á að lýsa upp hugskot mannsins og leiða hann til fullrar mennsku – mennta hann.
Í bók sinni Pampaedia kynnir Comenius til sögunnar þessa hugmynd og lýsir því hvernig hvert æviskeið hafi sín sérstöku námsverkefni og að það sé auðvelt að „Kenna öllum allt með tilliti til alls (þ.e. heildarinnar)“ (Omnes omnia omnino). Lífið sjálft hefur útbúið hlutina þannig að æviskeiðinu sé skipt niður í átta skóla: Frá skóla fæðingarinnar til skóla dauðans. og að hver skóli hafi sína námskrá. Og fyrir kennara að kenna fólki það sem þarf séu til nægt námsefni og ótal auðveldar og gagnlegar leiðir.
Hvaða hugmyndir ætli vakni í huga fullorðinsfræðarans þegar hann skoðar lífið með þessum augum? Hvað segir það þeim um nemendur sína og hvað segir það um möguleika á – eða þörf fyrir – tilboð um námsferla sem tengjast hverju æviskeiði fyrir sig. Þá er líka spurning hvar og hvernig lærir fólk það sem gagnast best á hverju ævistigi?
Fylgstu með umræðum okkar um þetta í kennslustund (aðeins opið þátttakendum á námskeiðinu)
Bækur sem voru nefndar:
Comenius, J. A. (1986). Comenius’s Pampaedia, or, Universal education. Book, Dover, Kent: Buckland Publications.
Strom, P., & Strom, R. D. (2011). Adult learning and relationships. Information Age Pub.
Albom, M. (1997). Tuesdays with Morrie : an old man, a young man, and life’s greatest lesson. Anchor Books.