Unit 6 – Subjects and levels (Lota 6 – Fög og námsstig)
Í lotu sex í netnámskeiði Jon Bergmann er aðaláherslan lögð á hvernig hægt er að spegla kennslunni, á mismunandi hátt eftir fögum og námsstigum.
Aðalatriðið er alltaf það sem við gerum í kennslustofunni. Í hóparýminu er mikilvægt að hafa gott jafnvægi af verklegum og bóklegum æfingum. Það er ekkert rangt við það að láta nemendur leysa verkefni á pappír, getur skilað betri skilningi og virkari þátttöku hjá nemendum – sérstaklega þegar slík verkefni eru notuð í bland við aðrar tegundir verkefna.
Raungreinar:
Í raungreinum breytir það miklu að hafa meiri tíma fyrir tilraunir og reynsla Jons var sú að eftir að hann byrjaði með vendinám hafði hann 50% meiri tíma fyrir tilraunir. Í byrjun notaði Jon mikið af tilraunum þar sem nemendur fóru nákvæmlega eftir leiðbeiningum (e.cookbook labs) en fór svo smám saman að færa sig yfir í tilraunir sem ýttu undir dýpri skilning. Hann stingur upp á því að spegla tilraunastofunni (e.flip the lab) og hafa upptökur af leiðbeiningum fyrir hverja tilraunastöð, þ.e. hvernig tilraunin á að fara fram, hvernig hún virkar og hvernig nemendur eiga að bera sig að. Nemendur eiga að horfa á þetta heima og þá er mjög mikilvægt að kennari tékki hvort þau séu búin að horfa. Sumt þarf samt að útskýra í stofu, öryggisins vegna. Sumar tilraunir er hægt að senda heim og biðja nemendur um að útskýra þær fyrir foreldrum sínum. Einnig er til fullt af stafrænum hermum (e.digital simulations) sem sérstaklega raungreinakennarar ættu að vera vakandi fyrir t.d. sem forrit, smáforrit eða heimasíður. Það getur dýpkað skilning nemenda mikið.
Mikilvægt að leggja áherslu á að kenna hvernig á að hugsa!
Í hefðbundnum raungreinatíma er mikið um fyrirspurnir og það er gott. Í vendinámi er erfiðara að koma með fyrirspurnir beint úr fyrirlestrum þegar horft er á þá heima, en það eru til ýmsar leiðir til að tryggja að fyrirspurnir fái sinn tíma samt, t.d. með fyrirframskilgreindum fyrirspurnartímum þar sem ákveðin viðfangsefni eru tekin fyrir.
Önnur leið til að hugsa uppsetningu raungreina kennslu er hugmynd Ramseys Musallams: „Explore – Flip – Apply“ þar sem nemendur eru fyrst kynntir fyrir einhverju vandamáli, svo fá þau kennslumyndband og eiga svo að nota þær upplýsingar sem þeir fengu til að leysa upphaflega vandamálið. Sjá nánar hér. Eins má finna hugmyndir að verkefnum og æfingum á pogil.org
Til að setja öll verkefni annarinnar í samhengi, setur Jon yfirleitt upp eitt stórt lokaverkefni sem er í gangi alla önnina. Hann reynir svo að tengja alla kaflana inn í það á einn eða annan hátt, til að gefa viðfangsefnunum dýpri merkingu.
Stærðfræði:
Að mati Jon er algjörlega borðleggjandi að spegla stærðfræðinni, það getur hjálpað nemendum mjög mikið að geta sótt í kennslumyndbönd eftir þörfumm, útskýringar á öllum aðferðum og reglum sem notaðar eru. Jon telur alveg ásættanlegt að í stærðfræði sé verkefnavinna ca 75% af tímanum, þar sem nemendur æfa sig í að beita því sem þeir hafa lært. Gott að leyfa nemendum að vinna einum eða í litlum hópum eftir því hvað þeir vilja. Kennarinn hefur tíma til að ganga á milli og aðstoða alla, mikilvægt að hann tryggi að hann hjálpi öllum. Og svo þarf kennarinn að muna að núna er auðveldara að setja fyrir spennandi, erfið verkefni en áður, því bæði eru nemendur að vinna þau í kennslustofunni með kennara til aðstoðar og einnig hafa þeir möguleikann á því að vinna saman í hópum og hjálpast að. Því eru meiri líkur á því að allir, ekki bara þeir sterkustu, geti leyst krefjandi verkefni.
Í stærðfræði er líka hægt að nýta sér ýmsa stafræna herma eða forrit til að auka skilning nemenda. Dæmi um það sem hægt er að nýta er PHET, Desmos eða Geogebra ásamt fjöldanum öllum af öðrum sniðugum síðum sem bjóða upp á ýmsa möguleika.
Svo er um að gera að nýta þá möguleika sem liggja í forritum eins og Excel þar sem t.d. er hægt að vinna með algebru á annan hátt en venjulega og gæti nýst mörgum að fá nýtt sjónarhorn á viðfangsefnin.
Enska og bókmenntir:
Bókmenntir eru dæmi um fag sem Jon leggur til að sé kannski bara speglað að hluta, því hér er mikilvægt að nemendur lesi mikið. Því mætti senda kennslumyndbönd heim stundum, en þess á milli fælist heimanámið í lestri. Hann leggur áherslu á að myndbönd séu ekki svarið við öllu og stundum þurfi ekta innblásna fyrirlestra í kennslustund til að útskýra bókmenntahugtök, tilfinningar og upplifanir sem tengjast textunum, en þá sé mikilvægt að huga að lengd slíkra fyrirlestra. Sumt má samt auðveldlega senda heim sem kennslumyndbönd, t.d. beinar upplýsingar og innlagnir. Vinnu í tímum mætti þá nota til að æfa ritfærni undir handleiðslu kennara. Erfiða texta mætti líka lesa í tímum, stundum upphátt. Jon hefur séð dæmi um að kennari lesi bókina upp í upptöku og þá getur nemandinn fylgst með á skjánum hvert hann er kominn í textanum, þannig hann hefur bæði textann fyrir framan sig og upplesturinn í eyrunum. Það gæti verið ágætis leið fyrir nemendur að komast í gegnum erfiða texta.
Alla málfræði er upplagt að setja inn sem kennslumyndbönd, þá geta nemendur nálgast allar reglur þegar þeir þurfa.
Félagsvísindi:
Í félagsvísindum má setja inn kennslumyndbönd með leiðbeiningum um hvernig eigi að framkvæma ákveðna hluti, t.d. lesa af korti. Í kennslustundum er hægt að vinna allskonar fjölbreytt verkefni, fara í leiki og leyfa sköpunargleðinni að njóta sín. Í hefðbundinni kennslu var oft ekki tími fyrir verkefni því þau taka tíma. Gott dæmi um verkefni sem skilar dýpri skilningi á námsefninu eru rökræður, þar sem nemendur þurfa að setja sig inn í málin og vera með og á móti. Einnig er lærdómsríkt að biðja nemendur um að setja sig í spor sögufrægra persóna og skrifa t.d. bréf frá viðkomandi persónu.
TIl að kenna nemendum um fjármál, getur verið sniðugt að fara í peningaleik, gefa nemendum pening sem þau svo glata í lokin, þannig þau upplifi á eigin skinni t.d. kreppuna miklu.
Erlend tungumál:
Upplagt að kenna alla málfræði og orðaforða í vendinámi, og nota þá tímann í hópasvæðinu frekar í æfingar, t.d. tjáningu og æfa sig í að tala. Mjög fjölbreyttir möguleikar, t.d. setja upp aðstæður eftir þemum, hægt að setja upp þannig þema að allir séu að fara á veitingastað og þurfa að bjarga sér.
Í grunnskóla:
Kosturinn við kennslu í grunnskóla er að kennarar hafa yfirleitt nemendur hjá sér í lengri tíma yfir daginn og oft eru aðstæður þannig að ekki allir nemendurnir eru í stofunni samtímis. Því er hægt að leyfa nemendum að nota smá tíma yfir daginn til að horfa á kennslumyndbönd, ef þau ekki horfðu heima.
Það liggur beinast við að spegla stærðfræðinni, þar er auðvelt að hafa innlögnina í kennslumyndbandi og nota tímann í hóparýminu sem mest í æfingu á stærðfræðinni.
Ýmis önnur fög geta líka notið sín í spegluðu umhverfi, t.d. getur kennari tekið upp myndband þegar hann skoðar texta og greinir hann, skilgreinir persónur, tíðir eða bara það sem á við hverju sinni.
Í raun getur kennarinn fjölfaldað sig með þessari aðferð.
Gaman að nýta þessa tækni líka fyrir foreldra, útskýra í kennslumyndbandi eitt og annað í skólastarfinu. Líka hægt að gera í leikskólum.
Önnur fög:
Vendinám er hægt að nýta í flestum fögum, meira að segja tekur Jon dæmi um hvernig er hægt að nýta kennslumyndbönd í íþróttum, þar sem sýndar eru réttu hreyfingarnar eða reglur í leikjum, eða bara það sem mönnum dettur í hug. Nota hugmyndaflugið.
Sérkennsla:
Einnig talar hann um ómælda möguleika á notkun kennslumyndbanda í sérkennslu, þar sem nemendur koma úr ýmsum fögum og stigum til kennara sem hefur ekki haft tækifæri til að setja sig sérstaklega inn í efni allra faga. Þá getur kennarinn horft með nemandanum á myndband frá hans faggreinakennara og aðstoðað nemandann svo með verkefnin sem fylgja.
Með því að færa innlagnir inn í einstaklingssvæðið verður meiri tími fyrir æfingar og því ætti að sjást meiri árangur.
Unit 7 – Assessments and Flipped Learning (Lota 7 – Námsmat og vendinám)
Í byrjun þarf ekki endilega að breyta námsmati í vendinámi og það getur meira að segja verið kostur að hafa samanburð á milli ára fyrir og eftir að kennslunni hefur verið breytt. Því er í lagi að breyta öðrum þáttum kennslunnar á undan námsmatinu.
Það er mikilvægt að halda nemendunum á tánum og hafa virkni þeirra í að horfa á kennslumyndbönd og taka glósur sem hluta af einkunn. Gott ef kennari hefur hjá sér yfirlitsblað eða töflu þar sem hann getur merkt við nöfn nemenda og að þau séu með glósur úr fyrirlestrunum.
Jon leggur mikið uppúr því að nemendur taki glósur úr fyrirlestrum ásamt því að vera með innbyggðar spurningar í sumum myndböndunum. Hann mælir eindregið með því að kenna nemendum glósutækni – t.d. Conrell notes. Kennslumyndband í því má sjá hér:
Jon segir okkur líka frá því hvernig hann hætti að taka með verkefni heim til að fara yfir á kvöldin. Hann notar svokallað hlítarnám (e. mastery learning) þar sem hann kannar kunnáttu nemenda jafnóðum í kennslustofunni. Hann byggir matið á því að sjá glósur, verkefnablað þar sem nemandinn vinnur bara helming af spurningunum og svo einhverjar verklegar æfingar sem tengjast efninu. Ef nemandinn getur útskýrt svarið fyrir kennara þá heldur hann áfram í námsefninu, ef nemandi er í vanda og skilur ekki, getur hann unnið hinn helming spurninganna og ef nemandinn hefur svindlað, uppgötvar kennari það strax og lætur þá nemandann vinna allar spurningarnar.
Áður gátu nemendur verið að fá 3 á prófum og samt var haldið áfram í efninu – núna fer enginn áfram fyrr en hann hefur fengið viðunandi skilning og þar af leiðandi viðunandi einkunn.
Jon mælir með því að nota upplýsingarnar sem safnast um nemendur til að bæta kennsluna og gera hana einstaklingsmiðaðri. Vendinám er leið til aukinnar einstaklingsmiðunar.
Eins hvetur hann til þess að kennarar nýti sér prófabanka þegar það er hægt, til að fá betri yfirsýn yfir þær villur sem nemendur eru að gera og þannig er hægt að vinna strax með það sem nemendur ekki skilja.
Vendinám gefur kennara meiri tíma í kennslustundum og því er hægt að nota allar þessar leiðir sem áður var ekki tími til að framkvæma.