Vendinám – Flipped learning Certification

Í þessari bloggfærslu ætla ég að segja ykkur frá kennsluaðferð sem kallast vendinám (e. Flipped Learning) og hefur verið notuð í Keili í bráðum 5 ár. Það sem hvatti mig af stað í þessi skrif er netnámskeið sem ég er nýbúin að skrá mig á og langar að deila þeirri upplifun með ykkur.

Í raun heitir námskeiðið Flipped learning certification og gefur mér að því loknu staðfestingu á því að ég sé vendinámskennari. Fremstur í flokki sem höfundur og kennari á námskeiðinu er Jon Bergmann (Í raun heitir hann Jonathan Bergmann en hefur greinilega stytt nafnið sitt til að auðvelda samskipti við fólk víðsvegar um heiminn).

Aaron Sams og Jonathan Bergmann
Aaron Sams og Jonathan Bergmann

Jonathan Bergmann er annar af upphafsmönnum „Flippsins“ svokallaða en ævintýrið hófst vorið 2006 í Colorado í Bandaríkjunum, þegar hann og samstarfsmaður hans Aaron Sams byrjuðu að gera tilraunir með að taka upp innlagnir fyrir veikt barn sem komst ekki í skólann. Brátt sáu þeir ávinninginn af þessu fyrirkomulagi og hafa þróað þessa hugmyndafræði æ síðan.

Nú er svo komið að kynning á og vinna með Flipped classroom hugmyndafræðina er stærstur hluti af starfi Jon. Hann ferðast um allan heiminn til að tala á ráðstefnum, hitta skólafólk og breiðir út boðskapinn. Í sumar fór hann í það verkefni að mynda alþjóðlega Flipp hreyfingu – Flipped Learning Global Initiative þar sem hann ásamt samstarfsfólki sínu safnaði saman á eina heimasíðu m.a. ýmsum upplýsingum um „flippið“ og rannsóknir sem gerðar hafa verið á því. Á þessari heimasíðu má  finna útvarpsrás sem Jon og félagar eru með um Flipped learning, blog og fréttaveitu. Einnig má þar finna „Master Teachers“ hóp af kennurum frá öllum heiminum sem hafa verið að nýta þessa aðferð og eru tilbúnir að miðla þeim til annara.

Einn liður í kynningu á aðferðinni er þetta umrædda netnámskeið sem ég er núna þátttakandi í. Í raun eru þrjú námskeið í boði, eitt fyrir byrjendur, eitt fyrir lengra komna og eitt fyrir stjórnendur sem vilja breyta kennsluháttunum í sínum skóla. Þar sem ég er svo heppin að vinna á vinnustað sem bæði hvetur kennara til að nota þessa aðferð og er tilbúinn að borga fyrir svona námskeið, henti ég mér umhugsunarlítið af stað í þetta verkefni. Þrátt fyrir töluverða reynslu af vendinámi, valdi ég að  taka byrjendanámskeiðið, en miðað við það sem ég hef nú þegar séð af námskeiðinu, sé ég ekki eftir því.

Byrjendanámskeiðið er í 9 lotum og ég ætla að segja ykkur frá innihaldi hverrar lotu í stuttu máli hér, jafnóðum og ég hlusta á efnið sjálf.

Unit 1 – Why Flip? (Lota 1 – Hví vendinám?)

Í þessari lotu fer Jon yfir það af hverju vendinám virkar. Með vendinámi skapast meiri tími fyrir kennarann að vera innan um nemendurnar í skólastofunni og á auðveldara með að mynda tengsl við einstaklingana. Hér leggur Jon áherslu á það að einn af mikilvægustu þáttunum í því að nám eigi sér stað, séu tengsl (e. relationship) milli kennara og nemenda. Hann minnir á orðatiltækið „Kids don’t care what you know until they know that you care“ sem á vel við í þessu samhengi. Kennarinn hefur tækifæri til að kynnast nemendum betur og veit því betur hvað þau geta.

Hér í byrjun dregur Jon fram stóru spurninguna sem ætti að vera öllum kennurum leiðarljós í áttina að vendinámi, nefnilega

„what is the best use of your face to face class time?

Þessa spurningu ættu allir kennarar að geta ígrundað, sama hvaða fag þeir kenna, hvaða námsefni þeir nota eða hvaða nemendahóp þeir eru að vinna með. Hinsvegar eru til mörg rétt svör við þessari spurningu, engin ein leið er endilega rétt eða réttust – en það eru ansi mörg „röng“ svör við henni.

Sem rökstuðning við það hversu margir svara þessari spurningu rangt, vitnar hann í eina af rannsóknum Dr. Marzano sem hefur kynnt sér fyrirkomulag í 2 milljónum kennslustofa víðsvegar um heiminn (það eru svakalega margar kennslustofur) og komist að eftirfarandi niðurstöðu:

58% af kennslustundinni fara í það að eiga samskipti um nýtt efni
36% af kennslustundinni fara í það að æfa og dýpka sig í nýju efni
6%  af kennslustundinni fara í það að vinna flókin verkefni sem fela það í sér að búa til og kanna tilgátur uppúr námsefninu

Jon bendir á að um allan heim er vilji til að virkja nemendur í kennslustundum en staðreyndin virðist vera önnur þegar þessar tölur eru skoðaðar.

Í framhaldi af þessu nefnir Jon þríhyrning Blooms og hvernig hann hafði í fyrstu snúið honum á hvolf í sínum kennslustundum – en er núna kominn að þeirri niðurstöðu að líklega sé tígulformið best.

revised_bloom_pyramidsscreen-shot-2015-07-13-at-19-59-06

Með tígul útgáfunni fer mestur tími kennarans í að vinna með nemendum á virkan hátt, fremur en að nota stærsta hluta tímans í að láta nemendur leggja á minnið og skilja (upprunalega útgáfan) eða vera of upptekinn af sköpun og mati (öfuga útgáfan).

Og þar sem virkni nemenda er það mikilvægasta í skólastofunni ítrekar Jon að: „the flipped class is NOT about the videos! Active learning is the key.“ Það er að segja vendinám snýst ekki um upptökur heldur er virkni nemandans lykillinn.

Í ljósi þess að nemendur eru viðskiptavinirnir, ákvað Jon að spyrja þau um þeirra upplifun. Hann spurði þau hvort upptökurnar sem fylgdu vendináminu hefðu áhrif á heildar „skjá“ tíma þeirra. Svörin voru á þessa leið:

  • 55% sögðu að myndböndin lengdu örlítið skjátímann
  • 30% sögðu að myndböndin lengdu ekki skjátímann – heldur kæmu þau í stað annars sem þau væru annars að gera
  • 15% sögðu að myndböndin lengdu töluvert skjátíma sinn

Hann spurði einnig hvort upptökurnar hjálpuðu þeim að skilja efnið betur og á skalanum 1-5 voru rúmlega 90% nemenda sem staðsettu sig á 3,4 og 5 – þar sem 5 stóð fyrir „upptökurnar hjálpuðu mikið“. Flestir völdu töluna 4 eða 39,2%.

Um 85% nemenda töluðu um að í vendinámi tæki heimanámið jafnlangan tíma eða minni en áður. Einungis 15% töldu sig nota meiri tíma í heimanám en í hefðbundinni kennslu.

Sú niðurstaða sem Jón dregur út úr þessum spurningum til nemenda er að þau fái meiri gæði út úr kennslunni á sambærilegum eða styttri tíma en áður.

Í lok þessarar fyrstu lotu kemur Jon inn á þau fjögur atriði sem þarf að huga að þegar stefnan er sett á að venda sinni kennslu í kross og byrja að flippa. Hann dregur þetta saman í fjögur T:

  • Thinking
  • Training
  • Time
  • Technologi

Lotu 1 lauk með möguleika á umræðum og krossaprófi úr öllu efninu sem hann fór yfir – eins gott að vera duglegur að glósa í þessum skemmtilegu fyrirlestrum hans.

One thought on “Vendinám – Flipped learning Certification”

  1. Vá Vá Vá 🙂 takk æðislega fyrir að deila þessu með okkur, ég er svo eldheit fyrir þessari kennsluaðferð eftir allt sem ég hef lesið, ég veit fyrir víst að þar sem ég hef fengið svona kennslu (sjálfskapað reyndar því ég sótti mér aukaefni í MIT vefnum fyrir vinnutíma í HR ) þar hef ég lært langmest í verklegum tímum því ég var komin með einhvern grunn skilning áður en kom að vinnutíma með aðstoðarkennurum og dýpri ígrundun á efninu. Ég á mjög erfitt með nám, og þessi aðferð sem ég kom mér upp – kom mér í gegnum stærðfræði í verkfræði, believe it or not ! og ég svona ramm- tölublind og lesblind og með adhd frá helvíti 😉

    Takk fyrir þessa samantekt, ég hlakka til að lesa meira um þetta frá þér og víðar
    kv Dóra Dögg

Skildu eftir svar