Að sækja sér … kartöflur í soðið og menntun í leiðinni…

nuernbergertrichter

Hvernig ætli við tölum um nám, kennslu, þann lærdóm sem hlýst af náminu og jafnvel menntunina sem gæti komið í kjölfarið???

… þessi fáu orð eru skrifuð í flýti, bara til að hafa párað þau niður á „blað“… áður en það gleymist. En það stendur til að kafa aðeins dýpra 😉    (textinn er núna í fjórðu útgáfu (feb 2022) – með smá breytingum)

Þegar við tölum um nám og menntun getum við valið um fjöldan allan af orðum til þess að koma hugmyndum okkar á framfæri og skiptast á skoðunum um efnið. Við getum valið úr fjölda nafnorða eins og nám,  fræðsla og kennsla eða sagnir eins og að læra, nema, kenna, fræða og svo orðasambönd eins og að sækja skóla eða stunda nám. Orðin sem við veljum og orðasamböndin afhjúpa hvernig við sjáum og skiljum það sem við skrifum um en líka þróun í tungumálinu og jafnvel minningar um orðatiltæki sem við reynum að nota en munum svo ekki alveg eins og þau voru og búum þá jafnvel til ný.

Hér er ein fyrsta tilraun til að setja hugsanir um nám og menntun í samhengi, aðallega til að raða orðum upp í merkingarbært samhengi.

Það virðist mönnum eðlislægt að læra af því sem þeir sjá, heyra og reyna. Stundum lærir fólk eitthvað alveg óvart. Það sér mann ganga út úr húsi og lærir að hann býr þar. Lærdómurinn af þessari reynslu eru upplýsingar um heimili viðkomandi manns sem eru lagðar á minnið, sá sem lærði man upplýsingarnar og getur kallað þær fram að villd og nýtt þær í lífinu. Þannig hefur hann breytt upplýsingunum sem hann aflaði sér í þekkingu. Með því að fylgjast með öðrum og herma eftir þeim getur maður lært aðferðir eða viðurkennd hegðunarmynstur í ákveðnu samhengi. Hvernig ætli við lærum t.d. að hafa hljótt í kirkju eða fara í kaffi kl. 9:45 á nýja vinnustaðnum? Þannig lærum við alls konar hluti í rútinum dagslegs lífs, án þess að það sé gert með ásetningi. Lærdómurinn sem ég dreg af því að sjá samstarfsfólk mitt streyma á kaffistofuna kl. 9:45 er að á þessum vinnustað fara allir í kaffi á þeim tíma.

Ég get líka ásett mér að læra að hjóla eða að nota nýja símann minn. Þá er það oftast ég sjálfur sem skipuleg slíkt nám. Mér sýnist einmitt flestir nota hugtakið nám um meðvitaða vinnu sem einhver leggur á sig með þeim tilgangi að læra eitthvað. Það getur þá verið sjálfstýrt námsverkefni eins og að læra að nota tæki eða athöfn eins og að standa á höndum. Niðurstaða tilrauna minna við hjólhestinn verður vonandi sú að ég get hjólað, færnin sem ég hef aflað mér hlýtur að vera minn lærdómur líka. Ég verð fær um að hjóla og með æfingu get ég aukið leikni mína á hjólinu, þannig að ég gæti orðið mjög flinkur að hjóla ef ég æfi mig mikið. Lærdómur hlýtur þannig að vera niðurstaðan af því sem ég lærði.  Þar að auki getum við talað um hæfni sem niðurstöðu námsins. Þegar ég hef lært að hjóla og lagt mig fram um að auka leikni mína er ég orðinn flinkur eða hæfur. Hæfnin sem ég hef aflað mér samanstendur þá af þekkingu  minni, leikni og viðhorfum. Þekkingu: Ég man upplýsingar um að hvað hjól er og hvað þarf til að hjóla.  Leikni, sem segir til um hversu vel ég hjóla. Færni til að hjóla – ég get hjólað. Viðhorf segja svo til dæmis um vilja minn til að hjóla. Það er til lítils að geta hjólað, og það jafnvel vel, ef ég er ekki tilbúinn til að gera það. Þess vegna nota flestir sem skrifa um hæfni hugtakið þannig að það tjáir summuna af þekkingu, leikni og viðhorfum: Hæfni = Þekking + Leikni + Viðhorf

Af því að ég lærði ýmislegt um nágranna minn þegar hann gekk út úr húsinu hef ég breytt þekkingu minni: Ég veit núna eitthvað meira en ég vissi áður. Sömuleiðis hef ég breytt hæfni minni með því að vesenast með reiðhjólið; nú get ég hjólað. Nám felur sem sagt alltaf í sér breytingu á þekkingu, færni, leikni og viðhorfum. Sumir vilja leggja þessi þrjú hugtök saman og fá út hæfni, meðan aðrir skipta út hæfni og færni sem samheitum.

Með því að læra mikið um lífið, tilveruna eða um alls konar hugmyndir, aðferðir og fræði getur manneskja menntast. Hugtakið rekur ættir sínar til hugtaksins maður og menning. Margir líta þannig á að með því að ganga í gegnum lífið, „með opin augu“, taka eftir því sem maður sér, hugsa um það, draga ályktanir, prófa sig áfram, spyrja, hugsa, tala og skrifa um það sem maður lærir eða sem sagt ígrunda það, þá menntist maður. Sérstaklega ef hluti þessarar menntunar fer fram undir handleiðslu fólks sem hefur meiri þekkingu og/eða reynslu en maður sjálfur. Sumir sækja skóla, sækja námskeið, eða fara á námskeið; þeir leggja stund á nám, stunda nám, setjast á skólabekk eða ganga jafnvel skólaveginn í þessum tilgangi. Þ.e.a.s þeir nýta sér þjónustu einhverra sem hafa skipulagt nám eða námsferli fyrir aðra og sem kenna þeim eitthvað. Það er, þeir búa til námsaðstæður, benda á eða útskýra eitthvert námsefni og bjóða uppá alls konar verkefni þar sem þátttakendur í námsatburðinum („námi“ við skóla, námskeiði, ráðstefnu, fundi…) vinna á einhvern hátt með hugmyndir eða aðferðir sem einhver kynnti þeim, með það fyrir augum að þeir auki þekkingu sína, auki færni sína, þjálfi leikni sína eða breyti viðhorfum sínum. Námið sem þátttakendur námsatburðarins vinna hefur yfirleitt þann endanlega tilgang að þeir geti yfirfært lærdóminn sem hlýst af náminu yfir á nýjar aðstæður einhverstaðar í framtíðinni og við aðrar aðstæður.

Nám getur farið fram við margar ólikar aðstæður og sumir flokka nám eftir námsstað eða námsaðstæðum. Flestir stunda t.d. formlegt nám þegar þeir sækja skóla á fyrstu árum ævinnar, þeir útskrifast svo úr skólunum sem þeir sóttu og fá einhver prófskírteini. Stundum veitir tiltekið prófskírteini þeim réttindi til að stunda atvinnu í tiltekinni atvinnugrein.

Núorðið tala margir og skrifa um að sækja sér menntun, ég held að fólk skrifi svona vegna þess að það er búið að gleyma gamla orðatiltækinu að sækja skóla og sé þannig að rugla orðatiltækum. Trúlega finnst fólki skrítið að nota sögnina að sækja um tiltekinn stað… þannig að það reynir að bjarga sér og bætir þá við niðurstöðunni: Menntun, fræðslu… Mér finnst þetta orðalag óheppilegt af því að það gerir frekar lítið úr virka þætti náms, þú menntast ekki án þess að vinna meðvitað með námsefnið! Þannig að orðalagið gefur til kynna að maður menntist við það að sækja skólann eða geti einfaldlega náð í hæfnina sem hlýst af námi og þurfi ekki að hafa fyrir því…

Þegar manneskja leggur stund á einhverja vinnu lærir hún af eða í vinnunni sinni á formausan hátt, án þess að nokkur geri neitt sérstakt til að hjálpa þeim að læra. Á námskeiði eða verkstæði, t.d. á vinnustað eða í félagasamtökum, leggur fólk aftur á móti stund á óformlegt nám (innon-formal learning) og eykur hæfni sem gagnast því í vinnunni, heima eða í félagsstörfum. Aftur á móti má segja að hlutirnir sem fólk lærði á vinnustað, heima við matarborðið eða annarstaðar án fyrirætlunar séu yfirleitt flokkaðir sem formlaust nám (e. noninformal learning). (Sjá nánar umfjöllun og þekktustu skilgreiningu áþessum þremur formum náms og menntunar)

Af þessu má vonandi lesa að mér finnst skrítið þegar fólk skrifar um að sækja sér menntun/nám/þekkingu/símenntun…

Menntun er afleiðing af námi og menn sækja skóla í merkingunni að leggja stund á nám við skólann en þeir sækja sér ekkert. Ef við veljum að skrifa þannig erum við einmitt að taka þátt í og ýta undir orðræðuna sem sér nám og menntun sem einfalda yfirfærslu þekkingar úr einum heila yfir í annan, svona eins og að sækja sér brauð í bakaríið, og færa lærdóm úr einni körfu í aðra.

Fullorðinsfræðslan býr svo yfir alls konar hugtökum eins og endurmenntun, símenntun og framhaldsfræðslu og eru þau gjarnan notuð á ólíkan hátt, jafnvel gætir þar ósamræmis. Þegar við tölum um nám fullorðinna erum við að tala um allt nám og allan lærdóm fullorðinna hvort sem það er skipulagt eða ekki. Nám er æviverk allra, það hefst jafnvel fyrir fæðingu og lýkur við dauðann. Hvert æviskeið býður upp á alls konar tækifæri til að læra og krefur það fólk jafnvel um nám. Þetta köllum við ævinám (e. lifelong learning). Verðandi foreldrar t.d. komast varla framhjá því að læra að annast börnin sín. Eitthvað sem þau kunna yfirleitt ekki fyrir. Fullorðinsfræðsla væri þá yfirhugtak sem nær yfir alla skipulagða fræðslu fyrir fullorðna. Öll sú starfsemi þar sem fólk skipuleggur ferli sem eiga að leiða fullorðið fólk í gegnum einhvers konar reynslu þar sem það getur lært eitthvað myndi flokkast undir fullorðinsfræðslu. Sá sem skipuleggur býr til aðstæður þar sem fullorðnir fá tækifæri til að læra og kennari/kennarar leiða ferlið og nota til þess alls konar aðferðir sem miða allar að því að þátttakendur fari ríkari heim að þekkingu, færni eða leikni. Símenntun hefur fengið merkinguna alls konar (óformlegt) nám og fræðsla fyrir og með fullorðnum stundum innan vinnustaða eða fræðslustofnana og stundum utan. Endurmenntun er trúlega frátekið fyrir símenntun sem tengist fagi sem þátttakendur hafa lært áður og þeir vilja auka þekkingu sína og færni á sínu sviði. Framhaldsfræðsla er svo skilgreint stig í opinberu menntakerfi, það er skilgreint með lögum: Framhaldsfræðssla er þannig fullorðinsfræðsla á framhaldskólastigi. Hún er formlegt nám sem fer fram í vottuðum menntastofnunum. Námið er iðulega skráð á sömu hæfniþrepum og nám við framhaldskóla og getur jafnvel verið metið inn í frekara nám við framhaldskóla.

Þessi texti er vonandi gagnlegur, en vinsamlega athugið að þetta er allra fyrsta uppkast að texta þar sem mig langar til að setja sem flest þessara hugtaka fram á skipulegan hátt. Ég vonast til að endurskrifa hann fljótlega. Aðal hvatinn til að ég skrifa þetta núna og birti á þessu bloggi er að ég las einhverstaðar texta þar sem manneskja skrifar um að sækja sér menntun. Þetta er orðatiltæki sem ég held að byggi á misskilningi og misminni. Það hefur þekkst lengi að fólk segi og skrifi að það sæki skóla en þá í merkingunni að stunda hann.

Sbr Íslensk orðabók um orðanotkun:

Merking 2:

sækja <fund, samkomu, ráðstefnu, fyrirlestur, tónleika; kirkju, messu>
gömlu hjónin sækja kirkju reglulega
sækja skóla/skólann
sækja <boðið, veisluna>
sækja sjó/sjóinn
(Sótt á Snöru: snara.is leitarorð „sækja“ 6..11.2016)

Þegar við skrifum að einhver sæki sér menntun, þá erum við að spila upp í miðlunarhugmyndir um nám og fræðslu, sem snúast um það að nám snúist einfaldlega um að miðla þekkingu frá einum haus til annars. En „ég get ekki kennt neinum neitt… aðeins hjálpað honum að læra“  sagði Carl Rogers og ég held hann hafi haft rétt fyrir sér.

Hér má finna lista með fjölda orðalista sem tengjast fullorðinsfræðslu og menntun almennt.

One thought on “Að sækja sér … kartöflur í soðið og menntun í leiðinni…”

  1. Þetta er áhugaverð bloggfærsla um notkun hugtaka í tengslum við nám og menntun. Á síðasta ári las ég þessa grein http://netla.hi.is/greinar/2012/ryn/016.pdf í námskeiðinu -Inngangur að kennslufræðum. Hana skrifa Hafþór Guðjónson og hann kemur einmitt inn á orðræðu í tengslum við skólamál og hvernig hún getur haft mikil áhrif bæði innan skólanna og á samfélagið bæði nær og fjær. Ég man hvað þessi grein var mikil vitundavakning fyrir mig, því ég hafði aldrei hugsað um þetta áður, þ.e. hvernig orðræðan getur lagt línurnar án þess að bæði reynt og óreynt fólk setji jafnvel spurningamerki við hvernig hún er og þróast. Hafþór kemur t.d. inn á orðræðu í Kennaraháskólanum þar sem það einmitt er afgerandi hvernig bæði fjallað er um menntamál á formlega hátt, en ekki síður hvernig talað er um þau með óformlegum hætti. Þess vegna er svo mikilvægt að fá einmitt svona endurgjöf frá þér Hróbjartur, því það heldur okkur á tánum og vekur okkur til umhugsunar um hvernig við tölum.

Skildu eftir svar