Skýrsla vegna kynningar um reynslu fullorðinna námsmanna
Kynning haldin þann 28. október 2015
Ástæðan fyrir því að mig langaði að ræða reynsluna umfram önnur viðfangsefni er að hún virðist vera rauður þráður í öllum þeim kenningum sem námsefnið hefur upp á að bjóða. Mér fannst þó reynslan oftar en ekki vera lögð upp sem jákvæð reynsla og það er að mínu mati alls ekki raunin. Reynsla getur verið mjög fjölbreytt og málið því ekki svona einfalt.
Ég bað samnemendur mína um að nefna þá reynslu sem þeim datt í hug þegar þau hugsuðu um reynsluheim fullorðinna nemenda. Mjög margar tillögur komu fram, flestar að mínu mati dæmi um jákvæða reynslu en þó ekki allar, t.d. skólaganga. (sem ég óvart taldi jákvæða af því ég upplifði hana þannig) Þegar rætt var nánar um hugmyndir þeirra kom ýmislegt áhugavert fram, má segja að t.d. reynsla af ást getur jafnt verið jákvæð sem neikvæð, þar sem ást getur auðvitað bæði blómstrað og visnað. Reynsla af heimilishaldi getur einnig verið beggja megin borðsins, því að eins yndislegt og það er að eiga eigið heimili þá er samt raunin líka sú að á síðustu árum misstu margir heimili sín og verður því ekki að telja það sem neikvæða reynslu af heimilishaldi? Einnig atvinna/atvinnuleysi.
Sum reynsla nemenda er okkur meira augljós en önnur. Því fannst mér rétt að skipta reynslunni upp í eftirfarandi flokka:
- Dulin jákvæð reynsla (T.d. að kunna hebresku)
- Dulin neikvæð reynsla (T.d. þunglyndi)
- Ljós jákvæð reynsla (T.d. heilbrigður líkami og sjálfstraust)
- Ljós neikvæð reynsla (T.d. neikvæður almannarómur í litlum samfélögum)
Þegar á líður hjá fullorðnum námsmönnum kemur ljós jákvæð reynsla fram mjög fjótlega, dulin jákvæð reynsla kemur þar á eftir og umbreytist því í ljósa á skömmum tíma.
Neikvæða reynslan er öllu flóknara viðfangsefni og miðað við hvað nám á fullorðinsárum gerir fyrir sjálfsmynd slíkra nemenda er möguleiki á ákveðinni umbreytingu á hinni neikvæðu reynslu. Eftir því sem sjálfsmynd nemenda styrkist þeim mun líklegra er að þeir geti umbreytt hinni neikvæðu reynslu í jákvæða, sama hvort um er að ræða dulda eða ljósa reynslu.
Mér fannst hæfilegt að kynna þetta að vissu marki og svo hvetja til umræðu hjá samnemendum mínum. Að mínu mati gekk það mjög vel og svo endaði ég þessa kynningu á að spyrja samnemendur um hvaða reynslu Íslendingar sem buðust til þess að taka við sýrlenskum flóttamönnum á heimili sín þyrftu að búa yfir. Út frá því fannst mér spinnast skemmtileg og fjölbreytt umræða sem erfitt er að meta hvernig endaði.
Takk fyrir þessa yfirferð Gunnar, mér þótti yfirferðin á staðlotunni og ekki síst umræðurnar góðar.
Gaman að fá að lesa þessar vangaveltur þínar þar sem ég missti af kynningunni þinni!