Bókadómur – Reynsla og menntun – John Dewey

Fullorðnir í námi og aðstæður þeirra
Kennari: Hróbjartur Árnason

John Dewey

Reynsla og menntun
Bókadómur

Höfundur: John Dewey
Þýðandi: Gunnar Ragnarsson

Dagmar Guðrún Gunnarsdóttir
Nóvember 2016

Reynsla og menntun

Höfundur– ævi og starf
John Dewey (1859-1952) fæddist í Burlington í Vermontfylki í Bandaríkjunum. Dewey útskrifaðist með grunnpróf í heimspeki frá Vermont-háskóla 1879 þá aðeins tvítugur að aldri og doktorsprófi í heimspeki frá John Hopkins-háskólann árið 1884. Hann starfaði við kennslu og sálfræðilegar rannsóknir við Háskólann í Michigan á árunum 1863–1931.

Þrjátíu og fimm ára tók Dewey við forstöðu heimspekideildar háskólans í Chicago. Þar urðu straumhvörf í starfi hans og rannsóknum sem árið 1896 leiddu til stofnunar barnaskóla, einskonar tilraunaskóla, þar sem lögð var áhersla á að sinna fræðilegri vinnu í nánum tengslum við hið eiginlega skólastarf. Átta árum síðar eða árið 1904 sagði Dewey starfi sínu við Chicago-háskóla lausu og lág þá leiðin til Columbia-háskóla í New York þar sem hann starfaði allt til starfsloka. Dewey hefur lengi verið talinn einn áhrifamesti heimspekingur og menntunarfræðingur 20. aldar. Kenningar hans eru útbreiddar og mikils metnar um allan heim og hann talinn einn áhrifamesti hugsuður Vesturlanda á sviði heimspeki menntunar. Dewey lést árið 1952, 93 ára að aldri. (Dewey, 2000, bls. 9-10)

Bókin – kenningar og rannsóknir
Bókin heitir á frummálinu Experience and Education og kom fyrst út 1938 en hér er stuðst við útgáfu Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands frá árinu 2000. Um er að ræða fyrirlestra eða hún byggð á fyrirlestrum sem höfundurinn hélt í fræðasamfélagi Bandaríkjanna á þriðja áratug síðustu aldar. Bókinni er skipti í átta kafla auk formála höfundar og inngangs þýðanda. Þýðandi er Gunnar Ragnarsson.

Bókin hefst á formála höfundar þar sem hann talar um að „það væri ekki merki um heilbrigði ef mikilvægir félagslegir hagsmunir á borð við menntun væru ekki líka vettvangur átaka, bæði í kenningu og reynd“ (Dewey, 2000, bls. 5). Samkvæmt Dewey eru slíkir árekstrar og deilur aðeins verkefni fyrir kenningar heimspeki menntunar til að leysa. Skynsamlegum kenningum um menntun ber að komast að orsökum árekstrana án þess að taka afstöðu með eða á móti deiluaðilum.

Hann tala um að ekki sé ástæða til að kenningar leitist við að koma á málamiðlunum milli andstæðra viðhorfa eða gera einskonar blöndu úr margvíslegum viðhorfum manna til málaflokksins. Dewey telur að það sé af þessari ástæðu sem sé svo erfitt að móta heimspeki menntunar og einnig mun erfiðara að stjórna skólum sem byggja á nýrri hugmyndafræði en að starfa í skólum með gamalgrónar og viðteknar hugmyndir um menntun. Þess vegna virðist afturhvarf til þess þekkta og rótgróna vera fyrr eða síðar óumflýjanlegt. Dewey leggur því til í lok formálans „að þeir sem horfa fram til nýrrar hreyfingar í menntamálum, er sé aðlöguð núverandi þörf fyrir nýja samfélagsskipan, ættu að hugsa út frá sjálfri menntuninni frekar en út frá einhverri stefnu í menntun, jafn vel „stefnu“ eins og „framstefnu“ en fjallað verður um þá stefnu síðar í þessum bókadómi (Dewey, 2000, bls. 6).

Í inngangi þýðanda er tæpt á lífshlaupi John Deweys, menntun hans og störfum áður en getið er helstu grunnhugmynda hans varðandi skólastarf og menntamál almennt. Þar er farið yfir helstu lykilorð og hugtök í kenningum hans og greint frá tilurð og framgangi tilraunaskólans (Framstefnuskólans) sem hann var hvatamaður að. Eins og gefur að skilja eru helstu lykilorð bókarinnar annarsvegar reynsla og hins vegar menntun og gefur titillinn því augljósa vísbendingu um megið umfjöllunarefni bókarinnar.

Í fyrsta kafla bókarinnar fjallar Dewey annarsvegar um hefðbundna og hins vegar um framsækna menntun. Þar skipar umræðan um reynsluhugtakið stærstan sess. Hann talar um mikilvægi þess að þeir sem komi að kennslu og námi geri sér fulla grein fyrir mikilvægi reynslunnar og skilji hana réttum skilningi og að það sé megin ástæðan fyrir því að hann vilji mót rökrænar kenningar um hana (Dewey, 2000, bls. 16). Hann vill meina að mönnum hætti til að kenna tiltekið efni eins og það væri óumbreytanlegur endanlegur sannleikur, fullunnin afurð, án þess að taka tillit til þess hvernig það hefur þróast frá upphafi eða mun þróast í framtíðinni m.a. með aukinni reynslu þess sem nemur hverju sinni. Framsækin menntun getur aðeins átt sér stað ef námsefnið helst í hendur við breytilegt samfélag og verður því að þróast í samræmi við það (Dewey, 2000, bls.29). Vandamál hvers tíma sé að finna leið til að nýta þekkingu fortíðarinnar þannig að hún megi gagnast okkur sem best í að finna lausnir á verkefnum framtíðarinnar. Þannig hafnar Dewey því að þekking fengin úr fortíðinni leggi grunn að framtíðar markmiðum menntunar heldur séu hún fremur mikilvægt tæki til að auðvelda skilning á nútíðinn og marka nýja þekkingu fyrir framtíðina (Dewey, 2000, bls. 33).

Í öðrum kafla bókarinnar varpar Dewey fram þeirri spurningu hversu margir setja ekki námsferil sinn í sambandi við leiðinda- og ónotatilfinningu ? Hversu margir missi ekki löngun til frekara náms vegna slæmrar reynslu af fyrra námi ? og hversu margir kannist ekki við að þegar út í lífið er komið þá finnst þeim megnið af skólalærdómnum ekki nýtast sér í raunverulegri lífsbaráttu ? Hér er farið dýpra ofan í þörfina fyrir kenninguna um reynslu en jafnframt talað um að áhrif hennar séu ekki alltaf augljós. Í því sambandi segir hann að þá komi til kasta kennarans að gera viðfangsefnin það aðlaðandi og spennandi að þau virkji nemandann til þátttöku eða minnst að kosti veki ekki andúð hans, því jákvæð reynsla stuðlar að þroska og þróun fyrir frekara nám síðar (Dewey, 2000, bls.37).

Í kafla þrjú fjallar Dewey um mælikvarða á reynslu út frá megin heimspeki hugtökum sínum um samspil, samskipti og samverkan. Þar leitast hann við að setja fram nokkurskonar greiningu á þessum þremur hugtökum og tengir það hugtökum um þroska sem hann leggur að jöfnu við hugtök um menntun (Dewey, 2000, bls.19). Hann setur fram gagnrýnar skoðanir á ríkjandi skólakerfi og varpar jafnframt fram mörgum áleitnum spurningum sem að mínu mati eiga ekki síður við nú en þá. Hann talar um að eitt af því sem hefur aflað skólakerfishugmyndum hans um framsækinn skóla fylgis sé að þær eru í meira samræmi við ríkjandi lýðræðishugmyndir þess tíma öfugt við starfhætti hefðbundna skólans. Sá síðarnefndi byggi á einræðislegum vinnubrögðum, hörku og stöðnun í framþróun. Hann veltir fyrir sér „hvers vegna við tökum ekki lýðræðislega og mannúðlega skipan fram yfir þá einræðislegu og harðneskjulegu“ sem hann heldur fram að einkenni hefðbundna skólann á hans tímum (Dewey, 2000, bls.43-44). Kaflinn fjallar að stórum hluta um þroskaferil manneskjunnar og hvaða mælikvarða við höfum á hann, en þó fyrst og fremst um reynslu manna í námi, frá mörgum og margvíslegum hliðum á öllum æviskeiðum .

Kafli fjögur er tileinkaður félagslegu taumhaldi. Þar talar hann um að ef lífsreynsla er lögð til grundvallar gerð kennsluáætlana og námsefnis verði það til þess að móta og mynda skynsamlegar kenningar eða heimspeki um afleiðingar reynslu á nám og menntun. Í því sambandi vill hann vekja sérstaka athygli á frumreglunum tveimur, samfellu og samspils, sem hann telur grundvallaratriði í gerð reynslunnar. Þær eru mælikvarði á gildi reynslu og svo nátengdar hvor annarri að erfitt getur reynst að átta sig á „hvaða sérstakt kennslufræðilegt vandamál skuli tekið til umfjöllunar fyrst“ (Dewey, 2000, bls. 61).
Í kaflanum veltir hann annarsvegar fyrir sér frelsi einstaklingsins og hins vegar óumflýjanlegu félagslegu taumhaldi. Hann nefnir nokkur dæmi um félagslegt taumhald einkum það sem verður til innan skólakerfisins, um leið og hann leitar að lögmálum sem liggja þeim að baki. Í þessum dæmum sýnir hann fram á að „án reglna er enginn leikur“ (Dewey, 200, bls. 62). Sem dæmi nefnir hann þrjú augljós taumhaldseinkenni í aðstæðum þar sem ágreiningur kemur upp í leik. Í fyrsta lagi eru leikreglurnar hluti af leiknum, öðru lagi einhverjum kann að finnast úrskurðurinn ekki sanngjarn og er þá ekki að mótmæla reglunum heldur því að brotið er á honum samkvæmt reglunum og í þriðja lagi eru reglurnar staðlaðar og þar með gangur leiksins.
Dewey segir: …“taumhald á athöfnum einstaklinga ræðst af heildaraðstæðunum sem þeir eru í , eiga hlutdeild í og sem þeir eru samvirkir eða samverkandi hlutar af“ (Dewey, 2000, bls.63).

Um frelsi segir Dewey í fimmta kafla að það sé andhverfan af félagslegu taumhaldi og að eina frelsið sem hefur varanlega þýðingu sé vitsmunafrelsið, það er frelsið til að …“hugsa, vilja og setja sér markmið“ (Dewey 2000, bls. 71). Kaflinn fjallar að verulegu leiti um vitsmunastarf og margvíslega mannlega þætti sem á einn eða annan hátt hafa áhrif á það. Hann útskýrir og gerir greinamun á svokölluðu innra og ytra frelsi og talar um hvaða áhrif hvorutveggja hefur á nám og menntun. Hann gagnrýnir hefðbundna skólakerfið fyrir að stuðla að vélrænum einslitum námsgreinum, viðteknar aðferðir skapi einsleitan óhreyfanleika sem viðhaldi einsleitni í námi og kennslu. Hann leggur áherslu á samspil aukins vitsmunalegs þroska og líkamlegrar starfsemi. Hann viðurkennir að auðvitað blómstri vitsmunaleg starfsemi oft þrátt fyrir lélega hreyfigetu viðkomandi en þroski við slík skilyrði taki langan tíma og náist jafnan seint. Í lok kaflans talar hann um að markmið skólastarfs eigi meðal annars að vera að skapa hæfni til sjálfstjórnar og samkvæmt því er skóli ekki aðeins menntastofnun sem kennir fyrir fram ákveðnar námsgreinar, heldur ekki síður staður sem undirbýr nemendur almennt undir lífið (Dewey, 2000, bls. 73-75)

Sjötti kafli fjallar fyrst og fremst um lykilorðin áform eða markmið, hvöt og hneigð og löngun sérhvers manns. Þar segir meðal annars „raunverulegt áform á sér alltaf upphaf í hvöt eða hneigð“ (Dewey, 2000, bls. 77). Áform segja til um afleiðingar af hegðun og eru sama sem fyrirhuguð markmið. Samkvæmt Dewey valda hvatir og langanir ekki afleiðingum einar sér heldur er samspil umhverfisskilyrða nauðsynleg til að svo verði (Dewey, 2000, bls.78).
Í lok kaflans kemur hann að kjarna mál síns þegar hann segir: „Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna uppástunga frá þeim sem hafur meiri reynslu og víðari yfirsýn ætti ekki að vera að minnsta kosti jafn réttmæt og hugmynd sem á sér meira eða minna tilviljunarkennd upptök“ (Dewey, 2000, bls. 81).

Sjöundi og næst síðasti kafli bókarinnar fjallar um skipulagningu námsefnis stig af stigi. Dewey byrjar á að geta þess að hlutlæg skilyrði (t.d. athuganir, upprifjun, upplýsingaröflun, eða allt það sem kann að örva ímyndunarafl hvers og eins) sem hann hefur áður fjallað um í bókinni séu hluti af hverju námsefni eða inntaki námsgreinarinnar (Dewey, 2000, bls.83). Hann telur það aðeins fyrsta skrefið að finna námsefni sem byggir á reynslu. Nauðsynlegt sé að þróa það efni sem viðkomandi hefur nú þegar reynslu af (Dewey, 2000, bls.83). Það sé á valdi kennarans að velja það sem við á innan reynsluheims námsmannsins. Þannig að það styrki hann og hvetji til að takast á við ný viðfangsefni, víkki reynslusvið hans, örva nýja sýn og skynsamlegt mat á viðfangsefninu (Dewey, 2000, bls. 85).
Hann getur þess hverjar hann telur hafi verið veikustu hliðar framsækna skólans og segir að ekki sé ólíklegt að val og skipulag á bóklegum greinum sé þar helst um að kenna. Dewey vill undirstrika mikilvægi vísindanna á hverjum tíma fyrir nám og menntun og nemendur skuli jafnframt því að byggja á eldri reynslu ávallt hafa tækifæri og aðgang að því nýjasta á því sviði (Dewey, 2000, bls. 88). Hann segir meðal annars að „ekkert geti verið fráleitara frá kennslufræðilegu sjónarmiði en að vera hlynntur fjölbreyttum störfum í skólum en jafnframt að gera lítið úr þörfinni fyrir stigvaxandi skipulag upplýsinga og hugmynda“ (Dewey, 2000, bls.94 ). Dewey talar um að skólinn eigi í raun ekki nema tvo kosti til að velja á milli um ef hann á ekki að reka áfram stefnulaust. Annar sé að fá skólamenn til að snúa til ævafornra aðferða sem voru við líði áður en vísindalegar aðferðir þróuðust. Hinn kosturinn sé að nýta sér aðferðir vísindanna markvisst, hafa þau að fyrirmynd og viðmiði til að nýta möguleikana sem reynslan gefur okkur. (Dewey, 2000, bls.96)

Í áttunda og síðasta kafla bókarinnar er enn hnykkt á mikilvægi reynslunnar þegar nema skal nýja færni eða visku. Hann vísar til þess að eitthvað verði að aðhafast í skólamálum á hans tímum þar sem „skynsamir skólamenn af báðum skólum“ séu flestir óánægðir með samtíma menntamál. Hann hvetur til þess að menntakerfið verði annaðhvort fært aftur “til vitsmunalegra og siðferðilegra viðmiða fornvísindalegs tíma eða fram til síaukinnar notkunar vísindalegra aðferða til að þróa möguleika reynslu sem er að þroskast og víkka sjóndeildarhringinn“ (Dewey, 2000, bls. 99). Það dylst þó engum eftir lestur bókarinnar hvora leiðina hann telur farsælli.
Dewey vill þó ekki meina að grundvallaratriði í umfjöllun um menntun eigi að birtast í togstreitu milli nútímalegrar og gamaldags menntunar. Eða að nýtt skipulag í skólastarfi eigi að taka við af því gamla. Heldur fremur að grundvallaratriðið sé hvað eigi yfirleitt skilið að kallast menntun. Hann segir einnig að hann sé ekki fyrst og fremst fylgjandi markmiðum eða aðferðum hugmyndafræði nýrrar nálgunar í námi og menntun einungis af því að þær geti talist framsæknar. Þar skipti grundvallar máli að allir hafi aðgang að menntun, manneskjan þarfnist menntunar og hún muni einnig taka öruggari og hraðari framförum ef hún kemst nákvæmlega að því hvað menntun er og hvaða skilyrðum verður að fullnægja til þess að menntun geti verið raunveruleiki en ekki nafnið eitt eða innantómt slagorð“. (Dewey, 2000, bls. 100-101).

Bókardómur – efni og útlit
Markmið með efni bókarinnar er að veita innsýn inn í hugmyndafræði heimspekingsins og menntafrömuðarins John Dewey um nám og menntun. Umfjöllun hans miðast fyrst og fremst við börn og unglinga sem nemendur en auðvelt er að yfirfæra kenningar hans yfir á nám fullorðinna. Megin efni bókarinnar fjallar um samspil og samverkan reynslu og menntunar eins og nafn hennar gefur til kynna. Þá fjallar hún ekki síður um samanburð hans á starfsemi hins hefðbundna skóla v/ athyglisverðar hugmynd hans um nýja framsækna skóla. Hvernig hann tengir fyrri reynslu frekara námi eru áhugaverðar vangaveltur og samræmast vel mínum skoðunum þar að lútandi. Þá fannst mér umfjöllun hans um félagslegt taumhald afar athyglisverð og einkar áhugavert að velta því fyrir sér í tengslum við kenningar um frelsi einstaklingsins.

Um er að ræða fremur stutt kver eða bók upp á 101 síðu í þægilegu broti og fallegri kápu. Bókin verður að teljast skrifuð á auðskiljanlegu máli enda fyrst og fremst ætluð almenningi, það er samtíðamönnum höfundar sem áhuga höfðu á skólamálum.
Mér fannst þó kafli sjö nokkuð snúinn og þurfti ég að lesa hann nokkrum sinnum til að ná almennilega utan um efni hans. Efni bókarinnar er í heild sinni mér mjög að skapi og í góðu samræmi við skoðanir mínar á menntamálum. Kenningar Deweys taldi ég mig þekkja nokkuð áður en ég las bókina en umfjöllunin bætti talsvert við þá þekkingu mína þar. Bókin tel ég að eigi að geta nýst vel bæði þeim sem kenna og nema, þá ekki síður fullorðnum sem vilja dýpka skilning sinn á aðferðum náms, rétt eins og ég tel aðferðirnar henta börnum og unglingum. Ég tek því undir orð þýðandans Gunnars Ragnarssonar þegar hann segir að honum sé nær óskiljanlegt hvers vegna umræddur fræðimaður virðist nánast gleymdur nútímanum.

Að lokum vil ég geta þess að við lestur bókarinnar komst ég ekki hjá því að leiða hugann að samtímafræðimönnum Deweys og jafnframt bera lauslega saman þann hluta kenninga þeirra sem ég tel mig þekkja nokkur deili á. Á ég þar fyrst og fremst við fræðimenn á borð við Maríu Montessori og Rudolf Steiner, en það er samanburður á kenningum sem ég gæti vel hugsað mér að skoða betur síðar.

Heimildir
Dewey, John. (2000). Reynsla og menntun (Gunnar Ragnarsson þýddi). Reykjavík:
Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Stuðst við og haft til hliðsjónar eftirfarandi greinar um samningu bókadóma.

Dalhouse University. (án dags.). BOOK REVIEWS: How to write a book review. Sótt 18. nóvember
2016, af

Click to access Book_Reviews.pdf

Hreinn Pálsson. (2011). Hvers konar reynsla er menntandi? Tímarit um menntarannsóknir /
Journal of Educational Research, 8, (Iceland), 149.-152. Sótt 18. nóvember 2016, af

Click to access Hvers-konar-reynsla.pdf

Lee, A. D., Green, B. N., Johnson, C. D., og Nyquist, J. (2010), How to Write a Scholarly Book
Review for Publication in a Peer-Reviewed Journal A Review of the Literature. The Journal
of Chiropractic Education, 24(1), 57-65. Sótt 18. nóvember 2016, af
http://journalchiroed.com/doi/pdf/10.7899/1042-5055-24.1.57

One thought on “Bókadómur – Reynsla og menntun – John Dewey”

  1. Vel gert hjá þér Dagmar 🙂 mjög skýrt uppsett og vel útskýrt. Mér finnst mjög athyglisvert þetta sjónarhorn að það sé ekki togstreitan milli gamalla eða nútimalegra kennsluhátta sem skipti máli, heldur hvað í raun sé menntun? Sem einhversstaðar er svo satt og maður finnur það í hjartanu. Það er væntanlega engin trygging fyrir því að þó maður noti allar nýjustu kennsluaðferðirnar og sé „með á nótunum“, að nám eigi sér stað hjá nemendum? Eins og svo oft hefur verið sagt, „það getur átt sér stað kennsla, án þess að nám eigi sér stað“. Takk fyrir innblásturinn kæra Dagmar 🙂

Skildu eftir svar