Námsfyrirkomulag

Námskeiðið fer með sveigjanlegu formi. Þátttakendur vinna saman á tvemur staðlotum, reglulegum  veffundum í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Reykjavík og á þessum vef.

Sæktu þessar upplýsingar sem PDF skjal

Dagsetningar

Fundir

Þátttakendur hittast flesta fimmtudaga kl. 15-16.30 Í stofu H-001 og í gegnum  fjarfundakerfið Adobe Connect en stundum aðeins yfir vefinn í gegnum Adobe Connect.
Dagskrá fundanna verður birt strax eftir fyrstu staðlotu.

Staðlotur

  • Fimmtudaginn 7. september 2017
  • Fimmtudaginn 26 október 2017

Námskeiðslok

  • Námskeiðinu lýkur með lokafundi þann 30. Nóvember og
    5. desember eru lokaskil verkefna

Nám með fjarnámssniði og staðlotum

Námskeiðið fer fram með sveigjanlegu sniði: Fjarnám með staðlotum og reglulegum fundum inn á milli. Boðið verður upp á stutta reglulega fundi sem fara oftast fram í húsnæði HÍ við Stakkahlíð og samtímis yfir vefinn, og stundum aðeins yfir vefinn, þannig að þátttakendur geta tekið þátt í gegnum tölvu sína hvar sem þeir eru. Fundirnir verða  seinni part fimmtudags kl. 15:00 – 16:30

Á staðlotum hittast nemendur, kennarar og gestir og er áherslan á staðlotunum á úrvinnslu þátttakenda á námsefninu. Eitthvað er þó um stutta fyrirlestra og viðtöl við gesti. Virk þátttaka á staðlotum skiptir sköpum fyrir árangur og vellíðan á námskeiðinu.

Í fjarlotum vinna nemendur saman á vefnum. Fjarnám getur verið nokkuð einmanalegt, en til þess að þátttakendur fái sem mest út úr því að vera í hóp að læra sama efnið á sama tíma, munum við reyna að gera vef námskeiðsins að líflegu námssamfélagi. Það kallar á virka sjálfsábyrga þátttöku allra þátttakenda á vefnum. Við þurfum að hjálpast að við þetta! Vert er að líta á samvinnuna á vefnum sem æfingu eða þjálfun, þar sem þátttakendur þjálfa færni sem þeim nýtist í starfi sem leiðtogar og kennarar. Æ fleiri þurfa að bjóða uppá og taka þátt í fjarnámi af öllum tegundum, þess vegna er nauðsynlegt að þeir sem hafa áhuga á að axla ábyrgð sem leiðtogar í námi fullorðinna hafi færni í því að taka þátt í og leiða nám á vefnum jafnt sem „á staðnum“.

Á fundum hittast þátttakendur oftast í kennslustofu í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð og þeir sem vilja geta tekið þátt yfir vefinn. Sumir fundir fara aðeins fram yfir vefinn. Þar fá þátttakendur tækifæri til að fyltja kynningar um verkefni sín, taka viðtöl við gesti og vinna með námsefnið á ýmsan hátt.

Hæfniviðmið

Í lok námskeiðsins er stefnt að því að þátttakendur

  • geti lýst helstu samfélagslegum breytingum sem hafa leitt til aukinnar áherslu á nám fullorðinna undanfarið,
  • geti greint samfélagslega þróun í samtíma sinum og ákvarðað námsþarfir á grundvelli þeirra sem verða til hjá ólíkum þjóðfélagshópum við breytingar í samfélagi, fjölskyldulífi og á vinnustöðum,
  • geti notað kenningar um fullorðna námsmenn til þess að skýra hegðun í tengslum við nám og kennslu
  • geti lýst, flokkað, greint og rökstutt skipulag náms, námskeiða eða annarra námferla fyrir fullorðna
  • hafi öðlist innsýn í fræðslustarf með fullorðnum á Íslandi þannig að þeir geti lýst því helsta sem er að gerast í fræðslumálum fullorðinna og greint hvaða hugmyndir liggja að baki og
  • móti sér sínar eigin hugmyndir um hlutverk fullorðinsfræðslu í nútíma samfélagi og geti rökstutt þær með tilvísun til kenninga um fullorðna námsmenn, samfélagsbreytingar og lífshlaup fullorðins fólks.

Lestur

Verulegur hluti vinnunnar við námskeiðið felst í lestri bóka, greina og efnis á netinu og úrvinnslu lesefnisins. Reiknað er með að þátttakendur lesi bókina Learning in Adulthood og amk. eina af nokkrum stuðningsbókum. Þar fyrir utan munu kennari og þátttakendur vísa í gagnlegt efni á vefnum sem telst ítarefni og þátttakendur lesa eftir áhuga. Til þess að ná utan um grunnefni fags eins og Nám Fullorðinna, er nauðsynlegt að lesa eins mikið, og helst eins margar bækur, og maður kemst yfir.

Bækur

Allir lesa þessa bók:

Þessi bók gefur mjög gott yfirlit yfir fræðasviðið og er þannig góð undirstaða undir alla umfjöllun um nám fullorðinna og aðra vinnu með fullorðnu fólki. Bókin fæst í bóksölu nema í Stakkahlíð.

Allir lesa þar að auki amk eina af eftirtöldum bókum sem allar gefa almennt yfirlit yfir nám og kennslu fullorðinna.

Knowles er trúlega sá fræðimaður sem vitnað er oftast til varðandi nám fullorðinna. Þessi bók gefur yfirlit yfir þróun kenninga um nám fullorðinna á 20. öldinni og lýsir vel „Andragogy“-módelinu, sem er þekktasta framlag Knowles til fræðanna um nám og lærdóm fullorðinna.

Það er nauðsynlegt fyrir alla að hafa lesið a.m.k. kaflann um Andragogy í þessari bók (líka hér ).

Brookfield er annar áberandi fræðimaður frá Bandaríkjunum. Þessi bók inniheldur mjög góðan inngangskafla sem gerir vel grein fyrir viðfangsefni fullorðinsfræðslunnar og fjallar síðan um hagnýtar aðferðir til að styðja við nám fullorðinna.

Bók Cross er nokkuð gömul, frá 1981, en hún inniheldur það gott yfirlit yfir rannsóknir á þátttöku fullorðinna í skipulagðri fræðslu, að enn er mikið vitnað til hennar. Þeir sem hafa áhuga á að skoða nánar rannsóknir um þátttöku í fullorðinsfræðslu gera vel í að lesa þessa bók.

Wlodkowski er sálfræðingur sem hefur skrifað nokkuð um námshvatir. Þessi bók skiptist í tvennt, fyrri hlutinn geymir framsetningu hans á því hvað hvetur fullorðna til náms og viðheldur námshvöt þeirra á námskeiðum. Seinni hlutinn inniheldur fjölda hagnýtra ráða til að kveikja, stuðla að og viðhalda áhuga fullorðinna til að læra.

Illeris er einn fremsti fræðimaður dana á sviði fullorðinsfræðslu. Þessi bók, sem gefur almennt yfirlit yfir nám fullorðinna og fræðslustarf fyrir fullorðna með skandinavísku sjónarhorni, hefur vakið athygli víða utan norðurlandanna á undanförnum árum og er vel þess virði að lesa. Í bókinni setur hann fram sína eigin kenningu eða módel, um nám fullorðinna. Þetta módel þykir ákaflega gagnlegt til að sjá námskeið, þátttakendur og fræðslustarfsemi í stærra samhengi.

Hér ritstýrir Illeris áhugaverðri bók þar sem helstu kennismiðir samtímans útskýra helsta framlag sitt til fræðanna um nám fullorðinna. Hér er á ferðinni skemmtilegt yfirlitsrit sem hefur þann kost að höfundar sjálfir útskýra sínar kenningar.

Wahlgren kennir við Danmarks Pedagogiske Universitets skole og hefur skrifað um nám fullorðinna undanfarin 30 ár. Hann er skemmtilegur fræðimaður og hefur skíra sýn á nám fullorðinna. Þessi bók gefur gott yfirlit yfir helstu þemun í tengslum við nám fullorðinna, hún er skrifuð fyrir fólk sem vinnur við fullorðinsfræðslu, þannig að málfarið er skiljanlegt og samtalið við rannsóknir nokkuð „aðþýðlegt“. Ljómandi skemmtileg lesning sem fer um svipaðar grundir og grunnbók námskeiðsins. (Bókin er til á bókasafni MVS)

Kristín Aðalsteinsdóttir er prófessor við kennaradeild Háskólans við Akureyri. Í þessari bók vinnur hún úr viðtölum sem hún tók við 20 meistaranema og tengir niðurstöður sínará skemmtilegan hátt við rannsóknir síðari tíma. Kristín nýtir sér mikið bók Merriam, Caffarella og Baumgartner, þannig að nemendur á þessu námskeiði munu kannast við margt það efni sem hún tengir við niðurstöður sínar. Lesið endilega bókadóm Hróbjarts Árnasonar um bókina.

Annað lesefni námskeiðsins.

Verkefni

Á námskeiðinu er reiknað með að þátttakendur vinni nokkur verkefni sem nýtast til námsmats:

  1. Taki virkan þátt í samvinnu á vefnum (15% af einkunn)
  2. Vinni stutt viðtalsverkefni (gildir 15% af einkunn)
  3. Vinni nokkur styttri valfrjáls verkefni t.d. bókadóm, greinargerð um fræðimann, þjónustuverkefni með skýrslu eða önnur…(15%)
  4. Skrifi ritgerð (gildir 50% af einkunn)
  5. Sendi umsjónarmanni námskeiðsins sjálfsmat (gildir 5% af lokaeinkunn)

Stutt athugasemd um verkefnaskil.

Öllum verkefnum skal skilað í gegnum skilakerfið „Turnitin“. Vinsamlega hugið að nöfnum skjalanna sem þið útbúið og skilið þannig að þegar kennari sækir skjölin fari ekki milli mála hver á skjalið. Það skapar ómælda vinnu fyrir kennara að þræða sig í gegnum fjölda skjala sem hafa flest nöfn sem líkjast þessu: „Ritgerðin.doc“!

  • Temjið ykkur að skila verkefnum alltaf á PDF formi
  • Gefið skjölunum gagnsæ nöfn, með ENGUM íslenskum stöfum:

Dæmi: NafnidThitt-Verkefni.pdf, dæmi: HrobjarturArnason-Ritgerd.pdf

1.     Takið virkan þátt í samvinnu á vefnum (15% af einkunn)

Á námskeiðsvefnum fara fram umræður um viðfangsefni námskeiðsins, þar verður jafnvel að finna bókaklúbb, Wiki-svæði og fleirri söfn upplýsinga um nám fullorðinna. Hluti af vinnu námskeiðsins er að taka á gjafmildan hátt þátt í vinnu hópsins á vefnum. Kennari mun setja inn nokkur styttri verkefni og hópurinn ákveða saman á fyrstu staðlotu hvaða önnur verkefni verða unnin á vefnum. Einkunn í þessum hluta ræðst að mestu leiti af því hversu mikið frumkvæði og gjafmildi þátttakendur sýna í samvinnunni á vefnum. Þessi hluti námsmats snýst um að meta að hve miklu leiti þátttakandi sýni frumkvæði sem leiðtogi á vefnum. Þ.e. að stofna til umræða, styðja við umræður, draga saman umræðuna á vefnum, tengja við lesefnið og af gjafmildi að tengja umræðu/lesefni og annað sem tengist þemum námskeiðsins við reynslu sína, viðfangsefni, pælingar og lestur.

Þátttakendur eru beðnir um að senda stutt yfirlit um þátttöku sína á vefnum með slóðir í dæmi í sérstöku pdf skjali 1. okt, 1 nóv og 1. des í Turnit-in

Dæmi um viðfangsefni sem falla undir „Þátttöku á vefnum“:

  • Bókaklúbbar: Við munum lesa saman bókina „Learning in Adulthood“ og til stuðnings við lesturinn er boðið upp á umræðusvæði tileinkað lestri aðal bókarinnar, og annarra ef verða vill. Þátttakendur skiptast á að koma umræðum af stað og halda þeim gangandi.
  • Wiki verkefni: Við notum „wiki skrif“ sem aðferð til að safna upplýsingum og læra um símenntunargeirann á Íslandi. Og þannig lærum við jafnframt aðferð sem nýtist þegar skipulagðir eða óskipulagðir hópar vilja skrifa saman efni, eins og gerist æ algengara bæði innan fyrirtækja og stofnana og í samfélaginu almennt.
  • Umræður og blogg: Á námskeiðsvefnum fara fram almennar umræður um viðfangsefni námskeiðsins. Kennari (og nemendur) blogga um námsefnið, þar gefst og tækifæri til að bregðast við hugsunum og pælingum hvers annars. Þátttakendur á námskeiðinu geta allir skrifað bloggfærslur á námskeiðsvefinn, þeir eru líka hvattir til að koma sér upp eigin bloggi, annað hvort sem undirvef undir „namfullordinna.is“ eða á stað sem þeir velja sjálfir. (Sjá nánari umfjöllun fljótlega)
  • Stutt verkefni: Nokkur stutt verkefni munu birtast á vefnum þegar líður á námskeiðið, verkefni sem hjálpa þátttakendum að vinna með viðfangsefni námskeiðsins.

2.     Skrifið skýrslu um viðtal (gildir 15% af einkunn)

Dæmi um spurningar:

·       Hvað ertu að læra?

·       Hvers vegna settist þú á skólabekk?

·       Hvaða markmið hefur þú með náminu

·       Hvernig finnst þér sjálfri/sjálfum best að læra nýja hluti?

·       Hvað hefur þér þótt best í símenntun þinni?

·       Hvað hefur þér þótt verst varðandi símenntun þína?

Þáttakendur taka viðtal við þrjá fullorðna námsmenn og einn kennara sem kennir fullorðnum. Það er tilvalið að skrifa fyrirfram nokkrar spurningar sem má nota við viðtalið. Á grundvelli viðtalanna skrifa þátttakendur u.þ.b. 4 síðna skýrslu þar sem þeir gera grein fyrir því sem kemur fram í viðtölunum um einkenni fullorðinna námsmanna og reynslu þeirra af námi á fullorðinsaldri. Tengið það sem þið finnið út í gegnum viðtölin við það sem þið lesið um fullorðna námsmenn í námsefninu. Það er reiknað með að nemendur lesi sig til um notkun viðtala í rannsóknum og vísi til þess sem þeir lásu fyrir neðan heimildaskrá skýrslunnar, ekki er þó reiknað með að þið skrifið aðferðafræðikafla!

Nýtið ykkur kenningar um nám fullorðinna til þess að greina og túlka orð viðmælenda ykkar. Skrifið skýrslu sem greinir frá niðurstöðu ykkar. Textinn á að vera um u.þ.b. 4 síður af texta:

  • Titilsíða
  • Inngangur þar sem greint er frá tilgangi skýrslunnar: hvaða spurningu hún á að svara.
  • Meginmál þar sem þú greinir frá niðurstöðum þínum, berð saman það sem þú hefur fundið út í gegnum viðtölin og lesturinn um fullorðna námsmenn. Tilgangur verkefnisins er að þið þjálfist í þrennu sem tengist akademískum skrifum: 1) Að greina frá niðurstöðum viðtala, 2) að endursegja kenningar og/eða rannsóknarniðurstöður og 3) að tengja fræði við eigin niðurstöður. Þið þurfið ekki að gera ÖLLUM spurningum ykkar skil, og alls ekki sem einhvers konar lista. Ef ykkur finnst of mikið að taka allar spurningarnar fyrir veljið þá frekar eina eða eitt sjónarhorn.
  • Niðurlag þar sem þú dregur saman þræðina og gerir grein fyrir niðurstöðu þinni og rökstyður hana.
  • Heimildaskrá unnin með viðeigandi gagnagrunnsforriti (EndNote, Mendeley, Zotero o.s.frv.)

ATH

Nauðsynlegt er að kynna sér efni um ritun á sérstökum síðum um ritun. Það er eðlilegt að nemendur í meistaranámi líti svo á að verulegur hluti námsins snúist um að ná góðu valdi á fræðilegum skrifum. Sjá t.d. um heimildaöflun | ritun  og meistaranámRitver MVS býður alls konar aðstoð við ritun verkefna. Og eru þátttakendur eindregið hvattir til að nýta sér þjónustu ritversins. Ritverið tekur vel á móti ÖLLUM tegundum af spurningum: „Hvernig á ég að vinna þetta verkefni?“ „Er inngangurinn nógu skýr?“ „Hvernig virðist heimildanoktunin koma út?

Við mat á skýrslum og ritgerðum við Menntavísindasvið er sérstaklega litið til: Fræðilegra vinnubragða (t.d. tæknilegu hliðina á tilvísunum), röksemdafærslu, úrvinnslu heimilda og ytra forms skýrslunnar (Rétt notkun á Word ásamt Endnote / Mendeley eða svipaðra forrita) Nemendur sem ætla sér að ljúka náminu á ritun meistararitgerðar eru hvattir til að byrja strax að lesa bækur um ritun meistararitgerða.

Vistaðu skýrsluna sem PDF-skjal og skilaðu því í gegnum Turnit-In

  • Viðtalsskýrslunni er skilað fyrir 9. Október

3.       Nokkur minni valfrjáls verkefni: 5-10% hvert

Nánari lýsingu á þessum verkefnum má finna með því að smella á viðkomandi tengil:

  • Bókadómur (10%): Skrifið bókadóm um eina bók sem tengist náið viðfangsefni námskeiðsins.
  • Umfjöllun um fræðimann (5%): Stutt umfjöllun um áberandi fræðimann sem hefur verið virkur á fræðasviðinu „Nám fullorðinna“ með umfjöllun um rannsóknir hans/hennar og skrif, mat á framlaginu til fræðasviðsins og tilvísun í amk. nokkur helstu rit.
  • Þjónustuverkefni“ (5%):  Þátttakendur skipta á milli sín alls konar verkefnum sem styðja við þeirra eigin nám og annarra, þetta eru hagnýt verkefni sem fólk lendir oft í að vinna þegar það vinnur við skipulagningu náms og kennslu fullorðinna, þannig að rétt er að líta á þau sem æfingu fyrir starf með fullorðnum námsmönnum. (Dæmi: Verkefni: Skipuleggja og stýra staðlotu, Fundargerð með myndum eftir staðlotu. Stjórna útsendingu og upptöku á staðlotu, Stýra veffundi, Tæknileg stjórn útsendingar á veffundi.) Í öllum tilfellum axla þátttakendur ábyrgð á viðkomandi þætti, undirbúa og útfæra hann og skrifa síðan skýrslu um verkið sem inniheldur lýsingu á verkinu og ígrundun um það sem þeir lærðu við framkvæmd þess. Tilvalið er að vinna þessi verkefni tveir og tveir. Skýrslunni er skilað á vef námskeiðsins sem blogg færslu merkt með flokknum „Þjónustuverkefni“.
  • Lýsing og umfjöllun um tiltekna kenningu (5-10%): Takið fyrir eina kenningu sem tengist viðfangsefni námskeiðsins, lýsið henni, staðsetjið hana í fræðasamfélaginu, fjallið um tengsl hennar við aðrar kenningar og gefið dæmi um gagnsemi hennar bæði fyrir skilning á viðfangsefninu og fyrir hagnýtt starf sem snýr að námi fullorðinna. Verkefnið getur vegið 5 eða 10 prósent af einkunn: 5% fást fyrir að gera grein fyrir kenningunni með því að útbúa kynningu (PowerPoint, Prezi, Hugarkort eða svipað) sem er annað hvort kynnt á veffundi og rætt á veffundinum, eða birt sem upptaka á vefnum fyrir veffund og rætt á veffundi, 10% fást ef þátttakandi skrifar þar að auki stutta fræðilega skýrslu sem hann/hún skilar viku eftir að kynning var flutt og rædd, þannig má búast við viðbrögðum sem nýtast við skýrsluskrifin.
  • Kynning á rannsóknargrein (5-10%): Þátttakandi gerir grein fyrir nýlegri rannsóknargrein (eða grein sem mikið er vitnað í þótt hún sé gömul) og kynnir hana. Kynningin getur farið fram á veffundi með umræðum strax á eftir. Kynningin getur líka verið tekin upp og póstuð á námskeiðsvefinn, og umræðan farið fram í athugasemdum við póstinn og/eða á veffundi. 5% fást fyrir kynninguna og 10% fyrir kynningu ásamt skýrslu.

Þátttakendur skrá val sitt og velja skiladaga á sérstakri síðu sem birtist eftir fyrstu staðlotuna

4.       Einstaklingsverkefni (gildir 50% af einkunn)

Skrifaðu ca. 12-15 síðna ritgerð sem tekur á afmörkuðu sviði sem tengist einu af þemum námskeiðsins: Samfélagið og símenntun, Fullorðnir námsmenn, Þroskaferli fullorðinna eða Nám og / eða kennsla fullorðinna.

Ritgerðin þarf að taka fyrir mun þrengra efni og ganga út frá afmarkaðri rannsóknarspurningu:

  • Kynntu í inngangi rannsóknarspurningu þína eða viðfangsefni og hvað það er sem þú ætlar að ná fram með ritgerðinni.
  • Gerðu góða grein fyrir ákveðnum kenningum, nálgunum og aðferðum sem nýtast við íhugun, greiningu og/eða framkvæmd þess sem ritgerðin fjallar um.
  • Hugaðu að því hvernig sé hægt að framkvæma hugmyndir þær sem til umfjöllunar eru í þínu samhengi.  Gott er að nota dæmi til skýringar.
  • Rökstuddu mál þitt með dæmum, rannsóknum eða kenningum.
  • Gagnrýndu: Sýndu jafnvel önnur viðhorf, eða gagnstæðar kenningar, eða nýttu eigið hyggjuvit.
  • Dragðu niðurstöður þínar saman í lokin.

Reiknað er með að nemendur kynni einstaklingsverkefni sín, a.m.k. í litlum hópum, eða með plakati á seinustu staðlotunni, þau þurfa þó ekki að vera alveg tilbúinn þá… en langt komin.

Tilvalið er að nota fræðilegar tímaritsgreinar sem fyrirmynd að formi, eða góða meistararitgerð. Ætlast er til að meðhöndlun heimilda fari fram með einhverju gagnagrunnsforriti eins og Endnote, Mendeley eða Zotero.

Vistaðu ritgerðina sem PDF-skjal (NafniðÞitt-Lokaritgerð.PDF) og skilaðu í gegnum TurnitIn

Gagnlegar upplýsingar um ritun, m.a. viðhorf kennara námskeiðsins

  • Síðasti skiladagur verkefnisins er 5. Desember 2017.
  • ATH vilji nemendur fá leiðsagnarmat skila þeir kafla úr ritgerðinni til mats á einhverjum af skiladögum misserisins í Turnit-In og fá fljótlega viðbrögð frá kennara. Verkefni sem skilað er 5 desember fá sundurliðaða einkunn byggða á s.k. rubrick sem nemendur hafa aðgang að fyrirfram.

5.       Sjálfsmat (gildir 5% af lokaeinkunn)

Gerðu grein fyrir markmiðum þínum á námskeiðinu og markmiðum námskeiðsins, hvað þú gerðir til að ná markmiðunum og hvernig til tókst. Textinn ætti að vera u.þ.b. 2 blaðsíður A4 og skjalið vistað á PDF formi

Námsmat: Gæði rökstuðnings (85%), frágangur (15%)

  • Skilist í Turnit-in 6. Desember 2017

Þetta skjal er frumútgáfa – hún gæti breyst eftir umræður á fyrstu staðlotu.

 

 

þetta skjal er frumútgáfa – hún gæti breyst eftir umræður á fyrstu staðlotu.

Sæktu þessar upplýsingar sem PDF skjal

One thought on “Námsfyrirkomulag”

Lokað er á athugasemdir.