Þetta er samvinnusvæði um þemu námskeiðsins. Þetta eru glósur nemenda á námskeiðinu og þv ekki efni til að vitna í í ritgerðum. EN það getur hjálpað við lesturinn.
Eitt aðalþema námskeiðsins heitir „Samfélagið“, þ.e. samfélaglegir þættir sem upplýsa okkur um nám fullorðinna og hafa áhrif á það. Þar eru skoðaðar spurningar eins og
- Hvers vegna leggja fullorðnir það á sig að læra?
- Hvaða áhrif hafa samfélagslegir straumar á nám fullorðinna?
- Hverjir taka þátt í námi, hverjir ekki og af hverju?
- Hvaða stofnanir og reglur hafa áhrif á og leiða nám fullorðinna á Íslandi?
- Hvað er það í samfélaginu sem leiðir til, stuðlar að, hindrar eða hefur á annan hátt áhrif á nám, menntun og framboð náms fullorðinna?
- o.s.frv.
Hér getum við glósað og notað þetta svæði til að skapa okkar eigin mynd af þessu þema:
Fullorðinsfræðsla í samtímasamfélagi:
Nám er persónulegt ferli hvers og eins en mótast engu að síður út frá umhverfi námsmannsins og samfélaginu sem hann býr í. Það sem einstaklingurinn svo lærir hefur aftur áhrif á umhverfi hans og ferlið er þannig gagnvirkt milli einstaklingsins og umhverfi hans. Sem dæmi um þetta má nefna að kunnátta fólks á tækni síeykst sem verður aftur til þess að framleitt eru sífellt þróaðri tæki sem svo aftur kalla á meiri kunnáttu.
Það er í raun eðli samfélagsins á hverjum tíma sem ákvarðar hve mikil áhersla er lögð á nám fullorðinna. Í samfélögum fyrir iðnbyltinguna gat fólk lært það sem það þurfti fyrir vinnu strax í bernsku. Í dag eru kröfurnar allt aðrar og ungt fólk í dag elst meira upp við þau gildi að það muni ævina alla halda áfram að bæta við nám og reynslu. Nám fullorðinna skilst því aðeins í samhengi við samfélagið.
Í dag eru einkum 3 þættir sem móta þörfina fyrir nám fullorðinna; 1) Breytt lýðfræði, 2) alþjóðavæðingin og 3) upplýsinga- og tæknivæðing.
1) Breytt lýðfræði: Ýmsar breytingar hafa orðið á lýðfræði þjóðarinnar á síðustu árum. Ævilíkur fólks hafa aukist og líklegt að eldri námsmönnum eigi eftir að fjölga í framtíðinni eftir því sem þjóðin eldist. Þetta gæti kallað á þörf fyrir annars konar nám en verið hefur í boði til þessa.
2) Alþjóðavæðingin: Alþjóðavæðingin hefur skapað nýjar vinnuaðstæður og kallað á breyttar aðferðir við undirbúning og þjálfun. Hugtök eins og mannauðsþróun og lærdómsfyrirtæki hafa verið innlimuð inn í fyrirtæki þar sem viðbrögð við aukinni alþjóðavæðingu eru í fyrirrúmi. Fyrirtæki í dag þurfa að vera grundvöllur lærdóms og aðlögunnar og í raun má segja að eitt helsta samkeppnisforskot fyrirtækja í dag sé hæfileiki þeirra til að læra og aðlagast í síbreytilegu umhverfi.
3) Upplýsinga- og tæknivæðingin: Þekking og upplýsingar eru lykilatriði í tæknisamfélagi og tæknin gerir það einnig að verkum að á sumum vinnustöðum er ekki lengur nauðsynlegt fyrir starfsmenn að vera staðsettir á ákveðnum stað heldur þurfa þeir bara að hafa aðgang að tölvu og neti. Þetta eykur líka möguleikana í teymisvinnu þar sem netið býður upp á möguleika fyrir þá sem vinna saman að vera staðsettir á mismunandi stöðum. Upplýsingatæknivæðingin hefur þó skapað ákveðna þversögn. Þótt tæknin geri það að verkum að hægt sé að afkasta meira með færra starfsfólki á tímaeiningu, þá hefur hún einnig skapað aukna þörf fyrir upplýsingar, væntingar um aðgengilegri upplýsingar og skjótari sem hefur svo aftur aukið vinnuálag og kröfur um tímanlega svörun.
Umhverfi náms fullorðinna:
Íslendingar eru duglegir að taka þátt símenntun skv. nýjum tölum Hagstofunnar (http://hagstofan.is/Pages/95?NewsID=10145) og nú er talið sjálfsagt að halda menntun sinni við og bæta við hana alla ævi. Nú til dags notum við hugtakið „ævinám“ eða „ævimenntun“ um hugmyndafræðina um það að nám sé æviverkefni allra.
Þegar tölur um nám eru skoðaðar er algengast að skoða tölur frá formlegu námi, þar sem auðveldast er að nálgast þær og leggja mat á þær en vettvangar fyrir nám fullorðinna eru hins vegar mun fleiri en opinberar tölur geta um.
Coombs flokkar skipulagt nám í þrjá flokka eða leiðir (Coombs typology): Formlegt (formal), óformlegt (nonformal) og formlaust (informal). Aðstæðurnar (leiðirnar) skarast oft og fjórða leiðin til náms sem er netleiðis og spannar hún hinar 3 leiðirnar.
a) Formlegt nám (formal) fer fram á stofnunum eða í tengslum við þær, er í ákveðnu ferli og einkennandi er að því lýkur með einhvers konar gráðu, diplóma eða réttindum.
b) Óformlegt nám (nonformal) er oftast notað til að lýsa námi sem er jú skipulagt en utan formlegra stofnana. Námið er yfirleitt skipulagt í styttri tíma og oft með sjálfboðaliðum, gjarnan innan ákveðinna samfélaga. Slík námskeið geta t.d. verið á vegum listasafna, bókasafna, kirkjunnar, klúbba o.s.frv. Óformlegt nám getur verið hugsað sem viðbót við formlegt nám, uppbót á það, eða sem annar valkostur. Óformlegt nám er einnig tengt alþjóðlegu þróunarstarfi sem miðar að því að auka lífsgæði fólks í þróunarlöndum með samfélagsverkefnum og þjálfunarprógrömmum.
c) Formlaust nám (informal) er 3ja námsleiðin skv. Coombs, hann skilgreinir það sem skipulagt nám utan formlegs skólakerfis. Í dag eru fleiri sem nota þetta hugtak um hið skyndilega og ómótaða nám sem fer fram á heimili, í vinnu, á hinum ýmsu viðkomustöðum fólks í samfélaginu og í gegnum fjölmiðla. Þetta form er algengasta form náms fullorðinna og er það sem við lærum dagsdaglega af lífinu. „ Svo lengi lærir sem lifir“. Þegar fullorðnir einstaklingar eru spurðir hvað þeir hafi lært, þá telja þeir hins vegar þetta formlausa nám sjaldnast upp sem nám. Formlausa námið getur verið bæði eitthvað sem einstaklingurinn ákveður að gera t.d að leita sér upplýsinga um eitthvað ákveðið efni eða eitthvað sem hann lærir af einhverjum aðstæðum/atburðum. Uppspretturnar fyrir námið geta verið af fjölbreytilegum toga s.s. bækur, blöð, sjónvarp, netið, söfn, skólar, vinir, ættingjar, reynsla annarra o.s.frv. Formlaust nám getur bæði stutt við fyrra nám og staðið í mótsögn við það.
Nám á netinu:
Nám á netinu er ákveðin tegund fjarnáms og gerir fólki kleift að nálgast nám sem annars hefði ekki verið hægt vegna fjarlægðar eða tíma.
Nám á netinu er hannað til að skapa möguleika fyrir fólk sem þarf sveigjanleika í tíma og rúmi en það verður að hafa í huga að fjarnám getur einnig orðið til þess að breikka bilið á milli þeirra sem hafa aðgang að tölvu og þeirra sem hafa það ekki. Ef litið er til heimsins alls (6,4 billjónir manna), þá eru aðeins rúm 14% sem hafa aðgang að netinu. Einnig spila aðrir samfélagslegir og sálfræðilegir þættir þarna inn í. Þættir eins og óöryggi vegna mögulegra breytinga, hræðsla við tæknina, þörf fyrir leiðbeiningar og lítil reynsla hafa tilhneigingu til að hindra þátttöku í fjarnámi.
Í greiningu á orðaræðu um netnám tók J.H. Kelland (2005) fyrir 3 meginþemu og gagnrýndi þau.
1) Kelland telur það vera mýtu að netnám sé án aðgreiningar og lýðræðislegt. Tilfellið er að margir hópar hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að nýta sér netnám og fjarnám getur þannig breikkað bilið milli ríkra og fárækra.
2) Umræðan um að netnám sé sveigjanlegt og aðgengilegt er bundin við vestræn samfélög.
3) Þriðja umræðan heldur því fram að netnám sé fjárhagslega hagkvæmt en Kelland bendir á að þótt það sé fjárhagslega hagkvæmt fyrir stofnanir, þá sé það ekki endilega svo fyrir nemendurna sjálfa og margir nemendur eigi í erfiðleikum með að fjármagna fjarnám.
Nám í fyrirtækjum og Lærdómsfyrirtækið (The learning organization)
Nám hefur alltaf átt sé stað í fyrirtækjum a.m.k. síðan á tímum iðnbyltingar er starfsmenn voru þjálfaðir til að sinna verkefnum sínum. Oft fór kennsla þó fram á öðrum stað heldur en í vinnuumhverfinu sjálfu og því vildi það brenna við að hún skilaði sér ekki sem skyldi í vinnuna sjálfa. Eftir því sem á leið varð algengara að menntun skilaði sér ekki í vinnu og á sama tíma jukust kröfurnar til framleiðslunnar. Þetta varð til þess að efla áhuga fræðimanna á vinnuumhverfinu og árið 1978 settu Argyris og Schön fram bók sína Organizational Learning: A Theory of Action Perspective þar sem þeir skilgreindu hvað lægi á bak við „Lærdómsfyrirtækið“ (The learning organization). Að þeirra mati læra fyrirtæki þegar starfsmenn þess koma fram sem nemendur þess, bregðast við breytingum í umhverfi fyrirtækisins með því að taka eftir og leiðrétta „villur“ í starfsemi fyrirtækisins og samsama þá leiðréttingu bæði eigin ímynd og fyrirtækisins.
Árið 1990 kom svo út bók Peter Senge; The Fifth Discipline: The Art andPractice of The Learning Organization. Senge skilgreinir lærdómsfyrirtækið sem stað þar sem fólk heldur stöðugt áfram að víkka út og bæta við getu sína til að skapa saman þá niðurstöðu sem óskað er eftir. Forsenda þess að fyrirtæki læri er að starfsmenn þess læri og mikilvægt er að starfsmennirnir breyti hugsun sinni í það að skoða mál heildrænt í stað þess að skoða þau í aðgreindum bitum. Lærdómsfyrirtækið samanstendur af 5 fögum og er 5. fagið kerfishugsun „system thinking“ hornsteinn lærdómsfyrirtækisins og felur í sér hin 4 fögin.
Fögin 5 eru skv. Senge: Afburðarfærni einstaklingsins (Personal Mastery), hugræn líkön (Mental Models), sameiginleg sýn starfsmanna (Shared Vision), liðsheildin lærir (Team Learning) og svo loks kerfishugsun (System Thinking) sem er 5. fagið og sameinar hin fjögur.
Innskot um lærdómssamfélagið og skólastarf: Í grein Auðar Pálsdóttur og Allyson Macdonald frá 2010 (sem heitir Hlutverk skólastjóra í menntun til sjálfbærni. Reynsla af þróunarstarfi í fjórum grunnskólum – er á vef Netlu) er sagt að skóli sem ber slík einkenni er líklegur að standa sig vel í skólaþróun og er leiðarljósið að bæta nám nemenda. Í slíkum skóla sé byggt á samvinnu, teymisvinna er mikil, ábyrgðin á námi nemenda er skýr og sameiginleg, kennarar sinna forystuhlutverki og fagmennskan er í fyrirrúmi. Auk þess er talað um skýra sameiginlega sýn, dreifða ábyrgð og forystu sem tryggir þá kennurum áhrif við ákvarðanatöku en kallar um leið eftir þeirra skuldbindingu gagnvart þessum markmiðum.
Samstarfið er mikilvægt. Starfsmenn læra af hvorum öðrum og saman. Þetta þarf að vera reglulegt ferli. Þáttur stjórnenda er ákaflega mikilvægur; þeir þurfa að koma á reglulegri símenntun (a-ha!!!!) og ekki síður ígrundun um sín störf. Menningin á að litast af þessu öllu saman. Augljóslega gerist þetta ekki yfir nótt en með viljann að verki er þetta hægt! Þá þarf stöðugt að fylgjast með og læra af því sem vel er gert annars staðar og bera sig á hverjum tíma saman við þær hugmyndir sem taldar eru bestar um starfshætti í skólastarfi.
Fullorðnir námsmenn: Hverjir taka þátt og hvers vegna?
Að vita hverjir það eru sem taka þátt í fræðslu og hverjir ekki er nauðsynlegt fyrir skipuleggjendur og stefnumótendur. Þátttaka í námi á fullorðinsárum er oftast af fúsum og frjálsum vilja námsmannsins en á því eru undantekningar. Því er mikilvægt að vita hvaða aðstæður það eru sem hvetja til náms, hverjir hafa hag af þátttöku og hvernig hægt er að mæta þörfum þeirra sem sjá sér ekki fært að taka þátt.
Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á þátttöku fullorðinna námsmanna en galli er að flestar þeirra hafa verið gerðar á formlegu námi sem skapast að hluta af því að upplýsingarnar eru aðgengilegri um slíkt nám og nemendurna. Þátttaka í námi á fullorðinsárum er þó misjöfn eftir því hvort um formlegt, óformlegt eða formlaust nám er að ræða.
Fullorðnir námsmenn: Hverjir taka ekki þátt og af hverju ekki?
Fullorðnir eru upptekið fólk og flestir eru a.m.k. 8 tíma á dag í vinnu fyrir utan að sinna heimili, heimilisstörfum og öðrum málum. Fleiri hundruð rannsókna hafa fjallað um ástæðu fyrir þátttöku fullorðins fólks í skipulögðu námi. Flestir nefna vinnutengdar ástæður og stór hluti nefnir að hann sé að undirbúa sig undir nýtt starf.
Rannsóknir benda til þess að þeir sem hafa stystu skólagönguna taka síður þátt en þeir sem hafa lengri skólagöngu. Staðan í dag er sú að menntunarstig íslendinga er með því lægsta sem gerist í Evrópu og eru tæplega 30 % landsmanna aðeins með grunnskólamenntun árið 2012 skv. tölum frá Hagstofu Íslands. Landsbyggðin kemur þó mun verr út en höfuðborgarsvæðið í þessum efnum þar sem aðgengi og vegalengdir spila stóran þátt. Þetta er slæm staða í ljósi þess að minni möguleikar til náms minnka möguleika fólks á vinnumarkaði og þar með tekjumöguleika, auka líkur á landsflótta sem viðheldur jú óbreyttu ástandi því það er hætt við að peningar til frekari menntunar verði síður lagðir í fámenna staði.
Þegar þátttaka fullorðinna í námi er skoðuð, virðist sem þeir sem hefðu mestan hag af námi taki síst þátt. Tvær algengustu ástæður sem fólk nefnir fyrir því að taka ekki þátt í námi eru tímaskortur og peningaskortur. Þessar ástæður eru félagslega viðurkenndar fyrir því að taka ekki þátt í einhverju af fólki sem er upptekið við að sjá fyrir og annast sjálft sig og fjölskylduna sína. Þegar ástæðurnar eru flokkaðar betur kemur þó í ljós að meðal ástæðna eru skortur á sjálfsöryggi, áhugaleysi og viðkomandi telur námið ekki skipta máli fyrir sig, tímarammar, lélegt sjálfsmat, kostnaður og persónuleg vandamál.
Vangaveltur höfunda bókarinnar „Learning in Adulthood“ um þátttöku fullorðinna í námi:
Ýmsar almennar ályktanir hafa verið dregnar um nám fullorðinna og hafa höfundar bókarinnar Learning in Adulthood greint niður 4 almennar ályktanir og varpað gagnrýni á þær.
1) Þátttaka í námi er af hinu góða. Ákveðin viðhorfsbreyting hefur átt sér stað á liðnum árum þar sem litið er á nám, símenntun og endurmenntun sem eftirsóknarvert. Rannsóknir á þátttöku álykta almennt að allir ættu að vilja taka þátt í námi þar sem nám sé af hinu góða. Merriam, Caffarella & Baumgartner (2007) benda á að sannleikurinn sé sá að flest samfélög noti nám til að viðhalda óbreyttu ástandi og ríkjandi gildum. Menntun fullorðinna miðlar þeirri menningu sem er ríkjandi fyrir. Námstækifæri eru hönnuð kringum það sem samfélagið telur fólk skorta upp á hæfni/þekkingu og með það í huga að fólk passi betur inn í ríkjandi samfélag. Nám sem er hannað með skort á hæfni þátttakanda í huga, vekur ekki endilega áhuga hjá þátttakandanum og viðkomandi upplifir ekki endilega að hann skorti kunnáttuna. Í stað þess að endurskoða þá fræðslu sem stendur til boða, þá fara fjármunirnir í að reyna að auka þátttökuna í því sem er í boði fyrir. Ljóst er að það næst aldrei að dekka allt það sem fólk hefur áhuga á að læra. Einhvern milliveg verður að fara. En það má líka hafa í huga að baki hvers nemenda eru aðrir hagsmunaaðilar sem oft stýra fjármagninu og þeirra hagsmunir eru ekki endilega þeir sömu og mögulegra nemanda. Þetta er því líka spurning um hver fjármagnar fræðsluna og það eitt sér getur stýrt því hvað er í boði.
2) Þátttaka jafngildir formlegu námi eða skipulagðri fræðslu. Rannsóknir fara flestar fram á skipulögðu námi þrátt fyrir að kannanir bendi til að 70% af námi fólks sé formlaust (informal). Þetta skýrist að hluta til af því að auðveldara er fyrir rannsakendur að nálgast gögn frá formlegum menntastofnunum en einnig vegna þess að námsmennirnir sjálfir bera ekki kennsl á það sem þeir læra utan menntastofnana sem menntun. Það gæti svo aftur skýrst af því hvað kerfið sjálft skilgreinir sem menntun. Annar þáttur sem bent hefur verið á er að ákvarðanir eru yfirleitt teknar af þeim sem borga fyrir þær, þ.e. nemendunum sjálfum, stjórnvöldum, eða vinnuveitendum. Þeir sem eru ekki í aðstöðu til að borga hafa því sjaldnast möguleika á að vera með í ákvörðunum á framboði náms. Þeirra hlutverk er eingöngu að ákveða hvort þeir eigi að taka þátt eða ekki.
3) Nemendur eru einstakar einingar og óháðir félagslegu samhengi. Flestar rannsóknir skýra vanþátttöku sem skerðingu hjá einstaklingnum og gleyma að taka með í reikninginn hið félagsmenningarlega samhengi sem fullorðnir námsmenn búa í. Orðaræðan er í þá átt að fullorðna einstaklinga skorti eitthvað eða eitthvað sé ófullnægjandi hjá þeim og því geti þeir ekki tekið þátt. Flestir fullorðnir gefa upp skort á tíma og peningum sem ástæðu fyrir því að taka ekki þátt í námi. Þegar málin eru skoðuð í félagslegu samhengi koma aðrar ástæður í ljós. Á meðal þeirra eru þau viðhorf sem námsmaðurinn mætir til menntunar og er þá átt við viðhorf sem móta hann alveg frá barnæsku (fjölskylda, skóli) og seinna viðhorf á vinnustað. Jákvæð viðhorf til náms verða einfaldlega hluti af venjum sumra en ekki annarra. Formlegt námskerfi fyrir fullorðna gengur út frá því að námsmaðurinn sé meðvitaður og sjálfmiðaður einstaklingur sem sé í stöðu til að nýta sér þá möguleika sem í boði eru. Kerfi sem reiðir sig á að þátttakendur velji sjálfir nám sem hentar þeim er þannig líklegt að auka frekar á menntunarlegt og menningarlegt bil í samfélaginu. Búseta, tungumál, litarháttur, aldur og kyn eru þættir sem allir hafa áhrif á þátttöku fullorðinna í námi og eru kallaðir rammaþættir. Þessir þættir tengjast gildum fólks, viðhorfum, venjum og forgangsröðun og hvaða hópi þeir tilheyra. Niðurstaðan er því sú að sumir eru jafnari en aðrir þegar kemur að vali á möguleikum.
4) Það eru hindranir fyrir þátttöku en ekki mótstaða. Niðurstöður rannsókna á þátttöku reyna flestar að greina hindranir eins og áhugaleysi, persónuleg vandamál og að telja aldur sem fyrirstöðu, en einnig aðstæðubundnar eins og tímaskort og skort á peningum. Einnig hefur áhugahvöt einstaklingsins áhrif, sem og gildi og hegðun, uppruni fjölskyldu o.s.frv. Ekkert hefur hins vegar verið rætt um að mögulegir þátttakendur hreinlega veiti þátttöku viðnám af ásettu ráði. Tilfellið er að margir fullorðnir líta á nám sem óviðkomandi þeirra lífi og óáhugavert. Nokkuð sem opnar á endurhugsun á fyrir hvern nám ætti að vera og hvar það ætti að fara fram. Mögulegt er að nám fyrir fullorðna sé hluti af vandamálinu en ekki lausn á því.
Fjallað er um lærdómssamfélagið og „life long learning“. Fullorðna námsmenn og formlega og óformlega þátttöku þeirra í námi/fræðslu. Leitað er svara við spurningunni: Hvers vegna fólk tekur þátt og hvers vegna fólk tekur ekki þátt í fullorðinsfræðslu?
Hindranir í fullorðinsfræðslu
Fjallað er er um hvata og hindranir. Hindrunum má skipta í nokkra flokka:
Persónulegar hindranir: Vöntun á áhuga, persónuleg vandamál, aldurstengdar eins og að telja sig of gamlan til þess að læra.
Hindranir vegna stöðu viðkomandi: Skortur á tíma og peningum.
Félagslegar hindranir: Fjölskylda (bakgrunnur), stéttarstaða, kynþáttur.
Aðrar hindranir: Einstaklingsleg áhugahvöt, trú, hegðun, lífshagir/lífsástand.
Samantekt úr kaflanum
Í kaflanum er ágætis umfjöllun um hvernig kröfur umhverfisins hafa mótað þörfina fyrir menntun. Rakið er hvernig samtíminn á hverjum tíma hefur mótað þörf fyrir fullorðinsfræðslu í USA. Höfundar telja að hægt sé að skilja fullorðinsfræðslu í gegnum, eða að rannsaka, félagslegt samhengi þar sem námið á sér stað . Félagsmenningarlegt samhengi ákveður hvað er lært og hverjir læra. Í dag eru það þrír þættir í félagsmenningarlegu samhengi sem móta námsþarfir innan fullorðinsfræðslu:
- Lýðfræðilegar breytur: Höfundarnir eru að tala út frá bandarísku samhengi. En þessar lýðfræðilegu breytur eru:
Aukin fjöldi fullorðinna, meðalaldur eykst jafnt og þétt.
Betri menntun almennt.
Menningarlegur og þjóðernislegur breytileiki er meiri.
Aukin þátttaka eldra fólks eru lýðfræðilegir þættir sem hafa áhrif á menntunarframboð en þrátt fyrir aukna menntun eykst brottfall ungmenna úr grunn og menntaskóla.
Vaxandi þjóðernislegur og menningarlegur breytileiki í USA. Aðallega kemur fólk frá Asíu og S-Ameríku en í minna mæli frá Evrópu eins og var fyrr á öldum. Meðalaldur minnihlutahópa er lægri en meðalaldur meirihlutahópa. þessi þróun skapar nýjar námsþarfir.
2. Efnahagur heimsins: Efnahagur samfélags mótar gerð þess og þar með tegundir náms sem fullorðnir eru líklegir til að taka þátt í. Breyting á eðli starfa í kjölfar þess að samfélagið breytist í upplýsinga og þjónustusamfélag með breytingum á samsetningu vinnuafls hefur áhrif á hvar nám á sér stað, hvers eðlis það er og hver tekur þátt.
3. Upplýsingatæknin: Mikil áhrif á samfélag og fullorðinsfræðslu. Hefur skapað upplýsingasamfélag sem hefur skapað ný störf og útrýmt öðrum og hnattvæðing er tæknilega stýrð, þekking úreltist hratt, þörfin fyrir símenntun hefur tekið risavaxin skref. Námsþörf, námstækifæri, námsleiðir ákvarðast af því þjóðfélagi sem við lifum í.
Lýðfræði, hnattvæðing og tækni hafa áhrif á alla framvindu þjóðfélagsins, líka fullorðinsfræðslu. Einkenni bandarísks almennings er þannig að það eru fleiri fullorðnir en ungir og fleiri eldri fullorðnir. Fullorðnir eru betur menntaðir og meiri menningarlega og þjóðernisleg breidd er.
En hvernig skyldi þessu vera háttað á Íslandi. Hvaða námsþarfir hefur fólk sem flyst búferlum til Íslands? Það er jú alþekkt á Íslandi að fólk kemur með ýmsar gráður í farteskinu þegar það flyst til landsins, gráður sem ekki eru viðurkenndar svo eðlisfræðingar, verkfræðingar, m.a. hjúkrunarfræðingar, hópast þar með í fiskvinnslu og umönnunarstörf.
Ég bætti við skilgreiningu á hugtakinu ævinám/ævimenntun…. en mjög stutt
Eigum vð að bæta við þennan wiki texta?