Þetta er samvinnusvæði um þemu námskeiðsins.
Fjórði hluti bókarinnar Learning in Adulthood fjallar um nám fullorðinna í ljósi þroska þeirra. Ljóst er að fullorðnir námsmenn hefja nám á öðrum forsendum en þeir sem yngri eru og þeir eru með aðra reynslu í farteskinu. Reynsla fullorðinna þarf þó ekki að vera af hinu góða, lærð hegðunarmynstur eru ekki endilega ákjósanleg eða gagnleg og geta í raun verið hamlandi fyrir frekara nám. Fyrri reynsla af námi getur hafa verið slæm og valdið því að fólk hefur litla trú á eigin námsgetu. Forsendurnar fyrir náminu eru misjafnar og aldurstengdir þættir hafa einnig áhrif á nám. En aukin reynsla getur einnig stuðlað að því að fullorðnir eru meðvitaðri um að nýta sér námsefnið betur en þeir sem yngri eru og njóta þess jafnvel betur að vera í námi.
Þroski fullorðinna (Adult development)
Hugtakið þroski er yfirleitt lagt að jöfnu við breytingu og er afleiðing gagnvirkra áhrifa erfða og umhverfis á fólk. Fjórar nálganir á þroska fullorðinna hafa verið áberandi í umræðunni, þ.e.a.s. þá hefur þroski fullorðinna verið skoðaður út frá líffræðilegum þáttum, sálfræðilegum, félags- og menningarlegum og loks samþættu sjónarhorni.
A. Sjónarhorn líffræðilega þroskans
Líffræðileg öldrun er hluti af lífinu og sjaldnast velkomin í vestrænum samfélögum þar sem unglegu útliti og hugsun hefur jafnan verið hampað. Líffræðileg öldrun er þó ekki bara hluti af eðlilegu ferli heldur getur hún einnig verið afleiðing sjúkdóma, lífsstíls eða umhverfisáhrifa. Þegar kemur að námi eru breytingar á skynjun og miðtaugakerfinu veigamestar. Algengt er að sjón breytist og/eða versni með aldrinum og ýmsir kvillar henni tengdri geta gert vart við sig s.s gláka, ský á auga eða augnbotnahrörnun. Heyrnarskerðing verður algengari og á sér oftast stað á löngu tímabili. Talið er að heyrn fólks fari að versna strax upp úr þrítugu. Í byrjun heyrnarskerðingar reynist fólki erfiðara að heyra lág hljóð sem og hljóð í umhverfi þar sem umhverfisáreiti er mikið. Það að greina talað mál getur einnig orðið erfitt. Viðkomandi heyrir en á í erfiðleikum með að greina það sem sagt er og oft kvartar fólk um að eiga erfitt með að heyra í fjölmenni þar sem kliður er. Stöðugt eyrnasuð (Tinnitus) getur einnig verið vandamál og m.a. valdið því að fólk á erfiðara með að einbeita sér.
B. Sjónarhorn sálfræðilega þroskans
Stór hluti rannsókna á þroska fullorðinna einstaklinga hefur beinst að „innri“ þroska þeirra. Tvö grunnlíkön hafa verið í sviðsljósinu en þau eru: a) líkan Erikson af sálfélagslegum þroska og b) líkan Levinson af persónulegum þroskaskeiðum en einnig hafa önnur líkön verið í umræðunni og m.a. sett fókusinn á mismunandi kynþætti og þjóðfélagshópa.
a) Sálfélagslegt líkan Erikson (Erikson’s psychosocial developmental model):
Erik Erikson er meðal áhrifamestu kennimanna úr þroska fullorðinna og byggir líkan hans á átta sálfélagslegum þroskastigum sem einstaklingar fara í gegnum og þurfa að leysa ákveðin verkefni á. Hvert stig/skeið byggir á því stigi sem er á undan og stendur einstaklingurinn á hverju stigi frammi fyrir vali eða vanda. Farsæl lausn á vanda leiðir til hæfni til að takast á við næsta stig en misheppnuð tilraun til lausnar hindrar eða truflar árangursríkt aðlögunarferli á næstu stigum. Því betur sem einstaklingurinn leysir verkefnin á einu þroskastigi þeim mun betur gengur viðkomandi á því næsta. Erikson bendir á að fólk þurfi oft að fara aftur á fyrri þroskastig bæði til að leysa úr óunnum málum og þegar aðstæður breytast skyndilega eins og við áföll.
Sigurlína Davíðsdóttir lektor í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ setur þroskaskeið Erikson upp í meðfylgjandi töflu á Vísindavef HÍ (http://www.visindavefur.is/svar.asp?id=5621)
Aldur |
Það sem verið er að tileinka sér |
Styrkleiki |
Fæðing – 1 árs |
Traust eða vantraust |
Von |
1-3 ára |
Sjálfstæði eða efi, skömm |
Viljastyrkur |
3-5 ára |
Frumkvæði eða sektarkennd |
Markmiðasókn |
6-11 (að kynþroska) |
Dugnaður eða minnimáttarkennd |
Geta |
12-18 ára |
Sjálfsmynd eða sjálfsmyndarruglingur |
Tryggð |
18-35 ára |
Nánd eða einangrun |
Kærleikur |
35-55 ára |
Sköpun eða stöðnun |
Umönnun |
55 ára og eldri |
Heilsteypt sjálf eða örvænting |
Viska |
Líkan Levinson af aldurstengdum þroskaskeiðum (Levinson’s age-graded model):
Líkan Levinson skiptist upp í fjögur þroskaskeið og gerir það ráð fyrir að fólk fari til skiptis í gegnum tímabil stöðugleika og breytinga eftir því sem árin líða. Á meðal helstu áhrifavalda í lífi hvers einstaklings eru starfsferill hans, fjölskylda og hjónaband en einnig trú, kynþáttur og það samfélag sem hann býr í. Levinson skiptir sem fyrr segir æviskeiði einstaklings í fjögur þroskatímabil, þ.e. fram að fullorðinsárum, upphaf fullorðinsára, miður aldur og efri ár. Hvert tímabil er samsett af stöðugleika- og breytingatímabilum þar sem einstaklingurinn tekst á við sín þroskaverkefni. Á stöðugleikatímabilunum er einstaklingurinn upptekinn við að fylgja eftir markmiðum sínum og skapa sér það líf sem hann óskar sér. Á breytingatímabilum fer hins vegar fram endurmat á stöðu í lífinu og hugleiðingar um mögulegar breytingar. Samkvæmt hugmyndum Levinson eyða einstaklingar u.þ.b. helmingi fullorðinsára í að kanna nýja möguleika og íhuga næstu skref og það hefur orðið til þess að opna augu fullorðinsfræðara fyrir því að fólk sé móttækilegra fyrir námi á ákveðnum tímabilum ævi sinnar.
C. Sjónarhorn félags- og menningarlegra þátta
Þessi nálgun beinir sjónum sínum að því hvernig félagslegt umhverfi fólks hefur áhrif á þroska þess. Ýmsir þættir koma hér inn í eins og aldur, kynþáttur, kyn, fjárhagur o.fl. sem hafa áhrif á hvernig einstaklingar eru skilgreindir af samfélaginu og hvernig félagsleg hlutverk og tímasetning lífsviðburða hefur áhrif á þroska þeirra. Félagsleg staða fólks felur í sér mismunandi hlutverk og hverju hlutverki fylgja ákveðnar væntingar. Hver einstaklingur getur haft mismunandi hlutverk á hverjum tíma, t.d. verið foreldri, maki, starfsmaður, barn, vinur o.s.frv. Breyting á félagslegri stöðu einstaklings verður í kjölfar breytinga á einhverju hlutverka hans, t.d þegar hjúskaparstaða breytist eða atvinna.
Rannsakendur hafa skoðað hvernig breytingar á stöðu fólks bæði mótast af fyrri lífsviðburðum og á sama tíma móta frekari aðlögun þess. Tveir þræðir hafa verið mest áberandi í rannsóknum. Sá fyrri er hversu mikilvæg mismunandi hlutverk eru fyrir einstaklinginn eftir því hve missir hlutverkanna hefði mikil áhrif á sjálfsmyndina og á hvaða tíma ævinnar fólk hefur/missir þessi hlutverk. Seinni þráðurinn spannar hvernig samfélagið skilgreinir hugtök eins og kynþátt, þjóðerni, kyn og kynhegðun og hvernig þessi hugtök tengjast þroska fólks.
D. Samþætt sjónarhorn
Samþætta sjónarhornið á það sameiginlegt að það sameinar tvö eða fleiri sjónarhornanna á undan. Inntakið hér er að orsakir þroska komi úr mörgum áttum, séu gagnvirkar og mismunandi orsakir hafi mismunandi vægi á hverju aldursskeiði fyrir sig. Einstaklingar þroskast ekki vegna stakra atvika heldur í gagnvirku samhengi við umhverfi sitt og þroskinn byggist á sálfræðilegum, líffræðilegum og umhverfislegum þáttum. Þó notkun á þessum samþættu líkönum hafi enn ekki náð útbreiðslu, þá hafa þau engu að síður sýnt að ekki er nóg að skoða þroska fullorðinna út frá einu ákveðnu sjónarhorni.
Þróun vitsmuna á fullorðinsárum
Þegar rætt er um vitsmunaþroska fullorðinna námsmanna er átt við þá breytingu sem verður á hugsanamynstri þegar manneskja fullorðnast og skoðað er hvort þetta mynstur breytist með aldrinum. Grunnurinn liggur í kenningum Piagets um vitsmunaþroska en hann setti fram hugmyndir um að vitsmunaþroska barna mætti skipta í ákveðin stig og að börn væru ekki fær um að hugsa á ákveðinn hátt fyrr en þau næðu ákveðnum aldri (hann bætti síðar við þessar hugmyndir).
Hugmyndir um efsta stig Piaget hafa verið yfirfærðar á nám fullorðinna með þeirri viðbót að þroski sé einstaklingsbundinn (barna og fullorðinna) og að taka þurfi tillit til utanaðkomandi áhrifaþátta. Tveir einstaklingar á sama aldri/stigi geta hugsað gerólíkt um sama hlutinn, allt eftir persónuleika, reynslu og fyrri þekkingu.
Engu að síður má líta svo á að með kenningu sinni hafi Piaget aukið skilning á hugmyndinni um vitsmunaþroska á fullorðinsárum. Til dæmis hvað varðar mikilvægi þess að manneskjan taki sjálf þátt í að byggja upp þekkingu sína og að vitsmunaþroski eigi sér stað á fullorðinsárum, þ.e. fullorðnir eru móttækilegir fyrir breytingum á hugsanamynstri, hugmyndum og greind.
Rannsóknir og kenningar um vitsmunaþroska fullorðinna eru margar flokkaðar eftir stigum líkt og kenningar Piaget. Þær eru ólíkar en miða samt allar að því að skoða hvernig hugsun breytist þegar manneskja eldist.
Þróunarskema Perry’s gengur út á það að fólk þroskist frá tvíhyggjuhugsun (rétt-rangt) yfir í það að sjá hlutina frá mismunandi sjónarhorni og mynda sér skoðun út frá aðstæðum hverju sinni, jafnvel þótt viðhorf þeirra sé þversagnakennt (manneskja trúir því að það sé siðferðislega rangt að drepa (eyða lífi) en víkur frá þeirri skoðun þegar um er að ræða fóstureyðingu, líknardráp eða dauðarefsingu, allt eftir aðstæðum/forsendum hverju sinni).
Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að eldri fullorðnir einstaklingar geta sýnt meiri tvíhyggjuhugsun en yngri fullorðnir einstaklingar og að gera þarf ráð fyrir áhrifum menningar á einstaklinginn.
King og Kitchner (reflective judgement model) sýndu fram á gríðarlega mikinn mun á því hvernig fólk metur aðstæður og dregur ályktanir út frá þekkingu og hugmyndum. Þar hefur uppruni, menningarheimur, reynsla og menntun áhrif á einstaklingana.
Dialectical thinking…
Minnið, vitsmunir og heilinn