Stéttarfélög og fræðslumál | namfullordinna.is

Árni í viðtali

Var að birta stuttan pistil  um stéttarfélög og fræðslumál ásamt leslista og viðtali við Árna

Stéttarfélög og fræðslumál | namfullordinna.is.

Segið okkur hér í athugasemdunum hvað ykkur fannst um viðtalið og það sem kom þar fram. Hvaða mál finnst ykkur standa uppúr þegar við hugsum um aðkomu stéttarfélaga að fræðslumálum?

9 thoughts on “Stéttarfélög og fræðslumál | namfullordinna.is”

  1. Það er athyglisvert að hlusta á viðtal við formann SFR í ljósi þess að stéttarvitund á vinnumarkaði minnkar ár frá ári. Stéttarfélög eru í varnarbaráttu á vettvangi margræðni vinnuaflsins og sérþekking er í hávegum höfð. Það er eins og að ára verkalýðsbaráttunnar sé ekki lengur fyrir hendi, að berjast fyrir bættum kjörum og sameiginlegri stéttarvitund, enda er það merkingarlaust í huga fólks (sbr. Ulrich Beck). Iðnaðarsamfélagið, samfélagsstrúktúrinn sem það bar með sér, er að molna undir fótum okkar. Nú virðist vandamálið frekar að starfsfólk sé ofmenntað í störfum sínum og gagnast ekki lengur við færiböndin (hvað sem um er að kenna) – draugur menntunarverðbólgu herjar á okkur og vélmennin banka á dyrnar og vilja komast inn.
    En hvað er vandamálið? Er menntunin vandamálið eða er það hvernig við horfum á gildi menntunar í (stöðnuðu) samfélagi í pólitískum skilningi? Er hún að gera það að verkum að stofnanir verða að borga hærri laun, sem um leið rýrir rekstrargrundvöll þeirra og sligar þjónustustig (sem aftur gengur ekki)? Það er eins og krafa stéttarfélaganna um fleiri menntunartækifæri, fyrir aðeins meiri laun, hafi komið fljúgandi í höfuðið á þeim aftur eins og bjúgverpill, og þá ekki bara stéttarfélaganna. Því með betur menntuðu starfsfólki er sjálfsagt að álykta sem svo að starfsheildir geti starfað út frá meiri gæðum (sem ekki allir forstöðumenn/forstjórar eða pólitíkusar skilja). Því, annars er allt tal um lærdómsfyrirtæki eða stofnanir hjóm eitt. Þetta er þvílíkt gæðavandamál og samfélagið í heild sinni ber ábyrgð á því.
    Misstu menn kannski bara af einstaklingsvæðingunni (sem er afsprengi vinnumarkaðars skv. Beck)? Það er auðvitað kýrskýrt og vísast að halda því til haga að með aukinni áherslu á hærra menntunarstig starfsfólks þá er verið að mennta það út úr hefðbundinni stéttavitund! Er það ekki einmitt til að auka lífskjör fólksins, sem sagt jákvætt skref í út úr félagslegum ójöfnuði, og styrkja samfélagið til framtíðar? Árni kemur inn á þverstæðuna að styrkja starfsmenn í SFR fjárhagslega til náms til þess eins að missa þá út úr félaginu og starfsgreinum undir merkjum SFR. En það er áhættan (sem er kannski ofmetin), þetta eru kjörin. Eini styrkur launþegahreyfingar og stéttarfélaga nú til dags, sem hóps (og vitna aftur í Beck) er að stöðva vinnu. Fara í verkfall. Hinn möguleikinn væri kannski að staðsetja sig í miðjum margbreytileikanum og aðstoða við að halda mismunun og órétti í skefjum, aðstoða starfsfólk í félagskrísum. En erum við þá að einblína um of á einstaklinginn á kostnað samfélagsins? Ég vitna í Henrik Kaare Nielsen mér til stuðnings sem segir í bók sinni Æstetik, kultur og politik: ,,Vil fagbevægelsen overleve som samfundsmæssig magtfaktor af betynding og som garant for en organiseret social solidaritet, må den derfor udvikle nye modeller for kollektive aftaler, som på en gang sikrer solidariteten og et stort individuelt råderum for den enkelte“ (1997, bls. 145-146). Nýsköpunar er þörf. Auglýst er eftir nýjum nálgunum á úrlausnarefnin.
    Í ljósi þessa er áhugavert að skoða nýlega verkfallsboðun læknastéttarinnar/hópsins í landinu, sem er ekkert hipsumhaps. Snúast kröfur þeirra eingöngu um það að fá hærri laun (ofan á há laun og ganga þannig í berhögg við almenna launastefnu í landinu)? Það eru einhverjar villur í umræðunni. Er ekki einmitt verið að biðja um betri aðstæður og meira öryggi varðandi það að stunda starfið með sem bestum hætti og að heilbrigðiskerfið verði ekki afturför að bráð? Samfélagið segist ekki hafa efni á nýjum spítala. Gott og vel, gleymum því ekki að menntun fólks hefur skapað því aukinn hreyfanleika og alþjóðavæðingin hjálpar því til við að hreyfa sig á milli landa, í leit að betri tækifærum og kjörum. Það er staðreynd hvað læknahópinn varðar og það er nokkuð sem stjórnmálamenn geta ekki horft framhjá (fáum við kannski ófagmenntaða lækna í staðinn fyrir þá sem hverfa á braut, eins og leiðbeinendur í hópi kennara?). Það er veruleikinn sem við öll horfum á as we speak. Það snýst kannski ekki aðeins um að læknanámið sé metið til hærri launa heldur að námið gefi fólki tækifæri til framþróunar innan starfsvettvangs (sem er menntunarlegs eðlis að stórum hluta – snýr m.a. að símenntun), en loki það ekki af í pirringi og ónægju með aðstæður (hræðslu við að missa af lestinni og bera ábyrgð sem það getur ekki staðið undir). Þekkingin (skv. Alheit) þenst út [og kannski dregst saman] í því samhengi sem hún er notuð í.
    Að sama skapi ætti ekki að leyfast að ráða ófagmenntað fólk í störf sjúkraliða, eins og fram hefur komið (algerlega óviðunandi). Þar verður stéttarfélagið að berja í borðið og berjast fyrir bættri löggjöf fyrir hóp á vinnumarkaði sem sjúkraliðar eru, líkt og læknar berjast fyrir sínum kjörum. Það er sanngirnismál og vísast hægt að skoða það hjá fleirum hópum.

  2. Áhugavert samtal og ýmislegt sem vakti athygli mína. Til dæmis að námi skuli oft ekki vera sýndur skilningur á vinnustöðum og að stofnanir leyfi sér sparnað þegar kemur að menntun og hæfni starfsfólks. Það vekur ugg að ómenntað fólk sé ráðið í stað þeirra sem hafa hlotið menntun og/eða þjálfun. Þó aðhald sé nauðsynlegt hélt ég að það væri ávinningur hvers vinnustaðar að hafa menntað og þá væntanlega hæfara starfsfólk í sínum röðum. Mér fannst hugmyndin um stigbundið nám og starfsþróunaráætlunina áhugaverð. Það kemur mér alltaf svolítið á óvart hve metnaður fólks til náms er mismikill en einnig finnst mér sorglegt að SFR styrki fólk til háskólanáms sem er að mennta sig út úr félaginu.

  3. Já mér fannst þetta áhugavert viðtal við hann Árna, formann SFR. Alltaf gott að hefja umræðu á einhverju jákvæðu ef hægt er, eins og í þessu tilfelli þar sem Hróbjartur bendir á þá ríku áherslu mennta- og fræðslumála hjá verkalýðsfélögum almennt sem er gott að minna á.
    Fannst fínt að heyra þá aukningu síðustu árin hjá félagsmönnum SFR sem hafa aukið háskólamenntun sína um nær 3% en ég tek undir með Sif að mér finnst ekki góð stefna að spara eða skera niður með því að nýta frekar ómenntað starfsfólk eins og Árni nefnir m.a. með umönnunarstörf, t.d. sjúkraliða. Ég þekki þessi störf af eigin reynslu og finnst skömm að þessu, þ.e.a.s. ef að hægt er að fá menntað starfsfólk. Þetta finnst mér endurspegla þessa týpísku skammsýni sem svo auðvelt er að horfa til í stað þess að horfa til lengri tíma (framtíðarfræðin) sem gæti sparað heilmikið og fl. græða þegar allt kemur til alls.
    Einnig er soldil „kreppulykt“ af því sem hann nefnir varðandi erfiðari stöðu félagsmanna síðustu ár til að fá leyfi vinnuveitanda að sækja sí-/endurmenntun. Almenningur hefur ekki þorað annað en að ríghalda í sína stöðu á vinnumarkaðnum svona almennt séð síðustu misserin.
    Þetta er langt í frá að vera í takt við það sem Árni segir, varðandi nauðsyn þess að fólk fái frelsi til að stunda sí- og endurmenntun enda sýnir það sig að þeir félagsmenn sem taki ekki þátt verði að einhverjum líkindum undir.
    Ég er sammála því að sí- og endurmenntun eigi að vera sjálfsagður hlutur til að viðhalda hæfni starfsfólks en það mætti, að mínu mati, gera meira af því að hækka fólk um launaflokka eftir hin ýmsu námskeið. Þannig virkar það líka hvetjandi f. fólk að sækja sér meiri menntun. Það hefur líka sýnt sig að þeir fullorðnu námsmenn sem fara á námskeið á vegum vinnu, sjá „ljósið“ og fær trú á sjálft sig að geta stundað nám (sem það trúði kannski ekki á) og ákveður í kjölfar námskeiðs, að fara í frekara nám, sem er hið besta mál. Mig grunar að þessum tilfellum sé að fjölga, t.a.m. meðal karlmanna sem hafa síður skilað sér undanfarið í meira nám skv. tölum frá Jóni Torfa og Andreu (Er Símenntunarþjóðfélag á Íslandi?)
    Að lokum fannst mér góðar spurn. sem komu upp

  4. Fínt samtal. Ég vil benda á að stór hluti þess fjármagns sem fer í endurmenntun í gegnum stéttarfélög er ekki tengt starfi þess sem fær styrkinn samanber lýsingu á styrkjum til háskólanema í hlutastarfi hjá ríkinu. Sama er í gangi hjá VR veit ég. Þar fá þeir sem eru í háskólanámi styrk frá VR sem þarf ekki að tengjast með neinum hætti starfinu sem er ástæðan fyrir veru þeirra í VR. Einnig vil ég nefna að eitt helsta gagnrýnisatriðið í OECD skýrslu um starfnám á Íslandi er að það miðsit um of við einstaklinga en of lítið við þarfir atvinnulífs og samfélags.

  5. Mér fannst þetta áhugavert en er uggandi yfir því að ómenntað starfsfólk sé oft ráðið í stað þeirra sem eru með menntun eða þjálfun í starfið vegna sparnaðar.
    Ég tók niður punkta úr viðtalinu, hvar er við hæfi að deila þeim?
    Bkv. Sif

Skildu eftir svar