Greinasafn fyrir flokkinn: Verkefni

Fullorðnir námsmenn og ADHD

Umfjöllun og fyrirlestur um ADHD fullorðinna námsmanna

Ég er þeirrar skoðunar að allir geti lært. Í mínum huga á nám að vera jákvæð upplifun. Það hefur oft verið sagt við mig í gegnum árin að sumir geti einfaldlega ekki lært og að ég verði að horfast í augu við það. Því neita ég alfarið og ég leita allra leiða til þess að finna námi farveg. Það er þannig að margir vilja læra, en hafa ekki forsendur til þess á ákveðnum tímapunktum í lífi sínu. Margar ástæður eru fyrir því og hafa til að mynda rannsóknir á brotthvarfi nemenda úr námi reynt að festa hendur á því. Námsörðugleikar eru taldir upp sem ein ástæða þess og þar með talið ADHD.

Mér þótti því einstaklega áhugavert að skoða ADHD nánar í tengslum við fullorðna námsmenn. Ef nemendur í framhaldsskóla hætta m.a. vegna ADHD, þá má búast við því að þeir sem snúa aftur til náms síðar meir eru á einhvern hátt litaðir af sínum einkennum ADHD.

Fyrirlestur um ADHD fullorðinna námsmanna

Í þessum fyrirlestri fjalla ég almennt um ADHD, ADHD fullorðinna og fullorðinna námsmanna, ásamt því að taka saman nokkur góð ráð sem gætu gagnast þeim sem kenna og/eða koma að fræðslu fullorðinna.

Umræður í kennslustund að loknum fyrirlestri

Efni fyrirlestursins var til umræðu í tímanum hjá okkur þann 2. nóvember og höfðu samnemendur mínir sögur að segja af fullorðnum einstaklingum með ADHD sem nýta sér lyfjameðferð og upplifa alveg nýtt líf. Nýlegar rannsóknir (Cherkasova o.fl., 2016; Solberg, Haavik, og Halmøy, 2015) sýna það að lyfjameðferð virkar vel, en sé hún notuð ásamt vitsmunalegum meðferðum sem efla minni, einbeitingu, sjálfstjórn, skapa rútínu og gera einstaklingi kleift að ná stjórn á fleiri af þeim einkennum sem einstaklingar með ADHD eiga við að stríða þegar kemur að námi og starfi reynist meðferðin enn árangursríkari

Eftirfarandi atriði komu fram í umræðum okkar í kjölfar fyrirlestursins:

 • Fullorðnir segja ekki endilega frá aðstæðum sínum. Þeim ber ekki skylda til þess, né að afhenda gögn um greiningar. Kennarar vita því oft lítið um námssögu fullorðinna nemenda sinna. Sumir líta jafnvel á greiningar sem þeir hafa fengið sem skömm, líta jafnvel neikvætt á lyfjagjöf. Við vorum sammála um það að það er mikilvægt fyrir kennara og fullorðna námsmenn að tala saman. Að kennarinn sýni skilning og dæmi ekki nemandann. Mikilvægt að kennarinn afli sér upplýsinga og fræðslu um málefni eins og ADHD. Mikilvægt að halda sér við og rifja upp efnið með ákveðnu millibili, það getur bæst eitthvað nýtt við.
 • Mikilvægt fyrir alla sem hafa fengið greiningu að nýta sér hana og þau úrræði sem standa til boða vegna greininga eins og t.d. lengri tími í prófi, próftaka í sér rými eða í rými með færri aðilum.
 • Nýta sér greiningu og lyf sem styrkleika, sem jákvæðan þátt í því að ná stjórn á einkennum sínum og geta stundað nám.
 • Þurfa fastan ramma og skipulag. Sem kennari verður maður að hafa ólíkar þarfir í huga.
 • Nemandinn verður líka að leggja sitt af mörkum, láta vita af sér og sínum þörfum.
 • Það vita ekki allir að þeir eru með ADHD. Mikilvægt að ræða um það sem veldur vanda í námi. Tala við kennara, tala við námsráðgjafa (allir eiga rétt á því að tala við námsráðgjafa). Leita lausna, ekki gefast upp.
 • Reynsla okkar á námskeiðinu sem þekkjum til barna, unglinga og fullorðinna með ADHD er að því fylgir mikil vanlíðan og erfiðleikar.
 • Viðurkenndar greiningar mikilvægar þegar til lengri tíma er litið er varðar skólagöngu, þannig að tekið sé mark á þeim. Við veltum fyrir okkur líftíma greininga.

Einn samnemandi okkar á námskeiðinu spurði: „Hvernig er svo unnið áfram með þetta? Hvað gerist nú?“

Þetta eru góðar spurningar fyrir mig er varða framhald mitt í mínu starfi. Það sem ég er að gera núna er að taka saman upplýsingar og góð ráð fyrir nemendur til þess að setja á heimasíðu skólans. Ég var þegar búin að taka slíkt saman fyrir kennara. Eins og staðan er núna þá finnst mér vanta ákveðinn farveg, við getum kallað það verkferla, til þess að beina nemendum í rétta átt að stuðningi og úrræðum er varða ADHD. Sama má segja um kennara. Það eru þeir sem uppgötva og finna fyrir vanda nemandans. Hvernig geta þeir brugðist við þegar þeirra úrræði nægja ekki? Þeir verða að geta leiðbeint nemendum sínum í átt að frekari stuðningi og úrræði. Er slíkt til staðar í skólunum sjálfum? Ef ekki, hvar þá? Þetta verða allir aðilar að vita. Mig langar að geta svarað þessum tveimur spurningum er fram líða stundir!

Styrkleikar fullorðinna námsmanna með ADHD

Einstaklingar með ADHD búa yfir mörgum styrkleikum og mikilvægt er að horfa til þeirra og byggja upp jákvæða sjálfsmynd fullorðins einstaklings með ADHD. Í námi er mikilvægt að finna þessum styrkleikum farveg sem leiðir til jákvæðrar upplifunar og bætts námslegs árangurs. Sem dæmi um styrkleika þeirra sem eru með ADHD má nefna:

 • Ríkt hugmyndaflug og/eða rík sköpunargáfa.
 • Ofureinbeiting á verkefnum sem vekja áhuga, eru skemmtileg og gengur vel með.
 • Eiginleiki að búa yfir innsæi, lesa vel í ákveðnar aðstæður og koma hugmyndum sínum í framkvæmd.
 • Hafa mikla orku sem getur komið sér vel í sumum námslegum aðstæðum.
 • Opnir einstaklingar sem geisla af lífi og í kringum þá er oft mikið fjör.
 • Tilbúnir að taka af skarið og leiða aðra áfram í skemmtileg og frumleg verkefni.
 • Tölvu- og tæknisinnaðir. (Kvennablaðið, 2015; Ragna Freyja Karlsdóttir, 2001).
 • Veikleikar þeirra geta líka verið styrkleikar þeirra.
 • Hugmyndaríkir.
 • Úrræðagóðir og geta þróað með sér mikla útsjónarsemi.
 • Hugsa út fyrir kassann, leita óhefðbundinna leiða og fara óhefðbundnar leiðir í lífinu.
 • Þróa með sér aukna yfirsýn vegna einmitt þess að þeir hugsa um svo margt í einu. (Sigríður Arnardóttir, 2015).

Að lokum

Skilningur er mjög mikilvægur. Talið opinskátt um ADHD og ræðið málin við nemendur ykkar. Mikilvægt er að virða fjölbreytileikann og finna leiðir til þess að koma á móts við þarfir flestra nemenda með því að nota fjölbreyttar aðferðir í kennslu. Óskið eftir upplýsingum frá nemendum ykkar um það hvernig þeir læra best og takið tillit til þess eins langt og ykkur er framast unnt, meðal annars með því að nota ólíkar kenningar og nálganir í fullorðinsfræðslu. Sýnum fullorðnum með ADHD virðingu og skilning!

Heimildir

ADHD samtökin. (e.d.). Hvað er ADHD? ADHD samtökin. Sótt 26.              október 2016 af http://www.adhd.is/is/um-adhd/hvad-er-adhd-

Cherkasova, M. V., French, L. R., Syer, C. A., Cousins, L., Galina, H.,              Ahmadi-Kashani, Y. og Hechtman, L. (2016). Efficacy of Cognitive        Behavioral Therapy With and Without Medication for Adults                  With ADHD A Randomized Clinical Trial. Journal of Attention                    Disorders. doi:10.1177/1087054716671197

Fullorðnir & ADHD. (e.d.). Issuu. Sótt 26. október 2016 af                                https://issuu.com/adhd-iceland/docs/adhd-fullordnir-a5-12-bls-          loka-lres

Grétar Sigurbergsson. (e.d.). ADHD hjá fullorðnum. ADHD samtökin.       Sótt 26. október 2016 af                                                                                                    http://www.adhd.is/is/moya/page/adhd_fullordnir

Harpin, V. A. (2005). The effect of ADHD on the life of an individual,       their family, and community from preschool to adult life. Archives         of Disease in Childhood, 90(1), 2–7. doi:10.1136/adc.2004.059006

Kvennablaðið. (9. október, 2015). Góð ráð sem nýtast þeim sem                  vinna með börnum með ADHD. Sótt 22. nóvember 2016                            af http://kvennabladid.is/2015/10/09/god-rad-sem-nytast-theim-      sem-vinna-med-bornum-med-adhd/

Ólafur Hilmarsson. (2016). Brotthvarf nemenda úr                                             framhaldsskólum: Stefna og úrræði. M.Ed.-ritgerð: Háskóli                       Íslands, Menntavísindasvið.

Ragna Freyja Karlsdóttir. (2001). Ofvirknibókin. Kópavogur: Ragna           Freyja Karlsdóttir.

Segal, J. og Smith, M. (2016, október). Teaching Students with                      ADHD: Tips for Teachers to Help Students with ADHD Succeed at      School. Sótt 26. október 2016 af                                                                                  http://www.helpguide.org/articles/add-adhd/teaching-students-          with-adhd-attention-deficit-disorder.htm

Sigríður Arnardóttir. (2015). Fólk með Sirrý – Hvernig er það að vera         með ADHD? Sjónvarpsþáttur sjónvarpsstöðvarinnar Hringbraut.         Sótt 1. desember 2016 af https://vimeo.com/139214990

Solanto, M. V., Marks, D. J., Mitchell, K. J., Wasserstein, J. og Kofman,      M. D. (2007). Development of a New Psychosocial Treatment for          Adult ADHD. Journal of Attention Disorders.                                                          doi:10.1177/1087054707305100

Solberg, B. S., Haavik, J. og Halmøy, A. (2015). Health Care Services          for Adults With ADHD Patient Satisfaction and the Role of                      Psycho-Education. Journal of Attention Disorders.                                              doi:10.1177/1087054715587941

Bókadómur

screen-shot-2016-10-26-at-14-40-10Höfundur: Raymond J. Wlodkowski

Útgáfuár: 2008 – Þriðja útgáfa.

Titill: Enhancing adult motivation to learn: A comprehensive guide for teaching all adults.

Útgáfa: Gefið út af John Wiley & sons, Inc. Jossey-Bass, San Francisco.

 

 

Höfundurinn

Reymond Wlodkowski hefur doktorsgráðu í menntasálfræði (e. educational psychology) og er þekktastur fyrir skrif sín um hvað hvetur fullorðna til náms og til þess að nema, um menningarlegan fjölbreytileika fullorðinna námsmanna og starfsþróun í gegnum nám. Hann hóf feril sinn sem grunnskólakennari í Bandaríkjunum en hefur síðustu þrjátíu ár starfað við háskóla víða um Bandaríkin og Kanada auk þess að hafa komið að þróun hraðnáms/árangursnáms (e. accelerated learning) sem framkvæmdarstjóri CAP (Council for Accelerated Programs) og fyrrum forstjóri miðstöðvar hraðnáms við Regis háskóla (Wlodkowski, á.á.).

Wlodkowski skrifar bókina frá sjónarhorni kennarans eða leiðbeinandans (e. instructor) og á það til að skrifa beint til kennarans eða fjalla um „okkur kennarana“ og þá eiginleika sem þeir búa yfir sem eru jákvæðir hvað varðar hvatningu fullorðinna nemenda en ekki síður um þá eiginleika sem gera kennurum erfitt fyrir að vekja upp hvata nemenda.

Bókin

Um er að ræða þriðju útgáfu bókarinnar og hafa þó nokkrar breytingar verið gerðar frá fyrri útgáfu frá árinu 1999. Wlodkowski tekur það fram að hann hafi fengið ábendingar frá lesendum og fræðimönnum um sjónarhorn sem myndi bæta umfjöllun hans og leiðbeiningar um hvata fullorðinna námsmanna. Það sem er því ólíkt í þessari þriðju útgáfu bókarinnar frá fyrri útgáfum er umfjöllun hans um taugafræðilegan (e. neuroscientific) skilning á hvata og að auki sérstaka leiðbeinandi umfjöllun um menningarlegan mun fullorðinna námsmanna og áhrif tungumálsins.

Bókin skiptist í níu kafla og hefur Wlodkowski bók sína á umfjöllun á almennum nótum um ólíka nálgun fræðanna á hvata (e. motivation) s.s. frá sjónarhorni félagsvísindanna og líffræðinnar. Til þess að geta gefið leiðbeinandi upplýsingar um leiðir til að hvetja fullorðna í námi er skiljanlegt og að mínu mati nauðsynlegt að lesandinn geri sér grein fyrir hugmyndum og kenningum um hvað „hvati“ og „hvatning“ í raun þýðir. Höfundinum tekst vel til að koma á framfæri hversu óskýrar og ólíkar hugmyndir eru um hvað hvati í rauninni er, þar sem um er að ræða eitthvað sem ekki er hægt að mæla, snerta eða sjá. Ástæða þess að Wlodkowski fjallar sérstaklega um hvata er að við þurfum að vita hvers vegna fólk hegðar sér eins og það gerir til að geta hjálpað því að læra auk þess sem hvati eða áhugi er sá þáttur sem ýtir undir námssókn.  Það ekki er hægt að skilja að umræðu um nám og hvata.

Fyrsti kafli bókarinnar fjallar um nám fullorðinna og hvata frá sjónarhorni líffræðinnar þ.e. hvernig starfsemi heilans hefur áhrif á áhuga fólks á námi. Wlodkowski fjallar um að það að læra eitthvað sé í raun langtíma breyting á taugafrumuneti (e. neuronal networks) í heila okkar. Þegar fullorðnir læra eitthvað nýtt byggja þeir ofan á eða gera breytingar á fyrirliggjandi neti sem þeir höfðu þróað í gegnum fyrri lærdóm (fyrri þekking þeirra). Höfundurinn tengir svo umfjöllun sína beint við kennarann, eða leiðbeinandann (e. instructor) og hlutverk hans, enda markmið hans að veita hagnýtar upplýsingar til þeirra sem starfa við fullorðinsfræðslu. Hvað varðar líffræðilegu hlið hvata bendir hann á að leiðbeinendur geti ekki fjarlægt fyrirliggjandi taugafrumunet, þ.e. það er ekki hægt að fjarlægja fyrri þekkingu nemenda;

An instructor cannot remove the neuronal networks that exist in an adult learner’s brain. They are a physical entity. That is why, as instructors, we cannot simply explain something away, especially if it is a deeply held attitude or belief. Literally, another neuronal network has to take the place of the current attitude or belief. That biological development takes repetition, practice, and time (Wlodkowski, 2008: 11-12).

Líkt og fram kemur í textabrotinu að ofan, er ekki hægt að útskýra og kenna í burtu viðhorf með djúpar rætur og trú fólks. Menningarlegur bakgrunnur nemenda skiptir miklu máli og hvað samfélagið hefur kennt þeim en í kafla 2 fjallar Wlodkowski um það hvernig tungumál, trú, gildi og lífsstíll okkar í daglegu lífi hefur mikil áhrif á hvata okkar og áhuga auk aldurs og þroska. Þetta eykur þörfina á kennara sem leggur sig fram við að skilja bakgrunn og umhverfi nemenda til þess að geta haft áhrif á áhugahvöt þeirra. Wlodkowski tengir svo nánar umfjöllun sína við starf leiðbeinandans í 3.-4. kafla og fjallar þar um mikilvæg einkenni hvetjandi leiðbeinanda s.s. sérfræðiþekkingu, samkennd, eldmóð, skýrleika svo eitthvað sé nefnt. Þá veitir hann leiðbeinendum tékklista til að meta sig og kennslu sína eftir þessum hvetjandi eiginleikum og fjallar um þær aðstæður sem æskilegar eru til að auka áhuga fullorðinna á því að læra. Þær aðstæður eru samkvæmt Wlodkowski (2008: 116-117);

 1. Að skapa andrúmsloft þátttöku ( establishing inclusion) þar sem nemendum finnst þeir virtir og að þeir tengist öðrum í hóp.
 2. Að skapa viðhorf (e. developing attitude) þ.e. jákvæð viðhorf gagnvart náminu með tengingu námsefnis við einstaklinginn og markmið hans
 3. Að auka merkingu námsefnis í hugum nemenda ( enhancing meaning) með því að skapa virkjandi og krefjandi reynslu sem tekur tillit til viðhorfa og gilda nemendanna.
 4. Að Virkja hæfni (e. engendering competence) nemenda á þann hátt að þeir upplifi að þeir hafi öðlast verðmæta hæfni sem gagnast þeim í raunveruleikanum.

Þá veitir Wlodkowski lesandanum áætlun til hvetjandi kennslu og kennsluumhverfis í köflum  5-8 þar sem hann veitir hagnýtar leiðbeiningar til leiðbeinenda. Í heildina veitir hann sextíu aðferðir við að auka áhuga og hvata fullorðinna nemenda s.s. hvernig má þróa jákvæð viðhorf, hvernig má virkja nemendur og viðhalda áhuga þeirra og hvernig er best að halda athygli nemenda í kennslustofunni. Wlodkowski endar bók sína á níunda kafla þar sem hann dregur saman allar sextíu aðferðir til hvatningar í töflu og fjallar um hvernig má innleiða þær beint inn í skipulag kennslu og í sjálfa kennsluna. Þess til stuðnings má hér sjá verkefni sem Wlodkowski kýs að leggja fyrir nemendur sína þar sem þeir eru látnir meta sjálfir hversu vel áfanginn (eða vinnustofan) er að uppfylla skilyrðin fyrir hvetjandi aðstæður í kennslunni og kennslustofunni sem fjallað er um hér að undan.

screen-shot-2016-11-09-at-22-17-53

Wlodkowski, 2008 :426

Bókadómur

Markmið bókarinnar er að veita leiðbeinendum hagnýtar upplýsingar og aðferðir til kennslu sem geta aukið áhuga og hvata fullorðinna til að læra. Eins og áður hefur komið fram er um að ræða þriðju útgáfu bókarinnar sem gerir það að verkum að hún hefur verið í sífelldri vinnslu og þróun. Upplýsingar Wlodkowski og leiðbeiningar til kennara ættu því síður að vera úreltar í síbreytilegum samfélögum og námsumhverfum. Að því sögðu vil ég benda á að margar þeirra aðferða sem Wlodkowski veitir henta ekki við fjárnámskennslu þar sem áherslan er á andrúmsloft kennslustofunnar og bein samskipti leiðbeinenda og nemenda, þó má færa rök fyrir því að hægt sé að yfirfæra eitthvað af aðferðunum yfir á kennsluumhverfi á vefnum t.d. verkefnið sem vísað er í hér á undan þar sem nemendur meta hversu hvetjandi aðstæður eru í áfanganum, en öll atriði listans má færa yfir á fjarnámskennslu.

Helsti kostur bókarinnar er að hún er ekki of fræðileg eða torlesin. Ekki er þörf að hafa sérfræðiþekkingu á flóknum hugtökum til þess að bókin nýtist leiðbeinendum í fullorðinsfræðslu, þó að undanskildum upphafskaflanum um starfsemi heilans. Þó svo að umfjöllun um starfsemi heilans og áhrif á hvata sé áhugaverð náði höfundur að tapa mér sem lesanda í of flókum útlistingum á ólíkum svæðum heilans og starfsemi þeirra. Wlodkowski gerir þó það sem hann ætlar sér með bókinni, hann veitir sannarlega hagnýtar upplýsingar sem flétta má beint inn í kennslu. Þá liggur helsti styrkleiki bókarinnar í skýrt uppsettum töflum, tékklistum og gátlistum sem ætlað er að  hjálpa leiðbeinendum við að fella aðferðir hans að sínum eigin kennslustundum. Með því að vísa í margar og fjölbreyttar greinar, bækur og rannsóknir tengdum fullorðnum námsmönnum, hlutverkum kennara, hvata og áhuga, og menningarlegum- og efnahagslegum áhrifum á kennslu fullorðinna svo eitthvað sé nefnt, tekst Wlodkowski að gefa skrifum sínum trúverðugleika að mínu mati.

Á heildina litið er um að ræða áhugaverða, aðgengilega og hagnýta bók sem getur nýst öllum þeim sem hafa áhuga á og starfa við fullorðinsfræðslu auk þess að hún getur einnig nýst sem gott tól fyrir stjórnendur sem vilja hafa áhrif á áhuga og hvata starfsfólks á vinnustað. 

Heimildir

Wlodkowski, R.J. (2008). Enhancing adult motivation to learn: A comprehensive guide for teaching all adults, 3rd ed.. San Francisco: Jossey Bass.

Wlodkowski, R.J. (á.á.). Dr. Raymond Wlodkowski, PhD. Skoðað 6. nóvember 2016 á: http://www.raymondwlodkowski.com/

Að auki var stuðst við eftirfarandi gömlu og góðu grein um skrif bókadóma:

Hammett, H.B. (1974). How to Write a Book Review: A Guide for Students. Social Studies 65(6), 263-265.

Þjónustuverkefni

Stjórna útsendingu og upptöku á kennslustund

Ég tók að mér að stjórna útsendingu og upptöku á kennslustund í námskeiðinu miðvikudaginn 12. október þegar við fengum gestafyrirlesara, hann Jón Torfa Jónasson í heimsókn til okkar. Aldrei áður hafði ég tekið að mér verkefni í þessum stíl og þó svo ég telji mig tæknivædda á ákveðnum sviðum, þá er ég sömuleiðis ekki tæknivædd á öðrum sviðum. Hið síðarnefnda á einmitt við þegar kemur að upptökum og fjarfundabúnaði. Mér þótti því tilvalið að stíga út fyrir þægindaramma minn og taka að mér verkefni sem myndi reynast mér krefjandi. Sérstaklega í ljósi þess að mig langar að geta gert mínar eigin upptökur og notað þessa tegund af tækni í kennslu, námskeiðshaldi og í fræðslu, jafnvel óformlegri fræðslu.

Myndthjonustuverkefni2

Til undirbúnings fyrir þetta verkefni þarf að gera eftirfarandi:

 • Það fyrsta sem þarf að gera er að kynna sér þessar leiðbeiningar frá Menntasmiðju Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
 • Kennarinn, í mínu tilfelli Hróbjartur, þurfti að gera mig að fundarstjóra í fundarherberginu sem notað er til þess að halda veffundi og taka upp kennslustundir og staðlotur. Það var gert þannig að ég fékk ákveðnar upplýsingar frá Hróbjarti um skráningu inn í fundarherbergið sem ég fylgdi og hann bætti mér við sem fundarstjóra (host). Við það fær maður önnur réttindi inn í fundarherberginu eins og það að geta slökkt og kveikt á upptöku.
 • Eftir að Hróbjartur var búinn að staðfesta það að ég væri orðin fundarstjóri þá fór ég aftur inn í fundarherbergið til þess að athuga hvort ég gæti opnað það og allt gekk eftir í þeim efnum.
 • Vera með HÍ aðgangsorðið sitt alveg á hreinu til þess að geta skráð sig inn í tölvu í skólanum.

Mér fannst mjög mikilvægt að vera búin að öllu þessu fyrir kennslustundina sjálfa.

Kennslustundin hófst klukkan 14:30 hjá okkur og ég mætti hálftíma fyrr. Þar sem ég hafði ekki áður skráð mig inn í tölvu í kennslustofunni þá tók það smá tíma. Það sem gerðist eftir að ég var skráð inn í tölvuna er að forrit fyrir myndavélina og hljóðnemann ræsti sig sjálfkrafa. Ég velti því ekkert sérstaklega fyrir mér og opnaði vafrann „Crome“ til þess að fara inn í fundarherbergið. Allt gekk vel og ég gat opnað fundarherbergið okkar. Þegar ég ætlaði að prófa myndavélina og hljóðið þá gerðist ekkert annað en að mér birtist svartur skjár. Til þess að byrja með reyndi ég út frá þeim leiðbeiningum sem ég hafði undir höndunum að leysa þetta vandamál, en mér tókst það ekki. Samnemendur mínir komu mér til aðstoðar, en ekkert gekk. Við kölluðum því til tæknimanns sem kom fljótt. Vandamálið lá í því að þetta forrit sem hafði ræst sig í upphafi hafði áhrif á það að mynd og hljóð virkaði ekki í fundarherberginu. Um leið og ég slökkti á þessu forriti þá virkaði mynd og hljóð um leið.

Tíminn var hafinn og enginn kominn í fundarherbergið. Í fyrstu hélt ég að eitthvað hefði klikkað í ferlinu og að samnemendur mínir kæmust ekki inn í rétta fundarherherbergið. Til þess að athuga það þá skráði samnemandi minn sem var mættur í tímann sig inn í kerfið og birtist um leið. Það var því ekkert til fyrirstöðu annað en að hefja tímann með því að kveikja á upptöku.

myndthjonustuverkefni

Ef ég ætti að gefa góð ráð til þeirra sem taka sambærilegt verkefni að sér, þá mæli ég með því að hafa nokkurs konar kynningu í upphafi um leið og búið er að kveikja á upptökunni. Bjóða hlustendur velkomna og segja þeim um hvað tíminn snýst og hver muni stjórna tímanum. Í lokin þakka fyrir tímann og kveðja!

Það var ætlun mín að setja aðra myndavél upp, í fartölvunni minni, en mér tókst það ekki á þessum tíma sem ég hafði. Til þess að byrja með þá sat ég með samnemendum mínum í stofunni. En færði mig svo yfir að skrifborðinu þegar fyrsti samnemandi okkar kom í fundarherbergið. Það auðveldaði mér að fylgjast með fundarherberginu og svara á umræðuvefnum. Ég tók tillit til óska þeirra sem voru í fundarherberginu upp á það hvernig þátttakendur sátu í stofunni, hvaða sjónarhorn var á myndavélinni og passaði vel myndthjonustuverkefni3upp á hljóðið. Það skiptir svo miklu máli að hafa gott hljóð. Allt þetta hefði ég getað gert úr sæti mínu ef ég hefði náð að setja upp fartölvuna mína, þannig að ég mæli með því!

Reynsla og upplifun mín af þessu verkefni var jákvæð og góð. Ég hvet nemendur á námskeiðinu til þess að taka verkefni af þessu tagi að sér!

Verkefnin mín

Bændur taka inn uppskeruna, eftir flæmska listamanninn crops, by Pieter Brueghel, 17. öld
Bændur taka inn uppskeruna, eftir flæmska listamanninn Pieter Brueghel, 17. öld

Nú eru allir á fullu að vinna verkefni, og ég var búinn að nefna það að það væri sniðugt að skrá verkefnin á einum stað. Til að taka af allan vafa, þá er það hér. Vinsamlega skráið verkefnin sem þið ætlið að vinna á námskeiðinu hér. Hafið sérstaklega samband við kennarann ef þið ætlið að nota miðvikudagsfund til að kynna þema, kenningu eða annað verkefni. Flottast væri að kynningin væri tekin upp fyrst, eins og t.d. með Office Mix , sett í bloggfærslu hér á vefinn og svo ræðum við um hana á fundinum (sbr. leiðbeiningar um verkefnin)

til upprifjunar eru hér leiðbeiningar um

Sjá annars í lýsingu á námskeiðinu

Notaðu athugasemdareitinn hér fyrir neðan til að skrá verkefnin þín.  ATH Þú getur alltaf breytt færslunni. (edit)

Með þessu mót verður til listi hér fyrir neðan:  Á einum stað verður til yfirlit yfir öll verkefnin sem þið ætlið að vinna 😉

Það er möguleiki að kynna verkefni á næstu fundum:
Flottast væri að taka kynningarnar upp og setja þær hingað á vefinn og nota svo fundina í umræður UM kynningarnar… þannig fáum við meiri tíma í umræður. Ég mæli með Office Mix til að taka upp kynningar

 • 2. nóvember
 • 9. november
 • 16. nóvember
 • 23. nóvember (Hróbjartur er upptekinn til rúmlega þrju þennan dag… Kanski við gætum byrjað seinna??? t.d. kl. 15:30)

Verkefni: Hvar læra fullorðnir á Íslandi?

Skrifum saman Wiki

Eitt markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur skapi sér yfirlit yfir sviðið sem hugtakið „Nám Fullorðinna“ dekkar. Spurningar eins og: „Hvar læra fullorðnir?“, „Hvar er boðið uppá nám fyrir fullorðna?“, „Hverjir bjóða upp á nám og námskeið fyrir fullorðna?“ og …. „Hvers vegna?“ gætu eðlilega skotið upp kollinum.

Fyrsta sameiginlega verkefni okkar gengur einmitt út á það að þið hjálpist að við það að finna út hvar fullorðnir læra og hverjir bjóða upp á nám fyrir fullorðna, sem sagt að kortleggja vettvanginn.  Þið njótið góðs af vinnu forvera ykkar, því í hitteðfyrra byrjuðu nemendur á sama verkefni og það liggur hálfnað hér á vefnum…

Þið finnið á vefnum svo kallaðar Wiki síður þar sem allir geta skrifað á sömu síðuna og breytt henni. Og málið er að prófa sig áfram með að skrá inn það sem ykkur dettur í hug, næsti kemur, bætir við, færir til, lagar, leiðréttir, o.s.frv. þangað til við erum komin með mynd sem okkur líst nokkurnvegin á.

Á staðlotunni munum við svo taka þessa mynd fyrir og vinna áfram með hana.

Notið netið og aðra miðla til að finna út allt sem þið getið um fullorðinsfræðslugeirann á Íslandi, og skráið ykkar niðurstöður hér: http://fullordnir.namfullordinna.is/wiki/simenntunargeirinn/

M.Ed. ritgerð Ingu Karlsdóttur

Endursögn og umsögn um M.Ed. ritgerð Ingu Karlsdóttur frá 2009.

Heiti ritgerðar: Nám fullorðinna kvenna með litla grunnmenntun

Hvaða gildi hefur nám á skrifstofubraut I í Menntaskólanum í Kópavogi haft fyrirnemendur brautarinnar?

Bein tilvitnun úr ritgerð:
„Undir spurningar eru: a) Hvað hafði neminn fengist við áður en hann hóf nám á skrifstofubrautinni?  b) Hvað hafði námið í för með sér?
Gögnum var safnað með viðtölum við tíu brautskráðar konur auk þesssem 40 símaviðtöl, einnig við konur áttu sér stað og óformleg rannsókn var gerð á vettvangi. Að lokum var rannsókn mín borin saman við rannsókn Fay C. MacMillan, A Qualitative Study of Adult Woman in a Northeast Tennessee Community College sem gerð varárið 2003. MacMillanskoðaði hvað hefði orðið kvenkyns nemendum hvati til þess að snúa aftur í nám og hvort eitthvað væri einkennandi fyrir þá með það fyrir augum að upplýsingarnar gætu nýst viðkomandi framhaldsskóla.
Niðurstöður sýna að langflestir snúa aftur í skóla af atvinnutengdum ástæðum, þó sumir komi með það fyrir augum að styrkja sjálfsmyndina. Þátttakendur töluðu um hversu óöruggir þeir hefðu verið í upphafi námstímans og hvernig þeir hefðu smátt og smátt náð tökum á öllu því nýja sem þeim var ætlað að meðtaka. Áður en námið hófst höfðu konurnar verið heimavinnandi, unnið með börn eða verið í verslunarstörfum en eftir að námi lauk urðu breytingar á þar sem margar fóru að vinna á skrifstofu eða héldu áfram í skóla. Þær voru jákvæðar í garð Menntaskólans í Kópavogi og sögðu að námið veitti frekari atvinnumöguleika, efldi sjálfstraustið og væri góður grunnur fyrir konur í þeirra stöðu.”

Kafli 2 er um fræðilegt samhengi rannsóknarinnar og byrjað er á umfjöllun um sögu fullorðinsfræðslu.  Stiklað er á stóru í samantekinni og þar kemur margt fróðlegt fram en ég sakna þess að ekki er komið inn á fullorðinsfræðslu á landsbyggðinni en margt nefnt af höfðu7borgarsvæðinu og það rætt eins og það eig við um landið allt.  Síðan er fjallað um fullorðinsfræðslu almennt, rannsóknir og kenningar fræðimanna á því sviði.  .  Fín samantekt en ég sakna Illeris úr þeirri umfjöllun.  Sérstök áhersla er á hvata til náms og hindranir, fróðlegt yfirlit.

Kafli 3 fjallar um Skrifstofubraut I í Menntaskólanum í Kópavogi.  Áhugvert er að lesa frásögnina af því að nám sem fyrst var ætlað nemendum á framhaldsskólaaldri varð að nám fyrir 20 ára og eldri vegna krafna eða eftirspurnar frá vinnumarkaðnum.  Einnig er áhugvert að lesa um hvernig unnið er markviss með fullorðnum námsmönnum á þeirra forsendum.

Kafli 4 fjallar um aðferðafræði sem einkum viðtöl og vettvangsathugun.

Kafli 5 er um niðurstöður.  Fyrst er fjallað um tíu viðtöl og síða um 40 símaviðtöl

Tíu viðtöl:  Atvinnutengdar ástæður hjá fyrir flestum fyrir því að þær ákváðu að hefja nám eða um 80%.  Í því samhengi hefði umfjöllun um Illeris komið sér vel.  Einnig í umfjöllun um að þær vilji styrkja sig persónulega sem var 10%.  Um 60% fannst ekki erfitt að taka ákvörðun um að setjast aftur á skólabekk.  Viðfangsefni þátttakenda fyrir nám eru áhugaverð.  Um 40% voru heimavinnandi, 30% unnu á leikskóla, 10% dagmömmur, 10% í sjoppu og 10% við skrifstofustörf.  Það má túlka þetta þannig að það að fara frá vinnu á leikskóla í að fara að vinna á skrifstofu gerir kröfur á nám og bætir aðstæður viðkomandi.  Hvað segir þetta um menntun starfsmanna á leikskólum?  Er krafan um 5 ára háskólanám starfsfólks í leikskólum í einhverju samhengi við raunveruleikann?  Einnig er áhugavert hve lítinn stuðning þær upplifa frá fjölskyldu sinni og vinum til að hefja aftur nám, en um 40% er neikvæðir eða hlutlausir.  Um 20% upplifa síðan viðmót kennara ekki gott en 60% fannst það gott.  Viðmót nemenda heldur betra, 10% og 70%.  Spurt var um gagnsemi einstakra greina og þá kemur í ljós að það sem talið er hagnýtar greinar eins og viðskiptaenska, tollskýrslugerð og skjalastjórnun eru nefndar sem greinar sem koma að litlu gagni en íslenska og stærðfræði eru nefndar sem hagnýtar greinar; áhugavert.  Sex af tíu fóru að vinna á skrifstofu og fjórar fóru í meira nám.

40 símaviðtöl:  Um 87 atvinnutengdar ástæður fyrir því að hefja nám.  Um 70% sögðu auðvelt að hefja nám.  Um fjórðungur heimavinnandi, annar fjórðungur í leikskóla og sama hlutfall í sjoppu fyrir nám.  Um 30% neikvæðni úr þeirra félaglega umhverfi og 60% jákvæðni.  Um 85% gott viðmót frá kennurum og svipað frá öðrum nemendum.  Svipuð niðurstaða gagnvart gagnsemi greina og í hinum viðtölunum tíu.  Um 50% fóru að vinna á skrifstofu að námi loknu og um 15% í frekara nám.

Í Kafla 6 eru umræður.  Þessi kafli olli mér vonbrigðum.  Mér fannst of mikið verðið að vitna í fræðimenn og rannsóknir án þess að tengja þá umræðu við rannsóknina með skýrum og afgerandi hætti.

Í kafla 7 eru lokaorðin.  Þar er meðal annars rætt um neikvæðni sem nemendur upplifa frá fjölskyldu og vinum sem mér finnst ein áhugaverðasta niðurstaðan.  Einnig er rætt um þær greinar sem að mati nemenda eru minnst gagnlegar sem einnig er áhugaverð niðurstaða.

Ég mæli með því að allir sem hafa áhuga á fullorðinsfræðslu í framhaldsskólum lesi þessa ritgerð Ingu Karlsdóttur. 

Að leggja allt undir. Kynning á grein

Gambling for capital: Learning disability, inclusive research and collaborative life histories

Guðrún Benjamínsdóttir

Ég ætla að kynna grein um samvinnurannsóknir og lífssögur, en í fimmta, sjötta og áttunda kafla bókarinnar Learning in adulthood er aðeins komið inn á hvort tveggja, en hvort fyrir sig. Umfjöllunarefni greinarinnar sameinar þetta tvennt, en hún fjallar um samvinnu höfundanna, tveggja kvenna, háskólanámsmanns annars vegar og konu með þroskahömlun hins vegar. Þessar tvær konur eru íslenskar og heita Kristín Björnsdóttir og Aileen Soffía Svensdóttir, en greinin er skrifuð á ensku og var birt í British journal of learning disabilities.

Í greininni leggja höfundar áherslu á mikilvægi þess að fólk með þroskahömlun taki þátt í samvinnurannsóknum og fái þar með tækifæri til að segja lífssögu sína og að það geti hjálpað öðrum, hvort sem það er fólk með þroskahömlun, fagfólk eða rannsakendur. Þær segja frá sinni rannsókn og ýmsum hliðum á henni.

Samtök fatlaðs fólks hefur lagt áherslu á mikilvægi valdajafnvægis milli fatlaðra og ófatlaðra rannsakenda, þannig að samvinnan og eignarréttur yfir rannsókninni sé jafn. Það er þó ekki alltaf hægt að hafa þetta valdajafnvægi fullkomið, eins og í tilfelli Kristínar og Aileen, þá var rannsókn þeirra hluti af stærri rannsókn sem var undirstaðan í doktorsritgerð Kristínar. Þær þurftu því að hlíta þeim reglum sem gilda um doktorsrannsóknir, meðal annars að Kristín má ein vera höfundur að þeirri rannsókn og hefur því eignarréttinn yfir rannsókninni, en þær hafa gert sitt besta til að hafa umtalað valdajafnvægi sem mest, meðal annars með því að semja saman greinar um rannsóknina,  sem birtar eru í fagtímaritum, þær hafa farið saman á ráðstefnur og málþing hérlendis sem erlendis og þar eru þær ætíð meðhöfundar og hlutur hvorrar um sig ekki meiri en hinnar.

Þessi grein fjallar um samvinnurannsóknir og samvinnu Kristínar og Aileen en ekki um niðurstöður rannsóknarinnar sem slíkrar. Þar er meðal annars vitnað í ýmsa fræðimenn sem fjallað hafa um samvinnurannsóknir. Þar er gerður greinarmunur á mismunandi tegundum samvinnurannsókna, þar með taldar eru svokallaðar Emancipatory eða frelsandi rannsóknir þar sem fatlað fólk er í lykilhlutverki og stjórnar rannsóknum sem eiga að gagnast stórum hópi fatlaðs fólks og samtökum þess og oft framkvæmdar af samtökum. Participatory eða þátttökurannsóknir snúast um samvinnu einstaklinga fremur en samtaka. Svo eru svokallaðar inclusive rannsóknir sem hafa einfaldlega verið kallaðar samvinnurannsóknir, en þær snúast um að fólk með þroskahömlun er meðrannsakendur með fræðimönnum eða háskólastúdentum og öðlast þar með vel metið hlutverk sem meðrannsakaendur.

Í greininni er vitnað í Walmsley og Johnson sem hafa sett fram viðmiðanir um hvernig samvinnurannsóknir sem fólk með þroskahömlun tekur þátt í  skulu fara fram og skipta þeim í fimm meginreglur.

Í fyrsta lagi ætti fólk með þroskahömlun að eiga rannsóknina en hún má vera gerð að frumkvæði ófatlaðs rannsakanda.

Í öðru lagi ætti rannsóknin að efla og styrkja hagsmuni fólks með þroskahömlun og ófötluðu rannsakendurnir ættu að vera bandamenn þess.

Í þriðja lagi ætti fólk með þroskahömlun að vera þátttakendur í öllu rannsóknarferlinu.

Í fjórða lagi ætti fólk með þroskahömlun að hafa einhver áhrif á rannsóknarferlið og niðurstöður þess.

Í fimmta lagi ætti rannsóknarspurningin, rannsóknarferlið og rannsóknarskýrslur að vera aðgengilegar fólki með þroskahömlun.

Kristín og Aileen reyndu að uppfylla þessar meginreglur eins og hægt var en voru samt sem áður bundnar af þeim reglum og kröfum sem gerðar eru til doktorsrannsókna, því eins og áður sagði var rannsókn Kristínar og Aileen hluti af stærri doktorsrannsókn Kristínar, sem byggir á sex lífssögum fólks með þroskahömlun. Þátttakendur tóku mis mikinn þátt í rannsókninni, aðeins Aileen og einn annar þátttakandi voru virkir meðrannsakendur. Fólkið hafði val um hversu mikinn þátt það tók, sumir veittu aðeins viðtöl meðan aðrir, eins og Aileen tók virkan þátt í að vinna úr viðtölum Kristínar við sig, skipta þeim upp í þemu og hvernig saga hennar var framsett. Hlutverk Kristínar í því ferli umfram Aileen var að tengja lífssögu hennar við fræðilega umfjöllun, í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til doktorsrannsókna.

Lífssögurannsóknir eru tiltölulega nýjar af nálinni á Íslandi, en þó hafa nokkrar rannsóknir verið gerðar með fólki með þroskahömlun. Þær varpa ljósi á mismunandi reynslu fólks sem sumt hefur meðal annars verið vistað á stofnunum og búið við undirokun stóran part af lífi sínu. Talað hefur verið um að rannsóknir sem þessar geti verið valdeflandi fyrir hópa sem hafa þurft að þola kúgun og að það að fá að segja frá reynslu sinni breyti upplifun þess af fortíðinni og að það upplifi sig frekar sigurvegara eða eftirlifendur en fórnarlömb, þegar upp er staðið. Þó ber að varast að nota hugtakið valdeflingu í þeim skilningi að ófatlaði rannsakandinn valdefli hinn með því að leyfa honum að vera með í rannsókninni, þannig setur það hann í hlutverk passífs viðtakanda valdeflingarinnar og rannsóknarviðfangs. Frekar ber að líta svo á að valdeflingin eigi sér stað innra með þátttakandanum í rannsóknarferlinu og jafnvel áður en það hefst. Valdeflingin er heldur ekki einungis bundin við þátttakendur rannsókna, heldur geta samvinnurannsóknir ýtt undir valdeflandi rannsóknaraðferðir.

Aileen hefur aldrei verið vistuð á stofnun, en það þýðir ekki að líf hennar hafi ekki verið viðburðaríkt og fullt af hindrunum sem hún hefur þurft að komast yfir, svo sem félagsleg útskúfun og kúgun, en í dag er hún það sem er á ensku kallað „self-advocate“ sem merkir að vera sinn eigin talsmaður og taka sjálf ákvarðanir um líf sitt. Hún býr sjálfstætt og vinnur á almennum vinnumarkaði. Hún var, þegar rannsóknin var gerð, varaformaður í Átaki, félagi fólks með þroskahömlun, sem er svokallaður sjálfsákvörðunarhópur (e. self-advocacy group). Öll þessi vel metnu hlutverk öðlaðist hún áður en hún tók þátt í rannsókninni, þannig að það er ekki hægt að segja að það að taka þátt í rannsókninni hafi valdeflt hana heldur þessir jákvæðu þættir í lífi hennar.

Að lokum setja Kristín og Aileen rannsókn sína í samhengi við félagslegar kenningar Bourdieus um menningarauð (cultural capital). Það er mismunandi eftir þjóðfélagshópum hvað telst vera menningarauður, það er það sem haft er í hávegum í hverjum hóp fyrir sig og verða sumir hópar undir á hinum ýmsa vettvangi. Til dæmis verður fólk með þroskahömlun undir á mjög mörgum vettvöngum, meira að segja meðal annars fatlaðs fólks. Það kom svo berlega í ljós á einni ráðstefnu sem þær stöllur sóttu og tóku þátt í á breskri grundu. Þar hélt frummælandi því fram að fötlunarrannsóknir ættu aðeins að vera framkvæmdar af fötluðu fólki og var það ekki í fyrsta skipti sem þær höfðu heyrt þessa fullyrðingu. Í þessum aðstæðum þótti þeim báðum þær skorta menningarauð, Kristín sem ófötluð kona efaðist um rétt sinn til að taka þátt sem ófatlaður rannsakandi og Aileen fannst þetta viðhorf takmarka möguleika fólks með þroskahömlun til að taka þátt í fötlunarrannsóknum. Fötlunarrannsóknir í Bretlandi eru skilgreindar eftir breska félagslega sjónarhorni á fötlun, sem hefur verið gagnrýnt fyrir að gera ekki ráð fyrir fólki með þroskahömlun. Fólk með þroskahömlun býr því ekki yfir þeim menningarauð sem viðurkenndur er af fötlunarfræðielítunni, til að öðlast eitthvað vald á þeim vettvangi, vegna skorts á aðgengi.

Undir lok greinarinnar segja þær stöllur skemmtilega frá því hvernig umræður þeirra um aðgengileika kynningar þeirra á ráðstefnunni fóru fram. Kristín talaði um að nota myndir og margmiðlunartækni fremur en ritað og talað mál en Aileen var hrædd um að ef þær gerðu það, yrðu þær ekki teknar alvarlega sem rannsakendur og jafnvel álitnar barnalegar og hafnaði því þeirri hugmynd. Þær notuðu því fræðilega viðurkennt mál, enda voru þær að keppast við að fá viðurkenningu og vald á félagslegum vettvangi fötlunarrannsókna og hámarka ávinninginn af því með því að fylgja þeim reglum, settum af þeim ráðandi hópi fólks sem ekki hafði fengið þroskahömlunarstimpil. Þær lögðu því allt undir til að öðlast menningarauð og styrkja þannig stöðu sína á vettvangi fötlunarrannsókna, en það er einmitt það sem titill greinarinnar fjallar um (Kristín Björnsdóttir og  Aileen Soffía Svensdóttir, 2008)

Þessi grein er hluti af efni sem ég ætla að nota í lokaritgerð þessa námskeiðs, en ég tel að samvinnurannsóknir og lífssögur eigi erindi til fleiri minnihlutahópa en fólks með þroskahömlun. Ég tel að hægt sé að nota þessar aðferðir með, til dæmis, nýbúum og að hægt sé að nota þessar aðferðir til að aðstoða fólk við eigin valdeflingu og að bæta sjálfsmat sitt og breyta lífssýn sinni og tel það geta fallið undir kenningar um umbreytinganám. Ég mun koma betur inn á það í lokaritgerðinni.

 

Heimild:

Kristín Björnsdóttir og Aileen Soffía Svensdóttir. (2008). Gambling for capital: Learning disability, inclusive research and collaborative life histories. British Journal of Learning Disabilities, 36(4), 263-270.  af http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/j.1468-3156.2008.00499.x/pdf

Knud Illeris

Er kominn með í hendurnar bók Illeris sem heitir Adult Education and adult learning.  Ég hlakka til að lesa bókina og mun gera ykkur grein fyrir því sem mér finnst markverðast í henni.  Vonandi bæði með einstaka stuttum innskotum á vefinn okkar og með ítarlegri heildarkynningu.  Hef þó ekki séð hvort einhver annar ætlar sér að lesa og kynna þessa bók en væri gott að fá að vita það ef svo er.  🙂

Heimurinn er flatur! | namfullordinna.is

Flat Earth eftir fellmekke.deviantart.com CC BY-NC-ND

Eitt fyrst a þema námskeiðsins kalla ég „Samfélag“ það snýst um samfélagslega merkingu og þýðingu náms fullorðinna. Til að byrja að pæla í því efni bið ég ykkur um að lesa þennan póst:

Heimurinn er flatur! | namfullordinna.is.

og snúa svoa aftur hingað og svara spurningunni sem ég varpaði fram…

Ætli hnattvæðingin hafi áhrif á Ísland, íslendinga og það sem íslendingar þurfa að kunna, geta og vilja?

Ræðum spurninguna hér frekar en á aðal vefnum 😉

Skemmtilegt námskeið

Govanhill photoshoot at the Arches, Glasgow: Laughing
Eitt af því sem ég geri oft þegar ég byrja námskeið að spyrja þátttakendur hvernig þeir vilji að námskeiðið verði…

Svarið sem kemur oftast fyrir er „Skemmtilegt„!
…svo ræðum við um það, hvað  skemmtilegt námskeið er…

Hér er kanski auðveldara verkefni en þau sem þegar eru komin…

Segðu okkur frá skemmtilegu námskeiði sem þú hefur einhvern tíman verið á og af hverju það var skemmtilegt. Prófaðu svo að bregðast við einhverjum samnemanda þínum sem hefur svipaða eða mjög ólíka upplifun…

Svaraðu með því að nota athugasemdakerfið: „Leave a Comment“