„Solar Mamas – Why Poverty?“


Hér er dæmi um fullorðinsfræðslu sem leið til valdeflingar og sem leið til að styrkja samfélagið. Horfið á þessa mynd (58 min) og notið það sem þið hafið lesið um hlutverk fullorðinsfræðslu í samfélaginu til að túlka það sem þið sjáið og profið að tenngja það við kenningar og íslenskar aðstæður.

ATH ég er að biðja um spjall ekkert alvarlegt 😉
það er ekki vitlaust að kíkja á Paolo Freire í atriðisorðaskrá bókanna eða á vefnum

Skrifið um þetta í athugasemdunum.

6 thoughts on “„Solar Mamas – Why Poverty?“”

 1. Það er ótrúlegt að geta tengt sig á einhvern hátt við konu sem býr við aðstæður sem eiga sér engan samanburð við veruleika sem ég Vestræna konan bý við. En samt hvatinn að vilja menna sig, vilja upplifa heiminn á annan hátt, þráin að verða eitthvað, vera börnum sínum fyrirmynd, koma þekkingunni áfram, valdefla aðra minnihlutahópa og geta séð fyrir fjölskyldu sinni. Þetta eru hvatir sem ég þekki, ásamt svo mörgum hér á Vesturlöndum.
  Það er sömuleiðis einstakt að fylgjast með ferlinu og sjá ávinninginn af menntuninni, aukið sjálfsöryggi og sjálfsvirðingu Rafeu. Hún hefur kjark til að segja skoðanir sínar og setja sjálfan sig í fyrsta sæti. Ótrúlega kjörkuð kona og eiginmaðurinn alveg á hinum endanum.
  Hvað varðar fullorðinsfræðsluna sem slíka þá er ég sammála því sem fram hefur komið hér í umræðunni. Hún á auðvitað ekkert skylt við íslenskan veruleika og má nánast gagnrýna allt sem fram fer í kennslustofunni út frá kennslufræðilegu sjónarhorni. En þrátt fyrir það taka þær þekkinguna með sér út í sinn raunveruleika. Magnað hreint út sagt!
  Ég var forvitin á að vita hvernig Rafaeu vegnaði en ég kafaði grunnt í þeirri leit minni en fann frétt þar sem fjallað var um Rafaeu í upphafi þessa árs. Hún starfar sem sagt við að mennta aðrar konur í sólarorkufræðum og er búin að koma upp sólarorku víða í þorpi sínu. Hér er linkur ef einhverjir vilja skoða þetta fréttamyndbrot: http://tek-think.com/2015/02/21/female-solar-energy-engineer-changing-lives-jordan/

 2. Frábærar pælingar hjá ykkur… við þurfum að skoða þetta nánar með það hvort þetta sé FULLORÐINSfræðsla. Vissulega er margt sem okkur finnst vanta uppá – amk. það sem við tengjum við það -að vera fulloðrinn. EN einn þáttturinn, að hafa fjárhagslega ábyrgð á sjálfum sér og heimili… er greinilega eitthvað sem Rafea hefur gert! Annað er að þetta ER sá heimur sem hún (og hinar konurnar lifa í) og að það ER að finna reisn í þessu samfélagi þótt við sjáum hana ekki í þessari svipmynd. Konur hafa til dæmis MJÖG mikil völd inni á heimili araba, sérstaklega þegar synirnir eru orðnir fullorðnir og fluttir inn með konur sínar og börn… þá er ættmóðirin valdamanneskja sem allir taka tillit til!
  Það er trúlega ástæðan fyrir því að Bunke Roy (upphafsmaður Barfuss skólanna) velur fullorðnar konur sem nemendur í skólana sína. – Ég held það sé mjög nauðsynlegt fyrir okkur -vesturlandabúa – að reikna með því að þegar við sjáum eitthvað til samfélaga í arabalöndunum eða öðrum framandi löndum að við sjáum bara eins og í gegnum skráargat… bara pínu lítinn hluta af „veruleikanum“ 🙂

 3. Um menntun. Í fyrsta lagi er áhugavert að sjá hversu mikil neikvæð áhrif samfélagslegir þættir hafa á menntun Rafea. Menntun kvenna er litin hornauga í mörgum múslimaríkjum, og margoft hefur áhugi kvenna á menntun kostað þær lífið. Barátta Malala fyrir aukinni menntun múslimakvenna hefur verið griðarlega mikilvæg hvað þetta varðar. Eitt sinn í skólanum segir Rafea „Við gætum allt eins verið heyrnarlausar“ enda kennslan á tungumáli sem þær skilja ekki. En það stoppar þær ekki. Á sex mánuðum ná þessar konur að tileinka sér helstu heiti á ensku bæði í ræðu og riti, vinna saman án þess að skilja hvor aðra og tileinka sér þá þekkingu sem skólinn býður þeim upp á. En er Rafea í rauninni fullorðinn nemandi? Hún byggir ekki á neinum öðrum námsgrunni og hefur enga reynslu úr atvinnulífi eða öðrum samfélagslegum ábyrgðarhlutverkum sem ekki tengjast uppeldi barna eða húsverkum, (ath. henni er ekki ætlað að vera utandyra). Hefði viljað sjá meira myndefni úr skólanum sjálfum. Er um fullorðinsfræðslu að ræða? Vissulega eru þær allar viljugar til að læra og gera sér vel grein fyrir tilgangi námsins og framtíðarmarkmiðum. En kennsluhættirnir sem voru mjög miðstýrðir gefa alls ekki til kynna að um fullorðinsfræðslu sé að ræða. En þetta virkaði og það er það sem skiptir máli. Pedagógísk Andragógía? 🙂

 4. Mér fannst fróðlegt að sjá hvað þessar konur þurfa að berjast við alla daga. Það eru aðstæðubundnar hindranir í hverju horni (P.Cross) Það er skynsamleg stefna að mennta konurnar, því þær koma til baka, kenna öðrum og sjá fyrir sér og sínum. Og að kenna þeim það sem er gagnlegt, (Dewey) það sýndi sig að þrátt fyrir að þær væru ekki allar læsar né skrifandi hvað hægt er að gera ef rétt er að hlutunum staðið. Rafea og hinar konurnar báru ábyrgð á allri fjölskyldunni og tóku hennar þarfir langt fram yfir sínar og hafa örugglega gert í aldir, en þegar þeim varð ljóst að þær gætu og mættu ýmislegt þá fór þeirra sjálvsvirðing og þörfin fyrir að uppfylla sínar þarfir að gera vart við sig (A. Maslow). Fólkið sem kenndi á námskeiðunum kom fram af virðingu við þessar lítt eða ekkert menntuðu konur (Knowles) og þær hjálpuðu hverri annari. Þegar Rafea vildi fara aftur þá vissi hún hvað hún gat og vildi og var tilbúin að sleppa karldruslunni, þó fyrr hefði nú verið. Það var gaman að sjá þegar líða tók á myndina hvað konurnar urðu afslappaðri, þær voru farnar að sleppa blæjunni og voru orðnar miklu frjálslegri í fasi. Mér fannst ég sjá hvað þær efldust mikið og sjálfstraust og trú á eigin getu varð áberandi.

 5. Mig langar að byrja á að ræða um aðstæður hennar og samanburð við íslenskar aðstæður. Rafea Jordan er þrítug, ólæs níu barna móðir og er 2. eiginkona eigimanns síns (sem er algjör aumingi). Hún býr í Manshiat al gayath sem er jórdanskt 300 manna eyðimerkurþorp þar sem er 100% atvinnuleysi. Heimili hennar er tjald án rafmagns og sér hún ein fyrir börnum sínum þar sem maður hennar býr hjá 1. eiginkonu sinni og sinnir þeim ekkert. Múslimskt karlaveldi er algjört í þorpinu. Henni býðst einstakt tækifæri á að mennta sig í sólarorkufræðum í Indlandi en mætir gríðarlegri andstöðu sinna heittelskuðu enda er menntun kvenna eftir 10 ára aldur álitinn fjölskylduskömm. Að loknu námi hjá Rafea vilja karlmenn þorpsins eigna sér allt sem hennar menntun viðkemur. EKKERT í þessari frásögn er nálægt því sem má finna í íslenskum raunveruleika nema þá það að auðvitað er hægt að finna íslenska karlmenn sem eru aumingjar. En þegar líður á myndina og í auknum mótbyr, fer sjálfstraust Rafea að aukast, ekki bara sem einstaklingur heldur sem sjálfstæð kona í bedúínsku múslimaumhverfi og því fer hún kannski hægt og rólega að upplifa þá sjálfsvirðingu sem íslenskar konur búa yfir.

Skildu eftir svar