Brotthvarf úr úr námi

Átaksverkefnið Nám er vinnandi vegur

 

Samhliða lestri á námskeiðinu þá hef ég velt aðeins fyrir mér brotthvarfi nemenda, hvað veldur og hverjir eru það sem hætta í skóla á framhaldsstigi. Þessi einstaklingar verða í kjölfarið fullorðnir námsmenn ef þeir hugnast að halda áfram námi síðar á ævinni. Ég rakst á grein eftir Ingu Guðrúnu Kristjánsdóttur í Gátt, ársriti um framhaldsfræðslu sem gefið er út af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Þar kemur hún inn á ástæður brotthvarfs og leiðir til að draga úr því, einnig segir hún frá átaki sem nefnist Nám er vinnandi vegur. Eins og fram kom í heimsókn okkar í Fræðslumiðstöðina þá er markmið stjórnvalda að lækka hlutfall fólks á aldrinum 20- 66 ára sem ekki hafa lokið formlegu námi á framhaldsstigi niður í 10% árið 2020, hlutfallið er í dag 30%. Átaksverkefnið Nám er vinnandi vegur er hluti af því markmiði. Leiðir til þess að ná markmiðinu eru m.a. að efla framhaldaskólann og opna hann, atvinnuleitendum gefið tækifæri á að mennta sig, efla starfstengt nám og skil milli framhaldskóla og fullorðinsfræðslu verði sveigjanlegri.

Í skýrslu OECD frá 2006 kemur fram að brotthvarf í framhaldsskólum á Íslandi er töluvert hærra en í öðrum OECD ríkjum, einnig kemur fram að menntunarstig landsmanna á aldrinum 25 – 64 ára er töluvert undir meðaltali. Í kjölfar skýrslunnar var stofnaður vinnuhópur sem átti að skilgreina styrkleika og veikleika menntakerfisins og stuðla að fækkun brotthvarfsnemenda. Takist að draga úr brotthvarfi þá skilar það sér beint til samfélagsins t.d. í sparnaði og uppbyggingu.

Margar ástæður geta legið að baki brotthvarfs og talað er um að það sem ferli en ekki stundarákvörðun nemandans. Þetta er flókið samspil margra þátta. Jón Torfi og Kristjana Stella rannsökuðu námsgegni og afstöðu til náms og í rannsókn þeirra kemur fram að fjórar algengustu ástæður brotthvarfs eru: i) námsleiði ii) boðið gott starf iii) fjárhagsvandi iv) heimilisaðstæður. Hlutfallið er hátt hjá báðum kynjum og hjá ólíkum aldurhópum. Þegar skoðaður er félagslegur þáttur þá er hlutfallið hærra hjá karlmönnum og hærra hjá hópum sem búa við lága fjárhags- og félagslega stöðu. Þegar Norðurlöndin eru skoðuð í skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar þá er talað um meginástæðan sé skuldbinding nemenda við nám sitt og að baki því liggja m.a. lélegur námsárangur í upphafi skólagöngu, skorti á félagsfærni og lítilli þátttöku á skólastarfi.

Átaksverkefnið Nám er vinnandi vegur var rannsóknarvinna Ingu Guðrúnar og byggðist m.a. á tillögum frá samráðshópi ráðuneyta og aðila vinnumarkaðarins. Þeir sem tóku þátt var fólk sem hætt höfðu námi, þeim síðan boðið að skrá sig í nám á framhaldsskólastigi á vegum átaksins. Eftir að átakinu lauk þá voru skoðaðar ástæður brotthvarfs þeirra sem hættu í miðju átaki. Um 1500 nemendur sem skráðir voru í nám á framhaldsskólastigi haustið 2011 tóku þátt í verkefninu. Hópurinn var tvískiptur,  annars vegar nemendur á skrá hjá Vinnumálastofnum og hins vegar nemendur á aldrinum 18 – 24 ára sem framhaldskólar innrituðu til viðbótar við hefðbundna nemendur. Skilgreina þurfti í upphafi hverjir þyrftu viðbótarstuðning til að sporna gegn brotthvarfi en leitað var leiða til að minnka líkur á brotthvarfi nemendanna. Hópurinn var fjölbreyttur og margir áttu að baki neikvæða reynslu í skólakerfinu allt frá grunnskóla og glímt við ýmsar hindranir í námi einnig voru dæmi þess að nemendur höfðu staðið sig vel í námi en hætt. Aldur þátttakendanna var frá 18 – 50 ára og var breiddin meiri í nemendahópi Vinnumálastofnunnar, karlar voru fleiri í verkefninu, rúm 58%.

Talsvert brotthvarf var á haustönn eða um 21%, fleiri hættu í námi sem komu úr nemendahópi 18-24 ára sem höfðu verið án skólavistar áður. Það dró úr brotthvarfi á vorönn og aðeins rúm 11% voru hættir í lok annar sem má teljast jákvæð þróun. Þegar borin eru saman bóknámsbrautir og starfsbrautir þá kom í ljós að brotthvarf á bóknámsbrautum var áberandi meira. Í viðtölum við nemendurna kom í ljós að ástæður voru margþættar og margar hindranir sem jafnvel voru samfelldar og höfðu haft einkennandi áhrif á alla skólagöngu þeirra, sem dæmi má nefna námsörðugleikar, líkamaleg- og andleg veikindi og félagslegur þáttur. Ástæðunum var skipt upp í 13 þætti og gat hver nemandi gefið upp fleiri en eina ástæðu brotthvarfs sem oft tengdust sín á milli.  Algengustu ástæður sem nemendur nefndu voru:

 • fjárhagsvandi
 • andleg veikindi
 • áhugaleysi eða hæfir ekki getu
 • námsörðugleikar
 • atvinna

Það vakti athygli hátt hlutfall þeirra sem hættu námi vegna andlegra veikinda sem gefur til kynna að nauðsynlegt er að bregðast við andlegri líðan brotthvarfsnema. Þegar skoðaðar eru niðurstöður á framtíðarsýn nemanna sem hættu námi þá eru þeir jákvæðir gagnvart áframhaldandi námi eða um 90%, hópurinn 18 -24 ára jákvæðari en hópurinn frá Vinnumálastofnum. Einnig má nefna að talsverður hópur stóð sig vel og sýndi góðan námsárangur og að tæp 8% luku námi að vori ýmist af starfsnáms- eða bóknámsbrautum.

Ég læt fylgja með slóð á greinina

http://www.frae.is/media/70377/15-Gatt_2013_web_052-058_839857129.pdf

3 thoughts on “Brotthvarf úr úr námi”

 1. Mér dettur í hug þegar ég les þetta hér að ofan að haustið 2011 gerði ég mjög svo óformlega og óvísindalega könnun á hve margir nemenda minna sem ég hafði haft með að gera fyrstu sex ár grunnskólans héldu áfram námi eftir 10 bekk.
  Um var að ræða 22 nemendur sem ég fékk til mín alla í 1.bekk grunnskóla og fylgdi eftir út 6.bekk eða á meðan þeir gátu sótt þann skóla sem ég starfaði þá í. Tímabilið náði yfir ca. tíu eða tólf ár…man ekki svo gjörla. Að loknum 6.bekk tók svo við annar hverfisskóli sem bauð upp á 7.-10.bekk. Allir þessir nemendur áttu það sameiginlegt að víkja á einn eða annan hátt frá því almenna í andlegum þroska en enginn þó þannig að hann teldist ekki náms-/skólatækur ef hægt er að komast svo að orði. Allir áttu það einnig sameiginlegt að þarfnast talsverðs daglegs stuðning í námi þó mismikinn og á mismunandi hátt. Allir höfðu fengið þennan stuðning fyrstu sex ár skólaævinnar en þegar kom að námi á eldri stigum var aðeins í boði sérkennsla í tilteknum námsgreinum en ekki stuðningur í uppákomum eða athöfnum daglegs lífs. Langflestir þeirra áttu það sameiginlegt að bæði þrífast og rekast illa innan skólans og eftir 10.bekk voru fjórtán af tuttugu og tveimur ákveðnir í að fara ekki meira í skóla. Hinir átta fóru í skemmri eða lengri tíma í framhaldsskóla, starfsbraut eða önnur úrræði.
  Ég hef hitt og fylgst lauslega með sex þessar átta og eitt segja þeir allir nokkuð svipað og það er að ef námið í framhaldsskólanum hefði verið álíka stuðningslaust og námið í efri bekkjum grunnskólans hefði þeir flosnað strax upp úr námi og engum þeirra dottið í hug að fara t.d. í starfstengt diplómanám í HÍ eða starfsnám í Borgarholtsskóla.
  Að ekki kom rof í skólagönguna eftir grunnskólann vildu sumir þeirra meina að hefði alfarið verið vegna þess að foreldrar þeirra fylgdu því fast eftir að svo yrði ekki og sáu til þess að þeir héldu áfram námi í framhaldsskóla og sumir hverjir í Háskóla.
  Það segir kannski mest að ekki fyrir svo ýkjalöngu hitti ég gamlan nemanda minn sem nú er kominn vel yfir tvítugt þegar ég ætlaði að ná mér í bók á Borgarbóksafninu. Ég var heldur betur kát að hitta þennan unga mann sem ég hafði ekki séð lengi og sagði: …ha ? …þú hér ?
  Viðbrögð hans voru: já, veistu … ég var orðin svo leiður á kerrunum í Bónus að ég fór bara í Háskólann og nú er ég að vinna við það sem mér finnst skemmtilegast af öllu…raða bókum á safninu.
  Yndislegt… ekki satt að…að ÖLLUM fullorðnum skuli bjóðast að mennta sig í samræmi við áhuga og getu ?

 2. Verkefnið þarft og gott framtak, en það sem kennarar vilja sjá meira af eru í raun haldbærar aðferðir til þess að takast á við þessar aðstæður sem um er rætt að séu að valda brotthvarfi. Margar rannsóknir sem ég er að lesa um brotthvarf tiltaka ástæður fyrir brotthvarfi. Þá koma þessar stóru spurningar eins og: Nemandi sem á við andleg veikindi að stríða, mætir mjög illa í skólann og hefur ekki orku/yfirsýn til þess að vinna heimavinnu vegna veikinda sinna, hvernig komumst við hjá því að hann falli og/eða hætti námi? Nemandi sem þjáist af kvíða og treystir sér ekki til þess að mæta í skólann, líður illa í stórum hópi, hvernig er hægt að leysa slíkt? Nemandi sem er áhugalaus og sér ekki tilgang með námi sínu, hvernig getur kennarinn glætt áhugann? Nemandi sem á við námserfiðleika að stríða, jafnvel fellur í áfanga, jafnvel oftar en einu sinni, hvernig á að sinna honum í stórum hópi nemenda? Hver á að bera ábyrgð á hverju? Hvaða stuðning hafa nemendur og hvaða stuðning hafa kennarar? Já, sammála þér Guðfinna. Þróunin er hröð og við verðum að bregðast við því, á marga vegu eins og við höfum rætt um í námskeiðinu. Þróun í tækni, efnahag, félagsmiðlum, samskiptum, vinnumenningu og fleira. Eins finnst mér mikilvægt að horfa til samfélagslegrar ábyrgðar. Þar sem finnst mér mikilvægt að við horfum til þess að æ fjölbreyttari hópur fólks er að ljúka námi, ekki gleyma því, og þeir þurfa að geta fengið atvinnu við hæfi að loknu námi, sem felst ekki endilega í því að vinna 100% vinnu. Með aukinni menntun, að við gerum kröfur um að fleiri mennti sig, og að tækifæri til þess að mennta sig eru orðin fleiri, felur í sér að við þurfum að geta tekið á móti þessu fólki á vinnumarkaðnum.

 3. þetta verkefni Nám er vinnandi vegur var aldeilis frábært. En það er með það eins og svo margt annað að eftirfylgni er ekki eins góða og þyrfti að vera og oft finnst mér farið af stað án fyrirheits. Mér er stundum hugsað til þess að oft er vel hugað að hinu almennaskólakerfi þ.e skipulögðu námi innan skóla. Þurfum við e,t,v, að fara að skoða það sem er að gerast í verk og starfsþróun úti á vinnumarkaðnum í atvinnulífinu. Þeir sem fara frá na´mi strax eftir grunnskóla vantar undirbúning undir lífið þósvo margir spjari sig en mitt mat er að það þarf að stykja þessa einstaklinga því samfélagið þarfnast þess bæði efnhagslega og félagslega að menntunarstigið sé gott. Svo skulum við ekki horfa fram hjá þeim hvata sem nú liggur fyrir og stykir mína skoðun á því að við þurfum að uppfæra einstaklinganna vegna breyttrar heimsmyndar. Vinnumenning og umhverfi eru í sífeldri þróun og tæknin breytist ört sem og störfin. þess vegna er mikilvægt að efla fullorðinsfræðslu

Skildu eftir svar