Ólíkir fullorðnir námsmenn

Þegar við söfnum saman hópi fólks í sama rými til að leiða námsferli með þeim hóp er það viðbúið að munurinn á forsendum fólks til náms sé gífurlega mikill. Tilraunir mínar með hópum hafa t.d. leitt í ljós að því eldri sem meðlimir hóps eru þeim mun ólíkar hugsa þeir innbirðis. Reynsla fólks í hópnum er ólík, venjur, námsaðferðir og forsendur þeirra til náms. Hér fyrir neðan eru aðeins nokkrir möguleikar settir á blað:

mismunur-i-nami

smelltu hér til að sækja myndina sem pdf skjal

Á myndinni má sjá nokkra áherslu á ólíka námsstíla eða námsnálganir (Learning styles) en það er eitt sjónarhorn til að skoða það hvernig fólk nálgast nám á ólíkan hátt.  Þær hugmyndir hafa haft mikil áhrif  kennslu víða, en eru ekki án gagnrýni.

Fyrir utan það að ólíkar forsendur, vanar og námsnálganir hafi áhrif á nám og árangur í námi er fjöldi annarra þátta sem hafa áhrif. Námsörðugleikar eins og ofvirkni, athyglisbrestur, lestrar örðugleikar alls konar hafa sín áhrif. Sömuleiðis  má nefna mis góða heyrn, sjón og hreifigetu sem hafa sín eigin áhrif á nám og námsgetu, þátttöku í námi og möguleikum til að tengjast hópi námsfólks.

Allt eru þetta hlutir sem fólk sem skipuleggur nám fyrir fullorðna þarf að skoða og ígrunda og láta hafa áhrif á skipulag sitt, kennslu og viðmót til nemenda.

Trúlega er það hugmyndafræði sem kölluð er „Differenciated instruction“ og hefur einhverra hluta vegna verið kölluð „einstaklingsmiðað nám“ á Íslandi, sem getur hjálpað kennurum best til að takast á víð ólíka nemendur í hópi þátttakenda.

Glærurnar efst í póstinum eru frá erindi sem ég hélt á ráðstefnu fyrir fólk í símenntunargeiranum fyrir nokkrum árum.

Í grundvallaratriðum má segja að sú hugmyndafræði gangi út á að undirbúa námsferli þannig að maður reiknar með að nemendur muni nálgast nám sitt á ólikan hátt og sé tilbúinn með nokkrar ólíkar leiðir sem nemendur geti valið sér sjálfir.

Hverju sem því líður er trúlega jákvætt samþykkjandi viðhorf og viðmót kennara sem beri hann/hana lengst þegar ólíkar nálganir og þarfir þátttakenda birtast í námferli ætlað fullorðnu fólki.

Upptaka frá umræðum okkar um ADHD meðal fullorðinna og ólíka fullorðna námsmenn.

5 thoughts on “Ólíkir fullorðnir námsmenn”

 1. Sammála, takk fyrir góðar umræður og góðan tíma s.l. miðvikudag. Já umræðuefnið setti margt í samhengi varðandi kennsluaðferðir og nálganir, hvernig við sem kennarar og fræðsluaðilar tökum á móti fullorðnum námsmönnum. Það sem ég er að upplifa aftur og aftur er það að við verðum að kynna okkur og þekkja til ólíkra aðferða og nálgana í þessum efnum. Við verðum sífellt að vera á tánum og vera tilbúin að skoða okkur sjálf sem kennara/fræðsluaðila. Við megum ekki staðna! Þú orðar þetta þannig Sigrún Svafa að þú sért komin á byrjunarreit, en getur verið að þú sért núna kominn hringinn í raun og veru? Nú hefur þú áttað þig á því að ólíkar nálganir skipta máli og að í samráði við nemendur þína þá geta þeir farið ólíkar leiðir í því að ná markmiðum í námi hjá þér. Sumir þurfa meira aðhald, meiri af leiðbeiningum og ákveðinn ramma sem farið er eftir, á meðan aðrir vilja skapa verkefni sjálfir, setja sína eigin dagskrá og fylgja henni. Er hægt að rúma fjölbreytileikann í námskeiðinu hjá þér? Í bókinn The Adult Learner eftir Knowles, Holton og Swanson (2011) eru margar áhugaverðar pælingar í þessum efnum. Á bls. 116 kemur fram að þeir fullorðnu nemendur sem höfundar bókarinnar hafa unnið með eru ekki vanir því að vera sjálfstýrðir námsmenn, heldur eru þeir námsmenn sem eru orðnir vanir því að það þurfi kennara til að kenna þeim, sem sagt þeir eru háðir því að kennari segi þeim hvað þeir eigi að gera, í stað þess að þeir séu leitandi og sjálfstýrðir. Nemendur fá því ákveðið menningaráfall þegar þeir sem fullorðnir námsmenn þurfa að læra í gegnum fullorðinsfræðslu-aðferðir (sbr. aðferðum andragogy). Þetta er svo innilega satt! Ég upplifði þetta sjálf þegar ég kenndi og ég skildi í raun ekki alveg í fyrstu af hverju nemendur áttu svona erfitt með það að aðlagast mínum kennsluaðferðum, þeir gátu ekki borið ábyrgð sjálfir, þeir gátu ekki komið með sínar eigin hugmyndir af því hvernig þeir vildu vinna verkefni og með hvaða efni þeir vildu vinna … ákveðinn hópur nemenda minna fríkuðu í raun alveg út og sögðu við mig að ég yrði að velja fyrir þá, ég yrði að segja þeim meira hvað þeir ættu að gera og hvernig þeir ættu að gera það. Á meðan aðrir tileinkuðu sér þessar aðferðir mínar og náðu tökum á því að hafa meiri áhrif á námið sitt. Ótrúlega athyglisvert í þessu samhengi við ADHD, kannski eru það einmitt m.a. þeir nemendur sem ekki ná tökum á slíkum aðferðum í fyrstu. Ég fór einmitt þessa leið sem fjallað er um í bókinni að reyna að undirbúa nemendur fyrir kennslu hjá mér. Í upphafi lagði ég áherslu á það að kynna og útskýra hvernig ég kenni og til hvers ég ætlast af nemendum. Ég var komin svo langt að ég var farin að útbúa lýsingar á vinnulagi við ákveðnar aðstæður til þess að gera nemendur meira sjálfstæða í vinnubrögðum í kennslustundinni sjálfri, til þess að allir gætu fengið meira út úr tímanum. Einkar áhugavert allt saman og ég er að fá svör við ýmsum spurningum sem ég hef oft spurt sjálfan mig að þegar ég var að kenna, en aldrei fengið nein svör við. Á bls. 171 í sömu bók er einmitt farið í það að skoða gagnrýnina sem sjálfstýrt nám hefur fengið í samhengi við HRD og AE. Þetta kemur eflaust inn á, að mér sýnist við fyrstu, nú á ég eftir að stúdera þetta nánar (ég ákvað að panta mér bókina til þess að eiga hana) … hvað erum við að ætlast til af nemendum okkar, hvert er lokamarkmiðið? Er það ákveðin þekking sem nemandi þarf að kunna utanbókar (þá prófum við það á ákveðinn hátt) og/eða hæfni (færni) sem viðkomandi þarf að sýna fram á? Hann getur þá gert það með viðfangsefni sem hann hefur sjálfur áhuga á … eða snýst þetta um að við sem kennarar/fræðsluaðilar viljum að nemandinn lesi nákvæmlega þann texta sem við völdum, eða má þetta vera eitthvað allt annað? Ýmsar svona pælingar og vangaveltur koma upp í hugann, sbr. því sem við heyrðum í FA.

 2. Takk fyrir að vanda upplýsandi og skemmtilegar umræður í tímanum í gær. Þrátt fyrir að þetta sé hugsanlega það svið frávika ásamt kannski einhverfurófinu þar sem ég tel mig þekkja best til, þá lærir maður alltaf af því að spegla sína þekkingu og viðhorf í þekkingu og viðhorfum annarra og það var einmitt það sem mér fannst ég gera í gær.
  Ég hef lengi haft þá skoðun að það þurfi að vanda verulega vel til um undirbúning kennara sem taka að sér að kenna einstaklingum sem víkja á einn eða annan hátt frá því almenna í þroska eða getu.
  Með vönduðum og ýtarlegum undirbúningi kennarans hvað varðar séraðstæður og sérþarfir nemenda með mimunandi greiningar, auðveldar það um leið skilning á líðan viðkomandi og eykur á líkur á að hægt sé að skapa æskilegt námsumhverfi fyrir hvern og einn.
  Nemandi sem við úrlausn verkefna truflast auðveldlega af minnstu umhverfishljóðum dugar hugsanlega einfaldar heyrnahlýfar til að einangra sig frá því sem grípur athyglina hverju sinni. Að færa sig yfir í rými þar sem hann vinnur einn eða með stuðningi eins annars er einnig hugsanleg lausn á hans vanda. Eins getur verið gott að skipta upp vinnulotunum í smærri vinnu einingar þar sem viðkomandi annaðhvort vinnur í stuttan afmarkaðan tíma í ákveðnu verkefni og skiptir svo yfir í annað óskylt eða stendur upp réttir úr sér og fær se´r kannski vatnsopa og heldur svo áfram í annan fyrirfram afmarkaðan ákveðinn tíma. Þetaa fyrirkomulag gæti ég hugsað mér að ætti allt eins við ofvirka fullorðna eins og ofvirk börn.
  Kennari sem hefur ekki vitneskju um eða skilning á að nemandi sem virðist á engan hátt skera sig úr því almenna í útliti og jafnvel lengst af ná að stýra hegðun sinni að mestu eðlilega á skiljanlega erfitt með að átta sig á að sá hinn sami býr við sömu óreiðu og skipulagsleysi innra með sér og ef hann byggi þar sem innbúi hans hefði verið þeytt upp i loft og hann skilinn eftir einn í óreiðunni miðri, sagt að taka til og að við komum svo þegar hann sé búinn.
  Það sem ég tek fyrst og fremst með mér frá því í umræðunum í gær er áminningin um að vera vakandi fyrir þessum aðstæðumuni einstakra námsmanna, muna að uppfæra og yfirfara þekkingu mína og reynslu af því að vinna með börnum og unglingum með ADHA og / eða ADD yfir í hugsanlegt starf með fullorðnum síðar. En síðast en ekki síst og umfram allt að spyrja þá fullorðnu hverjar þeirra þarfir og væntingar eru til námsins og námsaðferða.
  Þess ber þó að gæta og það að muna að á meðan kennari getur farið fram á að greiningar fylgi börnum og unglingum innan skólakerfisins þá gildir ekki það sama um fullorðna námsmenn. Það er því þeim mun mikilvægara að þeir sem kenna þeim aldurshópi séu mjög næmir á einkenni hinna margvíslegu frávika…ekki síst fullorðinna með ADHD/ADD þar sem sá hópur manna og kvenna hefur sjaldnast eða seint á lífsleiðinni fengið greiningu og því oft burðast með greiningu almennings sem „óþægur/óþæg“ mest allt sitt líf.
  Þegar ég hlustaði á og las kynninguna hennar Jóhönnu var ég einstaklega hrifin af hversu tæmandi og yfirgripsmikil hún er. Hún minnti mig reyndar líka á að fyrir ca. tveimur árum síðan var ég beðin um að halda kynningu á ADHA með eða án ADD. Þá mundi ég eftir glærum sem ég útbjó í þessu tilefni og datt í hug hvort ég ætti þær einhverstaðar ennþá. Nú vil ég alls ekki
  riðjast inn í hina mjög svo flottu kynningu Jóhönnu og alls endis óvíst að það sem stendur á mínum glærum bæti á nokkurn hátt við það sem Jóhanna hefur áður sagt….eeennn….af því að hér eru allir svo skilningsríkir, elskulegir, námsfúsir, áhugasamir og miklir vinir…þá læt ég þær bara gossa hér með ef einhver skyldi vilja kíkja á þær 🙂 Þær verða sem sagt aðgengilegar á fésinu 😉

 3. Takk fyrir frábærar umræður, þetta varpar nýju ljósi á margt sem ég hef verið að berjast við undanfarin ár, sumt hafði ég hugsað áður en sumt er ég líka að átta mig á núna og hef aldrei sett orð á áður. T.d. þetta með að bjóða upp á allskonar útfærslur á námskeiðinu og fjölbreytt val – ég skil betur eftir daginn hvað þetta getur virst óyfirstíganlega flókið fyrir t.d. fólk með ADD/ADHD eða aðrar greiningar. Það setur mig aðeins aftur á byrjunarreit með allar mínar viltu og trylltu hugmyndir sem ég hef fengið varðandi „allt í boði – gerðu það sem þú vilt“ námskeiðið mitt – auðvitað eru hlutirnir flóknari en þeir virðast í fyrstu. En ég tek með mér eftir daginn að ekki hætta eða gefastu upp að hugsa nýjar leiðir fyrir nemendur og ígrunda skipulag og uppsetningu áfanga í sífellu – læra af reynslunni og hlusta á það sem fólk hefur að segja. Takk fyrir mig 🙂

Skildu eftir svar