Fólk sem lærir um og rannsakar nám fullorðinna er fyrst og fremst upptekið af skipulögðu námi fullorðinna – og þá sérstaklega námi sem er skipulagt af öðrum en námsmanninum sjálfum. Einn prófessor minn í kennslufræði fullorðinna skrifaði grein sem hafði heilmikil áhrif á mig hér um árið. Þar setti hann fram flokkun á námi fullorðinna. Út úr þeirri framsetningu mætti fullyrða að nám sem er skipulagt af öðrum sé minnsti hluti náms fullorðinna.
- Ég hef dregið saman innihald þessarar greinar á tveimur blaðsíðum
- Greinin sjálf er hér á þýsku og
- Greinin á ensku
Það sem heillaði mig mest við þessa grein var hugmyndin að fólk leiðist gjarnan frá óvæntu námi (lærdómi í framhjáhlaupi) til skipulagðs náms. Þar sá ég að fullorðinsfræðarar hafa hlutverk: Að greiða leiðina frá lærdómi af hendingu til skipulagðs náms, hvort sem það er skipulagt af námsmanninum sjálufum (e. self directed learning) eða af öðrum (formlegt eða óformlegt nám)
Ég kem með slasað barn mitt á bráðavaktina, þar hefur einhver sniðugur heilbrigðisstarfsmaður komið fyrir bæklingum um öryggi barna á heimilinu - pirraður yfir því að barnið mitt skyldi hafa klemmt sig á skápnum er ég reiðubúinn að læra um það hvað ég get gert til að auka öryggi barna minna á heimilinu og tek bæklingin til að lesa.... Svo er spurningin, hefur einhver varðað leiðina áfram, eru slóðir í efni á netinu, bækur, góð ráð o.s.frv. ef ég skyldi vilja læra meira en kemst fyrir á þessum einblöðungi?
- Þar koma inn skipulögð ferli sem kallast raunfærnimat (sjá líka grein eftir Gunnar Finnbogason)
Það er augljóst þegar maður „opnar rásir“ hjá sér og fer að pæla í þessu málefni, og hugtökum tengt þv,í hvað lífið sjálf inniheldur mikið nám. Mér finnst ég endalaust sjá „nám“ í hlutunum, hvort sem það er að hugsa betur um t.d. innihald í þeim mat sem ég kaupi útí búð (læra að skilja innihaldslýsingar) eða „kenna“ syni mínum á strætókerfið og hvernig það virkar 🙂 Ævimenntun er klárlega málið. Góð blanda að formlegu, óformlegu og formlaustu námi er málið.
Ég sat um daginn í kaffi með grunnskólakennara sem var að tala um upptökuforrit og hvað forritið camtasia væri sniðugt. Það varð til þess að ég setti mig inn í það og gerði í beinu framhaldi kennslumyndband fyrir mína nemendur. Segjum svo að maður læri ekki eitthvað yfir góðum kaffisopa.
Já það er alveg rétt Kristín. Þetta er ein af ástæðum þess að ég vel að kenna í teymi með öðrum. Það er ótrúlega gott, sérstaklega þegar maður er búinn að bögglast með eitthvað að viðra hugmyndina við aðra og fá fleiri sjónarhorn. Það er að mínu mati svo miklu auðveldara að læra af öðrum svo ekki sé talað um hvað það er hægt að læra mikið af því að kenna öðrum.
Frábærar pælingar sem ýta undir athygli okkar á því námi sem fer fram utan ,,skíðabrautanna“. Mikilvægt.
Mér finnast þetta mjög athyglisverð skrif. Held að okkur hætti til að líta á nám eitthvað sem við lærum á einhverjum tilteknum stað, a.m.k. að það sé „meira“ nám en annað. Dæmisagan um bæklinginn á bráðadeildinni er auðvitað gott dæmi um hvaða ólíku leiðir er hægt að fara í námi og tækninýjungar nútímans gera okkur auðvitað auðveldara á ýmsan hátt að læra ýmislegt á eigin vegum.
Flokkunin í formlegt, óformlegt og formlaust nám skerpir sýn mína á tegundir náms. Takk fyrir það 🙂